Færslur frá 2. maí 2012

2. maí 2012

Morð og drykkjuskapur

Í síðustu viku hamstraði ég bókafjöld á bókasafni Norræna hússins. Auðvitað var megnið morðsögur en eins og venjulega kippti ég einni annars konar bók með. Og svo hef ég legið í bókum eins og húsfreyjan forðum, án þess að Gilitrutt ræki inn nefið. Góðar morðsögur eru eins og góð krossgáta eða algebra: Í upphafi er allt í óreiðu og sagan snýst um að raða saman brotum og leysa málið, þætta og stytta. Morðsögur henta fólki sem er hallt undir skipulag og hreingerningu afskaplega vel!

PanserhjerteFyrsti maí fór ekki í kröfugöngu eða Nallasöng … nei, fyrsti maí fór að mestu í Panserhjerte hans Jons Nesbø.  Þetta er feikilega skemmtileg saga með alls kyns útúrsnúningum og “ekki er allt sem sýnist” kúvendingum. Morðin voru samt það óhugguleg að ég lagði ekki í að lýsa þeim fyrir mínu heimilisfólki. En aumingja Harry Hole er enn við sama heygarðshornið, hangir þurr á hnefanum og fellur inn á milli, ber ekki við að fara á AA fundi. Að sjálfsögðu er hann dökk hetja og óhamingjusamur með afbrigðum … kemst samt lifandi úr ótrúlegustu mannraunum og kröggum. Ég veit að svona bækur eru ekki raunsæisbókmenntir en stend mig öðru hvoru að því að hugsa: Æi, karlanginn, af hverju poppar hann ekki inn á fund?  Best að skrá sig á biðlista eftir Gjenferd … kannski lagast fundarsóknin í þeirri bók.

Ekki tekur betra við frá alkafræðum séð þegar maður vindur sér yfir í sænskar morðbókmenntir. Hún Malin Fors okkar í Linköbing fór í meðferð, í síðustu bók sem ég las, enda konan gegnsósa af Tequila. Nú er liðið meir en ár síðan, í Vårlik (eftir Mons Kallentoft), og Malin slæst við áfengislöngunina af ekki minna krafti en Harry Hole en hefur sigur, ólíkt honum. Kannski af því hún er svo dugleg að lyfta lóðum? Í Linköbing virðast engir AA-fundir og Malin leiðir ekki einu sinni hugann að svoleiðis, líklega eru AA fundir óþekktir í Suður-Svíþjóð. Sem betur fer er hún klár og verður skyggnari með hverri bók … svoleiðis að mál eru snyrtilega leyst að lokum. Malin nær sér meira að segja í ágætis hjásvæfu þrátt fyrir síðhvörfin. Hefði samt að ósekju mátt stytta bókina um svona 100 síður.

Í Danaveldi er drykkjuskapur líklega ekki álitinn sérstakt vandamál en hvunndags-sálfræðiflækjur eru þess fyrirferðarmeiri. Louise Rick leysir auðvitað gátuna í Dødsenglen (e. Söru Blædel) en þótt hún sé rosaflink í að þætta og stytta morðflækjur er hún á eilífum bömmer yfir að standa sig ekki sem fósturmamma og vinkona hennar á eilífðar bömmer yfir fortíðardraugum. Ef maður skrunar hratt yfir tilvistarflækjur aðalpersónanna má þó hafa gaman af bókinni.

