16. maí 2012

Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi, II?

Ég er enn jafn bit á þessum lið í meðferðarsamningi geðdeildar/geðlæknis Landspítalans við Láru Kristínu Brynjarsdóttur, sem ég bloggaði stutt um í gær (sjá feitletruðu klausuna): ““Lára Kristín skuldbindur sig [- - -] Þá mun hún ekki ræða meðferðina í fjölmiðlum eða á samskiptasíðum á netinu.” 

Á opinni Facebook sinni segir Lára Kristín í dag: 

Ég sjálf ! Já ég sit með fleiri spurningar í raun, því ég var rekin frá lækni mínum í gær eftir viðtalið. Hún sagði að refsing fyrir að brjóta samning væri meðferðarfrí í nokkra mánuði, semsagt er það ekki refsing ??? Ég held að þeir séu bara á þrotum að vernda sig fyrir mistökum sem verða í störfum á geðdeildinni ! punktur Allavega stend ég uppi með engan lækni vegna þess að ég sagði frá ! …….. Ég hefði haldið að þá væri verið að hafna mér meðferð; ég er svo heppinn að einhverfuhópurinn hugsi vel um mig núna.

Í DV  í dag er haft eftir Páli Matthíassyni framkvæmdarstjóra geðsviðs Landspítala:

Páll segir slíka samninga oft gerða og þá í þágu sjúklinga: Meðferðarsamningar eru gerðir til þess að skýra línur á milli meðferðaraðila og sjúklings. Hann tiltekur meðferðarúrræðin og hvernig skuli bregðast við í ákveðnum aðstæðum. Svo sem ef til neyðarinnlagnar  kemur og annað slíkt”. [-  - -] Páll  kannast ekki við að Láru Kristínu hafi verið bannað að sækja þjónustu geðsviðs og segir sjúklingum ekki refsað séu samningar sem þessir brotnir. “Það er af og frá, hún mun áfram fá þjónustu og verður ekki vísað frá.” (DV 16. maí 2012, s. 3.)

Það er vissulega gott að fá staðfest að sjúklingi er ekki refsað fyrir að tjá sig í fjölmiðli enda annað óhugsandi í lýðræðissamfélagi. Lára Kristín hlýtur að hafa misskilið sinn geðlækni og sá misskilningur verður væntanlega leiðréttur með hraði. Auðvitað getur Páll Matthíasson ekki tjáð sig um málefni einstakra sjúklinga. En ég sakna svara hans við spurningunni hvernig í ósköpunum stendur á því að sjúklingi geðsviðs Landspítalans er gert að skrifa undir samning sem felur í sér afsal eða brot á stjórnarskrárbundnum rétti sama sjúklings, þ.e. málfrelsi?  

Lokað er fyrir ummæli.