Færslur frá 30. janúar 2012

30. janúar 2012

Sókn Vantrúar gegn Bjarna Randver í fjölmiðlum

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Tilkynning 1. febrúar 2012: Nú er ég búin að fletta upp nokkrum Hæstaréttardómum og sé ekki betur en mér sé heimilt að vitna í tilvitnanir í tilvitnanir í það sem Vantrú kallar innra spjallið. Sérstaklega áhugaverðir dómar í þessu sambandi er dómur nr. 472/2008, þar sem staða jafningjanets er að nokkru skilgreind í lagalegu tilliti, og dómur nr. 541/2005, sem fjallar um friðhelgi einkalífs versus rétt til að birta upplýsingar sem varða almenning. Ég kem því bloggfærslunum tveimur í fyrra horf, þ.e. set aftur inn tilvitnanir í tilvitnanir í spjallþráðinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“. Þær eru auðkenndar með rauðum lit. Sem fyrr er heimild mín fyrir tilvitnunum í spjallþráðinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“ á spjallborði Vantrúar, sem einungis félagar í Vantrúar höfðu aðgang að (á annað hundrað manns), skjalið Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010). Þetta er vinnuskjal sem ekki er opinbert en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í. Þetta sama skjal er líka meginheimild mín fyrir hvaða umfjöllun Vantrú reyndi og tókst að ná í fjölmiðlum.

Um innra spjallið/lokuðu spjallþræðina segir félagið Vantrú í greininni Aðalfundur Vantrúar þann 18. janúar 2011:

 Ef forsíðan er andlit okkar er innra spjallið hjartað. Á það hópumst við eins og dýr að vatnsbóli (eða mý á mykjuskán) og sækjum þangað félagsskap, stuðning og styrk (eða nýjasta slúðrið og hneykslið í heimi bullukollanna). Innra spjallið lýtur eigin lögmálum sem ekkert okkar hefur stjórn á en hver sem þau eru er ljóst að þau svínvirka.“ (Feitletrun mín.)
 

Margt bendir til að búið hafi verið að ræða aðförina að Bjarna Randver Sigurvinssyni stundakennara í Háskóla Íslands um nokkurt skeið áður en félagið Vantrú kærði hann til þriggja mismunandi aðila innan HÍ. Um leið og kærurnar höfðu verið sendar var farið að huga að því hvernig mætti valda Bjarna Randveri sem mestum skaða og hluti þess líklega tilbúinn áður en hin fræga áríðandi tilkynning Reynis Harðarsonar sálfræðings, formanns Vantrúar barst. Aðalheimildi mín er skjalið Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010). Þetta er vinnuskjal sem ekki er opinbert en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í.

„Við munum berjast […] í fjölmiðlum þar til fullur sigur er unninn“

lesið dagblaðÞann 8. febrúar 2010 kynnti Reynir Harðarson á spjallþræðinum um Bjarna Randver uppkast að grein til Fréttablaðsins þar sem því er m.a. ranglega haldið fram að Bjarni Randver Sigurvinsson haldi því fram í kennslu að málflutningur trúlausra gegn trúarbrögðum sé vatn á myllu haturshreyfinga. Greinin fékkst ekki birt.

 Eftir yfirlýsinguna um heilaga stríðið 12. febrúar 2010 einbeittu forsvarsmenn Vantrúar sér um hríð að því að birta greinar gegn Bjarna Randveri á eigin vef, daglega þann 15.-19. febrúar, auk þess að tjá sig ítarlega um þær, sem og aðrir félagsmenn og áhangendur félagsins. (Sjá greinar I-V í efnisflokknum Háskólinn á vef Vantrúar og umræðuþræði við þær.)

Þann 18. febrúar 2010 sendi Vantrú grein um smán HÍ til  Fréttablaðsins ásamt glærunum um „Frjálslyndu fjölskylduna“ og bréfum félagsins til Péturs Péturssonar deildarforseta en ekkert af þessu fékkst birt.

