9. desember 2012

Svarthvíta hetjan mín …

Ég hef undanfarið fylgst með netumræðu um tillögu til þingsályktunar um heildrænar meðferðir græðara. Þetta er varlega orðuð tillaga um að Alþingi feli velferðarráðherra að skipa starfshóp til að kanna hvort niðurgreiða ætti meðferðir græðara eða gera greiðslur til þeirra undanþegnar virðisaukaskatti. Í nethamförum hefur umræðan snúist upp í að Ólína Þorvarðardóttir (meðflutningsmaður þessarar tillögu) vilji láta okkur skattgreiðendur borga fyrir kukl; snákaolía og miðlar eru nefnd í því sambandi og síðan í gær hefur einn og einn hamfarakommentari splæst óskyldri frétt um andsetin börn við þessa umræðu: Nú vill Ólína láta okkur skattgreiðendur halda uppi særingamönnum …

SvæðanuddÞegar svokallað kukl berst í tal stígur ávallt fram á sjónarsviðið sjálfskipaður riddari okkar pöpulsins, læknirinn og vantrúarfélaginn Svanur Sigurbjörnsson*. Hann er óþreytandi í sinni baráttu fyrir að ullabjakki og kukli sé ekki haldið að okkur hinum, líklega okkur hinum fávísu sem ella létum glepjast af gylliboðum. Baráttuna heyr hann einkum á sínu bloggi, vefsíðu Raunfélagsins, spjallþráðum Vantrúarvefjarins og í Læknablaðinu.

Málflutningur Svans í þessum miðlum er keimlíkur og felst einkum í að benda (okkur hinum) á að ýmsar kukl-aðferðir hafi aldrei verið sannaðar vísindalega og séu ekki reistar á vísindalegum grunni. Í leiðara í Læknablaðinu 07/08. tbl. 98. árg. 2012 skilgreinir hann kukl þannig:

Hvað er kukl? Til forna var kuklari sá sem iðkaði galdur eða fúsk, oft með dulúð og sjónarspili. Einnig beindist kukl að lækningum og þó að yfirbragðið sé annað í dag er þetta orð mest lýsandi fyrir þær meðferðartilraunir sem byggja á gervivísindum. Það einkennist af því að hugmyndafræðin er í andstöðu við sannreynda lífeðlisfræði, efnafræði og sjúkdómafræði nútímans. Kukl stenst ekki lágmarksrannsókn á verkun þess sem sagt er að eigi sér stað, það kann að vera gamalt en aldur fræða segir ekkert til um sannleiksgildi þeirra. Jafnframt ber það þess öll merki þess að vera skáldskapur og byggir oft á margnotuðu þema sem getur verið aðlaðandi fyrir ófaglært fólk í heilbrigðisvísindum eins og „styrking ónæmiskerfisins“, „losun eiturefna“ og svo framvegis.

Svanur blæs á mögulega lækningu kukls af lyfleysuáhrifum því siðferðilega sé engin réttlæting fyrir notkun lyfleysu nema í rannsóknum. Afleiðingar kukls eru m.a. fjárhagslegt tjón og „útbreiðsla ranghugmynda um mannslíkamann og meðferðir“, segir hann.

Ég hef dálítið velt fyrir mér þessum skörpu skilum sem Svanur o.fl. sjálfskipaðar hetjur, sem vernda okkur almúgann fyrir ásælni kuklara, telja vera milli vísindalegra lækninga lækna annars vegar og kuklara hins vegar. Eftir að hafa kynnt mér þokkalega vel minn eigin sjúkdóm, þunglyndi, og reynt vestrænar læknisaðferðir við honum í þaula er niðurstaðan sú að:

 • Ekki er vitað af hverju sjúkdómurinn þunglyndi stafar (það eru til ýmsar kenningar um það en engin þeirra hefur verið sannreynd með óyggjandi hætti);
 • Tilgátan um boðefnaójafnvægi í heila sem þunglyndislyf geti leiðrétt verður æ ósennilegri (við því er brugðist með að reyna að flækja tilgátuna en hún er jafn ósönnuð eftir sem áður);
 • Þunglyndislyf virka yfirleitt ekki betur en lyfleysa í vísindalegum rannsóknum (munur á virkni þunglyndislyfja og lyfleysu er lítill sem enginn nema í hópi alveikustu sjúklinga og þar skýrist munurinn af því að lyfleysa virkar síður á þá sjúklinga).

PilluboxVísindaleg og sönnuð útskýring á orsök þunglyndis er sem sagt ekki til, ekki heldur vísindaleg sönnun fyrir að lyfin sem notuð eru við sjúkdómnum virki, þau eru heldur ekki reist á neinum vísindalega sönnuðum grundvelli. Lyflækningar við þunglyndi eru samt mjög algengar. Þær byggjast oftar en ekki á dularfullu hugrænu fyrirbrigði sem kallast klínísk reynsla (lækna). Klínísk reynsla virðist geta verið hvað sem er, hún er a.m.k. ómælanleg með öllu. Einfaldar (en ósannar) boðefnaruglingsskýringar eru oft gefnar sjúklingum og þeirra aðstandendum og tilraunamennska lækna í blöndun lyfjakokteila er rökstudd með „klínískri reynslu“.

Satt best að segja er það mín sjúklingsreynsla (og hún er ansi yfirgripsmikil) að nútíma þunglyndislækningar byggi einmitt afskaplega mikið á dulúð og sjónarspili en ekki vísindalegum rökum eða sönnunum. Ég hef spurt Svan Sigurbjörnsson um hvort hann telji nútíma þunglyndislækningar kukl, af því þær uppfylla öll skilyrði hans fyrir að svo sé, en hann sá ekki ástæðu til að svara þeirri spurningu. Ég tek fram að þunglyndi er sko ekki neinn jaðarsjúkdómur: Innan fárra ára verður þunglyndi mest heilsufarsvá á Vesturlöndum að mati Heilbrigðisstofnunarinnar Sameinuðu þjóðanna og fjölda annarra. Svoleiðis að mér finnst mikilvægt að hetjan okkar, sem berst gegn því illa kukli, beiti sínum kríteríum á þá læknismeðferð sem býðst þorra þunglyndissjúklinga, sem eru fjölmennur hópur í heilbrigðiskerfinu, og felli sinn úrskurð.

Nú þekki ég fólk sem hefur batnað þunglyndi af því að eta algeng þunglyndislyf. Ég þekki líka fólk sem hefur ekki batnað baun við hið sama. Ég þekki fólk sem hefur hlotið bata af ýmsum kvillum af magnesíumsprautum, LDN, nálastungum eða hómópatíulyfjum. Ég þekki líka fólk sem þetta hefur ekkert virkað á. Sjálf var ég nógu vitlaus til að trúa goðsögnum um þunglyndislyf, geðlyf og raflækningar í meir en áratug en hef aldrei náð því að trúa á hómópatalyf: Líklega flytur trúin fjöll í hvoru tveggja tilvikinu.

Síðustu vikurnar hef ég þegið meðferð annars vegar hjá nuddara (nuddarar eru í Bandalagi íslenskra græðara, eru sem sagt kuklarar) og hins vegar sjúkraþjálfa. Hvor hefur til síns ágætis nokkuð: Nuddarinn er miklu flinkari að finna auma bletti með fingrunum en sjúkraþjálfarinn hefur yfir góðum græjum að ráða, í þessu tilviki hljóðbylgjunuddtæki. Árangurinn af veittri meðferð beggja er enn sem komið er hinn sami, þ.e.a.s. enginn. Aðalmunurinn fyrir mig er sá að ég borga skít á priki fyrir tímann hjá sjúkraþjálfaranum en margfalt meira fyrir tímann hjá nuddaranum. Ég ætla að halda áfram að skipta við báða og mér er alveg sama hvor læknar mig, vona einungis að öðrum hvorum takist það :)

Í fullkomnasta heimi allra heima ættu sjúklingar hafa algert val um hvernig meðferð þeir kjósa að þiggja og fá hana niðurgreidda úr sameiginlegum sjóðum. Við lifum ekki í slíkum heimi heldur þurfum að forgangsraða. Mér finnst litlu skipta hvort Alþingi skipar einum starfshópi fleiri eða færri en held að niðurstaðan hljóti að vera að skynsamlegast sé að niðurgreiða þá þjónustu sem flestum kemur til góða og er að því leyti sammála Svani og skoðanasystkinum hans: Líklega er flestum til hagsbóta að niðurgreiða næst þjónustu tannlækna og sálfræðinga.

Umræðan á netinu um þingsályktunartillöguna undanfarið lýtur sömu lögmálum og önnur umræða sem aktívistahópar einhenda sér í, er sem sagt ekki umræða heldur keppni í hver getur haft svarthvítasta viðhorfið og gargað hæst í netheimum. Ég er engin Dúkkulísa en fæ samt ekki varist því að hugsa í hvert sinn sem ég les málflutning Svans Sigurbjörnssonar: Hvernig ertu í lit?
 
 
 

* Ég veit ekki hvort Svanur Sigurbjörnsson læknir er ennþá félagi í Vantrú, athugasemdir hans á vef Vantrúar í sambandi við þessa þingsályktunartillögu eru ekki merktar þannig.
 
 
 
 
 
 
 
 

37 ummæli við “Svarthvíta hetjan mín …”

 1. Matti ritar:

  Þessi vantrúarþráhyggja þín er dálítið krúttleg. Hefurðu prófað remedíur við þessu?

 2. Carlos ritar:

  Þráhyggjan er ekki meiri en svo, að vantrúarvefurinn, sem helgaður er baráttu gegn kukli alskonar, hefur nokkrar greinar gegn óhefðbundnum lækningum og nú síðast kosið að jesúsa sig yfir trúgirni þeirra þingmanna, sem fluttu tillöguna.

  Ef hún hefði ekki nefnt Vantrú í þessari grein, hefðirðu væntalega borið henni eineltistilburði á brýn, Matti minn, krúttlegi.

 3. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Ó, Matti minn: Ertu kominn upp úr píslarvættisbaðinu strax? Var það farið að kólna?

  Carlos: Vantrú bar á góma í færslunni af því svarthvíta hetjan mín hefur verið dugleg að taka þátt í umræðunni þar um þessa tillögu til þingsályktunar, eins og annarri þeirri umræðu á þeim vef sem snúast um meint hindurvitni og kukl.

 4. Matti ritar:

  Þráhyggjan er ekki meiri en svo að Harpa minnist á Vantrú í annarri hverri færslu - þú hún sé að sjálfsögðu ekkert að fjalla um Vantrú.

  Hvað er athugavert við umfjallanir Vantrúar um kukl?

  Já Carlos, þú og Harpa eru bæði í hópnum sem leggur mig í einelti. Félagar munu tjá sig hér í kjölfarið, ég hef engar áhyggjur af öðru.

 5. Matti ritar:

  Svanur hefur svo ekki haft nokkuð út á nudd að setja sýnir mér. Ekki nema þegar um svæðanudd er að ræða þar sem fullyrðingar þeirra sem það stunda standast enga skoðun.

 6. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Nú heiti ég á sælan Anonymus, Matti minn kær, að hann megi frelsa mig frá tjáningu félaga þinna “hér í kjölfarið”. Viskum sjá hve sá ágæti dýrlingur megnar …

 7. Carlos ritar:

  Gott og vel Matti, einelti. Er það svona eins og þegar þú hjólar beint í geðheilsu bloggara með skætingi eins og í aths. 1 í stað þess að skoða rök sem færð eru til bloggs, eins og þú ert vel fær um sbr. aths. 5?

  Og vælir svo um einelti þegar bjalla er hengd á þig?

 8. Guðbergur Ísleifsson ritar:

  Ég vil benda ykkur á að Matti skrifar aldrei neitt að eigin frumkvæði heldur “bregst bara við” í hvert skipti sem einhver skrifar orðið “Vantrú” og setur það á Netið. Þannig að hér er um ósjálfráða kippi að ræða.

 9. Elfa Jóns ritar:

  Góð grein hjá þér Harpa.

  Ég held einmitt að ein ástæðan fyrir því að þunglyndi er að verða eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum í heiminum, sé sú að menn vita í raun ekkert af hverju það stafar.

 10. Matti ritar:

  Sko, Guðbergur eineltisfélagi ykkar mættur.

  Carlos, þegar ég tala um þráhyggjur Hörpu gagnvart Vantrú er ég ekki að hjóla nokkuð í geðheilsu bloggara. Ég er að vísa til þess að Harpa minnist á Vantrú trekk í trekk hér á Vantrú.

  Nei, ég væli ekkert um einelti - en samkvæmt skilgreiningum þá er það einfaldlega staðreynd að þið eruð þátttakendur í einelti Bjarna Randvers gegn mér. Það er ljótur leikur en þið sjáið ekkert athugavert við það.

 11. Guðbergur Ísleifsson ritar:

  Matti, ég var nú bara að vísa til þess sem þú hefur margoft sagt sjálfur hingað og þangað á Netinu, að þú skrifir ekki að eigin frumkvæði, heldur “bregðist bara við” þegar einhver skrifar orðið “Vantrú” og setur það á Netið. Dæmi: T.d. hér og hér.

 12. Carlos ritar:

  Bjarni Randver stóð ekki í langvinnri aðför að starfi Vantrúarfélaga, hvorki þér né nokkrum öðrum, Matthías Ásgeirsson. Ólíkt þér, sem ert einn af þeim sem hélt uppi og heldur uppi aðför félagsins Vantrúar gegn einum manni, Bjarna Randver.

  En það er önnur umræða, bæði Bjarni og einelti ykkar. Ertu s.s. að reyna að dreyfa athyglinni að ranglæti þess að þú og þið eruð látnir svara fyrir rangfærslur ykkar? Núna í tilefni þess að Svanur er fundinn veikur að rökum?

 13. Matti ritar:

  Aðför Bjarna gegn mér hefur staðið í rúman áratug. Skjalfest.

 14. Helgi Jóhann Hauksson ritar:

  Góð grein hjá þér Harpa — eins og oft áður.

 15. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Matthías Ásgeirsson: Orðið þráhyggja er aðeins til í eintölu.

  Elfa Jóns: Kærar þakkir. Já, vandinn við þunglyndi er að ekki er vitað af hverju það stafar (til eru vísbendingar um að það erfist … en ég á eftir að kynnast þeirri familíu sem ekki getur talið fram a.m.k. einn alka og einn þunglyndan í sínum ættum) og upp á síðkastið virðist talsverð umræða um að þunglyndi kunni að vera margir sjúkdómar (sú umræða hefur raunar verið lengi enda er þunglyndi skipt í nokkra flokka í DSM-IV en mér sýnist hún vera að aukast). Ég get ekki séð að skilningi manna á þunglyndi hafi fleygt fram að ráði frá því Robert Burton skrifaði The Anatomy of Melancholy (útg. 1621), því miður.

 16. Matti ritar:

  Það er þér líkt að einblína á innsláttarvillu.

 17. Guðbergur Ísleifsson ritar:

  Ég held að þunglyndislyf hafi í flestum tilfellum þveröfug áhrif á þann sem tekur þau en ætlunin var. Þunglyndislyf lækna ekkert, þau eru í raun bara dóp sem geta skotið fólki upp í einhvern tíma þannig að þeim finnst eins og þeim líði betur, en um leið og áhrifa lyfjanna gætir ekki lengur, annað hvort vegna þess að inntöku þeirra er hætt eða þá að áhrifin hverfa vegna langvarandi notkunar, fer viðkomandi aftur niður, og oft mun lengra niður en áður var þar sem nú bætast við fráhvörf vegna lyfjanotkunarinnar.

  Ég er alveg sammála því viðhorfi að ávísanir lækna á þunglyndislyf er í raun alveg hægt að skilgreina sem kukl. Eða dópsölu. Það eru til aðrar og að mínu mati mun betri leiðir til að vinna a þessu skrímsli sem þunglyndi er.

 18. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Guðbergur: Þunglyndislyf eru ekki dóp. Og sumum batnar af þeim en ég held að þar sé oft einungis um lyfleysuáhrif að ræða (og byggi þá skoðun mína á rannsóknum, t.d. Kirsch og þeim sem hafa endurtekið rannsóknir hans).

 19. Guðbergur Ísleifsson ritar:

  Nei, kannski fulldjúpt í árina tekið hjá mér að kalla þunglyndislyf “dóp”. Það sem ég á við er að á marga þá virka þau eins og dóp … skjóta fólki upp úr lægðinni í einhvern tíma, en “lækna” ekkert til lengri tíma séð heldur gera bara gert illt ástand verra.

 20. Svala ritar:

  Þunglyndislyf í bland við viðtalsmeðferð geta virkað vel á fólk, og þá ná lyfin fólki kannski nógu mikið upp til að viðtalsmeðferðin geti virkað.

  Ég skil ekki alveg þessa setningu: “munur á virkni þunglyndislyfja og lyfleysu er lítill sem enginn nema í hópi alveikustu sjúklinga og þar skýrist munurinn af því að lyfleysa virkar síður á þá sjúklinga.”

  Þýðir þetta ekki að lyfin hafi þá einhverja virkni gagnvart veikustu sjúklingunum?

 21. Björn Friðgeir ritar:

  Venjulegir nuddarar eru ekki í BÍG.
  http://big.is/

 22. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Svala: Þessi málsgrein er líka illskiljanleg :) Ég fjallaði um akkúrat þetta í færslunni Virka þunglyndislyf eða er verkunin aðallega lyfleysuáhrif? en í stuttu máli sagt þá mælist hinn litli munur á virkni þunglyndislyfja og lyfleysu (í tvíblindum lyfjarannsóknum) bara í hópi alveikustu sjúklinganna, á þá virka þunglyndislyf álíka vel/illa og á aðra þunglyndissjúklinga en lyfleysa sýnir minni virkni en á aðra þunglyndissjúklinga og því verður til munur á virkni þessa tveggja sem rétt slefar yfir lágmarkið fyrir að teljast klínískt marktækur.

  Björn Friðgeir: Kannski eru þeir nuddarar sem taldir eru í meðlimaskrá BÍG allir óvenjulegir nuddarar, ég hef ekki það góða þekkingu á nuddurum til að geta dæmt um það. Félag íslenskra heilsunuddara er ekki formlegur aðili að BÍG.

 23. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Þessi færsla fjallar um að skilin milli vísinda og ekki-vísinda eru engan veginn jafnskörp og skilja má af málflutningi Svans Sigurbjörnssonar (og annarra sem stunda svarthvítan málflutning). Henni er ekki ætlað að vera stóridómur um einstök meðferðarform, hvort sem er viðurkenndra lækninga eða óhefðbundinna lækninga.

 24. Matti ritar:

  Skilin milli vísinda og ekki vísinda eru afskaplega skörp og snúast ekki um meintan árangur eða árangursleysi heldur aðferðarfræði.

 25. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Það væri gott að fá nánari skýringu, Matti. Ég hugsa að lesendur þessarar færslu hafi áhuga á þeim vinkli sem þú nefnir.

 26. Matti ritar:

  Þó það nú væri.

  Vantrú: Gervivísindi

  Gervivísindamenn halda því fram að þeir byggi kenningar sínar á gögnum sem fengin eru af reynslu, og þeir nýta sér jafnvel vísindalegar aðferðir, þrátt fyrir að skilningur þeirra á stýrðum tilraunum er oft lítill. Margir gervivísindamenn gleðjast mjög yfir því þegar þeir geta bent á samræmi milli kenninga þeirra og þekktra staðreynda eða þá að forspár þeirra séu réttar. Þeir átta sig þó ekki á því að slíkt samræmi sannar ekki neitt. Það er nauðsynlegt skilyrði en ekki nægjanlegt að góð vísindakenning sé í samræmi við allar staðreyndir. Kenning sem er í mótsögn við staðreyndirnar eru greinilega ekki mjög góð vísindakenning, en kenning sem er í samræmi við staðreyndirnar er ekki endilega góð kenning. Til dæmis, „réttmæti tilgátunnar um að svartidauði sé verk illra anda, hefur ekki verið staðfest með því að sýna fram á það að hægt sé að forðast sjúkdóminn með því að halda sér í fjarlægð frá illum öndum“

  Vantrú: Vísindi

  Vísindi eru fyrst og fremst ákveðnar rökfræðilegar og empirískar aðferðir sem nota má til að kanna á kerfisbundinn hátt náttúruleg fyrirbæri með það að markmiði að skilja þau. Við teljum okkur skilja þessi fyrirbæri þegar fengist hefur fram fullnægjandi kenning sem útskýrir eðli þeirra, lögmálin sem þau fylgja, eða hversvegna þau birtast okkur á þann hátt sem þau gera. Vísindalegar skýringar eru bundnar við náttúruleg fyrirbæri en ekki yfirnáttúruleg, þrátt fyrir að vísindin sjálf gera ekki ráð fyrir því að nauðsynlegt sé að hafna eða samþykkja tilvist þess yfirnáttúrulega.

 27. Elín Sigurðardóttir ritar:

  Skil milli vísinda og kukls eru ekki skörp. Skil milli lyfja og dóps ekki heldur. Rítalín er eitt dæmi. Rítalín var þekkt sem eiturlyf þar til það allt í einu dúkkaði upp sem lyf handa börnum. Hvenær voru langtímaáhrif rítalíns á börn rannsökuð? Varla þegar rítalín var þekkt sem eiturlyf?

 28. Carlos ritar:

  Aðeins þar sem menn setja hugmyndafræðina fyrir opnum huga, eru skil vísinda og kukls skörp, Matti.

 29. Matti ritar:

  Rítalín dúkkaði ekki allt í einu upp sem lyf handa börnum. En það er alveg rétt að skil milli lyfja og dóps er ekki skörp, enda mörg efni í báðum flokkum. Ég sé ekki hvað það hefur með umræðuna að gera.

  Nei Carlos, þar sem menn treysta á vísindi en ekki galdra eru skilin skörp.

 30. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Mér hefur verið gefið rítalín inni á geðdeild. Frísk tæki ég ekki í mál að setja ofan í mig rítalín enda óvirkur alkóhólisti og auk þess er lyfið ekki þunglyndislyf. En fárveikur sjúklingur inni á geðdeild hefur ekki val. Sem betur fer fór rítalín mjög illa í mig og tilrauninni var fljótlega hætt (sé ég af sjúkraskýrslum, ég man ekkert eftir þessari geðdeildardvöl). Ég reikna með að í þessu lyfjavali hafi geðlæknirinn byggt á “klínískri reynslu” sinni og valið að horfa algerlega fram hjá því að ég væri óvirkur alkóhólisti ;) Ef þetta litla dæmi er lýsandi fyrir vísindalega aðferðafræði kýs ég heldur tólf spora kuklið …

 31. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Matthías Ásgeirsson: Ég þarf að samþykkja öll ummæli með linkum svo þess vegna varð örlítill dráttur á að ummæli þín að ofan birtust. Aðrir: Félagið Vantrú leyfir ekki aðgang gegnum bloggið mitt svo þeir sem vilja fylgja krækjunum sem Matthías setur í athugasemdina verða að líma vefslóðirnar inn í nýjan glugga í vafranum.

 32. Ada Sif ritar:

  Mig langar að nefna að flest allur skilningur lækna á serotonin er mjög bjagaður og í raun lítið annað en villutrú(kukl jafnvel). Í raun hjálpar meir að líta á það sem líffræðingar eru að rannsaka varðandi mannslíkamann til að fá betri hugmynd um hvernig þessi efni virka og einn sá besti í metabolískum efnaskiptum(sem hann telur tengjast geði líka) er Raymond Peat. Einnig mæli ég með Hans Selye(Stress approach) og Broda Barnes er líka ágætur(thyroid approach).

  http://raypeat.com/articles/articles/serotonin-depression-aggression.shtml

  Svo er það mikið kukl hjá mörgum lærðum læknum nú til dags að erfitt er að finna hvað er empirically satt. T.d. ráð lækna að lækka salt notkun án efa eitt það heimskulegasta, ef ekki það hættulegasta, ráð sem einstaklingur getur gefið annarri manneskju.

  http://raypeat.com/articles/articles/salt.shtml

 33. Ada Sif ritar:

  Hef á tilfinningunni að þessi Matti sé bara forum troll. Ég sé hann poppa upp á mörgum stöðum til að gera umræðuna um eitthvað allt annað eða sín eigin. Oft gott bara að hunsa hann. Eiginlega besta ráðið sem maður við hendi gagnvart forum trolls.

 34. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Við Matti erum orðin svo náin að ég get alls ekki hunsað hann … hann myndi líta á svoleiðis sem enn eina birtingarmynd eineltisins sem hann telur sig sæta ;)

 35. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Kærar þakkir fyrir linkana. Klínísk reynsla mín af mér (en ég efast ekki um að flestir geðlæknar neiti að viðurkenna svoleiðis klíníska reynslu) er að þríhringlaga geðlyf, MAO-blokki og SSRI/SNRI lyf virka ekki baun á þunglyndi en hafa mismunandi alvarlega aukaverkanir. Rannsóknir aðila sem eru óháðir lyfjafyrirtækjum benda til þess að svo sé raunin í alflestum tilvikum. Á móti kemur lyfleysuvirknin og á grundvelli hennar má ætla að þunglyndislyf virki oft á þunglyndissjúklinga (en sjálf kysi ég frekar meinlausari útgáfuna, þ.e.a.s hveitipillurnar eintómar).

  Pæli lítið í salti … ég er með of lágan blóðþrýsting og gadda samviskulaust í mig saltið ;)

 36. Ada sif ritar:

  Það sem ég vildi meina með birtingu greinarinnar um salt var að læknar geta upp til hópa haldið upp villutrú og þrjóskast gegn vísindum. Hef lent í þó nokkrum læknum á Íslandi sem einfaldlega andmæla vísindalegum gögnum því þau samræmast ekki því sem lækninum var kennt í skóla(ergo, læknarnir eru meira eins og prestar sem þylja einhverja biblíu).

  Þau geðlyf sem reynast hvað best eru anti-serotonin lyf, þeas þau sem lækka serotonin í líkamanum, enda hefur verið sýnt fram á oft að serotonin er í raun stress hormón en ekki “feel good” hormónið eins og margir læknar halda. Þetta hefur sést í þó nokkrum rannsóknum með psilocybilin og LSD en þau lyf eru anti-serotonin.

  Þess má geta að lyfleysu áhrifin geta verið hvað sterkust í nútíma geðlyfjum út af aukaverkunum. Þetta þekkist í double-blind trials þar sem tilraunin er rofin og kallast það “Breaking the Blind”, en þá skynjar vísindamaðurinn og sjúklingurinn að þeir hafi fengið alvöru lyfið(vegna þess að sjúklingurinn finnur fyrir aukaverkunum) og því eykst samsvörun við lyfleysuáhrifin. Þetta er vel þekkt og telst í raun vandamál.

 37. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Já, mörgum læknum er eiginlega bara gefin jarðleg skilning. Sem betur fer eru margir ágætis læknar til, þeir sem hlusta á sína sjúklinga og þykjast ekki vita betur en sjúklingurinn hvernig honum líður. Því miður eru líka til þeir sem hafa allt sitt vit úr þeim vísindagreinum sem þeir lásu síðast og telja sig umkomna að segja sjúklingnum hvernig honum líður eftir því sem læknirinn hefur einhvern tíma lesið að svona sjúklingum líði ;)

  Ég er komin á þá skoðun að það borgi sig engan veginn að floga neitt í serótónín og dópamín búskap heilans og beita ekki rafmagnsmeðferð nema í ítrustu neyð. Aðrar aðferðir eru vænlegri til að ná tökum á þunglyndi. Ég byggi þessa skoðun á reynslu minni af töku meir en 20 lyfja og tveimur raflækningalotum, sem sagt viðamikilli reynslu af geðlækningum undanfarin 12 ár. Árangurinn af þeim lækningum var 100% örorka síðustu þrjú árin. Árangurinn af því að hætta að taka lyf (ég er enn á einföldum skammti af þunglyndislyfi og tek ekki til við að hætta á því fyrr en eftir nokkra mánuði), nota sálfræðiaðstoð, AA trix, skynsama vini og nánustu fjölskyldu auk heilbrigðrar skynsemi er sá að nú telst ég 25% vinnufær.

  Ég hef bloggað talsvert um þunglyndislyf, lyfleysurannsóknir o.þ.h. Þær færslur eru undir efnisflokknum Geðheilsa.