14. nóvember 2012

Geðlæknir dömpar sjúklingi vegna bloggs

Ég hef heyrt sögur af geðlæknum sem vísa sjúklingum sínum á dyr tjái sjúklingarnir sig um sína sjúkrasögu og lesið beina tilvitnun í meðferðarsamning sem sjúklingi á geðsviði Landspítala var gert að undirrita þar sem kom fram að ef sjúklingur tjáði sig um meðferðina fengi hann ekki frekari meðferð (sjá færslurnar Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi? og Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi II?). Mér þótti þessi meðferðarsamningur þar sem sjúklingi er gert að afsala sér málfrelsi sem tryggt er í stjórnarskrá vera merkileg gjörð en hef haldið til skamms tíma að sagnir um geðlækna sem fleygja sjúklingum af því þeim hugnast ekki hvernig sjúklingarnir tjá sig væru kviksögur einar. En nú hef ég reynt þetta á eigin skinni og um það fjallar þessi bloggfærsla. Svo ég verði ekki sökuð um að „segja hálfsannleik“ eru mál rakin í talsverðum smáatriðum.
Frá árinu 2000 hefur Engilbert Sigurðsson verið geðlæknir minn, fyrst á stofu sem hann rak í nokkur ár. Engilbert lokaði stofunni árið 2004 þegar hann var gerður að yfirlækni á deild 32A á geðsviði Landspítala og frá þeim tíma hef ég sótt reglulega viðtöl við hann á göngudeild auk þess að hafa margoft verið lögð inn á deildina sem hann veitir forstöðu.

Ég hef bloggað um minn krankleik og læknismeðferð frá árinu 2004. Á tímabili hampaði Engilbert þessu bloggi við læknanema sem oft voru viðstaddir okkar göngudeildarviðtöl, allt þar til ég bað hann að hætta því. (Engilbert Sigurðsson hefur kennt læknanemum árum saman, hann er nú prófessor í geðlæknisfræðum við læknadeild HÍ.)

Í mars á þessu ári rann upp fyrir mér að ég myndi aldrei ná bata með þeim aðferðum sem reyndar hafa verið í meir en áratug, þ.e. lyfjagjöf og raflækningum. Ég hóf að skoða einstaka þætti þessara læknisaðferða og þróun sjúkdómsins (djúprar endurtekinnar geðlægðar án sturlunareinkenna, þ.e.a.s. svæsins þunglyndis). Ég nota sjúkraskýrslur og eigið blogg til verksins enda hafa meir en þrjú ár gersamlega þurrkast úr minni mínu, sem er afleiðing tveggja raflostmeðferða, og bæði sjúkdómurinn og mjög mikil lyfjagjöf hafa valdið miklum minnistruflunum. Um þessa vinnu og bráðabirgðaniðurstöður skrifaði ég nokkrar færslur, einnig hugleiðingar um erkitýpur þunglyndissjúklinga og hversu lífseigar hugmyndir um þær væru, um eigin fordóma og um hvernig væri að hætta á benzódíazepín lyfinu Rivotril sem mér hefur verið ávísað í 9 ár. Þessi skoðun á sögunni minni er einn þátturinn í nýrri leið sem ég reyni til að ná bata og virðist virka, velþekkt leið í bataferli óvirkra alkóhólista.

Þann 20. apríl sl. hringdi Engilbert Sigurðsson í mig síðla dags og tjáði óánægju sína með nokkrar bloggfærslur mínar. Mér skildist að aðallega væri hann ósáttur við tvennt: Að upplifun hans af sjúkdómi mínum væri ekki sú sama og upplifun mín og að ég léti þess ekki getið í bloggfærslum að ég hefði þegið viðtalsmeðferð hjá honum. Ég útskýrði fyrir honum að bloggfærslur snérust yfirleitt um eitt eða tvö umfjöllunarefni og þessar hefðu ekki snúist um viðtalsmeðferð, svo bauðst ég til að panta og greiða viðtalstíma ef hann vildi ræða þetta augliti til auglitis. Það vildi hann ekki en benti á að e.t.v. væri heppilegt fyrir mig að skipta um geðlækni. Ég þakkaði honum uppástunguna. Þetta var meir en klukkustundar langt símtal en að því loknu taldi ég mig hafa útskýrt nægilega vel að bloggfærslur mínar væru um mig og minn sjúkdóm en ekki um Engilbert, sem aldrei hefur verið nafngreindur á þessu bloggi fyrr en í núna þessari færslu. Í viðtalstíma þann 19. september síðastliðinn nefndi Engilbert hins vegar að sér hefði brugðið þegar hann sá vitnað í sjúkraskýrslur í þessum færslum í apríl. Þær tilvitnanir eru aðallega upptalning á lyfjaskömmtum sem mér voru ávísaðir árin 2007 og 2009.

