Færslur frá 21. febrúar 2012

21. febrúar 2012

Skýrsla óháðu nefndarinnar og eftirmál

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Á fundi háskólaráðs 5. maí sl. skipaði háskólaráð nefnd þriggja óháðra aðila um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. Nefndinni var jafnframt falið að fara yfir starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands og eftir atvikum að gera tillögur til úrbóta í ljósi reynslunnar.

Nefndin skilaði skýrslu til Háskólaráðs þann 14. september 2011 og hún var til umfjöllunar á fundi Háskólaráðs þann 13. október 2011. Í fundargerð þess fundar er tengt í skýrsluna.

Háskólaráð samþykkti að breyta starfsreglum siðanefndar í kjölfar úttektar óháðu nefndarinnar. Breytingarnar eru smávægilegar og einna helst þær að skerpa á starfsreglunum eins og þær voru fyrir. Í ályktun Háskólaráðs vegna skýrslunnar, þann 13. október síðastliðinn, segir m.a.: 

Kæra í máli siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010 var dregin til baka og er málinu þar með formlega lokið. [—]

Fyrir liggur að ekki var tekin efnisleg afstaða til álitaefnisins í máli siðanefndar nr. 1/2010 og hinni óháðu nefnd var ekki falið það viðfangsefni.

Af hálfu Háskóla Íslands er af málinu í heild dreginn sá lærdómur að tryggja verður eftir mætti formfestu og trúnað í meðferð mála siðanefndar innan háskólans. [—]

Í annan stað eru athugasemdir og ábendingar um aðkomu yfirstjórnar og stjórnsýslu háskólans að málinu teknar til greina. [—]

Síðan segir að Háskólinn muni gera sitt til að sárindi vegna málsins megi gróa um heilt og að fela þremur starfsnefndum Háskólaráðs „að standa sameiginlega að faglegri umfjöllun um siðferðilegar hliðar akademísks frelsis í kennslu og rannsóknum fyrir lok janúar 2012, með opnu málþingi um efnið.“
 

Áfellisdómur óháðu nefndarinnarMeginniðurstaða Skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð var að siðanefnd hefði ekki í upphafi máls lagt sjálfstætt mat á hvort kæra Vantrúar snerti siðareglur Háskóla Íslands, eins og henni bar að gera skv. 4 gr. starfsreglna siðanefndar og að siðanefnd hafi heldur ekki gert þetta á síðari stigum. Aðrar niðurstöður eru m.a. gagnrýni á óformleg samskipti einstakra nefndarmanna við málsaðila í stað þess að tala við þá á fundum siðanefndar, að lögfræðingur HÍ skuli hafa verið látinn starfa fyrir siðanefndina, að siðanefnd hafi staðið fyrir að reyna að sætta Vantrú og guðfræði- og trúarbragðafræðideild án nokkurrar aðkomu Bjarna Randvers Sigurvinssonar og að óviðunandi sé, fyrir HÍ og málsaðila, að ekki skuli hafa tekist að ljúka málinu efnislega. (Sjá s. 6-9 í þessari skýrslu.)

Þann 4. desember 2011 birti Morgunblaðið fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar, Heilagt stríð Vantrúar, þar sem málarekstur gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni, byggður á kærum Vantrúar, var rakinn frá upphafi til þess dags. (Raunar var greinin Heilagt stríð Vantrúar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og var því dreift daginn áður, þann 3. desember 2011. Hér er krækt í fréttaskýringuna á mbl.is. Henni var fylgt eftir með annarri grein viku síðar, Einelti vantrúarfélaga, en sú grein er læst öðrum en kaupendum Morgunblaðsins.)

Fréttaskýringin vakti strax mjög mikla athygli. Til þessa höfðu birst fréttir af málinu á stangli, eftir að háskólakennarar gerðust stuðningsmenn Bjarna Randvers í æ ríkari mæli, en aðallega hafði verið fjallað um málið af hálfu Vantrúar, í gífurlegum fjölda greina á vef félagsins og bloggum félagsmanna.

