Færslur frá 3. maí 2012

3. maí 2012

Einkennist baráttan gegn hindurvitnum af hindurvitnum?

Í gærkvöldi sýndi RÚV myndina Living Matrix: A film on the new science of healing. Ætla mætti af bloggum og vefmiðlum að um væri að ræða megnan heilaþvott sem við hrekklausa og einfalda fólkið værum fyrirfram berskjölduð gegn og mikil þörf á að þeir veraldarvanari og vellesnu verðu okkur gegn svona viðbjóðsmynd og lífshættulegum hugmyndum.

Sem dæmi um pössun hinna vellesnu og veraldarvönu má nefna bloggfærslu Valgarðs Guðjónssonar vantrúarfélaga, Á RÚV að sýna svona rugl?, og 111 ummæli (í þessum skrifuðum orðum) um hana; pistil ritstjórnar Vantrúar, Kjaftæði í sjónvarpinu; örfærslu Matthíasar Ásgeirssonar vantrúarfélaga, Skilaboð til RÚV, (mögulega þarf að líma Vantrúar- og Örvitaslóðirnar í nýjan glugga út af tiktúrum Matta sem banna beinan aðgang af blogginu mínu á þessar síður), bloggfærslu Jónasar Kristjánssonar, Kraftaverk í sjónvarpi, og líklega má finna fleiri bannbloggfærslur ef maður nennir að leita.   

Mér finnst ansi fyndið að lesa þessi blogg og umræðuhala við þau. Sem dæmi má taka:

  • Hin vísindalega aðferð mun vinsa úr ruglið á endanum (Hansi - í umræðu á bloggi Valgarðs)
  • Myndi þú sitja þegjandi hjá ef RÚV sýndi „heimildamynd“ þar sem fullt af fólki kæmi fram og fullyrti að það væri ekkert að því að gleypa blásýru? (Valgarður - í umræðu á bloggi Valgarðs)
  • Aldrei hefur verið vísindalega sýnt fram á virkni kraftaverkalækninga. [- - -] Ríkissjónvarpið á ekki að leggja sitt lóð á vogarskál hjáfræða og kraftaverka handa trúgjörnum. (Blogg Jónasar Kristjánssonar)
  • Myndir á borð við þessa gera ekkert nema koma inn ranghugmyndum hjá áhorfendum og ýta undir notkun á skottulækningum og afneitun á þeim aðferðum sem sýnt er að virki. (Vefur Vantrúar)
  • Það eru engar óhefðbundnar lækningar; það eru einungis lækningar sem búið er að sýna fram á að virki og svo kjaftæði (Halldór L - nærsveitungi minn - á vef Vantrúar)

Hippókrates kennir � KosÍ stuttu máli sagt má segja að umfjöllun um þessa mynd einkennist annars vegar af löngun til að banna kynningu á öðru en viðurkenndri vestrænni læknisfræði og hins vegar bláeygri tröllatrú á þessari sömu viðurkenndu vestrænu læknisfræði. Ég hef nú öðlast meir en áratugs reynslu af viðurkenndri vestrænni læknisfræði til bóta á mínum velskilgreinda sjúkdómi skv. amrískum og evrópskum stöðlum og sjúkdómsgreiningum byggðum á viðurkenndum vestrænum sálfræðiprófum. Læknisráðin byggjast á vísindalegum rannsóknum og eru einkum fólgin í pillum og rafmagnsstuðum. Því miður verð ég að hryggja þá vellesnu og veraldarvönu og umhyggjusömu með því að þegar betur að gáð reynist velskilgreindi sjúkdómurinn álíka skiljanlegur og hann var á dögum Hippokratesar; v.v. sálfræðiprófin mæla ekki endilega það sem þau eiga að mæla enda má svindla á þeim; niðurstöðurnar úr vísindalegu rannsóknunum eru úrval þóknanlegra niðurstaðna en endurspegla ekki raunveruleikann og í stuttu máli sagt virkar þetta vísindalega vestræna læknisráðadót afar illa! Og mér er vel ljóst að þessi staðreynd á ekki bara við um minn sjúkdóm, þunglyndi, heldur marga aðra sjúkdóma. Af hverju ætti fólk ekki að prófa eitthvað annað þegar  „lækningar sem búið er að sýna fram á að virki“ virka alls ekki og er raunar ekkert endilega búið að sýna fram á að virki þótt sæmilega vellesinn haldi það? (Styttan er af Hippokrates að kenna nemendum, í Kos á Grikklandi.)

Hvað með gildi reynslunnar þótt vísindalegar sannanir skorti? Psoriasis-sjúklingar uppgötvuðu sjálfir að vatnið í manngerðu Bláa lóninu virkaði til bóta … voru það ekki skottulækningar sem bar að steinþegja yfir og banna með öllu? Ég þekki persónulega til MS-sjúklinga og fólks með vefjagigt eða alvarlega síþreytu sem hefur hlotið bót af LDN (Low Dose Naltrexone) en það er upp og ofan hvort sérfræðilæknar fást til að skrifa upp á lyfseðla fyrir því lyfi af því engar tvíblindar rannsóknir eru til sem sýna fram á virkni lyfsins við þessum sjúkdómum.  Sem gæti kannski hangið saman við að þetta er gamalt, ódýrt lyf og ekkert lyfjafyrirtæki sér möguleika á að stórgræða á því … 

Hvað með AA, hið eina sem virðist skila sæmilegum árangri til að alkóhólistar og fíklar nái bata; Eru AA ekki svakalega óvísindaleg samtök sem einkennast af hindurvitnum? Þar tíðkast meira að segja að fara með BÆN og blanda guði inn í málin! Mér vitanlega hafa AA samtökin aldrei verið rannsökuð „með vísindalegum aðferðum“. Er þessi eina aðferð sem virkar sæmilega gegn alkóhólisma í rauninni bölvaðar skottulækningar? Og ætti þess vegna að banna samtökin og setja meðlimina beint á Antabus, sem er einmitt vísindalega gjörprófað vestrænt læknislyf?

Ég er orðin dálítið þreytt á bláeygum trúgjörnum talsmönnum vestrænnar læknisfræði sem vilja hafa vit fyrir okkur hinum, aumingjunum, og passa að við leggjumst nú ekki í eitthvað sem ekki er „vísindalega sannað“. Mér sýnist að þeir sem vilja einkum banna sjúklingum að nota annað en það sem fæst í apóteki og læknir veltalandi á íslenska tungu hefur ávísað séu einmitt svona frekar stálhraustir og þurfi sjálfir ekki á lækningu að halda. Af hverju er hinum stálhraustu svo umhugað um að veikir fari sér ekki að óvísindalegum voða?

Er mögulegt að helstu sjálfskipuðu kjaftæðisvaktendur og andstæðingar hindurvitna haldi sjálfir fram hindurvitnum?  Þeim hindurvitnum að einu lækningarnar sem virki séu af meiði vestrænnar læknisfræði?

P.S. Nei, ég horfði ekki á myndina á RÚV, var að gera annað. En ég hef álíka lítinn áhuga á að banna svona myndir og ég er áhugalaus um að banna fótbolta (sem getur haft virkilega slæmar aukaverkanir, ég hef unnið með og kennt það mörgum fótboltastrákum til að gera mér grein fyrir því) … horfi aldrei á þetta spark en get vel unnt öðrum þess. Og hef tröllatrú á að fólk sé almennt með fullu viti, þokkalega dómgreind og það þurfi ekki að passa upp á hvað það horfir á í sjónvarpi.

Ummæli (21) | Óflokkað, Daglegt líf