Í septemberlok barst mér ábyrgðarbréf frá Engilbert Sigurðssyni, dagsett 27. september í Reykjavík en póstlagt í hans heimabæ, í umslagi Landspítala Háskólasjúkrahúss. Fyrir neðan undirskrift sína hefur Engilbert slegið inn Geðdeild Landspítala, 101 Reykjavík. Þetta er 6 bls. bréf, dálítið ruglingslegt og stór hluti þess eru endursagnir á köflum í sjúkraskrá þeirri sem Engilbert Sigurðsson hélt um mig á árunum 2000-2004. Ég bar saman þessar endursagnir við sjúkraskrána og komst að því að þær eru ónákvæmar og sums staðar réttu máli hallað, jafnvel rangt haft eftir, en þar fyrir utan skil ég ekki hvað bútar úr 8-12 ára gamalli sjúkraskrá koma málinu við og það liggur ekki í augum uppi við lestur bréfsins.

Í upphafi bréfsins segir Engilbert að hann hafi ákveðið að kíkja á bloggið mitt í gær af því í tölvupósti hafi ég boðið greiðslu fyrir vottorð sem ég hafi ekki áður þurft að borga fyrir: „Mér þótti þetta óvanalegt … og velti fyrir mér hvort það endurspeglaði breytta líðan.“ Svo skoðaði hann færsluna Af Rivotril-tröppun og fráhvörfum og „var satt að segja nokkuð brugðið við þennan lestur“. Þau atriði sem Engilbert brá við að sjá voru:

 • að læknanúmer sást á ljósmynd af Rivotril-glasi;
 • að ég segðist yfirleitt hafa reynt að taka minna af Rivotril en lækninum hefði þótt ráðlegt;
 • að ég „fullyrði[r] og set[ur] í blogg“ að læknirinn hefði sagt að bensóniðurtröppun tæki 4-6 vikur en hann hefði sagt í viðtalstíma þann 19. september að svoleiðis niðurtröppun tæki 6-8 vikur;
 • að hann hefði aldrei sagt að kjálkaverkur „gæti ekki stafað af slíku fráhvarfi, ég sagði að það væri sjaldgæft …“;
 • að ég hafi sagt að ég hefði ekki stuðning geðlæknis míns við að trappa niður Rivotril á níu mánuðum eftir níu ára notkun þess: „Fullyrðing þín um að þú hafir “engan stuðning við þetta baks” dæmir sig sjálf“ og Engilbert minnir á að ég hafi ekki rætt áform mín um að vilja trappa niður Rivotril við sig heldur við heimilislækni á Akranesi.

Undir lok bréfsins segir:

Að þessu sögðu er ljóst að ekki er nægilegt traust lengur á milli okkar til að það getir verið grunnur að meðferðarsambandi læknis og sjúklings. Ég mun áfram gera vottorð sem tengjast þeim tíma sem þú hefur verið í samskiptum við mig en sé mér ekki fært að vera þinn læknir. Þurfirðu á innlögnum að halda ertu sem fyrr velkomin á deild 32A en ég verð ekki læknir þinn á deildinni af sömu ástæðu.

Sama dag og mér barst bréfið breytti ég ljósmyndinni og blokkaði læknanúmer á Rivotril-glasinu þótt ég telji að ég hafi fullan rétt á að birta ljósmynd af töfluglasi í minni eigu. Menn geta svo borið saman bloggfærsluna við þau atriði sem Engilbert brá við að sjá, færslunni hefur ekki verið breytt.

