Færslur júnímánaðar 2012

29. júní 2012

Leti og ómennska

Ég nenni bara alls ekki að blogga, kannski vegna veðurs og sólbaða, kannski vegna óhóflegs magns af morðsögum og öðrum litteratúr, kannski vegna einhvers annars … Ætli sé ekki best að lýsa yfir sumarfríi á blogginu og halda áfram að iðka letina.

Hinn hluti fyrirsagnarinnar, ómennskan, á ekki við mig sjálfa í augnablikinu því ég lifi einstaklega hollu og reglusömu lífi akkúrat núna (eiginlega tilneydd því ef ég hef ekki sérstaklega fyrir því á hverjum degi að láta mér líða sem skást verður dagurinn heldur klénn). Mér dettur hins vegar oft ómennska í hug þegar ég skruna niður umræðuþræði á netmiðlum og stöku bloggi - sem betur fer hef ég þó oftast vit á að lesa ekki svoleiðislagað. Og umræðan um frambjóðendur í forsetakjöri er löngu komin út yfir öll velsæmismörk! Þeim rógnum og illmælginni ætti að linna eftir morgundaginn. En ætli gargendur finni sér þá ekki annað áhugamál til að garga yfir í stafræna tóminu. Og hollast að halla sér að uppdiktuðum morðum í sínum Kindli.

Ummæli (1) | Óflokkað, Daglegt líf

13. júní 2012

Gulli og Múlinn og Sagan

Súper MúliJæja! Enn og aftur ætlar Akraneskaupstaður að ganga til samninga við Gunnlaug Haraldsson um ritun 3. bindis Sögu Akraness, í þetta sinn upp á krít. Sagnir herma að þeir Árni Múli Jónasson bæjarstjóri og sagnaritarinn mikli ætli að skrifa undir samning á morgun.

Í færslu sem ég skrifaði fyrir ári síðan, Verður tilbúið næsta sumar. Ég hef alveg þokkalega samvisku, rakti ég sögu handritsins sem nú kallast 3. bindi Sögu Akraness og spannar nítjándu öld. (Þeir sem hafa áhuga á Sögu Sögu Akraness, vefrits sem stefnir í að verða álíka langloka og Saga Akraness ef svo heldur fram sem horfir, geta hlaðið niður því sem tilbúið er í þeirri sögu á pdf-formi.)

  • Skil á þessu bindi voru fyrst staðfest árið 2001, þ.e.a.s. fyrsta bindi (af þáverandi áætluðum þremur bindum) um byggðasögu 1700-1900. Eftir að Ritnefnd um sögu Akraness undir forsæti Gísla Gíslasonar þáverandi bæjarstjóra (sem nú stjórnar Faxaflóahöfnum) staðfesti þessi skil kom í ljós að talsvert vantaði inn í stykkið og gerður var nýr samningur við Gunnlaug Haraldsson um að skrifa það sem á vantaði.
  • Snemma árs 2003 sagði Gunnlaugur ritnefndinni að hann væri nánast búinn að ljúka sögu Akraness til ársins 1941.
  • Í mars 2005 segir Gunnlaugur Ritnefndinni að nú vanti einungis herslumuninn á að klára Sögu Akraness frá landnámi til 1941 og er bókað á 55. fundi Ritnefndarinnar: „mætti stefna að útgáfu 1. og 2. bindis vorið 2006.“ Því sama hélt Gunnlaugur fram á spjallþræði Akraneskaupstaðar í febrúar 2005.
  • Í ítarlegu minnisblaði Gunnlaugs Haraldssonar í apríl 2008 kemur fram að „Nítjánda öldin 1801-1850 (213 bls.) - bíður prentvinnslu.“
  • Í janúarbyrjun 2010 sagði Gunnlaugur í viðtali við Vísi.is „að hann sé búinn að rita sögu Akraness til 1942 en þá stöðvaðist ritunin.“
  • Í nóvember 2010 staðfesti Kristján Kristjánsson, einn eigenda Uppheima, bókaforlagsins sem gaf út 1. og 2. bindi Sögu Akraness, að 3. bindið sé nú þegar skrifað.
  • Í júní 2011 hafði Skessuhorn eftir Gunnlaugi Haraldssyni að „fyrir liggur að „færa til nútíðarmáls“ handrit mitt að III. bindi (1801-1900) sem safnað hefur ryki í 6-7 ár.“