Þann 18. febrúar mætti Reynir Harðarson í viðtal hjá Ævari Kjartanssyni hjá Ríkisútvarpinu. Þessum þætti, Okkar á milli, var útvarpað 3. mars 2010 (krækt er í upptöku þættinum). Í viðtalinu er Reynir einkar yfirvegaður, hljómar einlægur og slær jafnvel á létta strengi. Hann minnist ekki sérstaklega á Bjarna Randver eða glærurnar í kúrsinum Nýtrúarhreyfingar. En í ljósi þess sem sjá má eftir Reyni annars staðar er dálítið merkilegt hve hann málar hlutskipti Vantrúarfélaga dökkum litum, þeir eru nefnilega mikil fórnarlömb:
 

 33.30 mínúta
 En við megum þola það að sko … kannski er það vegna þess að kirkjunnar menn halda úti þeim áróðri að við séum hættulegir menn og siðlausir að fólk hefur jafnvel illan bifur á Vantrú: Þetta eru orðljótir menn og bara dónar og frekjur. Ég mátti finna fyrir þessu þegar ég fór að berjast gegn Vinaleiðinni í skólum. Skólastjórinn lét hafa eftir sér í blaði að það að fetta fingur út í veru prests í skólanum væri ofstæki sem jaðraði við frekju, nei það var öfugt,  frekja sem jaðraði við ofstæki. Og hérna, það eru svo margir sem skilja ekki hvernig í ósköpunum geturðu verið á móti því að börn fái aðstoð í skólum? Það er eins og þarna fólk getur ekki … fólk skilur ekki hvað maður getur haft á móti skírn eða hvernig geturðu verið að fetta fingur út í skírn. Það er af því fólk hugsar ekki alla leið!
 […]
 34.00 mínúta
 Jújú, ef að einhver vogar sér að tjá sig um … um trúmál þá er stutt í ofstækisstimpilinn í rauninni í hvora áttina sem er, sko hvort sem þú ert að mæla með henni eða á móti henni. En ef þú ert á móti henni þá ertu siðlaus í þokkabót!

Undir lok þáttarins spyr Ævar Kjartansson hvort Reynir ætli að leggja einhverjar sérstakar áherslur, sem nýr formaður Vantrúar.

 Ævar Kjartansson: […] Nú ert þú tekinn við forystu í Vantrú - hvernig sko sérðu baráttuna fyrir þér? Það liggur þetta orð á ykkur að vera ofstækisfullir, dónalegir jafnvel í ykkar skrifum og því sem þið haldið fram. Ætlar … ert þú … hvernig ætlarðu að sigla þessari skútu?

 Reynir Harðarson: Ég svosem sigli ekki skútunni - við erum ekki með svona hírarkí eins og venjulegar stofnanir. Þetta er mjög sundurleitur en um leið samstilltur hópur og hérna hver og einn fær að gera það sem honum sýnist meira og minna. Ég ætla ekki að vera sko… þagga niður í mönnum eða breyta stíl á einn eða neinn hátt … ég ætla að halda áfram og ég ætla að hvetja menn tilsað hugsa málið og benda á villur þegar þær koma fram.

 Ævar: Er það hið gagnrýna viðhorf sem sameinar ykkur fyrst og fremst, það að vera gagnrýninn?

 Reynir: Ég held það. Og þetta er ákaflega heillandi og skemmtilegur félagsskapur. Þarna innan Vantrúar eru menn sem eru með mikla þekkingu á ólíkum sviðum, meirihluti ábyggilega háskólagenginn mmmm nokkrir sálfræðingar, það eru þjóðhátta .. eh, já, þjóðfræðingur, tölvunarfræðingar, eðlisfræðingar, stjörnufræðingar, líffræðingar og svo framvegis og svo framvegis. Og það er mjög gaman að sjá semsagt hversu samstilltur svona hópur er. Það hefur nú oft verið talað um það að trúleysingjar séu svo miklir einstaklingshyggjumenn eða skrítnir kallar, að ætla að reka þá í hóp sé eins og ætla að smala köttum. En það er ekki okkar reynsla í Vantrú, við náum ótrúlega vel saman og aldrei hefur komið upp sundurþykkja eða deilur um áherslur og hvar þær eiga að liggja. Þetta er … skútan siglir sig nokk sjálf, merkilegt.

