23. september 2012

María mey prjónar

Til eru nokkur gömul málverk sem sýna Maríu mey prjóna. Þessi málverk eru fyrst og fremst heimild um að prjón hafi þekkst á dögum málaranna og á þeirra heimaslóðum.  En auðvitað eru þessar myndir líka heimild um kyrtilinn saumlausa hans Jesú og að mamma hans hafi prjónað hann :)
 

Mar�a mey prjónar  

  Ambrogio Lorenzetti bjó í Siena á Ítalíu. Talið er að hann hafi látist 1348 þegar svartidauði geisaði í borginni. Þetta málverk tilheyrir myndastíl sem kallaður hefur verið Madonna auðmýktarinnar, Madonna dell’Umilitá. Á slíkum myndum situr María mey ekki í hásæti heldur á gólfinu. Talið er að Lorenzetti hafi málað þessa mynd um 1345. María prjónar úr rauðu garni með fjórum prjónum í hring en ómögulegt er að sjá hvað hún er að prjóna. Garninu bregður hún yfir hægri vísifingur. Á gólfinu sést hringlaga tréstykki með garnspólum í ýmsum litum. Jósef situr þarna hjá mæðginunum.

Smelltu á myndina til að sjá nærmynd af Maríu og Jesú.

Mar�a mey prjónar 
  

  Þetta málverk er eftir ítalska málarann Tommaso da Modena (1325-1375). Það er hluti af þremur panelmyndum þar sem María situr alls staðar í hásæti: Á einni myndinni situr hún með bók í kjöltu sér, á annarri hefur hún Jesúbarnið á brjósti og á þessari þriðju er hún að prjóna, með Jesú sér við hlið. Hún prjónar í hring, að því er virðist með fimm prjónum, Garnið er á spólum á hringlaga stykki, alveg eins og á mynd Lorenzetti, en á þessu málverki situr María með spólustykkið kjöltunni. Talið er að myndin sé máluð á árabilinu 1345-1355.Smelltu á myndina til að sjá nærmynd af prjónlesinu.

Mar�a prjónar saumlausan kyrtil Jesú  

  Þetta er líklega frægasta myndin af Maríu mey að prjóna, málverkið er hluti af Buxtehude-altaristöflunni svokölluðu (af því hún var máluð fyrir benediksnunnur í Buxtehude, Þýskalandi). Meistari Bertram (af Minden), þýskur málari sem uppi var 1345-1415, málaði Buxtehude-altaristöfluna líklega skömmu fyrir árið 1400. Þessi hluti altaristöflunnar er oft nefnd “Heimsókn englanna” enda sjást þeir Mikael og Gabríel erkienglar heimsækja þau mæðgin Maríu og Jesú, berandi tákn sem boða krossfestinguna. 

María er að ljúka við kyrtilinn saumlausa, sem Jesú bar síðan til dauðadags. Hún hefur prjónað hann í hring, á fjóra eða fimm prjóna, og virðist hringúrtaka á berustykkinu.

Smelltu á myndina til að sjá nærmynd af prjónlesinu. 

Mar�a mey prjónar
  

  Þetta málverk sýnir Madonnu auðmýktarinnar, Madonna dell’Umiltà, og var málað af  ítalska málaranum Vitale degli Equi. Málverkið er talið frá því um 1350. Á því sjást Maríu mey, heilög Katrín og einhver annar dýrlingur. Jesús litli situr við hlið móður sinnar og grípur í garnspólu á hringlaga borði. Að sögn Richards Rutt (í A History of Hand Knitting) er María með prjónles í hendi en er einmitt að kitla Jesú litla undir kinn með vísifingri sömu handar. Prjónlesið er með blómamunstri í tveimur litum. Ekki er hægt að sjá hvað þetta á að vera, það virðist of vítt til að vera sokkur, of þröngt til að vera barnskyrtill. Rutt stingur upp á að þetta sé skjóða, svipuð og fornar svissneskar skjóður sem hafa varðveist og geymdu helga dómaSmelltu á myndina til að sjá nærmynd af prjónlesinu. Sjálf get ég ekki með nokkru móti séð að þetta sé prjónað stykki, hvað þá að ég komi auga á prjónana. Og ég sé ekki betur en María hafi sex fingur … En ég hef náttúrlega ekki séð málverkið sjálft, sem ég reikna með að Richard Rutt hafi skoðað vel. 
 

Mar�a mey nálbregður kyrtil 

  Þessi mynd sýnir hluta koparstungunnar Heilaga fjölskyldan eftir Veit Stoß/Stoss (kallaður Wit Stwosz á pólsku) sem uppi var 1447-1533. Hann var þýskur en starfaði um tíma í Póllandi. Koparstungan er talin frá um 1480 og sýni Maríu nálbregða kyrtilinn saumlausa. Henni var fleira til lista lagt en prjónaskapur. 
 

Mar�a mey prjónar sokk 

  Á þessari tréristu frá 1619, eftir hinn flæmska Hieronymus Wierix, sjást þeir feðgarnir Jósef og Jesús smíða bát og englar aðstoða Jesú við verkið. María situr hjá og prjónar sokk, að því er virðist úr tveimur hnyklum í senn svo kannski hefur þetta verið útprjónaður sokkur.

Mar�a mey prjónar kyrtil 

  Þessi mynd af Maríu að prjóna, líklega kyrtilinn saumlausa, er mun nýrri en myndirnar að ofan. Þetta er grafíkmynd eftir breska listamanninn Eric Gill (1882-1940).

Mar�a og helgar meyjar 

  Á þessu málverki frá 1465, sem bræðurnir spænsku Nicolás og Martín Zahortiga máluðu, sést María í hásæti og heldur á Jesú. Í kringum hana eru margar helgar meyjar og sumar þeirra sinna hannyrðum; ein saumar, tvær vefa og ein er að prjóna marglitan sokk. Smelltu á myndina til að sjá stækkaða útgáfu af hannyrðakonunum. 

Hér að neðan eru tvær aðrar myndir sem sýna helgu prjónakonuna, smelltu á þær til að sjá stærri útgáfur:
Helg mær prjónar Helgar meyjar og hannyrðir

Lokað er fyrir ummæli.