Daginn eftir skrifaði ég Páli Matthíassyni, framkvæmdarstjóra geðsviðs Landspítala Háskólasjúkrahúss, og kvartaði undan því að læknir á ríkisreknu sjúkrahúsi tilkynnti sjúklingi að hann væri hættur að vera læknirinn sjúklingsins vegna þess að honum líkaði ekki bloggfærsla sjúklingsins, án þess þó að geta bent á nein haldbær rök fyrir því að að lækninum væri vegið. Getur læknir á ríkisspítala sagt upp sjúklingi að geðþótta sínum?, var spurning mín til Páls. Ég tók skýrt fram að okkur Engilbert Sigurðsson greindi ekki á um að affarasælast væri fyrir mig að fá annan geðlækni, enda hefði hann ráðlagt mér það sjálfur í apríl og ég reynt að fara að þeim ráðleggingum, enn án árangurs. Við tóku bréfaskipti næstu vikurnar. Af þeim bréfaskiptum var ljóst að Páll vildi ekki taka afstöðu til málsins og því vísaði ég þessu máli til embættis Landlæknis þar sem það er til meðferðar.

Laust eftir hádegi sama dag og ég sendi Páli Matthíassyni tölvupóst og kvartaði barst mér tölvupóstur frá Engilbert Sigurðssyni, sent af netfangi hans á Landspítala. Þar segir hann eftirfarandi:

 • að það sé minn misskilningur að hann hafi sent ábyrgðarbréfið vegna bloggfærslu og telur síðan upp eftirfarandi atriði:
 • að endurtekið hafi í samtölum okkar borið á góma „skipti á meðferðaraðila í gegnum árin“ allt frá árinu 2006 en ég hafi ekki viljað skipta;
 • að ég hafi hitt sálfræðing í samráði við Engilbert í tvígang „en H byrjaðirðu að hitta sjálf á þessu ári (án samráðs við mig sem er frekar óvanalegt ef sjúklingur telur sig treysta sínum geðlækni - þá er hefðin sú að upplýsa sinn lækni a.m.k. um þá ákvörðun áður en viðtöl hjá öðrum meðferðaraðila hefjast).“;
 • að ég hafi lýst því yfir í viðtali þann 19. september að ég hafi eingöngu komið til að fá tvö vottorð og afrit af þeim;
 • að ég hafi bókað viðtalstíma með öðrum hætti en áður, þ.e.a.s. hringt og pantað tíma í stað þess að hafa samband við Engilbert í tölvupósti og biðja um tíma;
 • að ég hafi þann 19. september sagst vera á biðlista hjá tveimur geðlæknum og „Þú hafðir ekki beðið mig um ráð varðandi hvaða kollegum mínum ég myndi helst treysta til að freista þess að mæta meðferðarþörfum þínum líkt og þú treystir mér ekki til að hafa skoðun á því.“;
 • að ég hafi kvartað undan „niðurstöðu [ábyrgðar]bréfsins við Pál Matthíasson“ en „Sú niðurstaða er þó í raun ekki annað en staðfesting þess sem orðið er og ætti ekki að koma á óvart.“

Í sjúkraskrá sem Engilbert Sigurðsson færði um mig frá árinu 2000 til áramóta 2011/2012 er þess hvergi getið að „skipti á meðferðaraðila“ hafi borið á góma, ekki heldur á mínu bloggi. Þótt minni mitt sé brigðult frá því um mitt ár 2004 fram undir áramótin 2011/2012 hefur maðurinn minn stálminni og ég hef alltaf sagt honum hvað okkur Engilbert fór á milli eftir hvern viðtalstíma. Hann rekur minni til þess að „skipti á meðferðaraðila“ hafi einu sinni verið rædd, þegar ég vildi ekki hefja Marplan-töku sem Engilbert var áfram um að ég prófaði, sem á þá við útmánuði árið 2010.

Hafandi litla reynslu af geðlæknum öðrum en Engilbert Sigurðssyni kann ég ekki skil á þeirri hefð sem hann vísar í varðandi sálfræðiviðtöl. Ég hef hins vegar farið á HAM-námskeið við kvíða, prófað nálastungur og unnið sporavinnu á þeim tíma sem „meðferðarsamband“ okkar Engilberts hefur varað og sagt honum af því eftir á, án þess að hafa merkt að það hafi valdið honum hugarangri.

Vissulega sagði ég: „Ég kom bara til að fá vottorð“ þegar ég hitti Engilbert þann 19. september en það var nú ekki hugsað sem sérstök yfirlýsing, kannski frekast skýring á að ég væri mætt í viðtalstíma til hans. Og ég leiddi svo sannarlega ekki hugann að því að það að panta viðtalstíma á göngudeild geðsviðs Landspítala gegnum skiptiborð Landspítalans mætti túlka sem eitthvað annað en að panta tíma í gegnum síma.

