Færslur frá 9. febrúar 2012

9. febrúar 2012

Hvað sögðu nemendur og kennarar um kennslu og glærur Bjarna Randvers?

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Sjö nemendur sem setið höfðu þann fræga kúrs Nýtrúarhreyfingar á haustmisseri 2009 skrifuðu greinargerðir um reynslu sína af kennslu Bjarna Randvers Sigurvinssonar. Fyrsta greinargerðin var skrifuð í desember 2010 en hinar í maí 2011. Tvær greinargerðanna voru sendar inn að frumkvæði nemendanna sjálfra en hinar að beiðni háskólakennara um að nemendur lýstu reynslu sinni. Siðanefnd HÍ var afhent a.m.k. fyrsta greinargerðin (sem nemandinn skrifaði að eigin frumkvæði). Ég veit ekki hvort siðanefndin fékk hinar greinargerðirnar en siðanefnd óskaði sjálf aldrei eftir greinargerðum frá nemendum í námskeiðinu. Hefði þó mátt ætla að nemendur væru tilbúnir að greina heiðarlega frá reynslu sinni, hafandi lokið þessu námskeiði og fengið einkunn í því. Aftur á móti datt þeirri siðanefnd sem laut forystu Ingvars Sigurgeirssonar prófessors í kennaradeild Menntavísindasviðs HÍ í hug að fá aðgang að prófúrlausnum nemenda [!] en hafði þá fengið niðurstöður kennslukönnunar í Nýtrúarhreyfingum í hendurnar og ýmis önnur gögn um kúrsinn. Næstu færslur verða um siðanefnd HÍ og hennar störf og verður hún ekki meir til umræðu hér.

Heimild mín fyrir greinargerðum nemenda og háskólakennara er Greinargerðir og andmæli. Vegna kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (kærumál nr. 1/2010). Þetta er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi Bjarna Randvers Sigurvinssonar fyrir að vitna í það. Að sögn Bjarna Randvers gáfu nemendur og háskólakennarar leyfi fyrir því að vitnað væri opinberlega í greinargerðir sínar. Í færslunni kýs ég að nafngreina ekki nemendur í hópi greinargerðahöfunda.
 

Í greinargerðum nemenda gengur sem rauður þráður vottun þeirra um að Bjarni Randver hafi sérstaklega gætt hlutleysis í umfjöllun, svo mjög að eftir var tekið, sem og reynt að leggja þunga áherslu á gagnrýna hugsun og sjálfstætt eigið mat nemenda á því efni sem til umfjöllunar var. Sem dæmi má nefna þessa klausu úr bréfi nemanda sem kom úr annarri deild en tók þennan kúrs og nokkra aðra í guðfræði-og trúarbragðafræðideild, skrifað í desember 2010 (nemandinn var ekki jafnhrifinn af kúrsunum sem hann sat hjá öðrum kennurum í deildinni):
 

 Þar fann ég að kvað við annan tón, þar sem megináherslur Bjarna í þessum þremur námskeiðum voru að nota gagnrýna hugsun og hann hvatti ávallt til þess að málefnin væru skoðuð frá sem flestum sjónarhornum. Hann hvatti nemendur til að kynna sér sjálfir vel það efni sem til umfjöllunar var. Hann benti á heimasíður, bækur, blaðageinar [svo], sjónvarpsþætti, kvikmyndir og sá m.a. til þess að nemendur gætu heimsótt kirkjudeildir og trúarhópa. Þær bækur og kvikmyndir sem hann benti nemendum á gerði hann okkur einkar aðgengilegar með því að hafa bækurnar meðferðis í tíma og við fengum þar með beinan aðgang að viðkomandi ritum. Á mínum námsferli innan HÍ upplifði ég hvergi eins góða leiðsögn um ýtarefni og aðgengi að gögnum eins og undir leiðsögn Bjarna Randvers. Þar að auki var hann alltaf reiðubúin [svo] að veita nemendum aðgang að gagnasafni sínu og spjalli um viðkomandi málefni […].
 [- - -]
 Ég lít svo á að það sé Háskólanum til sóma að hafa slíkan kennara. Mann sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á efninu, sem og góðan aðgang að heimildum. Mann sem er ávalt reiðubúninn að ræða málin fordómalaust við nemendur.
 