Á árabilinu 2001, þegar fyrst voru staðfest skil á ritun Sögu Akraness á 19. öld, til ársins 2011 hefur Akraneskaupstaður gert fjölda samninga við Gunnlaug Haraldsson um ritun Sögu Akraness. Alls hefur Akraneskaupstaður pungað út 110 milljónum fyrir sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar og útgáfu á fyrstu tveimur bindunum í Sögu Akraness.

Ritnefnd um Sögu Akraness hélt fund þann 23. mars 2012. Það stingur óneitanlega í augu að einungis tveir af fimm nefndarmönnum mættu á fundinn, formaður Ritnefndar og tveir nefndarmenn voru fjarverandi. Fundargerðin er á hálfgerðu dulmáli:

1. Saga Akraness, 3. bindi. Farið var yfir stöðu málsins, bæði út frá fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar svo og mögulegri aðkomu söguritara að verkinu á næstu mánuðum.

Aðilar málsins munu skoða málið nánar á næstu dögum.

Á fundi bæjarráðs Akraness 25. maí sl. var bókað:

9.  0906053 - Saga Akraness - ritun.
Drög að samningi um ritun Sögu Akraness III bindis ásamt tölvupósti Gunnlaugs Haraldssonar dags. 23. mai 2012.
Bæjarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.  Bæjarstjóra falin undirritun hans.  Einar [Brandsson] óskar bókað að hann sé ósammála ákvörðun bæjarráðs.   

Á bæjarstjórnarfundi í gær, 12. júní 2012, var fundargerð bæjarráðs lögð fram. Til máls tók Einar Brandsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en aðrir þögðu þunnu hljóði eins og venjulega (efst í fundargerðinni sem ég kræki í er krækja í hljóðskrá af fundinum). Í máli Einars kom fram að samningurinn sem bæjarráð samþykkti er þriggja ára samningur Akraneskaupstaðar við Gunnlaug Haraldsson um að bærinn greiði honum 14,5 milljónir á þremur árum fyrir að ganga frá textanum í 3. bindi Sögu Akraness. Ég veit að Kristján Kristjánsson hefur sett það skilyrði að hann verði sjálfur ritstjóri þessa bindis (væntanlega til að gloríur í myndbirtingu endurtaki sig ekki) svo varla er ætlast til að bæjarstjóri undirriti samning við Gunnlaug um allsherjarritstjórn eins og síðast. En mögulega er uppsetning (layout) verksins innifalin í samningnum þótt verði svo að semja við Kristján um eftirlit með þeirri uppsetningu síðar og bærinn verði auðvitað að borga lungann af prentkostnaði því bækurnar seljast vægast sagt takmarkað.

Á fjárhagsáætlun þessa árs, 2012, er gert ráð fyrir 4,2 milljónum í Sögu Akraness. Má af ummælum á bæjarstjórnarfundi í gær ætla að Gunnlaugur fái 4 milljónir í ár - kannski fara tvöhundruðþúsundin upp í þennan tæpa fjögurhundruðþúsundkall sem móðgelsi bæjarstjórans yfir ritdómi kostaði bæinn?  Á langtímaáætlun bæjarins var gert ráð fyrir að eyða 4 milljónum næsta ár, 2013, í Sögu Akraness. Þær 4 milljónir renna beint í vasa Gunnlaugs ef samningurinn hans og Árna Múla verður undirritaður á morgun. Loks hljóðar samningurinn við Gunnlaug Haraldsson upp á rúmar 6 milljónir fyrir vinnu árið 2014. Í samningnum er sá varnagli sleginn að bæjarstjórn eigi eftir að samþykkja þessar fjárveitingar fyrir árin 2013 og 2014. Nú á sem sagt að semja við sagnaritarann upp á krít. Og augljóst að ef bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir ekki fjárveitingarnar sem bæjarstjórinn lofar upp í ermina á kaupstaðnum er þessum 4 milljónum sem Gunnlaugi verða réttar í ár kastað á glæ. Fyrir svo utan það að enginn í bæjarstjórn, bæjarráði eða ritnefnd um Sögu Akraness virðist hafa kveikt á því að Akraneskaupstaður er margbúinn að greiða Gunnlaugi áður fyrir ritunina um þetta tímabil. Af hverju sækir okkar góði bæjarstjóri ekki bara handritið og skellir því í prentsmiðju?

