Færslur frá 22. febrúar 2012

22. febrúar 2012

Samantekt: Vantrú og siðanefnd HÍ gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Þann fjórða febrúar 2010 kærði Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður félagsins Vantrúar, stundakennarann Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir siðanefnd HÍ. Kæruefnið voru lítill hluti glæra sem notaður var í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem Bjarni Randver kenndi á haustmisseri 2009 í guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ. Samtímis voru afhent kvörtunarbréf yfir því sama til rektors HÍ og deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar. Erfitt er að meta hve margir félagar í Vantrú stóðu að baki kærunni og kvörtunum en af þeim heimildum sem ég hef skoðað má ætla að þeir hafi verið fáir, líklega innan við tugur manns.

  

LeikbrúðustjórnandiReynir Harðarson virðist hafa skipulagt aðgerðir Vantrúar fyrirfram og nokkrir félagar í Vantrú fylgdu kæru og kvörtunum stíft eftir með greinaskrifum á vef Vantrúar, bloggum þessara vantrúarfélaga, þátttöku á umræðuþráðum við annarra manna blogg, bréfum til deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og rektors, og með því að senda bréf og greinargerðir til fjölmiðla. Þar sem þessi mikla umfjöllun var öll af sjónarhóli Vantrúar gaf hún vitaskuld mjög takmarkaða sýn á málið. Vantrúarfélagar höfðu engar forsendur til að meta glærurnar í samhengi því enginn þeirra hafði setið námskeiðið. Sá þeirra sem líklega hefði átt að átta sig eitthvað á umfjölluninni, t.d. um Helga Hóseasson og þá frægu glæru um málflutning fylgismanna Dawkins, Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar, virðist hafa kosið að fatta ekki samhengið eða líta fram hjá því sem ætla mætti að hann skildi.

  

Guðfræði- og trúarbragðafræðideild afgreiddi málið með bréfi deildarforseta þann 9. mars 2010, þar sem lýst var yfir að tekið yrði tillit til athugasemda Vantrúar ef námskeiðið væri kennt aftur, um það væru hann og Bjarni Randver sammála. Í sama bréfi lýsti deildarforseti yfir að Bjarni Randver nyti fyllsta trausts síns sem kennari í trúarbragðafræði.

  

Stigaganga � verki EscherÞegar siðanefnd HÍ hóf afskipti af málinu aðeins seinna (því formaður nefndarinnar hafði verið fjarverandi) kom annað hljóð í strokkinn. Siðanefnd HÍ undir forsæti Þórðar Harðarsonar þverbraut eigin starfsreglur. Í stað þess að skoða kæruna almennilega og úrskurða hvort hún varðaði yfirleitt siðareglur HÍ, eins og átti að vera fyrsta skref í ferli máls í siðanefnd HÍ, einhenti siðanefndin sér í að fá guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ til að skrifa undir opinbera sátt við Vantrú þar sem hinn kærði, Bjarni Randver Sigurvinsson, væri sakfelldur. Guðfræði- og trúarbragðfræðideild bar að „viðurkenna og harma, að kennsluefnið felur ekki í sér hlutlæga og sanngjarna umfjöllun um félagið Vantrú, málstað þess og einstaka félagsmenn“ og taka athugasemdir Reynis Harðarsonar „og samtaka hans […] til jákvæðar skoðunar, þegar og ef til þess kemur, að námskeiðið verði endurtekið.“

  

Raunar er ekki nóg með að siðanefnd HÍ hafi kosið að draga guðfræði- og trúarbragðafræðideild inn í málið (þótt deildin hafi ekki verið kærð til siðanefndar) heldur virðast einstakir nefndarmenn, einkum formaðurinn Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson, siðanefndarfulltrúi, hafa reynt að kúga deildina til þátttöku með því að hóta að ella yrði hinum kærða stundakennara, Bjarna Randveri, fórnað, þ.e. að siðanefnd myndi úrskurða að hann hefði brotið siðareglur HÍ, sem hefði haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir starf og frama Bjarna Randvers sem fræðimanns. Þetta er a.m.k. skilningur þáverandi deildarforseta, Péturs Péturssonar, á óformlegum samskiptum við þessa siðanefndarfulltrúa.