hópur menntamannaÓneitanlega er þarna dregin upp lokkandi mynd af félaginu og Vantrú virðist vera hið ákjósanlegasta kompaní skv. lýsingu Reynis. Félagar í Vantrú eru að vísu ofsóttir af kirkjunnar mönnum og jafnvel stimplaðir siðlausir af því fólk skilur þá ekki en vilji menn vera í góðum fórnarlambafélagsskap virðist Vantrú kjörinn klúbbur gagnrýninna menntamanna þar sem aldrei kemur upp sundurþykkja. Er ekki dálítið skrítið að svoleiðis félagsskapur mæli með „all out attack“ á Bjarna Randver Sigurvinsson og skipuleggi þá árás, m.a. með „einhvern háðs-gjörning“ í janúar 2010? (Sjá tilvitnanir í orð Reynis í fyrri færslu, Bardagaaðferðir Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni.) Og ef Vantrúarskútan er á sjálfstýringu, af hverju þurfti þá Reynir formaður að skipuleggja aðförina gegn Bjarna Randveri og leggja sitt af mörkum til að hrinda henni í framkvæmd? Og eru orð Reynis Harðarsonar daginn eftir að viðtalið var tekið ekki dálítið á skjön við hinn rólega, viðsýna menntamann sem hljómaði í viðtalinu?

 Hversu ómerkilegir geta menn verið? Að vega að manni berskjölduðum úr launsátri í fílabeinsturni sínum með skykkju menntagyðjunnar á öxlum sér, og svara svo ekki fyrir skítkastið þegar upp um það kemst eða biðjast afsökunar.

 Eftir þessa brunnmigu guðfræðingsins hefur orðið hlandspekingur öðlast nýja merkingu í mínum huga.

 Og mærðarlegt mal um þvertrúarleg samskipti aumkunarvert aðhlátursefni og hræsnin ein.
 

Það er líka áhugavert að skoða ummæli Reynis Harðarsonar í athugasemdaslóða daginn eftir að þátturinn fór í loftið en Vantrú vakti sérstaka athygli á þættinum þann 4. mars 2010.

Þann 24. febrúar 2010 mætti Matthías Ásgeirsson fyrrverandi formaður Vantrúar í viðtal hjá vantrúarfélaganum Frosta Logasyni í útvarpsþættinum Harmageddon. Því miður hefur mér ekki tekist að hafa upp á því viðtali en efast ekki um að Matthías hafi verið álíka yfirvegaður og mikill ljúflingur og Reynir var í viðtalinu við Ævar Kjartansson.

Á spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“ þann 25. febrúar 2010 talaði Reynir Harðarson svo um að auka þrýstinginn á „þessa lúða“ í gegnum fjölmiðla þegar aðalgreinaherferðinni gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni á vef félagsins væri lokið. Óli Gneisti Sóleyjarson, fyrrverandi formaður Vantrúar, stakk upp á þeim möguleika á innri vefnum að gera grein fyrir gagnrýni félagsmanna í Stúdentablaðinu og á student.is þann 26. febrúar 2010 og daginn eftir vildi Óli Gneisti greinaskrif í dagblöð sem myndu skila sér inn á póstlista allra starfsmanna HÍ.

Þann 12. mars 2010 birti DV frétt um viðbrögð Péturs Péturssonar deildarforseta við kæru Vantrúar. Traustsyfirlýsingunni í garð Bjarna Randvers Sigurvinssonar, sem finna mátti í bréfi Péturs Péturssonar til Vantrúar, er ekki getið, enda heimildin bersýnilega vefur Vantrúar. (Bréf Péturs Péturssonar var birt á vef Vantrúar 10. mars 2010 en stuðningsyfirlýsing Péturs við Bjarna Randver, hér auðkennd með fjólubláu var felld út, án þess að auðkenna það: „Niðurstaða mín er þessi: Tekið verður mið af athugasemdum félagsins Vantrúar við einstaka glærur og kynningu á því ef námskeiðið verður kennt aftur. Um þetta erum við Bjarni Randver sammála. Ég vil einnig taka það fram að hann nýtur fulls trausts míns sem kennari í trúarbragðafræði.“ Þann 14. mars endurbirti DV sömu frétt með sömu úrfellingu, undir fyrirsögninni Vantrúarmenn beygja guðfræðinga og fylgdi ljómandi falleg mynd af Reyni Harðarsyni sálfræðingi, formanni Vantrúar.

Þann 16. apríl 2010 hringdi Þórður Harðarson, formaður siðanefndar HÍ,  tvisvar í Reyni Harðarson og áttu þeir „mjög hreinskilið samtal“. Reynir kallar Þórð enda „eðalkarl“. Þórður benti Reyni á að „sáttatillaga“ siðanefndar HÍ (þar sem guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ er neydd til að sættast við Vantrú) muni verða birt á vef háskólans þar sem fjölmiðlar hafi aðgang að henni og geti vantrúarfélagar notað hana eins og þá lysti. Kennarafundur í guðfræði-og trúarbragðafræðideild hafnaði hins vegar „sáttartillögu“ Siðanefndar HÍ og breytingartillögu þann 21. apríl 2010.

