Færslur frá 1. september 2012

1. september 2012

Vantrú kærir Bjarna Randver í fimmta sinn

Hvað sem fólki kann að finnast um félagið Vantrú verða forkólfar þess seint kallaðir ístöðulausir: Hafi þeir tekið eitthvað í sig hanga þeir á sinni sannfæringu eins og hundar á roði. Mættu mörg trúfélag öfunda félagið Vantrú af heitri sannfæringu og píslarvættisþrá félagsmanna!
 

Eins og rakið var í firnalöngum færsluflokki fyrir hálfu ári síðan kærði félagið Vantrú stundakennarann Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir að hafa fjallað öðruvísi um félagið en því hugnaðist á nokkrum glærum í kúrsi sem hann kenndi í Háskóla Íslands á haustmisseri 2009. Þáverandi formaður Vantrúar, Reynir Harðarson sálfræðingur, þríkærði Bjarna Randver í nafni Vantrúar;  til háskólarektors, guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ og siðanefndar HÍ. Upphófst mikill darraðardans sem lauk með yfirlýsingu háskólarektors um að Bjarni Randver hefði aldrei brotið siðareglur Háskóla Íslands. (Yfirlit yfir feril málsins  má sjá í færslunni Samantekt: Vantrú og siðanefnd HÍ gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, skrifuð 22. febrúar 2012.)

27. maí  2011 lagði Þórður Ingvarsson, ritstjóri vefjar Vantrúar, fram kæru hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, þar sem Bjarni Randver Sigurvinsson er kærður fyrir brot á fjarskiptalögum, nánar tiltekið fyrir innbrot á innri vef Vantrúar og fyrir að hafa gramsað þar í læstum hirslum þeirra. (Félögum í Vantrú var raunar fullkunnugt um hvernig Bjarni Randver fékk afrit af lokuðu spjallborði félagsins en kusu eigi að síður að líta fram hjá eigin vitneskju og fylgja eigin sannfæringu í staðinn, nefnilega að ná sér niðri á Bjarna Randveri.)  9. febrúar 2012 mætti Bjarni Randver í skýrslutöku hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. 26. júlí 2012 úrskurðaði embætti lögreglustjórans í Reykjavík að við rannsókn málsins hafi ekkert komið fram sem sé líklegt til að sakfella Bjarna Randver og málið var fellt niður.

Vantrú ásakar Bjarna Randver Sigurvinsson18. júní 2012 barst siðanefnd Háskóla Íslands erindi Egils Óskarssonar, formanns félagsins Vantrúar.  Þar segir Egill að af því óháð rannsóknarnefnd Háskólaráðs og rektor hafi harmað að ekki hafi fengist efnisleg niðurstaða í siðanefndarmáli 1/2010 og að Vantrú telji að ekki hafi verið staðið við gefin loforð sem voru forsenda þess að málið yrði dregið til baka, þá hafi félagið Vantrú ákveðið að senda upphaflegu kæruna óbreytta til siðanefndar HÍ til efnislegra umfjöllunar og úrskurðar. Ég veit ekki hvaða “gefnu loforð” Vantrú hafa verið svikin en giska á að Egill Óskarsson sé að vísa til umræðu um mögulega aðkomu félagsins Vantrúar að riti um trúarbragðafræðileg efni sem Hugvísindasvið stæði að. Forseti Hugvísindasviðs léði ekki máls á framkvæmdinni. Þar sem aldrei hefur verið upplýst hverjir nákvæmlega sátu fundinn sem rektor hélt með forsvarsmönnum Vantrúar í apríllok 2011 er ómögulegt að segja hvað þar fór fram, t.d. hvort félaginu Vantrú var lofað einu eða neinu gegn því að félagið drægi kæru sína til siðanefndar HÍ til baka.

Vissulega barst nýja (og fimmta) kæra Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni á óheppilegum tíma því í Háskóla Íslands taka menn sér sumarleyfi. Skv. upplýsingum á vef HÍ (sem voru uppfærðar 23. ágúst sl.) hefur siðanefnd HÍ ekki verið fullskipuð síðan snemma í mars á þessu ári þegar fulltrúi Félags háskólakennara, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, sagði sig úr henni. Þeir tveir prófessorar á eftirlaunum sem í henni sitja nú og báðir höndluðu upphaflegu kæru Vantrúar á sínum tíma, Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson, hafa líklega tekið sér umþóttunartíma og svo lýstu þeir yfir vanhæfi til að fjalla um nýju útgáfuna á gömlu kærunni Vantrúar. Í þeirra stað skipaði rektor HÍ þau  Björgu Thorarensen prófessor við Lagadeild á Félagsvísindasviði sem jafnframt er formaður og  Hafliða Pétur Gíslason prófessor í Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Þriðji nefndarmaðurinn er Sveinbjörn Björnsson, eðlisfræðingur, tilnefndur af Félagi háskólakennara. Svo nú er til fullskipuð siðanefnd í þessu máli.

Þótt Egill Óskarsson leikskólakennari og formaður félagsins Vantrúar hafi skilað inn fimmtu kærunni á hendur Bjarna Randver Sigurvinssyni í júní og HÍ staðfest móttöku hennar þann 18. júní var Bjarna Randveri ekki tilkynnt að hann hefði verið kærður einn ganginn enn fyrr en í fyrradag, fimmtudaginn 30. ágúst 2012. Raunar fékk hann ekki bréfið með þeim upplýsingum í hendurnar fyrr en í gær, föstudaginn 31. ágúst.

Siðanefndin sérstaka í þessu máli heldur sinn fyrsta fund þann 6. september og mun þá kanna málsgrundvöll skv. 4. gr. starfsreglna siðanefndar HÍ. Það þýðir væntanlega að þessi siðanefnd, ólíkt forverum sínum, byrjar á að skera úr um hvort kæra Vantrúar snerti brot á siðareglum Háskóla Íslands.

   
Í lokin er hér listi yfir kærur félagsins Vantrúar gegn stundarkennaranum Bjarna Randveri Sigurvinssyni. Hann er líklega kærðastur kennara í HÍ frá upphafi!

  • Kæra til Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar 4. febrúar 2010. Hún var afgreidd 9. mars 2010 af deildarforseta sem lýsti yfir trausti á Bjarna Randveri Sigurvinssyni og hans kennslu.
  • Kæra til siðanefndar HÍ 4. febrúar 2010. Dregin til baka 28. apríl 2011.
  • Kæra til rektors HÍ 4. febrúar 2010. Má ætla að rektor hafi brugðist við henni með yfirlýsingu sem hún sendi til allra starfsmanna háskólans 15. febrúar 2012 þar sem segir „að ekkert hefur komið fram í meðferð málsins sem bendir til þess að viðkomandi stundakennari hafi gerst brotlegur í starfi“.
  • Kæra til lögreglu 27. maí 2011. Felld niður 26. júlí 2012.
  • Kæra til siðanefndar HÍ 18. júní 2012.

Ummæli (39) | Óflokkað, Vantrú og siðanefnd HÍ