Nú er ég byrjuð á Skrig under vand (e. Øbro og Tornbjerg). Þar er aðalpersónan einhvers konar réttarsálfræðingur (profilingsekspert) og auðvitað með óuppgerð persónuleg mál í massavís. Eftir þessar velskrifuðu sögur sem ég taldi upp að ofan virkar Skrig under vand stirð og barnalega skrifuð. Eiginlega hef ég takmarkaðan áhuga á hver drap fæðingarlækninn og hvernig morðið tengist einhverjum fortíðarslitrum um barnamorð. Í skandinavískum morðlitteratúr eru þessar fortíðarslitrur farnar að vera skyldubundið frásagnartrix, líklega sprottið af vinsældum Läckberg og Theorin?  Svo á ég bók um Dicte Svendsen ólesna enn en sé að á baksíðu er sérstaklega tekið fram að “På hjemmfronten må Dicte udkæmpe sin helt egen kamp …” svoleiðis að ég vænti þess að dágóður blaðsíðufjöldi verði tekinn undir trámað að búa með sér yngri manni og eiga dóttur á táningsaldri. Stundum hef ég á tilfinningunni að frændur okkar Danir hafi sökkt sér um of ofaní Sjöwall og Wahlöö í gamla daga en Svíar séu aðeins að skríða upp úr sósíal-realisma-hefðinni.

Bókin sem er ekki morðsaga ber samt morðtititil: Hundemordet i Vimmelskaft - og andre fortællinger fra 1700-tallets København. Ég er búin með um þriðjung og ekki komin að hundamorðinu. Hef hins vegar lesið dramatískar lýsingar á óþefnum í Kaupmannahöfn á 18. öld, hlutskipti betlara og vændiskvenna af öllum stigum og götulífið almennt. Í kaflanum “De fattiges horehus” var áhugaverð koparstunguröð sem sýndi leiðina til glötunar. Upphaflega voru þetta fjórar koparstungur en fjórða myndin hefur glatast. Á þeim þremur sem eftir eru má sjá lífsferil ungrar konu frá því hún er svo vitlaus að láta fallerast og til þess að mamma hennar er byrjuð að gera hana út (úr því meydómurinn er farinn virðist fátt annað í stöðunni) … í fátæklegu herbergi situr stúlkan örvingluð (milli kúnna reikna ég með) en mamman er komin í brennivínið og drekkur af stút. Maður getur bara ímyndað sér hvað fjórða og týnda koparstungan sýndi.  Næsti kafli heitir “Friere og falskspillere. Noget om drink og dobbel” og verður örugglega krassandi lesning … með tíð og tíma kemst ég svo í kaflann um hundamorðið fræga.

Í tilefni þess að ég er stödd á 18. öld horfði ég á þátt Péturs Gunnarssonar um 18. öld á Íslandi, á RÚV. Því miður vissi ég allt sem fram kom í þættinum en reikna með að næsti þáttur verði meira um eitthvað sem ég veit ekki fyrir. Og vissulega löptu Íslendingar dauðann úr skel á þessari öld en það var svo sem enginn draumur í dós að búa í Kaupmannahöfn heldur, fyrir alþýðu manna.

Á meðan ég sökkvi mér ofan í morð og ódó á blaðsíðum með bókalykt les maðurinn í sínum Kindli og dásamar Kindilinn. Hann er að lesa Nýja testamentið á grísku og sækist í að ræða efni þess og málsögu við sína konu. Sem betur fer tók ég kúrs í gotnesku á sínum tíma (valdi hann einungis út á kennarann, í skyldubundnum þremur málfræðikúrsum sem um var að velja virtist kennarinn í þessum einna normalastur). Það er fátt til á gotnesku annað en Nýja testamentisþýðing Úlfs litla og þótt ég sé búin að gleyma álnarlöngum beygingardæmum gotneskum situr textinn eftir. Vangaveltur um málsögulegar breytingar í gegnum tíðina eru hins vegar meiri höfuðverkur fyrir mig … hvenær hætti lýsingarháttur nútíðar að beygjast og af hverju urðu samsvarandi sérhljóðabreytingar í ólíkum indóevrópskum málum á sama tíma? Myndi láta manninn horfa á þætti Stephens Fry ef ekki vildi svo til að á sama tíma er Foyle í danska sjónvarpinu og ég er heilluð af þeim góðu þáttum …

Ummæli (8) | Óflokkað, Bækur