Færslur frá 14. maí 2012

14. maí 2012

Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi?

Broskarl með rennilásÉg fjárfesti í DV áðan til að lesa viðtal við Láru Kristínu Brynjólfsdóttur. Hafandi gefið mér að ævinlega eru tvær hliðar á hverju máli og að DV rær á hamfarabloggendamið og gerir út á dramatík las ég viðtalið, sem er góð heimild um hennar upplifun en kannski eru fleiri fletir á sögunni sem ekki koma fram.

En það sem vakti sérstaka athygli mína var tilvitnun í svokallaðan meðferðarsamning sem Láru Kristínu er “ætlað að undirrita”. Af viðtalinu er einna helst að ráða að þessi meðferðarsamningur sé gerður við einhverja deild geðsviðs Landspítalans og að blaðamaður DV hafi skoðað hann. Segir að í sjötta lið samningsins standi eftirfarandi:

“Lára Kristín skuldbindur sig til að ræða beint við meðferðarðila sína ef óánægja kemur upp hjá henni við meðferðina. Treysti hún sér ekki til að ræða þetta beint er henni velkomið að koma skriflegri kvörtun áleiðis í bréfi. Hún mun hins vegar ekki senda tölvupóst á framkvæmdastjóra geðsviðs eða aðra aðila innan spítalans. Þá mun hún ekki ræða meðferðina í fjölmiðlum eða á samskiptasíðum á netinu.” (DV mánudaginn 14. maí 2012, s. 13. Leturbreyting mín.)

Ég get vel skilið að einhverjum starfsmönnum geðdeildar eða geðlækni á Landspítalanum finnist þægilegt og skynsamlegt að gera einhvers konar samning um fyrirhugaða meðferð sjúklings enda kemur fram að í þessum samningi sé að finna “skipulag viðtala og reglur um samráð”. En það að ætlast til að sjúklingur afsali sér stjórnarskrárbundnu tjáningarfrelsi með undirskrift svona samnings finnst mér afar einkennilegt og velti fyrir mér hvort slíkur gjörningur ríkisrekins sjúkrahúss standist lög. (Sama gildir raunar um hvern þann geðlækni sem er.) Getur einhver lesenda svarað þessu? Og vita menn önnur dæmi þess að meðferð sjúklings á ríkisspítala eða hjá starfandi sérfræðilækni innan íslenska heilbrigðiskerfisins sé háð því að sjúklingurinn afsali sér tjáningarfrelsi? Ætli séu dæmi þess að kvensjúkdómalæknar, skurðlæknar, innkirtlasérfræðingar eða aðrir sérfræðilæknar krefjist þess að sjúklingar þeirra grjóthaldi sér saman um meðferðina á Facebook eða hvers kyns netmiðlum og fjölmiðlum og skrifi undir þagnarskyldusamning þar að lútandi?

Ummæli (1) | Óflokkað, Geðheilsa