Færslur frá 23. janúar 2012

23. janúar 2012

Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, III. hluti

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Í þessari færslu verður gerð grein fyrir nokkrum fleiri kæruatriðum í kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni vegna glæra í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem hann kenndi á hausmisseri 2009 í Háskóla Íslands. (Sjá einnig síðustu færslu.)

Í kæru Vantrúar vegna umfjöllunar um sig er áberandi þáttur „það sem ekki er“, þ.e.a.s. Vantrú kvartar undan að málsgreinar séu slitnar úr samhengi og félagið telur að eitthvert annað efni eða annars konar tilvitnanir ættu að koma fram á glærunum. Í kærubréfunum sjálfum segir: „Kynningu á félagsskapnum fögnum við en afskræmingu frábiðjum við okkur“ og í meðfylgjandi greinargerð er síðan bent á ýmislegt sem Vantrú telur falla undir afskræmingu. Félagsmenn í Vantrú virðast enn sama sinnis þrátt fyrir allt sem fram hefur komið um þessar glærur og kærur félagsins því í grein á vef Vantrúar sem birtist 29. desember 2011, Um “Heilagt stríð” og “einelti” Vantrúar, segir að þeir frábiðji sér „þá ósanngjörnu og meiðandi umfjöllun, sem jafnvel mætti kalla skrumskælingu á málflutningi félaga, sem birtist í glærum Bjarna Randvers.“

Má sem dæmi um þetta taka klögu undan þeim glærum sem Vantrú kallar nr. 9 og nr. 10 (sjá s. 6-7 í kærubréfinu til forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, sjá einnig umfjöllun ritstjórnar Vantrúar um glærur 9-13 og glæru 21, VII. Guðfræði í HÍ : Um trúarleg efni, og meðfylgjandi umræðuþráð).

Kvörtun Vantrúar yfir glæru 9 er að:
 * Tilvitnanir eru „í einkablogg Matthíasar (fyrir stofnun Vantrúar!)“;
 * Það vantar eina skáletrun;
 * Veigamiklum atriðum er sleppt svo samhengi skekkist.

SkæriÍ síðustu færslu fjallaði ég um mjög einkennilegar hugmyndir forsvarsmanna Vantrúar um einkablogg sem ekki megi vitna í og vísa í þá umfjöllun. Samkvæmt upplýsingum á vef Vantrúar var vefritið Vantrú stofnað í ágúst 2003. Færslan á bloggi Matthíasar er frá 9. ágúst 2003 svo það hefur varla munað mjög mörgum dögum á stofnun Vantrúar og þessari færslu, auk þess sem á upplýsingasíðu Vantrúar kemur fram að áður höfðu einstakir stofnfélagar bloggað um sömu hugmyndafræði og þeir lögðu til grundvallar í stofnun vefrits Vantrúar.

Vissulega vantar á glærunni að skáletra orðið „Við“ eins og Matthías gerir í bloggfærslunni. Mér finnst það álíka stór glæpur og að í kærunni gleymdu Vantrúarfélagar að undirstrika nokkra stafi í sinni tilvitnun í færslu Matthíasar, þ.e. „Ekkert Undo, ekkert Copy-Paste“; Sem sagt alger sparðatíningur!

Ég get alls ekki séð að neinum veigamiklum atriðum sé sleppt úr texta Matthíasar, hvað þá að úrfellingin þjóni þeim tilgangi að „láta fullyrðingar Matthíasar virðast einfaldari en þær eru.“ Auðvitað er textinn styttur því hann á að komast á glæru. Meginatriðin halda sér en smáatriðum er sleppt.

Sama gildir um glæru 10, sem í kæru Vantrúar segir að sé „grófara [dæmi] því textinn á undan tilvitnun Bjarnastangast [svo] á við það sem hann vill sannfæra nemendur um, þar tekur Matthías fram að hann geti ekki fullyrt um „einhvern æðri mátt“.“ Haus beggja glæranna er Fullyrða vantrúarmenn um trúarleg efni? sem gefur til kynna að þetta sé eitthvað sem eigi að velta fyrir sér. Hvernig forsvarsmenn Vantrúar gátu vitað hvað kennarinn vildi sannfæra nemendur um eða yfirleitt að hann vildi sannfæra nemendur um eitthvað með þessari glæru er ofar mínum skilningi. Hér sýna Vantrúarfélagar mjög vel hvernig þeir geta í eyðurnar og spinna upp tóma vitleysu með eigin túlkun.

