12. september 2012

Saga prjónaðra vettlinga og hanska I

Saga hannyrða er eitt af áhugamálum mínum. Miðað við heimsóknir á bloggið og vefsíður um efnið (oftast gegnum Google-leit) er nokkur hópur sem hefur einnig áhuga á þessu. Færslan verður fléttuð í vefinn Saga prjóns síðarmeir. Mér finnst ágætt að blogga fyrst um efnið, fá athugasemdir og ganga svo endanlega frá skrifunum á vef.
 

Áður en prjónakunnátta varð algeng í Evrópu voru vettlingar og hanskar saumaðir eða nálbrugðnir. Hér á landi hafa fundist minjar um hvort tveggja: Sjá t.d. mynd af íslenskum saumuðum vaðmálsvettlingum, greinina Three Icelandic Mittens á Medieval Baltic, grein Elsu E. Guðjónsson, Forn röggvavefnaður, í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1962 og grein Margarethe Hald, Vötturinn frá Arnheiðarstöðum, í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1949. Á síðunni Hansker og votter á Kongshirden 1308 Akershus má sjá nokkrar myndir af gömlum norskum og sænskum nálbrugðnum vöttum. Finnar héldu áfram að nálbregða vettlinga fram á 19. öld, þótt þeir hefðu þá fyrir löngu lært að prjóna. Á síðu Satu Hovi er grein um þetta, Viking and Medieval Nålebinding Mitten Replicas. Based on archaeological finds from Finland, með fjölda mynda.

 

 

Biskupshanskar

Rauður prjónaður biskupshanskiHin nýja tækni, prjón, var mjög snemma tekin í þjónustu kirkjunnar. Í safni elsta prjónless sem varðveist hefur í Evrópu er fjöldi biskupshanska, hverjir öðrum skrautlegri.  Líklega höfðu biskupar tekið upp skrúðhanska (litúrgíska glófa) talsverðu fyrir daga prjóns, þá saumaða eða nálbrugðna. Virðist notkun skrúðhanska orðin almenn á 12. öld, á 14. öld báru þá allir biskupar og sumir ábótar og aðrir kirkjunnar þjónar. Yfirleitt voru þessir hanskar nefndir grísku heiti, stafsett chirothecae á enskan máta (sem þýðir eiginlega „handa-hulstur“). Myndin er af fremur dæmigerðum spænskum prjónuðum biskupshanska úr silki, frá sextándu öld. Sé smellt á myndina opnast síða um hanskann á vef Viktoríu og Albertssafnsins í London.

nálbrugðinn hanski biskupsins � ToledoNálbrugðinn hanski frá 13. öldTil vinstri má sjá mynd af nálbrugðnum hanska Rodrigo Ximanénez de Rada, erkibiskups í Toledo, sem dó árið 1247.  Glófarnir hans voru fallega „útnálbrugðnir“ úr fínum silkiþræði eins og önnur nálbrugðin spænsk stykki frá sama tímabili. Mun yfirlætislausari eru nálbrugnir hanskar Pierre de Courpalay ábóta, sem lést 1334, sjá mynd til hægri. Þeir eru úr ólituðu silki en fallega munstraðir. Smelltu á litlu myndirnar ef þú vilt sjá stærri útgáfur.

Biskupshanskar/biskupsglófar voru hluti af biskupsskrúða kaþólsku kirkjunnar og fyrst voru þeir oftast úr ólituðu eða hvítu silki enda skyldu þeir tákna hreinleika. En í Ordo Romanus XI  (hvað heitir þetta á íslensku?) árið 1271 var leyft að hanskarnir væru í sama lit og biskupskápan. Rauðir hanskar urðu algengastir en fundist hafa bláir, fjólubláir, bleikir og grænir biskupshanskar. Aldrei voru notaðir svartir hanskar. Fyrst voru hanskarnir skreyttir með skrautskildi á handarbaki, síðan var farið að sauma eða prjóna út handarlíningar og enn seinna prjóna eða sauma út hring á hvurn fingur.