Í dag, 13. júní 2012,  hélt bæjarráð fund. Þar er bókað:

9.  0906053 - Saga Akraness - ritun.
 Samningur við Hjálmar Gunnlaug Haraldsson um ritun Sögu Akraness, III bindi. Samningurinn gerir ráð fyrir verktíma árin 2012 - 2014.
 Afgreiðslu frestað.

Ég reikna með að afgreiðslu bæjarráðs í dag hafi verið frestað af því þeir Árni Múli og Gunnlaugur skrifa ekki undir samninginn fyrr en á morgun …

Ummæli (4) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

12. júní 2012

Skóli og geðveiki

Gagnrýnin hugsunKannski hefði fyrirsögnin frekar átt að vera “námskrárfræði og geðraskanastaðlar” … Ég hef sumsé brugðið mér í gamalt hlutverk, “hinnar greindu alþýðukonu”, og lesið yfir ritgerð mannsins um stefnur og strauma í námskrárfræðum: Sé ekki betur en margt sé líkt með skyldum, þ.e. poppfræðum sem varða skóla og geðveiki.

Nú eru nokkur ár síðan ég var eitthvað í alvörunni að pæla í námskrá framhaldsskóla og hvernig maður matsaði kennsluáætlun þokkalega við svoleiðis. Og ég er búin að gleyma miklu og hef alveg misst af umræðu síðustu ára um nýju námskrána með skemmtilega geggjuðu yfirmarkmiðunum. En eftir að hafa gegnt hlutverkinu “greind alþýðukona sem les námskrárfræði” síðasta árið (maðurinn hefur nefnilega alltaf prófað sínar greinar og texta á mér: Skilji ég ekki textann þarf að laga hann) hef ég einhverja hugmynd um út á hvað þessi nýja námskrá gengur, út á hvað síðasta námskrá gekk og að framhaldsskólakennarar eru almennt ekki svo vitlausir að halda að þetta skipti einhverju máli í kennslu.

Skömmu eftir stríð (seinni heimstyrjöldina) hófust vinsældir “ferskrar skynsamlegrar markmiðssetningar” í námskrá. Ég man eftir helstu uppskriftarfræðingunum úr ukkinu; Bobbit og Tyler og Bloom og kannski Taba. Í einfölduðu máli má segja að uppskriftarpoppfræðingarnir sem eru sívinsælir á Menntavísindasviði og líklega í félagsfræðigreinum almennt telji að í námskrárgerð sé best að byrja með hreint borð (sumsé kasta öllum hefðum fyrir róða), setja yfirmarkmið og greina svo æ smærri undirmarkmið sem eiga að þjóna yfirmarkmiðunum beint, án tillits til faga og fræðigreina. Þessi undirskipun eða beina þjónkun er hins vegar ómöguleg í flestum fögum.

Ég skrunaði yfir almennan kafla nýju námskrárinnar og þrátt fyrir aldarfjórðungsreynslu af kennslu í framhaldsskóla fannst mér að textinn hlyti að fjalla um eitthvað annað en skóla - er hann kannski saminn af fólki sem hefur lítið komið inn í svoleiðis stofnanir?  Hvað í ósköpunum er “menntun til sjálfbærni”, hugtak sem er margtuggið í þessum texta? Ég sé helst fyrir mér áfanga í tóvinnu … Taldir eru upp sex grunnþættir alls náms, síðan níu svið lykilhæfni o.s.fr.; Námskráin er sumsé draumur hvers sortéringarsinna!