Þann 5. desember 2011 birtist grein eftir Guðmund Andra Thorsson í Fréttablaðinu. Greinin heitir Banntrúarmenn. Í henni fjallar Guðmundur Andri um upplifun sína af lestri fréttaskýringar Barkar Gunnarssonar, um félagið Vantrú eins og það kemur honum fyrir sjónir, um akademískt frelsi og loks undrast hann mjög vinnbrögð siðanefndar. Í greininni segir Guðmundur Andri m.a.:
 

Sem sagt. Það á að þurfa mikið til að grípa fram fyrir hendurnar á kennara og veita honum áminningu. Þegar kennari í guðfræðideild víkur að félagsskapnum Vantrú í tímum í guðfræði er hann væntanlega að skoða þennan félagsskap í tilteknu samhengi sinna fræða, á tiltekinn akademískan hátt eins og honum er bæði frjálst og skylt að gera í þessu umhverfi. Félagsskapurinn Vantrú hafði fregnir af því að Bjarni Randver hefði fjallað um starfsemi hans og annarra félaga. Þeir sáu þá gullið tækifæri til að gera guðfræðideild HÍ og þessum kennara alveg sérstaklega lífið leitt, sem svo sannarlega hefur tekist: Bjarni Randver situr nú uppi með mikinn lögfræðikostnað og mikla armæðu við að verjast atlögum hinna kátu félaga í Vantrú, sem samkvæmt grein Barkar virðast hafa skipulagt látlausar árásir á Bjarna til að hrekja hann úr starfi fyrir þær sakir að hafa ekki farið þeim orðum um félagsskapinn sem félagsmenn töldu tilhlýðilegt. Ekki er að sjá að Siðanefnd hafi gætt þess að Bjarni fengi sanngjarna málsmeðferð og það er ekki fyrr en Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði, gengur í málið vegna þess að honum ofbýður málatilbúnaðurinn, að Bjarni fær stuðning innan veggja HÍ.

Það er alltaf hættulegt þegar hugmyndabaráttan fer yfir á svið lögfræðinnar. Það er alltaf ömurlegt þegar hópur manna hefur samráð um að ráðast að einum einstaklingi.
 
 

Þann 5. desember 2011 var viðtal við Bjarna Randver Sigurvinsson í Kastljósi á RÚV þar sem hann gerði grein fyrir þessu máli. Yfirskriftin var Vantrú gegn stundakennara HÍ (hér er krækt í þennan hluta Kastljóss.)

Fréttir af máli Bjarna RandversDaginn eftir, 6. desember 2011, birtust a.m.k. tvær fréttir þar sem Eyjan dró taum vantrúarfélaga, Einelti fjarri lagi segja Vantrúarmenn. Hafna málatilbúnaði stundakennara, (sem nutu þó lítils stuðnings í umræðuþræði við fréttina) og Morgunblaðið lýsti sjónarmiðum Bjarna Randvers og Kristínar Ingólfsdóttur háskólarektors, Vill að HÍ bæti mannorðstjón og kostnað. Eins og titill síðarnefndu fréttarinnar ber með sér vill Bjarni Randver fá bættan sinn skaða. Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ segir þar að Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson hafi unnið í góðri trú og „viljað leita sátta þannig að enginn teldi á sig hallað.“ Hún vísar til þess að almennt hafi lögfræðikostnaður sem stofnað er til vegna kæru til siðanefnda ekki verið greiddur af stofnunum sem reki siðanefndirnar [en Bjarni Randver vill að HÍ greiði lögfræðingnum sem hann neyddist til að fá sér í meðferð siðanefndar.). Kristín áréttar sjálfstæði siðanefndar HÍ og þess vegna hafi rektor ekki átt að skipta sér neitt af málinu. Að lokum er haft eftir Kristínu Ingólfsdóttur í þessari frétt: „Kristín hafnar því að skýrslan sé áfellisdómur yfir siðanefnd. Málið hafi undið upp á sig af mörgum ástæðum og orðið að stóru máli.“ (Feitletranir eru mínar.)
 