Ég sagði aldrei að ég væri á biðlista hjá tveimur geðlæknum enda var ég ekki á neinum biðlistum. Aftur á móti sagðist ég hafa reynt að hlíta ráðum Engilberts sem hann gaf í símtalinu í apríl og hefði reynt að komast að hjá tveimur geðlæknum án árangurs og vildi því gjarna vera hjá honum áfram. Engilbert hefur aldrei viðrað neina skoðun á því til hvaða geðlæknis ég ætti að leita né boðið fram sína aðstoð í þeim efnum, hvorki í þeim mörgu tölvupóstum sem hann hefur skrifað mér á þessu ári né í símtalinu í apríl þegar hann ráðlagði mér að skipta um lækni.

Það að ég hafi kvartað undan því við yfirmann Engilberts Sigurðssonar að Engilbert tilkynnti mér að hann væri hættur að vera minn læknir að geðþótta sínum en engum haldbærum rökum eru vitaskuld ekki rök fyrir því að Engilbert geti tilkynnt að hann sé hættur að vera minn læknir …
Staða mála nú

Ég hef lagt inn formlega kvörtun til Landlæknisembættisins með ýmsum fylgiskjölum. Sú kvörtun hefur verið tekin til meðferðar en svoleiðis meðferð tekur marga mánuði, kannski ár. Það er í góðu lagi mín vegna því mikilvægast er að úr því verði skorið hvort geðlæknir geti sagt upp sínum sjúklingi að því er virðist vegna þess að honum hugnast ekki hvernig sjúklingurinn bloggar um sína eigin sjúkrasögu, líðan og hugrenningar. Úrskurður um þetta mál er mikilvægur öllum þeim geðsjúklingum sem vilja tjá sig um sinn sjúkdóm og læknismeðferð við honum, hvort sem þeir tjá sig á bloggi eða með öðrum hætti. Ég get sjálf alls ekki séð hvernig athöfn Engilberts samrýmist lögum um réttindi sjúklinga, læknalögum eða ábendingum Landlæknisembættisins um góða starfshætti lækna, auk þess sem um er að ræða málfrelsi mitt, sem tryggt er í stjórnarskrá, og ég get ekki samþykkt að sé háð forræði geðlæknis míns (eða hvaða annars læknis sem er). En ég er ekki löglærð og því finnst mér gott að Landlæknisembættið skuli ganga úr skugga um þetta.

Svona mál bar aðeins á góma á nýafstöðnu málþingi Læknafélags Íslands, sem haldið var 18. og 19. október, sjá Mikilvægt að gæta varúðar á samfélagsmiðlum - af málþingi LÍ eftir Hávar Sigurjónsson, í Læknablaðinu 11. tbl. 98. árg. 2012.  Þar virðist lögfræðingur Læknafélags Íslands, Dögg Pálsdóttir, hafa úrskurðað að sé læknir ósáttur við tjáningu sjúklings á netinu gæti hann sagt upp „trúnaðarsambandi“ við sjúklinginn, sem er vitaskuld merkileg ný túlkun á þeim lögum sem ég nefndi hér að ofan. Einnig má spyrja sig hvort sá sem notar opinbera þjónustu teljist gera „meðferðarsamninga“ eða „trúnaðarsamninga“ við einstaka opinbera starfsmenn og væri gaman að vita hvort hugmyndir um slíkt standist landslög. Í greininni er haft orðrétt eftir Dögg, þar sem hún ræðir fyrirspurnir úr sal:

Fram kom í umræðum um þetta efni að stundum væru það sjúklingar sem birtu upplýsingar um sjúkrasögu sína á netinu og lýstu þar óhikað reynslu sinni af meðferð og læknisheimsóknum. Þar væri stundum farið rangt með staðreyndir og sagður hálfsannleikur en læknar ættu mjög erfitt með að bregðast við slíku og hvort það hefði ekki afgerandi áhrif á trúnaðarsamband læknis og sjúklings.