Svo tékkaði ég á markmiðum í mínu fagi, íslensku (s. 93), sem eiga á mjög dularfullan og illskiljanlegan hátt að þjóna hinum sex grunnþáttum og hinum níu lykilhæfnisviðum og sé ekki betur en námskröfur slagi hátt í mastersnám á háskólastigi, t.d.:

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að lesa allar gerðir ritaðs máls að fornu og nýju sér til gagns og gamans, skilja lykilhugtök og greina mismunandi sjónarmið.

eða

Nemandi skal geta hagnýtt þá þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að sýna þroskaða siðferðisvitund, víðsýni, sköpunarhæfni og samlíðan í málflutningi sínum, umfjöllun og verkum.

Ég er ansi hrædd um að helstu ráðamenn þjóðarinnar, t.d. þeir sem sitja í ríkisstjórn eða á Alþingi hafi nú ekki náð þessum tveimur markmiðum, a.m.k. ekki því síðarnefnda. Er raunhæft að krefast þessarar getu af nýstúdentum?  Hver ætli séu þessi lykilhugtök og mismunandi sjónarmið sem talin eru í fyrra dæminu? Og heldur einhver í alvöru að nemendur leggist almennt í Grágás, Íslensku hómilíubókina, dróttkvæði, annála, stærðfræðitexta, rannsóknarskýrslur, manntöl, áttvísi, læknisfræði o.m.fl. sér til gagns og gamans, skilji þar í einhver dularfull lykilhugtök og greini mismunandi sjónarmið í hvers lags texta sem er eins og að drekka vatn, eftir að hafa klárað stúdentspróf?

Blessunarlega hugsa ég að fólkið á gólfinu, þ.e. nemendur og kennarar, láti þá hátimbruðu smíð sem nýja námskráin er bara eiga sig og haldi áfram að kenna og (vonandi) læra eins og tíðkast hefur til þessa.

En mér datt í hug, lesandi um þessa tæknihyggju í námskrárgerð, þ.e. að halda að hægt sé að setja einhver absólút yfirmarkmið ótengd fögum (sem má þess vegna kalla grunnþætti og svið lykilhæfni) og fella síðan allt nám og öll fög í undirmarkmið sem eiga að þjóna yfirmarkmiðunum …  að sams konar  tæknihyggja speglist ákaflega vel í sjúkdómastöðlum og þeirra sortéringum. Má nefna DSM (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders) Bandarísku geðlæknasamtakanna sem fyrst kom út 1952 eða náfrænda hans, ICD (International Statistical Classification of Diseases and Related Health Problems) sem Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna gefur út og er einmitt brúkaður hér á landi.

DSM á rætur sínar að rekja til flokkunarkerfis Bandaríska hersins, sem spratt m.a. af þörf á að greina alls kyns krankleik á geði þeirra hermanna sem snéru heim úr seinna stríði. Í hverri nýrri útgáfu DSM hefur skilgreindum geðröskunum fjölgað og skilgreiningar orðið nákvæmari. Fyrstu þunglyndislyfin, þríhringlaga geðlyfin, voru upp fundin (óvart) laust eftir 1950. Svo merkilegt sem það nú er hefur þróun þunglyndislyfja og aukið framboð haldist nokkuð í hendur við aukna smásmygli í og aukið framboð á skilgreiningum þunglyndis í DSM.

Alveg eins og tæknihyggja í námskrárgerð hefur ekki sýnt sig í betra námi eða betri skólum hefur tæknihyggja í þunglyndisgreiningu og fleiri gerðir þunglyndislyfja sem passa við sífellt nákvæmari skilgreiningar og undirgreiningar ekki sýnt sig í fækkun þunglyndissjúklinga. Kannski mætti líta á lyfin eins og undirmarkmiðin í tæknihyggjunámskrárgerð: Lýsingarnar hljóma sosum ljómandi vel en praktísk not eru heldur léleg.