Nemendum virðist hafa komið talsvert á óvart að einmitt þessi kennari hafi verið kærður fyrir „siðleysi“ í kennslu, þ.e. það sem félagið Vantrú taldi siðleysi byggt á túlkun félagsmanna á örlitlum hluta kennsluefnis. Í maí 2011 skrifar annar nemandi:
 

 Mér er kunnugt um ásakanir þær er Bjarni Randver situr undir að ósekju. Sem nemandi varð ég ekki vör við neitt í kennslu Bjarna Randvers, framkomu hans eða orðavali sem gæti rennt stoðum þær. Þvert á móti er það mat mitt, að kennarinn hafi verið málefnalegur í allri kennslu sinni og umræðu um trúarbrögð, trúfélög, samtök, lífsskoðanir, stefnur og strauma, hverju nafni sem það gengur undir. Engu var slegið fram án rökstuðnings, ekkert sagt sem ekki var hægt að vísa til í efni kennara, jafnt glærum sem öðru kennsluefni. Mér þykja þær ásakanir furðu sæta er Bjarni Bjarni Randver sætir og er kunnugt um að aðrir nemendur er sátu námskeiðið eru einnig forviða yfir málinu í heild sinni. Sé ekki unnt að stunda kennslu við æðstu menntastofnun íslensku þjóðarinnar, án þess að eiga á hættu að fá kæru fyrir það eitt að segja sannanlega og málefnalega frá viðfangsefnum, aðstæðum og atburðum, þá tel ég að verið sé að vega að trúfrelsi, málfrelsi, skoðanafrelsi, akademískum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun. Illa mun komið fyrir æðstu menntastofnun þjóðarinnar, þegar ekki er talið æskilegt að ræða efni, þótt málefnalega sé með farið, sem hagsmunahópar telja að varpi óæskilegu ljósi á sig og sína. Hvar er þá gagnrýnin hugsun og akademísk vinnubrögð? Er hér verið að fórna akademískum heilindum fyrir popúlisma?

Eins og þessi nemandi bendir á er viss hætta fólgin í því ef háskólakennsla á að litast af þjónkun við þá aðila sem eru til umfjöllunar í kennslunni. Þá verði akademísk vinnubrögð fyrir bí. Raunar virðast allir nemendur sem skiluðu inn greinargerðum vera sama sinnis. Og allir ljúka þeir miklu lofsorði á kennslu einmitt þessa kennara, yfirburðaþekkingu hans á viðfangsefninu (nýtrúarhreyfingum) og stöðuga hvatningu til að skoða mál frá sem flestum hliðum. Það er dálítið merkilegt að enginn nemandi sér ástæðu til að taka hið minnsta undir gagnrýni félagsins Vantrúar. Hafi félagið Vantrú átt sér einhvern málsvara í hópi nemendanna hefur sá a.m.k. ekki þorað að stíga fram og senda umsögn þar að lútandi.

Einn nemandinn tekur fram að hann sé guðleysingi og hafi verið vel kunnugur Vantrú áður en námskeiðið hófst þótt hann sé ekki sammála félaginu um allt, en sammála sumu, s.s. baráttu félagsins Vantrúar fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Þessi nemandi segir, í maí 2011:

 Ég fyrir mitt leyti má til með að segja að ég var búin að kynna mér Vantrú löngu áður en ég sat þennan kúrs og þótti mér umfjöllunin í kúrsinum ekki sverta álit mitt á félaginu að neinu leyti. Ég man sérstaklega eftir því að Bjarni benti á heimasíðu Vantrúar, eins og hann gerði yfirleitt þegar hann vissi af aðgengilegum heimasíðum þeirra hópa sem fjallað var um í námskeiðinu. Ég man þetta vegna þess að [ég] hafði ekki farið inná vef Vantrúar þá í nokkurn tíma og smellti mér einmitt inná vefinn annað hvort í þessum sama tíma eða eftir tímann.