Í frekari umfjöllun Vantrúar um þessar glærur er bætt við: „Af hverju er leitað fanga á bloggsíðu Matthíasar og Arnar Bárðar? Matthías hefur skrifað fjöldmargar [svo] greinar á Vantrú auk þess hefur hann komið víða fram fyrir hönd félagsins.“ Þetta er eflaust alveg rétt. En Bjarni Randver vitnar víða í síðu Vantrúar og varla halda Vantrúarfélagar að þeir geti pantað í hvað er vitnað og hvað ekki af sínum skrifum, er það? Ég ítreka að um er að ræða pínulítinn bút af kennsluefni í námskeiði í Háskóla Íslands en ekki ítarlega auglýsingaherferð fyrir félagið Vantrú.

Um þessar glærur segir kennari námskeiðsins:

 Þó svo að tilvitnanirnar hafi verið margar er ekki þar með sagt að þær hafi allar verið teknar fyrir í kennslutímanum og lesnar upp. Um flestar þeirra var aðeins fjallað almennum orðum og nemendur hvattir til að leita þær uppi á netinu og kynna sér þær betur. Í þeim tilfellum þar sem ég staldraði við tiltekna tilvitnun ræddi ég um það samhengi sem hún er tekin úr. Ég tók það fram að þó svo að finna megi margvísleg viðhorf meðal vantrúarfélaga (eins og innan allra annarra trúarhreyfinga, jafnvel fastmótaðra sértrúarhópa sem viðhalda markvissu félagslegu taumhaldi) og allavega sumir þeirra hiki við að afneita tilvist vissra trúarlegra hluta eins og hvort einhvers konar „æðri máttur“ geti verið til, væri þó harla margt annað í trúarefnum sem þeir hefðu afdráttarlausa skoðun á og væru mikið til sameinaðir um. Í því sambandi greindi ég frá þeim fyrirvara sem Matthías Ásgeirsson gerði í ritdeilum sínum við sr. Örn Bárð Jónsson á Annáll.is árið 2004 þar sem hann útilokaði ekki tilvist æðri máttar þótt hann tæki fram að honum þætti það „ekki líklegt“ og teldi það raunar „fáránlega hugmynd“. En eins og víða annars staðar gekk Matthías þar mun lengra í yfirlýsingum sínum um trúarefni og hikaði ekki við að fullyrða þar um eitt og annað. Þetta er það sem ég taldi ástæðu til að árétta við nemendur með eftirfarandi tilvitnun í skrif Matthíasar á einni glærunni:

 „Aftur á móti fullyrði ég að kristnar sögur eru mýtur, Guð kristinna
manna fullkomin þverstæða og þar með ekki til og að ekkert bendir til
að Jesús hafi verið raunveruleg persóna og að það er fullkomlega
klikkað að trúa því að hann hafi framkvæmt kraftaverk, dáið á
krossinum og risið upp frá dauðum.“
 (www.gudfraedi.is/annall/ornbardur 18-8-04.)

 Sem fyrr lagði ég áherslu á að hvort hægt væri að bendla tilvitnanir á borð við þessa við trúarlega afstöðu væri komið undir því hvernig trúarhugtakið væri skilgreint. Það er hins vegar af og frá að ég hafi með tilvitnuninni viljað „sannfæra nemendur um“ að Matthías hafi verið að fullyrða um tilvistarleysi einhvers konar æðri máttar.
 (Bjarni Randver Sigurvinsson. Svar við kæru Vantrúar. Greinargerð lögð fyrir siðanefnd HÍ 2010, s. 75-76. Feitletranir eru mínar. Þetta er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi höfundarins til að vitna í það. Hér eftir verður vísað í skjalið sem Greinargerð Bjarna Randvers.)