Kann að vera að nákvæmlega sama aðalatriðið gleymist: Við erum nefnilega að tala um eitthvað sem snertir fólk, þátttakendur í margbreytilegu mannlífi. Kann að vera að hátimbruð markmið og smættun ofaní mælanleg undirmarkmið líti vel út á pappír en gagnist minna þegar fólk á að nota þau á annað fólk, hvort sem er til að koma því til nokkurs þroska og til að mennta það eða til að lækna það.

Sem betur fer held ég að bæði góðir kennarar og góðir geðlæknar geri sér þessar takmarkanir vel ljósar. Alveg eins og kennari þarf að geta tekið því að nemendur kjósi að baka Borg á Mýrum og bjóða öllum upp á að éta hana, í stað þess að flytja fyrirlestur um Borg eða skrifa ritgerð um Borg, tekur góður geðlæknir tillit til umhverfis og væntinga síns sjúklings og styður hann í því sem hann vill gera til síns bata.  Eftir margra daga bakstur, mælingar og útreikninga og kökumódelsmíð með glassúr má ætla að nemendur gjörþekki umhverfið á Borg á Mýrum, líklega betur en hefðu þeir búið til Power Point glærusýningu og flutt fyrirlestur um efnið. Eftir vandlegar og ítarlegar pillutilraunir árum saman og raflostmeðferðir má ætla að þunglyndissjúklingur þekki orðið nokkuð vel hvað virkar, öllu heldur hvað virkar ekki, við sínum sjúkdómi.

Í praxís taka góðir geðlæknar væntanlega jafnlítið mark á DSM/ICD og þunglyndislyfjaáróðri og góðir íslenskukennarar taka lítið mark á vaðli um grunnþætti, lykilhæfnisvið og innantómu markmiðskjaftæði í námskrá.

  

Svona aukalega sting ég því inní þessa færslu að lokum að sem ég var að lesa eigið blogg árið 2006 komst ég að því að síðsumars það ár hef ég hnakkrifist við Helga nokkurn Ingólfsson og ekki vandað honum kveðjurnar (sem var að vísu gagnkvæmt). Ásteitingarsteinninn var fyrirhuguð stytting náms til  stúdentsprófs … Það er svo sem ekkert allt jafn sorglegt í lestrinum um lífið mitt sem hvarf í blakkátið/tómið mikla ;)  

Ummæli (6) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál

3. júní 2012

Af fráhvörfum og erfiðu endurliti

Eftir að hafa verið laus við Rivotril í þrjár vikur byrjaði ég að trappa niður Imovane (zopiklon), þ.e. svefnlyfið sem ég hef tekið að staðaldri. Þá tók ekki betra við! Ég er búin að taka eina töflu (7,5 mg) í nokkra mánuði og hélt það yrði lítið mál að helminga skammtinn, hef oft gert það áður en þá ævinlega verið að taka Rivotril einnig. Á öðrum degi varð ég helvíti veik; fannst eins og höfuðið væri í skrúfstykki, ekkert blóð í höfðinu á mér, gat hvorki legið, setið né staðið o.s.fr. Og að sjálfsögðu fylltist ég kvíða yfir að vera að deyja af því mér leið eins og ég væri að deyja og tilhugsunin gerði líðanina enn skelfilegri svo mér fannst ég örugglega vera að deyja ;)   Þegar fæturnir voru farnir að skjálfa stjórnlaust undir mér gafst ég upp og tók hálfa Rivotril. Þar með hef ég öðlast reynsluna af því að falla, til þessa hefur fallreynsla mín einskorðast við að gefast upp á að hætta að reykja … þrisvar.

Nú, ég hafði samband við minn góða lækni og bað um ráð. Svo byrjaði ég upp á nýtt að hætta á Imovane með hægari tröppun og það gengur prýðilega eða þannig; ég þarf helst að vera á spani allan daginn og á bágt með að vera kjur en að öðru leyti er þetta svipað og Rivotril-tröppurnar. Skoðaði nokkrar greinar um z-lyfin (zopiklon, Stillnocht o.fl.) og sá að nútildags eru þau talin síst skárri en benzólyf, í Ashton-benzódrínlyfjafræðum er því meira að segja haldið fram að z-lyf séu eitraðri en benzólyf. Líklega voru það reginmistök að setja upp áætlun um að hætta á Rivotrili og taka samtímis svefnlyf - en þau mistök eru gerð og ekki aftur snúið með þau - nú spila ég úr þessu eftir bestu getu og skv. skynsamlegum ráðleggingum.