Prjónaður hanski frá þrettándu öldSkv. þeim heimildum sem ég hef aðgang að eru elstu leifar prjónaðra biskupshanska tvær pjötlur úr grafhýsi Siegfrieds von Westerburg biskups, sem var jarðsettur í Bonn árið 1297. Af leifunum má ráða að handlíningar voru prjónaðar með tvíbandaprjóni, munstrið eru bláir og gullnir ernir, rósir með átta krónublöðum og Andrésarkrossar; sumsé sömu mynstur og eru á prjónuðu spænsku þrettándu aldar svæflunum. Munstrin ku minna talsvert á hefðbundin munstur á norskum Selbu-vettlingum. Því miður hef ég hvergi fundið mynd af þessum pjötlum. Hins vegar fann ég mynd af svokölluðum St Rémy hönskum sem geymdir eru í St. Sernin dómkirkjunni í Toulouse. Þeir eru prjónaðir úr fíngerðum hvítum silkiþræði og næsta skrautlausir; á handarbökum eru skrautskildir úr silfri og gulli, myndefnið er annars vegar kross, hins vegar lamb. Nær öruggt er talið að þessir hanskar séu frá þrettándu öld. Sé smellt á litlu myndina til vinstri kemur upp stærri mynd. Á einni af vefsíðum Franska menningarmálaráðuneytisins er svarthvít mynd af þessum hönskum og upplýsingar um þá.

prjónaður hanski heilags AðalbertsSvo má nefna tvenna prjónaða hanska sem tengdir eru heilögum Aðalbert og eru með elsta varðveitta prjónlesi í Evrópu. Annað parið er varðveitt í Prag og  talið frá fyrri hluta fjórtándu aldar, prjónað úr gráu, hugsanlega ólituðu, silki með þremur grænum röndum á ermalíningum. (Svarthvíta myndin til hægri er af öðrum þessara hanska, hann er illa farinn sem sjá má.) Hitt parið er frá síðari hluta fjórtándu aldar og varðveitt í kirkju heilags Vinceslas í Stará Boleslav, í nágrenni Prag. Þeir hanskar eru prjónaðir úr ólituðu silki, í handlíningum er einfaldur útsaumur með lituðu silkigarni og gullþræði.

Þegar á leið urðu skrúðhanskar kaþólsku kirkjunnar æ íburðarmeiri og var skrautið ýmist prjónað út eða saumað í einlitt prjón. Hafi fólk sérstakan áhuga á að skoða biskupshanska, sem eru  fyrirferðamikill hluti elstu prjónastykkja sem varðveist hafa í Evrópu og með skrautlegasta prjónlesinu, má benda á þessar síður:

Þorlákur helgiEftir því sem ég best veit hafa ekki fundist neinar leifar biskupshanska hér á landi. Það er þó engin ástæða til annars en gera ráð fyrir að biskupar í kaþólskum sið hafi brúkað skrúðhanska eigi síður en kollegar þeirra erlendis. Glófar eru fyrst nefndir í Páls sögu biskups en síðar einungis getið í Hóladómkirkjuregstrum frá árunum 1374, 1396. 1525 og 1550. Á teikningum í handritum má sjá biskupa og dýrlinga bera hanska, einnig á örfáum útskurðarmyndum úr kaþólskum sið. Til hægri sést hluti myndar af Þorláki Þórhallssyni biskupi í Skálholti, heilögum Þorláki, sem prýðir frægt altarisklæði Hóladómkirkju. Klæðið er líklega frá öðrum fjórðungi sextándu aldar, refilsaumað og mögulega saumað af  Helgu Sigurðardóttur, fylgikonu Jóns Arasonar biskups. Á klæðinu sjást hanskar Þorláks biskups prýðilega sem og roðasteinar eða skrautskildir sem prýða þá - Kristján Eldjárn telur að þetta séu tigullaga silfurplötur eða útsaumaðar eftirmyndir af svoleiðis.
 
 
 

Næsta færsla fjallar um prjónaða vettlinga.
 

Helstu heimildir:

Bækur:

Kristján Eldjárn. 1992. Skálholt: skrúði og áhöld. Reykjavík.
Rutt, Richard. 1987. A History of Hand Knitting. Colorado, Bandaríkjunum.
Schoeser, 2003. Mary. World Textiles. A Concise History. London.
Sundbø, Annemor. 1998. Kvardagsstrikk. Kulturskatter fra fillehaugen. Kristjansand, Noregi.
Turnau, Irena. 1991. History of Knitting before Mass Production. Varsjá, Póllandi.
 

Vefsíður aðrar en þær sem krækt er í úr textanum

Episcopal Gloves í Catholic Encyclopedia á The New Advent
Histoire du tricot (1) - les origines og Histoire du tricot (2) - Du XIV e au début du XVIIe siècle á Les Petites Mains. Historie de mode enfantine.
Kleidung - Nadelgebundene Seidenhandschuhe á Diu Minnezit
Um vettlinga á Pearl’s Journal
Slik var klærne i middelalderen í Aftenposten 3. apríl 2007
Medieval Gloves á MyGen
 
 
 
 

Lokað er fyrir ummæli.