TékklistiÞann 7. júní 2010 sendi Reynir Harðarson formaður Vantrúar ítarlega greinargerð, frá sjónarhóli félagsins, um kæruna og gagnrýni á Bjarna Randver Sigurvinsson á alla helstu fjölmiðla, m.a. Smuguna, Fréttablaðið og Ríkissjónvarpið. Aðeins Smugan brást við með fréttaumfjöllun. Þar birtist frétt um kæruna og eina glæru daginn eftir. Í fréttinni eru margar villur, t.d. í fyrirsögninni. Í umræðuþræði kemur fram að blaðamaðurinn studdist aðallega við 5 síðna greinargerð Vantrúar. Reynir Harðarson upplýsir að Þórður Harðarson formaður Siðanefndar HÍ sé svo vammlaus að hann hafi í hyggju að segja af sér sem formaður vegna þess hvernig guðfræði- og trúarbragðafræðideildin hafi haldið á málinu. Þorsteinn Vilhjálmsson siðanefndarfulltrúi varpar allri ábyrgðinni á töfum í málinu á guðfræði- og trúarbragðafræðideild sem hafi verið svo lengi með það. Í umræðuþræðinum kemur fram að mörgum finnst kæra Vantrúar fráleit en félagið á sér einnig málsvara. Frétt Smugunnar var svo kynnt á forsíðu Eyjunnar.

Þessi ítarlega greinargerð Reynis Harðarsonar er athyglisverð í ljósi þess að á þriðja degi eftir að hann sendi hana í fjölmiðla, þann 9. júní 2010, tilkynnti Reynir félögum sínum á spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“ að Þórður Harðarson hafi beðið sig um að tilkynna ekki afsögn sína „fyrr en við hefðum heyrt frá öðrum svo fréttirnar verði ekki raktar til hans“. Væri áhugavert að vita hvort félagarnir á spjallþræðinum hafi yfirhöfuð tekið eftir þessu misræmi í gerðum og tilmælum síns formanns.

Um sumarið verður þeim forsprökkum Vantrúar sem skipulögðu og hrintu „heilaga stríðinu“ í framkvæmd smám saman ljóst að málum þeirra kunni að vera komið í óvænt efni. 21. júní 2010 segir  Reynir Harðarson, formaður Vantrúar, á spjallþræðinum um Bjarna Randver, að ef Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ svari ekki félaginu sé „mál að taka upp kyndla og heykvíslar“. Í framhaldi af því dettur spjallendum í hug að þrýsta á menntamálaráðherra og talað er um á spjallþræðinum „að ráðast á ALLA fronta samtímis, fjölmiðla, HÍ, ráðherra“ um haustið.

Í herbúðum Vantrúar er svo hljótt fram á haust. En 21. september 2010 skrifaði Reynir Harðarson formaður Vantrúar grein í Fréttablaðið þar sem hann staðhæfði aftur (með röngu) að Bjarni Randver Sigurvinsson héldi því fram að málflutningur Vantrúar fordæmdi m.a. minnihlutahópa á borð við gyðinga. Grein Reynis Harðarsonar gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni var einnig birt á vef Vantrúar, sjá Skinhelgi kirkjunnar.
 
 

Um hálfu ári síðar syrti verulega í álinn fyrir félagið Vantrú

Þann 28. apríl 2011 hélt Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ fund með fulltrúa/fulltrúum Vantrúar og Ingvari Sigurgeirssyni formanni siðnefndar HÍ í þessu máli. Á þeim fundi féllst Vantrú á að draga kæru sína til baka.

13. maí 2011 birtist frétt í Fréttablaðinu um þá ákvörðun Háskólaráðs að skipa óháða nefnd til að rannsaka vinnubrögð siðanefndar HÍ í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni. Dregin er fram gagnrýni á störf Þórðar Harðarsonar fyrrverandi formanns Siðanefnar HÍ í kærumálinu sem síðan hafi verið skipaður aftur formaður hennar til þriggja ára. Þó svo að rannsóknarnefndin hafi ekki enn hafið störf segir Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ að Þórður njóti hennar „fyllsta trausts“.
 
