Færslur frá 20. mars 2012

20. mars 2012

Snorri, Egill og hið eina rétta viðhorf

Nei, þessi færsla fjallar ekki um gömlu reyfarana/þjóðararfinn. Hún fjallar um “takt og tone” á Íslandi í dag, þ.e.a.s. hvað eru hinar einu réttu skoðanir og hvernig sumum leyfist en öðrum ekki.

Í upphafi er rétt að minnast á mál Snorra Óskarssonar grunnskólakennara á Akureyri, sem oft er kenndur við Betel (hvítasunnukirkjuna í Vestmannaeyjum). Snorri skrifaði fræga færslu á sitt blogg þar sem hann sagði m.a.:

Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.

Þessi stutta færsla, blogguð úr frá frétt í mogganum, olli því að nokkrir Akureyringar fengu hland fyrir hjartað. Skólanefnd bæjarins sá til þess að Snorri væri settur í hálfs árs launað leyfi svo hann kæmi ekki nálægt saklausum börnunum og Pétur Maack, sálfræðingur á Akureyri, kærði Snorra til lögreglu fyrir þessi ummæli. Lögreglan vísaði kærunni frá, Snorri segist hlakka til að koma aftur til starfa en hefur til vara boðist til að gera starfslokasamning við sína launagreiðendur, Akureyrarbæ. Svo virðist vera sem skólayfirvöld (væntanlega að undirlagi skólanefndar) setji sem skilyrði fyrir að Snorri megi kenna að hann hætti að blogga. Sjálfur segir hann að sér hugnist ekki að selja tjáningarfrelsið fyrir kennaralaun. 

Það hefur hvergi komið fram hversu margir foreldrar nemenda Snorra hafa tjáð sig um þær. Enda skiptir það engu máli. Málið er að það má ekki tala illa um homma og lesbíur. Þetta vita allir. Það má ekki viðra annað viðhorf til samkynhneigðar en jákvætt. Alveg eins og það má ekki tala um tóbak nema illa. Og auðvitað tekur steininn úr þegar bloggari eins og Snorri rökstyður sína stuttu færslu með trúarlegum rökum, þ.e. tilvísun til kristinnar trúar. Eins og margoft hefur verið bent á af vantrúarfélögum og öðrum rétt-pólitískt-þenkjandi eru talsmenn kristinnar trúar nokkurs konar barnaníðingar, þ.e. barnaníðingar hugans. Það er ótækt að slíkir menn valsi um innan um saklaust ungviðið í grunnskólum.

Leikskólakennari vill kála leserum pass�usálmaAftur á móti virðist allt í lagi þótt starfandi leikskólakennari, Egill Óskarsson, lýsi þeirri skoðun sinni að rétt sé að kála öllum sem lesið hafa Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar í útvarp allra landsmanna, að undanskildum (meistara) Megasi. Og gleymi meira að segja skyldubundnum broskarli í þeirri yfirlýsingu, sem gefin var örskömmu áður en sami leikskólakennari tók við formennsku í félaginu Vantrú. (Þess bera að geta að út af einhverjum tiktúrum í Matthíasi Ásgeirssyni vefstjóra Vantrúar virka linkar af blogginu mínu í opinbera síðu Vantrúar ekki. Lesendum er bent á að endurhlaða síðuna með ummælum Egils þegar hún kemur upp með “Access forbidden” skilaboðunum.)

Af hverju er það allt í lagi að leikskólakennari lýsi því á vefmiðli að rétt sé að taka ákveðinn hóp fólks af lífi fyrir að hafa lesið Passíusálmana í útvarp og einnig að þær bókmenntir beri að banna? Jú, það er vegna þess að Passíusálmarnir eru fullir af gyðingahatri (sem er slæmt) og auk þess illa ortir (mér er ekki ljóst hvort það skiptir í rauninni máli en það er a.m.k. ekki til bóta) og eru auk þess fullir af trúarboðskap hinnar illu evangelísku kirkju. Þess vegna vekja þessi orð enga athygli (önnur skýring gæti raunar verið sú að það séu hvort sem svo fáir sem lesa vef Vantrúar að enginn nema örfámenn klíka hafi tekið eftir þessu).

Munurinn á Snorra hvítasunnuhirði og grunnskólakennara á Akureyri og Agli Óskarssyni formanni Vantrúar og leikskólakennara í Reykjavík er sem sagt sá að hinn fyrrnefndi hefur rangt viðhorf en hinn síðarnefndi hefur hið eina rétta viðhorf. Enn skýrara verður þetta sé haft í huga að Egill Óskarsson er ekki bara pólitískt rétt trúlaus heldur líka vinur femínista. Ef maður er femínistavinur fyrirgefst flest annað. Því femínismi er hið eina rétta viðhorf.

Til að gera lesendum þessarar færslu enn skýrar grein fyrir hinum réttu viðhorfum skal bent á að karlar sem skrifa andstyggileg komment eða saklaus komment með broddi sem beinist gegn konum eiga það fullkomlega skilið að lenda saman í haug í albúminu “Karlar sem hata konur”, sem ku hafa verið deilt um 500 sinnum á Facebook, því karlar mega alls alls ekki segja neitt ljótt um konur. Konur mega hins vegar segja ljótt bæði um karla og konur svo lengi sem þær eru femínistar. Karlkyns femínistar fá svo aukið tjáningarfrelsi af því þeir eru femínistar. Femínistar mega brjóta reglur samskiptamiðla eins og Facebook og baða sig í píslarvætti þegar er lokað á þær/þá. Af því þær eru femínistar og femínistar hafa alltaf rétt fyrir sér, hafa hið rétta viðhorf.

Svo ég taki þetta saman í lokin: Þú skalt eingöngu tala jákvætt um homma, illa um kristna trú og vera femínisti! Það er takt og tone i nutidens samfund. Til frekara öryggis er rétt að tala vel um flokkun rusls, grænmetisneyslu og hjólreiðar en illa um virkjanir, feitt kjöt og Hannes Hólmstein. Fylgirðu þessum einföldu leiðbeiningum verðurðu á grænni grein.

  

Ummæli (80) | Óflokkað, Daglegt líf