 Ég má einnig til með að benda á að ég veit lítið hverjir af kennurum mínir tengjast Þjóðkirkjunni og hverjir ekki. Ég þekkti heldur ekki neitt til Bjarna áður en ég sat kúrsinn, hef aldrei spjallað við hann einan eða kynnt mér hans skoðanir persónulega. T.d. þykir mér mjög athugaverð gagnrýni sem snýr að því að Bjarni sé með einhversskonar trúvörn fyrir Þjóðkirkjuna. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að alla önnina sat ég og velti því fyrir mér í hvaða trúfélagi Bjarni væri eigilega í, ef einhverju, því ég var sannfærð um að hann gæti allavega ekki verið í Þjóðkirkjunni. Líklega var það vegna þess hve gagnrýninn kennari Bjarni er. Aldrei komst ég að neinni niðurstöðu, og ekki spurði ég hann, en þóttist ég nú aldeilis viss að hann væri allavega ekki kristinn og líklega guðleysingi eins og ég!

Sami nemandi lýsti glærunotkun í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar:

 Bjarni er einn af þeim fjölmörgu kennurum sem nota glærur mikið til hliðsjónar og raunar hefur oft komið til að ekki hefur náðst að fara í gegnum allar glærurnar í tíma hjá Bjarna þar sem hann er frekar langorður og mjög duglegur að svara spurningum nemanda. Það má alveg geta þess að Bjarni eins og margir kennarar sem ég hef haft getur stundum talað á bilinu 5-35 mínútur á meðan ein og sama glæran er fyrir aftan hann, og farið um víðan völl án þess að viðkomandi glæra sé endilega einhver samantekt á því sem hann er að kenna hverju sinni. Auðvitað eru oft svoleiðis glærur inn á milli, ekki síst þegar kemur að kenningum og fræðilegum hugtökum og skilgreiningum sem þarfnast stuttrar hnitmiðaðrar útskýringar. Það eru ekki allir kennarar sem mata nemendur með þurri samantekt af fyrirlestrinum sem fólk ætti að geta hlustað á. Bjarni er einmitt einn þeirra sem hafa glærur sem eru ekki endilega með meginatriðum, heldur kannski bara til þess að benda á eitthvað áhugavert, eða t.d. myndir, bókarkápur eða eitthvað sem kann að vera til vitnis um það sem fjallað er um, eða jafnvel glærur sem innihalda alger aukaatriði, annað hvort á undan langri ræðu eða á eftir. Því má segja að ég skilji áhyggjur Vantrúar varðandi þetta því ég sé hvernig sumar glærurnar geta virst utanaðkomandi aðila sem ekki sat námskeiðið skringilegar. En það ætti vonandi nú að vera orðið ljóst að það að skoða glærurnar sem koma fram í tímum er ekki besta leiðin til þess að komast að því hvað fram fór í tímum. Að skoða glærurnar eru [svo] þannig í raun svipað eins og að lesa bók og skoða bara myndirnar.

 


Tíu háskólakennarar skrifuðu greinargerðir sem tengdust kærum Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, í september og október 2010. Þær voru afhentar siðanefnd HÍ þann 7. desember 2010. Í þessum greinargerðum reyndu háskólakennarnir að meta hvort hin kærðu atriði ættu við rök að styðjast, þ.e.a.s. hvort eitthvað væri athugavert við þessar glærur og kennslu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar. Auðvitað kynntu háskólakennararnir sér einnig í hvaða samhengi glærurnar voru notaðar. Niðurstaða allra er að kæra Vantrúar sé byggð á vanþekkingu og misskilningi, að glærurnar passi ágætlega inn í kennsluefnið og hvorki glærur né kennsluefni brjóti gegn siðareglum Háskóla Íslands. Þeir sem finna að glærunum nefna að þær séu full margar og of mikið efni á þeim sumum, til dæmis að Bjarni Randver hefði mátt stytta tilvitnanir að mun. Skýrt er tekið fram að gagnrýnin „of margar glærur og of mikið efni“ lúti að kennslufræði, kæra Vantrúar hafi ekki snúist um kennslufræði og auk þess séu úrskurðir um kennslufræðilegar aðferðir ekki á könnu siðanefndar Háskóla Íslands.Hér verður gripið niður í nokkrar klausur í örfáum greinargerðum háskólakennaranna en enginn vegur er að gera grein fyrir öllu sem í þeim kemur fram eða vitna í allar greinargerðir. Það er líka óþarfi því í þeim kemur yfirleitt fram hið sama þótt hver skrifi óháð öðrum. Menn nefna gjarna í greinargerðunum hvað felst í akademískum vinnubrögðum og rökstyðja að slík vinnubrögð séu æskileg í háskólakennslu (alveg eins og nemendur gera, t.d. þessi sem spurði hvort ætti að fórna akademískum vinnubrögðum fyrir pópúlisma).