Dögg sagði þetta sannarlega vandamál en hún væri þó ekki sammála því að læknir mætti ekki svara ef sjúklingur er búinn að viðra samskipti sín við lækni opinberlega. „Hvort það þjónar tilgangi er annað mál. Ég hef alltaf haldið því fram að ef sjúklingur opnar fyrir sína sjúkrasögu felst í því ákveðið samþykki hans fyrir því að opinberlega sé um hana fjallað. Læknar hafa síðan það ráð að segja upp slíku trúnaðarsambandi.“

18 ummæli við “Geðlæknir dömpar sjúklingi vegna bloggs”

 1. Hafrún ritar:

  Ja hver grefillinn.

 2. Þ Lyftustjóri ritar:

  Ja, hvur þremillinn.

 3. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Ansans ;)

 4. Svala ritar:

  Mér finnst furðulegt að þetta sé hægt. Fólk hlýtur fjandakornið að hafa fullan rétt til þess að segja frá eigin sjúkrasögu. Að slík frásögn hafi í för með sér sviptingu á læknisþjónustu er alvarleg aðför að tjáningarfrelsi sjúklinga.

 5. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Mér finnst líka furðulegt að þetta sé hægt og ég er fegin að Landlæknisembættið hafi fallist á að kanna það mál.

 6. Hafdís Helgadóttir ritar:

  Að sjálfsögðu má blogga um sín eigin mál eða það finnst mér. Held að þú værir betur komin með annað geðlækni. Byrjaði sjálf hjá einum sem að mér fannst vera ágætur sé það núna að hann var hræðilegur þegar að maður hefur viðmið. Gangi þér vel skvís

 7. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Við Engilbert Sigurðsson erum sammála um að ég sé betur komin með annan geðlækni og höfum verið sammála um það síðan Engilbert stakk upp á þessu í apríl. Málið snýst ekki um það heldur hvort starfandi geðlæknir á Landspítala geti tilkynnt að geðþótta að hann sé hættur að vera læknir sjúklings.

 8. Eva Hauksdóttir ritar:

  ” Hann sagði mér í síðustu viku að það tæki 4-6 vikur (mögulega sagði hann 4-8 vikur) að hætta á Rivotril, líka fyrir þá sem hefðu notað lyfið árum saman. Honum fannst ósennilegt að verkirnir sem ég sagði honum frá stöfuðu af Rivotril-fráhvarfi og lagði til að ég pantaði tíma hjá háls-nef- og eyrnalækni. ”

  Ef þessu hefur ekki verið breytt þá er óskiljanlegt hvernig manninum tókst að lesa út úr þessu þær fullyrðingar sem hann sakar þig um.

 9. Anon ritar:

  Ég þori ekki að koma fram undir nafni sérstaklega eftir þennan lestur. En mig langaði að segja þér frá því að á Barnaspítalanum er *bannað* að birta efni úr sjúkraskýrslum á netinu…….. *bannað* að nafngreina starfsfólk……… og almennt mjög illa séð að fólk sé að blogga eða setja á Facebook um börnin sín og spítaladvölina………. og það var blað með “leiðbeiningum” um þetta í foreldraeldhúsinu þegar ég var þar í sumar.

 10. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Eva: Textanum í bloggfærslunni hefur ekki verið breytt síðan hann birtist fyrst. Ég er sammála þér að það er afar erfitt að túlka hann eins og geðlæknirinn gerir, satt best að segja sé ég ekki að það sé hægt.

  Anon: Það er skiljanlegt að reynt sé að verja börn séu fyrir opinberri umræðu og má horfa á reglurnar sem þú lýsir undir því sjónarhorni. Ég hef aldrei nafngreint starfsfólk á geðsviði (fyrr en Engilbert Sigurðsson í þessari færslu) né fjallað um málefni annarra sjúklinga enda finnst mér það ekki við hæfi. Ég er hins vegar ekki bundin trúnaði um mína eigin sjúkrasögu og ég er ekki bundin trúnaði um það sem sagt er við mig í læknaviðtölum þótt læknir sé bundinn trúnaði um málefni sjúklinga.

 11. Matthildur Kristmannsdóttir ritar:

  Mjög athyglisvert allt saman! Ég er spennt að vita að hvaða niðurstöðu landlæknir kemst. Ég hef hingað til valið að nefna ekki á nafn þá lækna sem komu að mínu máli á meðan verið er að fara í gegnum allt ferlið. Ég veit ekki til þess að mér sé óheimilt að segja alla söguna með nöfnum, það hefur enginn nefnt það við mig, aldrei. Kannski læt ég ekki blogg duga, fólk þarf að vita í hverju það getur lent ef það veikist.