Flest allt sem Vantrú finnur að glærunum um sig er í þessum sama dúr: Bjarni Randver hefur ekki valið réttar tilvitnanir (skv. hugmyndum þeirra að ekki megi vitna í einkablogg, athugasemdir sem félagar í Vantrú hafa skrifað á blogg annarra, ekki neitt áður en Vantrú var formlega stofnuð o.s.fr.); Bjarni Randver fellir úr textanum eitthvað sem Vantrú þykir skipta miklu máli en eru í rauninni alger smáatriði; þar er t.d. á einum stað um að ræða orðið „Já“ sem Vantrú staðhæfir í kæru sinni, s. 9, að skipti máli upp á túlkun [!]:
 

 Í fyrstu tilvitnun sést að Bjarni sleppir upphafi textans. Það sem ekki sést er að Bjarni lengir textann í raun því það sem hann sleppir eru tveir bókstafir, í staðin [svo] koma þrír punktar. Setningin hefst á orðin „Já“. Ef það orð væri með væri ljóst að Matthías er að svara spurningu. Sú staðreynd gæti haft áhrif á túlkun nemenda.
 
 

Kæra félagsins Vantrúar vegna glæra um annað en félagið sjálft

Blekking og þekkingAðallega fóru glærur um Níels Dungal og Helga Hóseasson fyrir brjóstið á félaginu Vantrú. Sjá má glærurnar og umfjöllun um þær á vef Vantrúar, III. Guðfræði í Háskóla Íslands: Níels Dungal og Helgi Hóseasson. Í kæru Vantrúar er glærum um Níels Dungal lýst á s. 3 og Vantrú túlkar þær þannig á sömu síðu:
 

 Þar með lýkur umfjöllun um bókina Blekking og þekking. Sú mynd sem fæst af Níelsi Dungal og riti hans er að þessi prófessor í læknisfræði hafi verið með hæpnar hugmyndir um göngulag Páls postula, talið vináttu óþekkta í Nýja testamentinu (hún er reyndar hvergi nefnd á nafn þar, ólíkt Hávamálum) og verið með undarlegar hugmyndir um mátt „orkutækninnar“. Er þetta ekki háðugleg útreið og skrumskæling frekar en einleig [svo] viðleitni til að koma til skila meginboðskap höfundar?

Um þetta segir kennari námskeiðsins:
 

 Í kæru vantrúarfélaga er ég ranglega sakaður um að gera ekki grein fyrir „megingagnrýni Níels“ því að henni lýsti ég sannarlega fyrir nemendum í kennslustundinni. Hins vegar er það alveg rétt að ég dreg fram gagnrýni frá einkum Páli V.G. Kolka lækni á bók Níelsar Dungals. Slík gagnrýni verður að teljast eiga erindi til háskólanemenda og eru sýnidæmin að hluta til valin í því samhengi […]

 Í fyrsta sýnidæminu sjúkdómsgreinir Níels Dungal Pál postula út frá því nafni sem hann bar fyrir trúarleg sinnaskipti sín, nafninu Sál, og Sigurð Sigvaldason hvítasunnupredikara í Reykjavík sem hann hefur augljósa andúð á. Jafnvel þótt vel geti verið að einhver guðfræðingur hafi einhvern tímann með umdeildum hætti leitast við að sjúkdómsgreina ýmsar persónur Biblíunnar út frá nöfnum þeirra verður það að teljast athyglisvert að prófessor í læknisfræði skuli hafa verið tilbúinn að sjúkdómsgreina biblíulega persónu með þessum hætti og alhæfa út frá því um eðli trúarreynslu.
 [- - -]
 Vantrúarfélagar hafa nýtt sér þessa ritskýringur Níelsar Dungals í málflutningi sínum og er það meginástæðan fyrir að ég vek athygli á henni.[…]
 (Greinargerð Bjarna Randvers s. 35. Feitletrun mín. Bjarni vísar í dæmi af málflutningi eins af forsvarsmönnum Vantrúar, Þórðar Ingvarssonar á eigin bloggi.)

 [- - -]

 Þá er ég gagnrýndur fyrir að birta síðu úr lokakafla bókarinnar, sem jafnframt er að finna í heild á vef Vantrúar, en þar dregur Níels Dungal saman niðurstöður sínar og fullyrðir:

  Í öllu Nýja testamentinu er hvergi minnzt á vináttu …

 Þessi yfirlýsing er merkileg í ljósi þess að fjöldi ritningartexta lýsa vináttu efnislega og eru með sama merkingarsvið, svo sem kærleikurinn í samfélagi bræðranna (eða „systkinanna“ eins og það er orðað í nýjustu biblíuþýðingunni). (Greinargerð Bjarna Randvers, s. 36.)