  

Hvað varðar óformleg samskipti siðanefndar við málsaðila aðra en hinn kærða, sem var hunsaður með öllu, voru þau ótrúleg. Svo virðist sem Þórður Harðarson formaður siðanefndar hafi haft tíð samskipti við formann Vantrúar, Reyni Harðarson, og farið vel á með þeim, liggur við að hægt væri að kalla að þeir hafi átt samstarf í málinu. Þórður Harðarson hefur seinna útskýrt þessi samskipti sem merki um sinn samstarfsvilja og sáttfýsi. Hann hefur líkt störfum sínum við störf sáttasemjara í kjaradeilu. Þórði Harðarsyni yfirsést að sáttasemjari í kjaradeilu talar í fyrsta lagi við báða aðila máls og í öðru lagi að slíkur sáttasemjari hefur ekki neitt vald til að víta annan aðilann en líkja má úrskurði um brot á siðareglum HÍ við vítur - með grafalvarlegum afleiðingum.

  

Eftir að kennurum við Hugvísindasvið HÍ barst vitneskja um þann ótrúlega feril sem mál Bjarna Randvers var í hjá siðanefnd HÍ gripu þeir til aðgerða enda ljóst að aðfarir Þórðar Harðarsonar og félaga hans voru í fyrsta lagi engri siðanefnd sæmandi og fólu í öðru lagi í sér beina aðför að akademísku frelsi kennara. Sá sem upplýsti kennara utan guðfræði- og trúarbragðafræðdeildar fyrst um málavöxtu var Guðni Elísson prófessor. Hópur kennara sem vissi deili á málinu fór hratt stækkandi. Þeir beindu spurningum til siðanefndar HÍ sem voru nógu óþægilegar til að Þórður Harðarson sagði af sér sem formaður siðanefndar. Sérfræðingar í túlkunarfræðum fóru að eigin frumkvæði yfir kennslugögn í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar og sáu ekkert athugavert við þær í samhengi við markmið, námsefni og kennslu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar. Kennarar skrifuðu greinargerðir um mál Bjarna Randvers, jafnt glærurnar og umfjöllunarefni námskeiðsins, sem vinnubrögð siðanefndar. (Þegar félagið Vantrú hafði dregið kæruna til baka skrifuðu nokkrir nemendur greinargerðir um reynslu sína af kennslu Bjarna Randvers í Nýtrúarhreyfingum, að beiðni Guðna Elíssonar prófessors. Hvorug siðanefndin sá ástæðu til að leita upplýsinga hjá nemendum.)

  

Þegar Ingvar Sigurgeirsson var skipaður sérstakur formaður sérstakrar siðanefndar, sumarið 2010 (eftir afsögn Þórðar formanns, raunar skipaði svo Háskólaráð nýja siðanefnd tveimur dögum eftir að Ingvar tók við þessari sérstöku - og raunar var Þórður Harðarson aftur skipaður formaður siðanefndar að tillögu Kristínar Ingólfsdóttur háskólarektors og Þorsteinn Vilhjálmsson aftur skipaður siðanefndarfulltrúi, að tillögu Félags prófessora), var hann og þau hin í nokkrum vanda stödd. Hefði hin sérstaka siðanefnd farið að starfa eftir starfsreglum siðanefndar HÍ og einbeitt sér að réttum ferli máls, þar sem fyrsta reglan var að kanna hvort kæran eins og hún var fram sett snerti siðareglur HÍ og vísa henni ella frá  … hefði málinu verið vísað frá. Það hefði aftur á móti verið nánast vantraustsyfirlýsing á fyrri formann, Þórð Harðarson, og fyrri siðanefnd, en svo vildi til að sömu siðanefndarfulltrúar sátu í hinni sérstöku siðanefnd og þeirri á undan, Þorsteinn Vilhjálmsson og Sigríður Þorgeirsdóttur. Þorsteinn hafði að auki verið endurskipaður í „alvöru“ siðanefnd HÍ um leið og sú sérstaka tók til starfa. Það hefði náttúrlega verið ansi slæm lending fyrir HÍ að lýsa því óbeint yfir að þeir Þórður og Þorsteinn hefðu klúðrað málum gersamlega þegar nýbúið var að endurskipa þá í siðanefnd HÍ til ársins 2013!