 Af gögnum þeim sem Bjarni Randver leggur fram má ráða að hann er einkar samviskusamur kennari. Hann horfist í augu við að hann hefur sérhæft sig í efni sem menn hafa afar skiptar skoðanir á og leitast við að vinna í samræmi við það. Hann setur viðfangsefnið í sögulegt og félagslegt samhengi; vísar nemendum á margvíslegt fræðiefni og kynnir ekki aðeins þær kenningar og þau hugtök sem hann nýtir frekast heldur greinir frá gagnrýni á hvorttveggja. Þar með sinnir hann einni meginskyldu hákólakennara: Hann skapar í upphafi námskeiðs grundvöll sem nemendur geta unnið á – burtséð frá þeirri leið sem hann velur sjálfur að fara í kennslunni – og ýtir undir að þeir tileinki sér námsefnið sem sjálfstæðar, hugsandi og gagnrýnar manneskjur. Til fyrirmyndar má kallast að þessu fylgir hann eftir í lok námskeiðs þegar hann vekur nemendur með formlegu bréfi sérstaklega til umhugsunar um hlutlægni og bendir á að „félagslegur bakgrunnur […], umhverfi og skoðanir setja óhjákvæmilega mark sitt á framsetningu […] og áherslur“ manna (Svar við kæru Vantrúar, bls. 19). Eftirtektarvert er að í kæru Vantrúar er hvergi vikið að grundvelli námskeiðsins og þeim ramma sem því er settur heldur einvörðungu fjallað um glæruhópa og stakar glærur.

 Glærur Bjarna vitna meðal annars um hve einlægan áhuga hann hefur á viðfangsefni sínu, hversu miklu efni hann hefur safnað og hve óspart hann miðlar þekkingu sinni til nemenda. Á mörgum glæranna er greining á atriðum sem hann hefur fyrr vikið að – t.d. dæmastiklur um viss einkenni á verkum ákveðinna manna/hreyfinga eða tengsl hugmynda tiltekinna manna – og því eru þær harla fánýtt umræðuefni séu þær slitnar úr samhengi eins og gert er í kæru Vantrúar. En þar eð kæran byggist ekki síst á túlkun á glærum slitnum úr samhengi er vert að taka dæmi um hvernig túlkunin er:

 [- - -]

 […] Vantrú vekur sérstaka athygli á ákveðnum glærum t.d. þeirri sem heitir Orðbragð. Á henni setur Bjarni upp lista yfir orð sem ýmsir vantrúarfélagar hafa notað um þá sem þeir hafa litlar mætur á. Vantrúarmenn telja þetta vera „lista af dónaskap“ sem Bjarni hafi „dundað sér við að safna“ […], og finna að því að orðin séu slitin úr samhengi. Aftur er höfðað til tepruskapar lesenda og í sömu mund reynt að draga upp mynd af Bjarna sem manni er unir sér við „dónaskap“. Þegar menn fást við að greina orðræðu er það nauðaalgengt að þeir dragi fram ákveðin einkenni hennar, hvort sem það eru sértæk lýsingarorð, samtengingar af ákveðnu tagi, stóryrði eða útdráttur. Athugasemd Vantrúarmanna er því gagnrýni á hversdagsvinnubrögð við textagreiningu – svo ekki sé minnst á hve ósannfærandi það er að þeir telja „óhæfu að birta svona lista án samhengis“ […]  – í sömu mund og kæra þeirra byggir á efni slitnu úr samhengi.
 [- - -]
 Vantrúarmenn gagnrýna Bjarna Randver einkum fyrir beinar tilvitnanir sem hann tekur og þeir telja m.a. að ættu að vera aðrar en þær eru eða þeir geta sér til um að hann setji í þetta eða hitt samhengið – sem þeim líkar ekki. Eftir að hafa lesið svar Bjarna kemst ég sem trúleysingi að annarri niðurstöðu en Vantrú. Mér finnst Bjarni hafa lagt mér í hendur kenningar, skilgreiningar og hugtök sem ég get farið í samræðu við og dregið af þær ályktanir sem mér og trúleysi mínu henta. Og einmitt þannig á háskólakennari að standa að verki. Eins og ég vék að fyrr, þarf hann að gera viðfangsefni sínu þau skil að aðrir geti nýtt sér það á annan veg en hann; þá gerir hann sitt til að kveikja nýjar hugmyndir og nýja sýn.