 

En félagar í Vantrú voru þó ekki alveg af baki dottnir og settu nú traust sitt á annars konar aðför að Bjarna Randver Sigurvinssyni

LöggaÞann 26. maí 2011 hringdi vantrúarfélagi í Bjarna Randver Sigurvinsson og sagðist hafa þurft að beita félaga sína þrýstingi til að fá að gera það áður en þeir létu til skarar skríða gegn honum. (Þessi vantrúarfélagi og fyrrum stjórnarmaður í Vantrú er fyrrverandi nemandi Bjarna Randvers.) Hann sagði Bjarna Randveri að vantrúarfélagar myndu fara til lögreglunnar á hádegi daginn eftir til að kæra hann og yrði það stórmál sem færi í alla fjölmiðla. Bjarni Randver gæti þó gert tvennt til að koma í veg fyrir það. Í fyrsta lagi verði hann að gefa upp nafn þess einstaklings sem lak gögnum af innri vef Vantrúar til hans. Sá einstaklingur muni engan skaða hljóta af því. Í öðru lagi verði Bjarni Randver að sjá til þess að öllu efni af innri vefnum (spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“) verði eytt. Ef hann geri það verði hægt að leysa málið farsællega og vantrúarfélagar muni ekki beita sér gegn honum. Lekinn sé alvarlegur og hefði t.d. stórskaðað Reyni Harðarson formann Vantrúar og fyrrverandi formennina Óla Gneista Sóleyjarson og Matthías Ásgeirsson. Bjarni Randver neitaði.
 

Forsprakkar Vantrúar gerðu svo alvöru úr því að kæra til lögreglu. Skv. upplýsingum Þórðar Ingvarssonar, stjórnarmanns í Vantrú, kærðu þeir innbrot á vefþjóninn sinn og þjófnað á trúnargögnum. Mér er ókunnugt um hvort þeir kærðu einhvern tiltekinn aðila fyrir þennan þjófnað og einnig ekki ljóst hvort þeir hafi kært einhvern fyrir að dreifa þessum gögnum. Það væri ágætt ef forsvarsmenn Vantrúar upplýstu um það finnist þeim það skipta máli. 

Þann 3. desember 2011 birtist svo ítarleg fréttaskýring Barkar Gunnarssonar um kærumálið og afdrif þess í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins (dagsett 4. desember 2011) undir fyrirsögninni „Heilagt stríð Vantrúar“. Eftir að hún birtist og viðtal við Bjarna Randver Sigurvinsson í Kastljósi í kjölfarið má segja að forsprakkar Vantrúar hafi dregið hratt í land og haldi nú annars vegar fram að erindi þeirra til hinna þriggja aðila innan HÍ hafi verið sárasaklaust og hins vegar að þeir sjálfir séu hin raunverulegu fórnarlömb í málinu. Þeir telja sig hafa ekki átt greiðan aðgang að fjölmiðlum, sem passar ágætlega við fórnarlambshlutverkið sem þeir nú gegna en raunveruleg skýring er væntanlega einfaldlega sú að greinarnar sem þeir vilja koma í fjölmiðla eru of langar miðað við skilyrði sem sett eru aðsendum greinum.

Þann 29. desember 2011 birti félagið Vantrú grein á sínum vef og þykjast félagarnir illa sviknir af því að hafa ekki komið henni í Morgunblaðið:

 Vantrú fékk vilyrði fyrir því frá blaðamanninum að félagið fengi birta grein þar sem ásökunum yrði svarað og rangfærslur leiðréttar. Svar Vantrúar átti að birtast í sunnudagsblaði Morgunblaðsins þann 18. desember. Ritstjórn Morgunblaðsins hefur neitað að birta greinina og þess í stað boðið félaginu að senda inn lesendabréf og birta það undir liðnum umræðan. Við sögðum pass og birtum greinina því hér á Vantrú. (Sjá Um „Heilagt stríð“ og „einelti“ Vantrúar)
 

Nánar verður fjallað um þessa grein og fleiri greinar og ummæli félaga í Vantrú á Vefnum eftir að fréttaskýring Barkar um kærumálið og afdrif þess birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þann 4. desember 2011 síðar.

En í næstu færslu verður fjallað um fleiri aðferðir sem félagið Vantrú viðhafði í sínu „heilaga stríði“ gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og síðar stuðningsmönnum Bjarna Randvers.
 
 

Ummæli (51) | Óflokkað, Vantrú og siðanefnd HÍ