 12. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Ég spurðist fyrir um hvort ég skaðaði á einhvern hátt mál mitt hjá Landlæknisembættinu ef ég segði frá því á bloggi en fékk þau svör að blogg eftir að embættið hefur samþykk að fjalla um kvörtunina skipti engu máli.

 13. Matthildur Kristmannsdóttir ritar:

  Gott að vita það!

 14. Haukur ritar:

  Er hinn raunverulegi kjarni málsins ekki sá að læknirinn telur að sjúklingurinn treysti honum ekki (sbr. það að hafa vísvitandi reynt að taka minna af lifinu en ávísað er?) og verandi leikmaður get ég ímyndað mér að traust sé jafnvel enn mikilvægara þegar kemur að geðrænum kvillum en gengur og gerist þannig að árangur náist? Á þeim grundvelli virðist sannarlega vera rétt fyrir báða aðila að nýtt samband byggt á trausti myndist á milli sjúklings og nýs læknis.

  Það að læknirinn hafi valið kjánalega leið til þess að “hjálpa til” við þessa fléttu virðist í huga mér vera hálfgert aukaatriði.

 15. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Við læknirinn sem um er rætt höfum verið sammála um það síðan í apríl að það væri mér til hagsbóta að fá annan geðlækni. Um það er ekki deilt. Deilan snýst um hvort ríkisstarfsmaður (læknir á ríkisspítala) megi upp á sitt hopp og hí dömpa sjúklingi af því lækninum hugnast ekki viðhorf sjúklingsins til eigin sjúkrasögu og tjáning á henni. Í bréfum Engilberts Sigurðssonar til mín er ekki minnst á áralangar tilraunir mínar til að taka minna af Rivotril en hann hefur ávísað (enda reikna ég með að geðlækni sé ekki stætt á að finna að því að sjúklingur gæti sín á benzódrínlyfi … það er fremur að geðlæknar reyni að passa upp á hinn veginn, þ.e.a.s. þá sjúklinga sem nota bensólyf í hærri skömmtum en þeir hafa ráðlagt).

  Engilbert Sigurðsson hefur ekki sýnt fram á að ég treysti honum ekki, í sínum rökstuðningi í bréfum til mín. Það verður áhugavert að sjá hvaða rök hann tínir til handa embætti landlæknis.

 16. Anna Guðrún ritar:

  Ég hef mikla og góða reynslu af Engilbert!
  Hann er frábær læknir og kann sitt fag!

 17. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Það gleður mig, Anna Guðrún, að þér vegnar vel hjá mínum fyrrverandi geðlækni og ég vona að þú náir góðum bata. Færslan er vel að merkja ekki um hæfileika Engilberts sem læknis eða mögulega kunnáttu hans í geðlæknisfræðum heldur um það hvort geðlækni á ríkisspítala sé stætt á að ákveða að hætta að vera læknir sjúklings sem ekki bloggar um eigin sjúkrasögu eftir smekk læknisins.

 18. Blogg Hörpu Hreinsdóttur » Hrakspá sem ekki gengur eftir ritar:

  […] Í hádeginu las ég yfir vottorð sem geðlæknirinn minn gaf út daginn áður en hann dömpaði mér. (Sjá Geðlæknir dömpar sjúklingi vegna bloggs.) Hafði nú reyndar lesið þetta áður en þurfti að gá að ákveðnum upplýsingum … las fyrir manninn klausuna um álit læknisins á mínu heilsufari, að útséð sé að ég geti snúið aftur til starfa á þessum vetri til kennslu og ólíklegt að svo geti orðið á næsta ári … og hafði á orði við manninn að þetta væri afar svört spá (hún minnir mig dálítið á kollega minn forðum sem staglaðist æ oftar á hendingunum “Það bjargast ekki neitt/ það ferst, það ferst …” þegar líða tók á annirnar). Maðurinn sagði að bragði: Við hverju býstu? Hann getur náttúrlega ekki viðurkennt að þér hafi þá fyrst farið að batna þegar þú ákvaðst að hætta að taka lyfin sem hann hefur dælt í þig! Hm … ég ætla að ígrunda þetta. […]