Bjarni rekur síðan fjölmörg dæmi um þetta og dæmi um að orðið „vinur“ komi fyrir í velþekktum sögum Nýja testamentisins. (Vantrúarmönnum til aukinnar upplýsingar nefni ég að orðið „vinátta“ kemur hvergi fyrir í Hávamálum þótt tönnlast sé á orðinu „vinur“ í nokkrum vísum í Gestaþætti Hávamála.) Hvað síðasta kæruefnið varðar segir kennarinn:

 Loks er ég kærður af vantrúarfélögum fyrir að birta síðu úr lokakafla bókarinnar þar sem Níels Dungal lýsir yfir trú sinni á mátt vísindanna sem leyst hafi trúarbrögðin af hólmi […]
 [Tilvitnun í glæru.]
 Það er merkilegt að einhver geti tekið þessari tilvitnun, sem birtir bjartsýna trú höfundarins á framfarir og aukin lífsgæði fyrir tilstilli vísinda, sem neikvæðri. Sömuleiðis er einkennilegt til þess að hugsa að það er sem ýmsir vantrúarfélagar álíti að kennari við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild líti vísindi og framfarir neikvæðum augum. Það er af og frá að þetta sé „háðugleg útreið og skrumskæling“ á „meginboðskap höfundar“ því hér er um að ræða hluti sem hann dregur sjálfur fram sem þýðingarmikla fyrir málflutning sinn. Meira að segja hafa forystumenn Vantrúar sjálfir áréttað mikilvægi kaflans með því að birta hann í heild á vef félagsins til að sýna að Níels Dungal hafi verið „brimbrjótur fáfræði og endalausrar trúgirni Íslendinga“ og frumkvöðull á sviði læknisfræði og vísinda í landinu.
 (Greinargerð Bjarna Randvers, s. 38. Feitletrun mín. Hann vísar í Blekking og þekking 1948 á vef Vantrúar 2005 en ég kræki hér í nýja útgáfu af greininni á vef Vantrúar. Hún er örlítið stytt frá 2005 en þar er einungis um léttvægar orðalagsbreytingar að ræða.)
 

Hér verður ekki gerð grein fyrir gagnrýni Vantrúar á glærurnar um Helga Hóseasson enda byggist sú gagnrýni mikið til á hinu sama og rakið hefur verið í sambandi við glærur um Níels Dungal, þ.e.a.s. vanþekkingu á efni námskeiðsins og kennslu þar, misskilningi og ótrúlegri túlkunargleði á mjög hæpnum forsendum.

Að lokum er rétt að geta þess að Bjarni Randver Sigurvinsson sendi öllum nemendum sínum bréf laust fyrir próf þar sem hann sagði m.a.:
 

 Þó svo að ég vonist til þess að glærurnar sem ég bjó til fyrir ykkur komi ykkur að gagni ber að geta þess að þær eru yfirborðskenndar í mörgum efnum og þið fáið verulega fyllri mynd af öllu með því að lesa þá bókakafla og þær greinar sem eru að finna í fjölritaða lesheftinu. Þess vegna er alls ekki nóg að lesa bara glærurnar.
 (Bjarni Randver Sigurvinsson: Kveðja og velfarnaðarósk. [Bréf til nemenda í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem sent var á póstlista þess 6. desember 2009.], s. 25 í Greinargerð Bjarna Randvers. Feitletrun mín.)
 
 

Næst verður fjallað um hvernig félagar í Vantrú reyndu að reka á eftir kærunum og hófu ítarlega umfjöllun um þær á vef Vantrúar. Og reynt að svara þeirri spurningu hvort félagar í Vantrú hafi byrjað markvisst einelti gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni fljótlega eftir að þeir sendu inn kærurnar sínar til siðanefndar HÍ, rektors HÍ og forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ.
 

Ég minni enn og aftur á að athugasemdir við þessa færslu á að gera undir fullu nafni. Af gefnu tilefni tek ég fram að leiðist umræðan út í nagg og níð einstaklinga hverra í annars garð verður þeim eytt.
 
 
 
 
 
 

Ummæli (32) | Óflokkað, Vantrú og siðanefnd HÍ