 

Þann 8. desember 2011 birti Morgunblaðið aðsenda grein Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar HÍ, Greinargerð í siðanefndarmáli. (Hér er krækt í greinargerðina á vef Vantrúar en Þórður veitti Vantrú leyfi fyrir birtingunni. Lesendur athugi að Vantrú hefur lokað fyrir aðgang að eigin síðum af þessu bloggi. Ég hef fjallað um hluta þessarar greinar í færslunni Meðferð kæru Vantrúar í höndum Þórðar Harðarsonar o.fl. í siðanefnd HÍ.) Gagnrýni óháðu nefndarinnar á störf Þórðar og siðanefndar undir hans stjórn svarar Þórður svona:
 

Loks er að geta um niðurstöður hinnar óháðu nefndar háskólaráðs um störf siðanefndar. Ekkert kemur fram í niðurstöðum hennar, sem kalla má áfellisdóm um þau. Til dæmis er ekkert tekið undir ásakanir um hlutdrægni. Tvennt er einkum gagnrýnt:

1) Nefndin tók ekki kæruna formlega fyrir. Því er til að svara, að með því að fara í sáttatilraunir var kæran tekin fyrir. Annars hefði henni verið vísað frá.

2) Of mikið af starfi nefndarinnar (formanns) fór fram utan funda nefndarinnar. Því er til að svara, að formaður kann ekki aðra aðferð en trúnaðarsamtöl, ef leita á sátta milli aðila í viðkvæmu deilumáli

Þann 9. desember 2011 andmælti Pétur Pétursson, prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ og starfandi deildarforseti í siðanefndartíð Þórðar, honum harkalega í grein í Morgunblaðinu, Rangfærslur Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar. (Greinin er læst öðrum en kaupendum Morgunblaðsins. Ég vitnaði í þessa grein í sömu færslu og fyrr var vísað til). Pétur lauk máli sínu þannig:

Þórður Harðarson telur sig ekki hafa neitt vald sem formaður siðanefndar og starfa eingöngu í sáttahug. Hvorugt er rétt. Áminning af hálfu siðanefndar gerir út um frama viðkomandi einstaklings innan háskólasamfélagsins. Í skugga þess valds starfar formaðurinn og hann beitir því bæði af lagni og lævísi. Það hef ég fundið á eigin skinni frá upphafi og nú í þessari Morgunblaðsgrein hans. Það er óásættanlegt að hann sitji áfram sem formaður siðanefndarinnar eftir þann áfellisdóm sem óháð rannsóknarnefnd á vegum Háskólaráðs felldi yfir störfum hans í skýrslu sinni í október sl.
 

hópur stuðningsmannaÞann 13. desember 2011 birtist yfirlýsing yfir hundrað háskólakennara um málarekstur gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni í höndum siðanefndar HÍ í mörgum fjölmiðlum. Hér er krækt í hana í Fréttablaðinu, Yfirlýsing vegna kæru á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni. Í yfirlýsingunni segir m.a.:
 

Meginatriði málsins eru þó einföld. Strax í upphafi kæruferlisins, snemma árs 2010, braut Siðanefnd Háskóla Íslands á rétti stundakennara við HÍ með svo alvarlegum hætti að hún spillti málinu öllu. Siðanefnd lagði fram sáttatillögu þar sem fallast átti á sekt kennarans án samþykkis hans. Þetta gerðist áður en siðanefndin hafði aflað sér gagna í málinu og var kennaranum með öllu haldið utan við málsmeðferðina.

Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kennarinn hafi á neinn hátt gerst brotlegur við siðareglur HÍ. [- - -]

Skýrsla rannsóknarnefndar þeirrar sem háskólaráð skipaði er alvarlegur áfellisdómur um vinnubrögð siðanefndarinnar, sem því miður tók afstöðu gegn Bjarna Randveri með sáttatillögu þar sem Guðfræði- og trúarbragðafræðideild átti að „viðurkenna og harma, að kennsluefnið feli ekki í sér hlutlæga og sanngjarna umfjöllun um félagið Vantrú, málstað þess og einstaka félagsmenn.“ Kærandinn fékk sáttatillöguna í hendur og hefur beitt henni í opinberum málflutningi sínum enda þótt tillögunni væri með öllu hafnað á kennarafundi Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar.
[- - -]
Gagnrýni formanns siðanefndar HÍ í Morgunblaðinu 8. des. sl. er sorglegur vitnisburður um þekkingarleysi á því hvað felst í kennslu á sviðum hug- og félagsvísinda.

Sama dag, 13. desember 2011, birti Morgunblaðið tvær fréttir þar sem málflutningur Vantrúar kom fram. Í annarri þeirra, Skorti fagleg vinnubrögð, er grein á vef Vantrúar endursögð, þar sem því er haldið fram að háskólakennararnir hafi ekki sýnt fagleg og akademísk vinnubrögð því enginn þeirra hafi talað við félagið Vantrú um málið. Í hinni, Málið snúist um útúrsnúninga, er rætt við Matthías Ásgeirsson fyrrv. formann Vantrúar þar sem hann heldur því fram að almennt viðhorf félagsmanna í Vantrú hafi verið að „senda þyrfti siðanefnd HÍ erindi háskólans sjálfs vegna.“  Megintilefni til kæranna [Vantrú kærði Bjarna Randver fyrir þremur mismunandi aðilum innan Háskóla Íslands] sé afbökun Bjarna Randvers, skv. tilvitnun í Matthías í lok greinarinnar: „Við teljum að Bjarni Randver hafi beinlínis afbakað upplýsingar þegar hann tekur tilvitnanir frá okkur eða klippir þær í sundur. Við sjáum ekki Vantrú í þessari kennslu. Hann tekur ekkert af greinum okkar eða því sem félagið hefur sagt opinberlega,“

Í hádeginu þann 13. desember 2011, sama dag og yfirlýsingar háskólakennara höfðu birst í fjölmiðlum, sendi Ingvar Sigurgeirsson, ad hoc formaður siðanefndar HÍ í kærumálinu gegn Bjarna Randver, bréf á póstlista starfsfólks við Háskóla Íslands. Helstu atriði þess bréfs voru rakin í frétt RÚV daginn eftir, Leggur til að Bjarni fái bætur. Í fréttinni segir eftir Ingvari að: 

Það hafi verið verkefni siðanefndarinnar að kynna sér málið til hlítar. Þau áform hafi þó ekki náð fram að ganga, þar sem Bjarni sjálfur hafi kosið að ræða ekki við nefndina og hafi talið nefndarmenn alla vanhæfa. Þá bendir hann á að nokkrir þeirra sem undirita yfirlýsinguna hafi með formlegum hætti lagst gegn því að nefndin fengi tiltekin gögn í málinu.
[…]
Ingvar segir umræðuna hafa einkennst af hroka. Á öllum stigum málsins hefði verið hægt að leysa það með yfirvegaðri og málefnalegri samræðu. Þá leggur hann til að Bjarni Randver fái sanngjarnar bætur vegna þess skaða sem hann hafi orðið fyrir en bendir jafnframt á að málið hafi skaðað marga aðra, sem og skólann.

Á vef Vantrúar var bréf Ingvars birt í heild sama dag og RÚV birti sína frétt, undir titlinum Yfirlýsing frá Ingvari Sigurgeirssyni. (Óvíst er hvort Ingvar Sigurgeirsson gaf leyfi fyrir þessari birtingu. Lesendum er bent á að Vantrú hefur lokað aðgangi að sínum vef sé hann heimsóttur af mínu bloggi.) Svo sem nokkuð hefur borið á góma í umræðuþráðum við bloggfærslur mínar er það í þessu bréfi sem Ingvar lýsir því að formaður Vantrúar [Reynir Harðarson sálfræðingur] hafi orðið „hvumsa við þegar hann var boðaður á fund siðanefndar til að útskýra kæru félagsins. Samtökin hefðu aldrei kært neinn, heldur gert alvarlegar athugasemdir við kennslugögn á námskeiði þar sem m.a. var fjallað um félagið og einstaklinga innan þess.“

Gæðanefnd og Kennslumálanefnd Háskóla Íslands ásamt vísindanefnd háskólaráðs stóðu fyrir málþingi um akademískt frelsi í kennslu og rannsóknum föstudaginn 27. janúar 2012, í samræmi við ákvörðun Háskólaráðs þann 13. október 2011. Málþingið fór fram í Öskju og þar ræddu fjórir prófessorar af ólíkum fræðasviðum Háskóla Íslands um akademískt frelsi út frá mismunandi sjónarhornum. Sjá má myndband af málþinginu á síðu Kennslumiðstöðvar Háskólans og myndband af umræðum að loknum fyrirlestrum.
 

Þann 15. febrúar 2012 lýsti Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor því yfir í bréfi sem hún sendi á póstlista starfsfólks við Háskóla Íslands að „ekkert hefur komið fram í meðferð málsins sem bendir til þess að viðkomandi stundakennari hafi gerst brotlegur í starfi.“  Með þessu er hún líklega að „bregðast við því að ekki fékkst efnisleg niðurstaða í málið“ sem hún segir að sé „bagalegt“ og að ljúka málinu. Í bréfinu kallar hún kæru Vantrúar „umkvörtun“. (Sjá fréttina Var ekki brotlegur í starfi í Morgunblaðinu 16. febrúar, þar má finna bréf Kristínar í heild. Feitletrun er mín.) RÚV birti frétt um þetta sama bréf þann 19. febrúar 2011, Tryggja að málið endurtaki sig ekki. Það sem háskólarektor telur að tryggi að svona mál endurtaki sig ekki er: „Við höfum endurskoðað starfsreglur siðanefndarar og formfestu sem varðar málsmeðferð og ég held að við séum búin að fullvissa okkur um það að atburðarás af þessu tagi endurtaki sig ekki.“

Endurskoðaðar starfsreglur siðanefndar HÍ má sjá neðst í þessu skjali. Breytingar / endurskoðunin er innan hornklofa og stjörnumerkt. Veigamesta breytingin með hliðsjón af málarekstri siðanefndar í kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni er viðbótin framan á fjórðu grein starfsreglnanna: „[Áður en siðanefnd tekur mál til umfjöllunar kannar hún]* hvort framkomin kæra snertir siðareglur Háskóla Íslands.“

Skipunartími siðanefndarfulltrúa er þrjú ár. Í siðanefnd Háskóla Íslands sitja núna:
 

  • Þórður Harðarson prófessor emeritus, formaður nefndarinnar, skipaður af Kristínu Ingólfsdóttur háskólarektor sumarið 2010; 
  • Eyja Margrét Brynjarsdóttir sem situr fyrir hönd Félags háskólakennara frá því snemma í desember 2012. Sumarið 2010 skipaði Félag háskólakennara Salvöru Nordal, forstöðumann Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og kennara í heimpeki sem fulltrúa í siðanefnd HÍ. Salvör sagði sig úr siðanefndinni seint á haustmisseri 2011 og úr varð að Eyja Margrét, kennari í heimspeki, tók sæti hennar.
     

  
  
  
  
  
 

Ummæli (11) | Óflokkað, Vantrú og siðanefnd HÍ