Svo er ég búin að fatta tvennt: Annars vegar að Voltaren-hlaup slær pínulítið á vöðvabólguna sem fylgir þessari lyfjatröppun og hins vegar að ég brenni eins og maraþonhlaupari og þarf að passa að borða á tveggja tíma fresti, annars lendi ég í blóðsykurfalli. Vonandi hægir þetta skynsamlega átlag líka á kílóatapinu sem fylgir lyfjahættingunum.

- - -

Ég er að lesa yfir eigið blogg frá janúar 2005 að telja, til að átta mig á gangi sjúkdómsins og hvort læknisráð hafi eitthvað virkað. Þegar ég hóf lesturinn ímyndaði ég mér að ég gæti lesið þetta eins og hverja aðra heimildaskáldsögu eða heimild; af því ég man nákvæmlega ekkert frá því á miðju ári 2004 til síðla árs 2007 og minningar síðan þá eru mjög brotakenndar taldi ég að ég gæti einhvern veginn nálgast þetta efni af fjarlægð, eins og ég væri að lesa um ævi ókunnrar manneskju. En því er ekki að heilsa. Mér finnst mjög erfitt að lesa hugsanir mínar og um líf mitt. Kannski er erfiðast af öllu að sjá vaxandi örvæntinguna sem fylgir síauknu þunglyndinu og hvernig ég og fjölskylda mín höfum haldið dauðahaldi í vonina, vonina um að nú myndi þessi eða hinn lyfjakokteillinn virka, vonina um að raflostmeðferðin fyrri virkaði o.s.fr. Þessar miklu vonir sem bregðast æ ofan í æ - þessi leit að hálmstráum, bara einu oggolitlu hálmstrái sem fyndist ef nógu vel væri að gætt - finnst mér hræðilega sorgleg. Ég held mér myndi finnast þetta jafn sorgleg lesning þótt ég vissi ekki að textinn fjallaði um mig.

Þegar í lestrinum var komið haust 2006 varð ég að leggja frá mér bloggið og taka mér nokkurra daga pásu. Um vorið 2006 fór ég í raflostameðferð og ég las færslu eftir færslu þar sem kom fram að fjölskyldan taldi að mér hefði batnað töluvert, að það væri allt annað upplit á mér, en í færslunum kemur fram samt vel fram vaxandi örvænting yfir tóminu sem ég upplifi; gleymi öllu jafnharðan, kann ekki á tölvuforrit, get ekki lesið, heimilisbankinn lokar hvað eftir annað aðgangi mínum og ég skrifa niður lykilorð en gleymi jafnharðan hvar ég hef lagt frá mér skrifuð minnisatriði … Yfir sumarið rennur upp fyrir mér að ég hef gleymt nokkrum vikum, svo nokkrum mánuðum og þar sem ég hætti að lesa er mér orðið ljóst að meir en ár hefur strokast gersamlega út úr lífi mínu: Ég á enga minningu ár aftur í tímann. Seinna meir á ég eftir að átta mig á því að blakkátið nær tvö og hálft ár aftur í tímann en ég gafst sem sagt upp á að lesa og persónan sem ég er að lesa um (ég sjálf) hefur ekki enn áttað sig á því. Og ekki heldur áttað sig á því að þessar minningar koma aldrei aftur.

Fyrir utan fráhvörf og sársaukafulla fyrsta spors vinnu segi ég allt fínt og líður með skásta móti, svona miðað við allt og allt. Sólin: Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann, eins og segir í kvæðinu. Og Langisandur hefur sjaldan verið eins langur, eins gylltur og eins þakinn börnum að leik og síðustu daga. Þetta er ekki veður til að blogga :)

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa