Færslur frá 14. janúar 2012

14. janúar 2012

Vantrú

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Í ágúst 2003 stofnuðu nokkrir trúleysingjar vefritið Vantrú. Allir áttu þeir sameiginlegt að hafa stundað trúmálaumræður á netinu, aðallega á spjallþráðum og vefsetrum einstaklinga. Vantrú þróaðist fljótt í mikilvægan vettvang fyrir skoðanaskipti um trúmál og tengd málefni, og má segja að hún hafi öðlast nokkurn sess í vefritaflóru Íslands. Félögum fjölgaði jafnt og þétt og í febrúar 2004 var tilkynnt um stofnun óformlegs félags. Á haustmánuðum sama ár, þegar félagar voru orðnir 20, varð draumurinn um lögformlegan félagskap að veruleika.

 Helsta markmið félagsins er að vinna gegn boðun hindurvitna í samfélaginu. Þessu markmiði hyggst félagið ná með öflugri netútgáfu, blaðaskrifum, fyrirlestrum og rökræðum, hvar sem því verður við komið.  („Um Vantrú“ á vantru.is, feitletrun mín.)

Steðji � HvalfirðiAf því að félagið Vantrú er aðallega sýnilegt á vef/vefriti félagsins er rétt að geta þess að: „Upphaflega var vefritið ætlað til þess að skoða trúmál frá sjónarhorni trúleysingjans. [..] [Það] hefur þó tekið töluverðum stakkaskiptum. […] Hér er einnig tekið á öðrum hindurvitnum, kukli, gervivísindum og ýmsum hugsanavillum.“ („Um vefritið“ á vantru.is.) Raunar virðist félagið vera að hverfa aftur til upprunans miðað við umræðuna árið 2011 sem snýst að mestu um trúmál frá sjónarhorni trúleysingja.

Vefritið Vantrú var sem sagt stofnað 2003 en félagið Vantrú árið 2004. Félögum hefur fjölgað mjög hægt en bítandi þessi tæpu átta ár síðan félagið var stofnað og eru nú 130 - 135 talsins eftir því sem næst verður komist. Í Stúdentablaðinu 1. des. 2008 segir að félagar séu 90-100 en á Wikipediusíðu um félagið segir að þeir séu  80-90 í sömu efnisgrein og stjórnarmenn Vantrúar árið 2010 eru taldir upp. Annað hvort hefur fækkað í félaginu á þessum árum eða nákvæmur fjöldi félagsmanna er eitthvað á reiki.

Helstu forsvarsmenn Vantrúar frá upphafi sjást í töflunni hér að neðan. Einnig má benda á myndir af þeim mörgum á glæru sem félaginu áskotnaðist með nokkuð vafasömum hætti af lokuðu námskeiðssvæði á Uglu (innri vef HÍ). Hér er krækt í glæruna á vefsvæði Vantrúar.
 

2003: Vefritið Vantrú stofnað Birgir Baldursson skrifar stefnuyfirlýsingu þess,

sjá „Lygin um sannleikann“.
 

2004-2005: Stjórn vefjar Vantrúar Óli Gneisti Sóleyjarson ritstjóri
 Birgir Baldursson vefstjóri og ábyrgðarmaður
 Matthías Ásgeirsson ritstjórnarmeðlimur
 Jogus ritstjórnarmeðlimur
 Frelsarinn ritstjórnarmeðlimur
Stjórn félagsins Vantrúar 2005 Birgir Baldursson formaður
 Matthías Ásgeirsson gjaldkeri
 Óli Gneisti Sóleyjarson ritari
 Björn Darri Sigurðsson meðstjórnandi
 

 Hjalti Rúnar Ómarsson meðstjórnandi, ritstjóri vefritins

Stjórn félagsins Vantrúar 2006 Birgir Baldursson formaður
 Matthías Ásgeirsson gjaldkeri
 Óli Gneisti Sóleyjarson ritari
 Björn Darri Sigurðsson meðstjórnandi
 

 Hjalti Rúnar Ómarsson meðstjórnandi, ritstjóri vefritsins

Stjórn félagsins Vantrúar 2007 Matthías Ásgeirsson formaður
 Gyða Ásmundsdóttir gjaldkeri
 Eygló Traustadóttir meðstjórnandi
 Birgir Baldursson meðstjórnandi

 Hjalti Rúnar Ómarsson ritari, ritstjóri vefritsins

Stjórn félagsins Vantrúar 2008 Matthías Ásgeirsson formaður.
 Gyða Ásmundsdóttir gjaldkeri
 Teitur Atlason ritari
 Eygló Traustadóttir meðstjórnandi
 Karl Gunnarsson meðstjórnandi

 Birgir Baldursson tók við ritstjórn vefritsins 2007 og gegndi fram á árið 2008.

Stjórn félagsins Vantrúar 2009 Óli Gneisti Sóleyjarson formaður
 Gyða Ásmundsdóttir gjaldkeri
 Baldvin Örn Einarsson ritari
 Kristín Kristjánsdóttir meðstjórnandi
 Valdimar Björn Ásgeirsson meðstjórnandi

 Þórður Ingvarsson tók við ritstjórn vefritisins árið 2008  og hefur gegnt því starfi síðan

Stjórn félagsins Vantrúar 2010 Reynir Harðarson formaður
 Baldvin Örn Einarsson varaformaður
 Ketill Jóelsson gjaldkeri
 Trausti Freyr Reynisson ritari

 Þórður Ingvarsson ritstjóri vefsins

Stjórn félagsins Vantrúar 2011 Reynir Harðarson formaður
 Baldvin Örn Einarsson varaformaður
 Ketill Jóelsson gjaldkeri
 Birgir Baldursson ritari

 Þórður Ingvarsson ritstjóri vefsins 

Sem sjá má á þessari töflu eru ekki miklar breytingar á stjórn Vantrúar frá upphafi. Og það er áberandi hve hlutur kvenna er rýr, árin 2007-2009 sátu konur í stjórn en annars ekki. Gyða Ásmundsdóttir sem kom inn í stjórnina í formannstíð Matthíasar Ásgeirssonar er eiginkona hans. Eygló Traustadóttir sem sat í stjórn 2007-2008 er maki Óla Gneista Sóleyjarsonar. Ég veit ekki hvort Kristín Kristjánsdóttir, sem sat í stjórn 2009 hefur einhver álíka tengsl við karlana í stjórn. Í hópi greinarhöfunda á Vantrúarvefnum eru konur nánast ósýnilegar (sjá neðar í þessari færslu).

Sumir stjórnarmanna reka eigin blogg og helga þau ósjaldan trúmálum, oftast baráttu gegn þjóðkirkjunni og áhrifum hennar. Sem dæmi má nefna Hjalta Rúnar Ómarsson, Matthías Ásgeirsson og Þórð Ingvarsson. Og sumir stjórnarmanna hafa verið ötulir að skrifa um trúmál og efni þeim tengt frá tvítugsaldri, t.d. Haraldur Óli Haraldsson (sem tók síðar upp nafnið Óli Gneisti Sóleyjarsson) og Reynir Harðarson (hér er krækt í elstu dæmin sem ég fann um slíkt - til gamans má geta þess að afi minn skrifaði greinina fyrir ofan grein Reynis Harðarsonar).
 

Helstu baráttumál Vantrúar

Andlit við Byggðasafnið � GörðumSvo virðist sem Vantrú hafi lagt talsverða áherslu á að berjast almennt gegn „hindurvitnum, kukli, gervivísindum og ýmsum hugsanavillum“ fram undir 2009. Finna má ýmsar áhugaverðar greinar um hjálækningar, vísindi o.fl. í flokkunum „Efahyggjuorðabókin“ og „Kjaftæðisvaktin“, svo dæmi séu tekin. En frá um mitt ár 2009 verður umræðan einsleitari og snýst í æ ríkari mæli um andstöðu gegn þjóðkirkjunni og andstöðu gegn samvinnu skóla og þjóðkirkju, á þeim forsendum að ekki megi troða trú upp á saklaus börn á leikskólum og í grunnskólum. Frá því snemma árs 2010 hefur svo heill greinaflokkur verið helgaður óánægju Vantrúar yfir kynningu á félaginu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar, sem Bjarni Randver Sigurvinsson kenndi á haustönn 2009, og ýmsum málrekstri sem fylgdi í kjölfar kvartana/kæra Vantrúar (sjá „Háskólinn“).

Frá 2006 hefur verið félaginu kappsmál að aðstoða fólk við að segja sig úr þjóðkirkjunni, sem Vantrú kallar „að leiðrétta trúfélagaskráningu“ (en af því þessi síða Vantrúar heitir „Skráðu þig úr ríkiskirkjunni“ virðist nokkuð ljóst að félagið beitir sér nær eingöngu gegn þjóðkirkjunni). Vantrúarmenn hafa mætt á einhverjar samkomur (sjá t.d. hér) eða gengið um með eyðublöð Hagstofunnar og seinna Þjóðskrár, ásamt því að krækja í eyðublaðið hjá Hagstofunni, láta það liggja á eigin síðu sem pdf-skjal og gefa upp faxnúmer o.s.fr. Núna er mönnum bent á þann möguleika að skila skráningareyðublaðinu rafrænt, auk annarra möguleika. Skv. vefsíðunni „Skráðu þig úr ríkiskirkjunni“ í gær, 13. jan. 2012, hefur Vantrú hefur aðstoðað 1328 einstaklinga til þessa á tímabilinu 1. jan. 2006- 14. júní 2011. Raunar er vandséð hvað liggur að baki þessari nákvæmu tölu þegar umræðuþráðurinn fyrir neðan er lesinn: Telst það að tilkynna Vantrú að maður hafi sagt sig úr þjóðkirkjunni vera að hafa þegið aðstoð Vantrúar til verksins? Þótt Vantrú segist hafa aðstoðað á fjórtánda hundrað manns við að skrá sig úr þjóðkirkjunni nýtur félagið þess ekki sérlega mikið því í Vantrú eru núna eitthvað um 130-135 manns, sem áður sagði. Það eru tæplega 1,14% prósent af þeim fjölda sem skráður er utan trúfélaga, skv. tölum Þjóðskrár frá 1. jan. 2012.

Vantrú heldur upp á ýmislegt með sínum hætti. Má nefna að félagið heldur árlegt páskabingó á Austurvelli á föstudaginn langa til að mótmæla lögum um helgidaga. Félagið veitir árlega sérstök skammar- eða háðsverðlaun sem það kennir við Ágústínus kirkjuföður. Heiðursfélagi Vantrúar var Helgi Hóseason. Ári eftir andlát hans, 6. sept. 2010,  minntist ritstjórn félagsins hans og sagði m.a.: „Við erum stolt af því að hafa gert Helga Hóseasson að fyrsta (og enn eina) heiðursfélaga Vantrúar.“ Í sömu grein kemur fram að Vantrú hafi beitt sér fyrir að gerð var minningarhella um Helga á horni Langholtsvegar og Holtavegar, yrði hún afhjúpuð þennan dag og haldin látlaus athöfn til minningar um Helga.
 

Vettvangur og aðferðir

Aðalvettvangur Vantrúar er auðvitað vefritið. Miðað við mannfæð félagsins er ótrúlega mikið efni þar að finna. Enn athyglisverðara er að einungis örfáir félagsmenn standa að megninu af  þessum greinarskrifum og þeim fer fækkandi, þ.e. greinum fækkar milli ára og hlutur örfárra félagsmanna verður stærri. Hlutur kvenna í greinaskrifum er svo lítill að það tekur því varla að minnast á hann. Hér að neðan má sjá skiptingu efnis eftir höfundum árið 2008 og 2011. (Byggt er á listanum „Allar færslur á Vantrú“.)
 
 

Greinar á Vantrú 2008
Árið 2008 voru greinar og tilkynningar 324 talsins. Í hlut ritstjórnar eru bæði tilkynningar og greinar, alls 130 talsins, en aðrir eru skráðir fyrir greinum eingöngu. Af þeim var Reynir Harðarson afkastamestur, skrifaði 27 greinar á árinu. Fast á hæla honum fylgdi Brynjólfur Þorvarðarson með 23 greinar. Í hópnum „Aðrir“ eru þeir sem skrifuðu 1-3 greinar á árinu, alls teljast 33 greinar til þessa flokks. Af þrettán höfundum í þessum flokki sem líklega eru félagsmenn eða áhangendur Vantrúar er ein kona (sú var í stjórn félagsins þetta ár). Að auki eru í þessum flokki sex höfundar aðsendra greina og þar á meðal önnur kona. Þessar tvær eru einu konurnar sem skrifuðu greinar á vantru.is árið 2008.
Greinar á Vantrú 2011
Árið 2011 voru skrifaðar 180 greinar og tilkynningar á vantru.is. Þær skiptust þannig:Ritstjórn: 73
Hjalti Rúnar Ómarsson: 22
Egill Óskarsson: 18
Reynir Harðarson: 17
Frelsarinn: 12
Matthías Ásgeirsson: 6
Þórður Ingvarsson.: 6

Aðrir: 26 greinar. Höfundar voru fjórtán, þar af tvær konur, og auk þess birtust þrjár aðsendar greinar eftir jafnmarga karla.

Af AkrafjalliFyrir utan að skrifa greinar í eigið vefrit er þessi fámenni félagahópur iðinn við að skrifa athugasemdir við þær og svara þeim utanfélagsmönnum sem slæðast inn á vefinn og melda skoðanir sínar. Lausleg athugun á athugasemdum við greinar á vefriti Vantrúar árið 2011 bendir til þess að afar fáar konur leggi þar orð í belg. Lítill hópur félagsmanna virðist einnig vinna ötullega að því að hafa upp á bloggfærslum annarra þar sem Vantrú berst í tal og gera sínar eigin athugasemdir við þær, sjá t.d. athugasemdir við færsluna „Mér ofbauð“ á bloggi Helga Ingólfssonar. Sama gildir um fréttir um Vantrú á vefmiðlum og félagsmenn virðast jafnvel reyna að fylgjast með Facebook-færslum um Vantrú. Þeir sýna ótrúlega elju við þessa iðju en ganga sumir svo langt að kalla mætti þá „tröll“ í netheimum.
 

Hvernig kemur Vantrú manni fyrir sjónir?

Hér á eftir byggi ég vitaskuld einungis á eigin mati. En það sem fyrst stakk í augu þegar ég fór að kynna mér félagið Vantrú, aðallega með því að skoða samnefndan vef/vefritið, var hve mjög Vantrú líktist ströngu, jafnvel öfgasinnuðu trúfélagi, þótt með öfugum formerkjum væri. Má þar nefna eftirfarandi:
 

*  Línan er lögð af körlum: Stjórn félagsins er oftast skipuð körlum eingöngu. Tvær af þeim þremur konum sem hafa setið tímabundið í stjórn eru eiginkonur karla sem sitja eða setið í stjórn. Það eru nánast bara karlar sem skrifa greinarnar á vefnum/vefritinu. Og bæði ritendur og stjórnendur eru aðallega fámennur karlahópur, nánast eins og æðstuprestar eða erkiklerkar í trúfélögum. Þótt í árdaga vefritsins hafi birst greinin „Til kvenna um trú“ þar sem Vantrúarfélaginn Aiwaz fer mikinn þegar hann útlistar kúgun þá sem kirkjan og kristni beita konur; hann endar greinina svo á: „Kæra trúkona, ertu eiginkona, hóra eða sjálfsfróunarvél?“ þá verður alls ekki séð af gögnum Vantrúar sem liggja frammi að þeim sé jafnrétti kynjanna eða hlutur kvenna ofarlega í huga. Satt best að segja datt mér einmitt í hug að konur ættu að þegja og spyrja menn sína heima þegar ég skoðaði hlut kvenna í greinasafni Vantrúar árin 2008 og 2011.
 

* Trúboð (and-trúboð?) er stundað af mikilli elju. Þarna á ég m.a. við hversu ótrúlega miklum tíma nokkrir karlar (raunar mikið til þeir sömu og sitja í stjórn og skrifa greinar) eyða í að elta uppi umfjöllun um Vantrú og leggja þar mörg orð í belg eða hvernig þeir sömu hamast við að skrifa athugasemdir við blogg nokkurra presta (virðist sr. Þórhallur Heimisson í sérstöku uppáhaldi þar).

Hin hlið trúboðsins / and-trúboðsins er svo að hvetja sem mest til að fólk segi sig úr þjóðkirkjunni; ganga jafnvel um garða til þess, eins og hverjir aðrir góðir mormónar eða vottar jehóva eða aðrir sem boða sína trú. Og ekki má gleyma því andtrúboði að vilja banna hvers kyns kirkjulegt starf í leikskólum og grunnskólum, s.s. að prestar fái að hitta börn og unglinga í skólanum (t.d. á aðventunni) eða að Gideon-félagar fái að gefa skólabörnum Nýja testamentið. Um skaðsemi svona háttalags hafa Vantrúarmenn skrifað fjölda greina á sinn vef og í ýmis dagblöð / netmiðla.
 

* Það ríkja ákveðnar kennisetningar um Vantrú, þ.e.a.s. aðeins má fjalla um félagið á ákveðnum nótum. Vei þeim sem brýtur þær dogmur! Þeir eru að minnsta kosti sýndargrýttir í netheimum. Ef brotið er stórvægilegt leggja félagsmenn í krossferð, heilagt stríð.

Í þessu sambandi má og geta þess að Vantrú hefur hina einu sönnu van-trú, aðrir trúlausir eru trúlausir á rangan máta. Greinin „Bjarni Harðar og fyrirgefningin“ lýsir þessari vissu Vantrúar prýðilega. Hún minnti mig pínulítið á ofurlítið sambærilega sögu, um farísea og tollheimtumann …
 

* Haldin er andhátíð á föstudaginn langa. Hugsanlega eru til fleiri andhátíðir sem fylgja helgidögum kristinna, efnið á vef Vantrúar er svo gífurlega mikið að ég skoðaði einungis hluta af því. Og sérstök verðlaun Vantrúar eru kennd við Ágústínus kirkjuföður; eru þannig með sterka skírskotun til kirkjusögu og kristni en eru að sjálfsögðu andverðlaun, því þau eru skammarverðlaun.
 

* Hinn eini sanni heiðursfélagi, Helgi Hóseasson, skipar svipað sæti hjá Vantrú og Jesús meðal postulanna. Vantrúamenn fylgdu honum í lifanda lífi, þeir sjá svo um að tákn til minningar um hann sé sett (gangstéttarhella í stað kross) og minnast dánarafmælis hans. Og af því allt er með öfugum formerkjum hjá Vantrú þá var það ekki postuli sem afneitaði honum heldur afneitaði Helgi sínum postula eins og sést á þessari glæru með tilvitnun í Helga Hóseasson (hér er krækt í glæruna á vef Vantrúar).
 

* Að sögn getur ákveðið píslarvætti fylgt því að vera félagi í Vantrú. Því verða félagsmenn stundum að dyljast eins og kristnir í katakombunum forðum - í nútímanum nota menn ekki katakombur heldur iðka sína (and)trú undir nafnleynd á netinu. Má nefna að einn stofnfélaga Vantrúar, sem enn er virkur í greinarskrifum, hefur frá upphafi til dagins í dag þurft að skrifa undir því ótrúlega dulnefni Frelsarinn. Hér er og glænýtt dæmi um hve Vantrúarmaður þarf að þola endalaust kristið trúboð í daglegu lífi og þráir að öðlast frið frá því. (Sú raun kemur mér nokkuð á óvart því í þau þrjátíu og þrjú eða fjögur ár sem ég var sjálf utan trúfélaga man ég ekki til þess að neinn hafi reynt að turna mér í þjóðkirkjuna eða yfirleitt sóst eftir að ræða við mig trúmál.)

Sjálfsagt mætti tína til fleiri dæmi um hvernig Vantrú speglar hefðbundinn trúsöfnuð en ég læt þessu lokið að sinni.

Af gefnu tilefni tek ég fram að þeim athugasemdum við þessa færslu sem ekki eru ritaðar undir fullu nafni verður eytt.

Myndirnar sem skreyta þessa færslu eru teknar á Stór-Akranessvæðinu.
 
 
 
 
 

Ummæli (59) | Óflokkað, Vantrú og siðanefnd HÍ