 Ég fæ í stystu máli ekki betur séð en Bjarni Randver sé grandvar kennari sem hafi vandað sig mjög við kennslu sína og eigi síst af öllu skilið áminningu fyrir hana.
 

 (Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum Íslensku- og menningardeild, Háskóla Íslands.)

Í sama streng tekur annar kennari og vísar sérstaklega í gagnrýni félagsins Vantrúar sem kemur fram í kæru félagsins til siðanefndar HÍ og fleiri aðila:

 Málatilbúnaður þessi vekur nokkra furðu, svo ekki sé minna sagt, og virðist kærandi ekki gera sér alveg ljóst hvað opinbert rými er og hvað opinber umræða felur í sér. Ekkert siðleysi getur falist í því að taka til umræðu opinber skrif félagsmanna eða annarra um trúmál þótt ekki séu þau birt á vef félagsins eingöngu. Ef forsvarmaður félags tjáir sig um meginmarkmið þess á öðrum vettvangi, t.d. í blaðagrein, á bloggsíðu eða tímariti, þá telst það til opinberrar umræðu og það væri meira en umtalsverð skerðing á rannsóknarfrelsi fræðimanna og háskóla yfirleitt að mega ekki taka það til umfjöllunar í fræðum sínum og kennslu. Hlutverk fræðimanna og háskóla er m.a. að greina slíka hluti í opinberri umræðu.

 Gagnrýnin er einnig afar mótsagnakennd, þar sem gefið er í skyn að upplýsingar um félagsskapinn séu slitnar úr samhengi, en um leið er kæruefnið nokkrar glærur úr kennsluefni heils námskeiðs, án nokkurs frekara samhengis, hvorki annarra glæra í námskeiðinu og það sem mikilvægara er, kennslunnar sjálfrar. Með þessum aðferðum mætti taka nokkra tilvitnanir fræðimanns í aðra og saka viðkomandi síðan um siðleysi fyrir að nota þær.
 [- - -]
 Ekki verður heldur ráðið af glærunum að um skrumskælingu sé að ræða, enda má sjá á greinargerð Bjarna Randvers að þá hefði hann haft úr verra efni frá forystumönnum Vantrúar að moða og sýnist mér lítil innistæða fyrir siðferðilegri vandlætingu þeirra.

 Sú athugasemd að Bjarni Randver hafi ekki „haft samband við Vantrú“ er í besta falli kjánaleg; fræðimenn vinna út frá þeim opinberu gögnum sem fyrir liggja en eru ekkert skyldir til að leita til einstaklinga til „útskýringar“ á þeim. Fræðimenn eru ekki dómarar í rétti sem fella einhverja lokadóma eftir vitnaleiðslu, heldur standa fyrir opinberri og gagnrýninni umræðu. Bókmenntafræðingar hringja til dæmis ekki í lifandi höfunda lon og don í þeim tilgangi að fá að vita hvað þeir voru að hugsa, heldur greina verkin sjálf sem þeir eru að rannsaka og þeir geta og eiga að skoða allt sem máli skiptir í því samhengi, einnig t.d. önnur skrif höfundar. Sama á við í mörgum greinum hug- og félagsvísinda.
 [ - - -]
 Eftir nákvæma skoðun á glærunum öllum fæ ég engan veginn séð að hægt sé að túlka þær á nokkurn hátt sem siðlausar. Sá samanburður sem þar er gerður er fullkomlega réttlætanlegur og í fullu samræmi við vísindalegar aðferðir. Sem menntaður þýðinga- og menningarfélagsfræðingur get ég fullyrt að greiningin á mismuninum á trú- og guðleysi og þau þýðingavandamál sem fylgja orðinu atheism eru mjög athyglisverð.
 [- - -]
 Hvar sem litið er á þetta mál ber allt að sama brunni. Það virðist sem svo að Vantrúarmenn, sem vissulega mega  gagnrýna Þjóðkirkjuna og Háskóla Íslands hart, hafi kosið að ráðast að einum einstaklingi sem vogaði sér að skoða aðferðir þeirra í fræðilegu samhengi. Kannski er það til að koma höggi á stofnanirnar. Hvort sem það er rétt eða ekki, er enginn vafi í mínum huga að kæra þessi er algjörlega tilefnislaus og órökstudd. Það sem verra er, hún er aðför að rannsóknarfrelsi fræðimanna sem er þeim nákvæmlega jafn dýrmætt og málfrelsið.