  

Reyna að lista atriði kæruIngvar Sigurgeirsson brá á það ráð að fá tvo aukafulltrúa til liðs við siðanefndina sína. Þessir fulltrúar voru líklega kunningjar hans og væntanlega fullnuma í nýsitækni (þ.á.m. glærugerð) enda höfðu þeir lengi kennt á sama vettvangi og Ingvar, þ.e.a.s. starfað við menntun grunnskólakennara og þá menntun sem framhaldsskólakennurum er gert skylt að ljúka til að fá kennsluréttindi. Síðan reyndi hin sérstaka siðanefnd að leita með logandi ljósi að einhverju sem gæti mögulega hankað kennarann á að hafa brotið siðareglur HÍ. Á tímabili setti siðanefndin hinum kærða, Bjarna Randveri Sigurvinssyni, að greina kæruatriði Vantrúar svo þau pössuðu við siðareglur HÍ og semja svör við þeim greindu kæruatriðum. Síðar spreyttu annar aukafulltrúinn og lögmaður HÍ á þessari greiningu. Þær tilraunir virðast engu hafa skilað.

  

Ingvar formaður siðanefndar, sem er prófessor á Menntavísindasviði, lét sér detta í hug að fá úrlausnir 7 nemenda á einni spurningu á lokaprófi í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar, þar sem nemendur áttu að beita mismunandi skilgreiningum trúarlífsfélagsfræðinga í greiningu á Siðmennt og Vantrú. Sett voru ákveðin skilyrði fyrir að siðanefnd fengi þessar úrlausnir, s.s. að hver nemendanna gæfi upplýst samþykki sitt, en siðanefnd fylgdi þessari beiðni aldrei eftir. Seinna kenndi Ingvar þrýstingi háskólakennara um að siðanefndin hefði ekki fengið prófúrlausnirnar.

  

Ingvar Sigurgeirsson kenndi líka afskiptum háskólakennara um að hinnu sérstöku siðanefnd undir hans stjórn varð ekkert ágengt með þetta mál, auk þess að kenna því um að Bjarni Randver Sigurvinsson hefði fengið sér lögmann til að gæta réttinda sinna. Satt best að segja verður það að teljast skynsamleg ráðstöfun Bjarna Randvers í ljósi þess hvernig siðanefnd undir stjórn Þórðar Harðarsonar hafði hagað sér og hvernig siðanefnd undir stjórn Ingvars virtist ætla að feta svipaða braut enda kannski um heiður fyrri siðanefndarmanna að tefla og Bjarni Randver var áfram eins og hvert annað peð í kærumálinu gegn honum sjálfum.

  

Svo kom að því að Ingvar Sigurgeirsson fékk nóg og hótaði að segja af sér. Þá loksins greip rektor HÍ í taumana, hélt fund með Ingvari og fulltrúum Vantrúar og á þeim fundi dró Vantrú kæruna til siðanefndar HÍ til baka, þann 28. apríl 2011. Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor virðist hafa lofað Vantrú og Ingvari að óháðir aðilar tækju þetta mál út, skv. því sem bæði hún og Vantrú hafa sagt. En skv. bókun Háskólaráðs þann 5. maí 2011 virðist ráðið hafa farið að áskorunum fjölda háskólakennara og skipað þess vegna óháða nefnd til að taka út feril málsins innan HÍ.

  

Skýrsla óháðu nefndarinnar var birt opinberlega þann 13. október 2011. Hún ber störfum siðanefndar HÍ ófagurt vitni, sérstaklega þeirrar sem Þórður Harðarson var í forsvari fyrir en finnur einnig ýmislegt að störfum nefndarinnar undir stjórn Ingvars Sigurgeirssonar.

  

Í kjölfarið á birtingu þessarar skýrslu og sérstaklega eftir að ítarleg fréttaskýring um málið birtist í Morgunblaðinu snemma í desember síðastliðnum hefur margt og mikið verið fjallað um þennan málarekstur sem hófst með kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni og stóð linnulítið í meir en ár í höndum siðanefndar HÍ, raunar miklu lengur af hálfu Vantrúar en félagið lagði áfram kapp á að rægja Bjarna Randver á sínum vettvangi á Vefnum og úthúða stuðningsmönnum hans. Í rauninni má segja að einelti Vantrúar, á tímabili með dyggum stuðningi hluta siðanefndar HÍ, hafi ekki lokið fyrr en skýrsla óháðu nefndarinnar birtist, um einu ári og átta mánuðum eftir að kæran barst siðanefnd HÍ.

  

Frá því fyrrnefnd fréttaskýring um málið birtist í byrjun desember og viðtal í Kastljósi við Bjarna Randver Sigurvinsson rétt á eftir hefur málflutningur forsvarsmanna Vantrúar breyst í samræmi við kenningar um hefðbundna afneitun gerenda eineltis: Á vef Vantrúar fóru að birtast greinar um að félagið Vantrú sé hið eina sanna fórnarlamb í þessu máli og hafi sætt ómaklega einelti háskólakennara sem komið hafi í veg fyrir að saklaust erindi félagsins hafi fengið réttláta málsmeðferð innan HÍ. Formaður Vantrúar, Reynir Harðarson sálfræðingur, sem stjórnaði málflutningi Vantrúar lengst af og átti að öllum líkindum drjúgan þátt í skipulagningu hans í upphafi, hefur verið algerlega ósýnilegur á Vefnum og í fjölmiðlum síðan snemma í október 2011. Matthías Ásgeirsson tók þá að sér að koma fram fyrir hönd félagsins, í fjölmiðlum og í bloggskrifum.

  

Reiða kisaViðbrögð Matthíasar og nokkurra vantrúarfélaga við þessari bloggfærsluröð minni má lesa í umræðuþræði við bloggfærsluna Punktar um umfjöllun, á bloggi Matthíasar, Örvitanum. (Mögulega lokar Matthías á aðgang að umræðuþræðinum af þessu bloggi, hann hefur þegar lokað aðgangi að vef Vantrúar af blogginu mínu. Lesendum er bent á að afrita slóðina í annan glugga vefskoðara ef til þess kemur.) Félagið Vantrú hefur einungis gert athugasemdir við eina færslu í þessari færsluröð, þ.e. færsluna um félagið Vantrú. Grein Hjalta Rúnars Ómarssonar á vef Vantrúar er frá 17. janúar í ár og heitir Hin stranga og öfgasinnaða Vantrú.

  

Nú fyrir skömmu, um miðjan febrúar 2012, hefur Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands, hreinsað Bjarna Randver Sigurvinsson af öllum áburði um að hann hafi nokkru sinni brotið siðareglur HÍ í kennslu, í bréfi til starfsmanna HÍ og í fréttaviðtölum vegna þess bréfs. Það ber að vona að háskólarektor beiti sér af megni fyrir að Bjarna Randveri verði bætt mannorðstjón og kostnaður sem hann ber af þessu máli.

  

En eftir sem áður sitja þeir Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson í siðanefnd HÍ, nú ásamt Eyju Margréti Brynjarsdóttur, sem stjórn Félags Háskólakennara útnefndi sinn fulltrúa í desemberbyrjun 2011, eftir að Salvör Nordal sagði sig úr siðanefnd HÍ. Þórður Harðarson er formaður siðanefndarinnar.

  
 
 
 
 
 

Ummæli (11) | Óflokkað, Vantrú og siðanefnd HÍ