 (Gauti Kristmannsson, dr. phil., dósent í þýðingafræði við Háskóla Íslands.)
 

Um glærugerðina sérstaklega segir hér í enn einni greinargerðinni:
 

 Glærugerð Bjarna er þó mjög einföld. Hann nýtir eitt af algengari skapalónum glæruforritsins sem gefur efninu ofurlítið hversdagslegt yfirbragð. Hann nýtir myndefni eða grafík hvergi þannig að halda megi því fram að framsetningin feli á einhvern hátt í sér skrumskælingu eða fordæmingu. Myndir eru birtar á lóðréttum eða láréttum röðum eftir því sem forritið leyfir og texti ýmist inni í þar til gerðum gluggum eða sem myndir sem kóperaðar eru inn í forritið. Textar eru ekki birtir í heild, þó að Bjarni hafi tilhneigingu til að setja of mikinn texta og of miklar upplýsingar á hverja glæru. Það mætti jafnvel benda á að glærurnar séu alltof margar og alltof efnismiklar. En það er kennslufræðileg athugasemd hefur ekkert með kæruna að gera og er raunar í andstöðu við hana.
 [- - -]
 Kærendur virðast því í raun ætlast til þess af honum að hann líti framhjá öllu því efni sem þeim finnst að kunni að skaða málstað þeirra. Augljóslega væri hann hinsvegar að bregðast nemendum sínum ef slík sjónarmið stjórnuðu vali hans á tilvitnunum og textum. Mér virðist miklu nærtækara að gagnrýna Bjarna fyrir að vinsa of lítið úr, taka of mikið efni til umfjöllunar í tíma frekar en hitt að hann velji úr því á óeðlilegan hátt. En það er, sem fyrr segir, kennslufræðileg athugasemd, ekki ásökun um misferli eða siðferðilega ámælisvert athæfi.

 (Jón Ólafsson, prófessor og forseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst)

 


   Ég ítreka að í greinargerðum háskólakennara koma fram sömu aðalatriði, þ.e.a.s. að kennarinn er ákaflega vel að sér um efnið, að glærurnar séu í fullu samræmi við efnistök í námskeiðinu, að efni námskeiðsins sé afar áhugavert og stundum er látið að því liggja að kæra félagsins Vantrúar „virðist borin fram af umhyggju fyrir einhverju öðru en heiðri akademíunnar“ (eins og Sigurður Pálsson guðfræðingur og dr. í menntunarfræði orðaði svo).

Mér fannst mjög gaman að lesa í gegnum þessar greinargerðir ýmissa háskólakennara úr ólíkum deildum og nemenda sem sátu undir þessari „kærðu“ kennslu. Kannski var sérstaklega áhugavert að sjá að þetta fólk virtist hafa komist að nákvæmlega sömu niðurstöðu og ég gerði sjálf, þá nýbyrjuð að skoða málið og blogga um það. Niðurstöðu mína þá byggði ég nær eingöngu á eigin reynslu sem framhaldsskólakennari og nemandi í til nokkuð langs tíma í þeirri deild sem nú heitir íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, auk þess sem ég las Svar við kæru Vantrúar. Greinargerð lögð fyrir siðanefnd HÍ 2010, óopinbert skjal í vinnslu eftir Bjarna Randver Sigurðsson, til að glöggva mig á samhengi einstakra glæra við kennsluna og námskeiðið. Ég las ekki þessar greinargerðir nemenda og kennara fyrr en í gær.

 

 

Ummæli (29) | Óflokkað, Vantrú og siðanefnd HÍ