Færslur frá 22. ágúst 2012

22. ágúst 2012

Rafbækur og Kindillinn minn ástkæri

Við Fr. Dietrich lesum á KindilÍ sumar eignaðist ég Kindil og festi ást á honum umsvifalaust. Ég hef engan áhuga á æpöddum eða öðrum tölvugræjum með snertiskjám. Ekki heldur neinum lesapparötum sem eru með baklýstum skjá. Það er vonlaust að brúka svoleiðis græjur eins og bækur, ýmist vegna þess að tækið er miklu  þunglamalegra en bók eða vegna þess að það er illmögulegt að lesa á skjáinn í mikilli sól. Og ég les mjög gjarna í sólbaði. Þarf varla að taka fram hversu mikið þægilegra er að taka með sér 100+ bækur í sólarstrandarfrí til útlanda þegar þær vega einungis 300 gr eða bókastaflana sem ég hef troðið í töskurnar til þessa ;)

Kindillinn minn er með oggolitlu lyklaborði svo ég get skrifað glósur um leið og ég les, þótt ég hafi ekki nennt því til þessa. Hann tengist þráðlausu neti og húkkar sig inn á 3G net ef háhraðanet er ekki í boði.  Þ.a.l. get ég keypt mér bók hvenær sem er og nánast hvar sem er (svo framarlega sem farsímasamband er í hvarsemerinu). Ég get líka skoðað tölvupóst og vefinn í honum en það er seinlegt og óhöndugt. Kindillinn er fyrst og fremst lesbretti.

Ég reikna með að lestrarhestar kaupi sér gjarna Kindil. Spjaldtölvur og snjallsímar höfða til annars markhóps. Og ég held að bókalestur í Kindli sé hrein viðbót við annan bókalestur, að Kindla noti fyrst og fremst fólk sem les mikið og mun áfram lesa prentaðar bækur. Kannski er helst að Kindill höggvi skarð í kiljulestur, a.m.k. í mínu tilviki því ég er löngu búin að lesa erlendu kiljurnar áður en þær koma út þýddar á íslensku.

Mér finnst tvennt dálítið skrítið þegar kemur að bókum fyrir Kindil:

  • Á Norðurlöndunum (Íslandi meðtöldu) virðast menn sniðganga skráarform sem Kindill les og bjóða einungis upp á skráarform fyrir spjaldtölvur, snjallsíma og sum önnur lesbretti.
  • Íslensk útgáfufyrirtæki eru ótrúlega sein í svifum hvað varðar rafbókaútgáfu og verðlagning á þessum fáu nýlegu bókum sem bjóðast algerlega út úr kortinu.

 

 

Norrænar rafbækur

Nú er hægt að kaupa danskar, norskar og sænskar rafbækur á netinu. Vilji menn lesa á dönsku má benda á þessar tvær búðir:

MuBook segist bjóða upp á ódýrar danskar bækur. Þar má finna ókeypis bækur og upp í rándýrar bækur; Sé listinn yfir mest seldu bækurnar skoðaðar  er t.d. Askepot eftir Kristina Ohlsson á rúmar 30 krónur danskar (600 kr. íslenskar) - sú bók heitir Utangarðsbörn á íslensku og kostar 1.690 kr. í kiljuútgáfu; Kvinden i buret e. Jussi Adler-Olsen kostar 88,50 DKR (1.770 kr.) - kiljan á íslensku, Konan í búrinu, kostar 2.290 kr.; Englemagersken e. Camillu Läckberg kostar hins vegar 212,50 DKR (4.250 kr.) - íslenska kiljan, Englasmiðurinn, kostar 2.170  kr.  Allar þessar bækur eru á EPUB-formi , sem Kindill les ekki. Þær eru hins vegar ekki með afritunarvörn heldur einungis vatnsmerki og því hægt að breyta þeim í mobi-skrá fyrir Kindil í forritinu Calibre.
Mibook auglýsir að hún sé stærsta danska rafbókabúðin með um 245.000 titla (en væntalega eru þar taldar með bækur á ensku). Þar eru rafbækurnar aðeins ódýrari, t.d. kostar Englemagersken hennar Camillu Läckberg 207 DKR (4.140 kr.) í þessari búð. Lausleg skoðun bendir til að bækurnar séu yfirleitt á EPUB-formi með DRM-læsingu.

Bokus.com er sænsk rafbókabúð “där alla böcker bor” virðist geyma gott úrval af rafbókum um ýmist efni, á sænsku, ensku, finnsku, rússnesku og dönsku. Rafbókin Askungar eftir Kristina Ohlsson kostar þar 55 sænskar krónur (983 kr. íslenskar) en pappírskiljan af sömu bók kostar bara 39 sænskar krónur (en svo þarf auðvitað að borga póstsendingargjald). Rafbókin Änglamakerskan eftir Camilla Läckberg kostar 126 sænskar krónur (2.265 kr.). Einnig má leita fanga í Livrel24 sem selur bækur á sænsku. Bækurnar virðast flestar vera á EPUB-formi, án afritunarvarnar en með vatnsmerki.

Ég ber það ekki við að skoða norskar rafbókabúðir - nógu dýrar eru norskar bækur á pappír!

Vilji menn lesa norrænar bækur á ensku í sínum Kindli þá kostar bókin hennar Kristina Ohlsson, Unwanted  heitir þýðingin, 14,97 dollara (tæpar 1.800 kr.) en Englasmiðurinn virðist ekki enn hafa verið þýdd á ensku - af öðrum bókum Läckberg má t.d. kaupa rafbókina Hafmeyjuna, The Drowning, í Amazon Kindle Store fyrir 10,79 dollara (1.295 kr).

(Ég kíkti á vinsældarlistann á Amazone Kindle Store og þar voru rafbækurnar á bilinu um 5-16 dollara; Fyrsta bókin í Hungurleikunum kostar t.d. 4,27 dollara sem eru 512 kr. Yfirgnæfandi meirihluti bóka þar er á ensku.)

Þeir sem hafa útlánaskírteini í bókasafni Norræna hússins geta fengið lánaðar sænskar rafbækur á netinu, sjá upplýsingar á síðunni Hvað er rafbók. Bækurnar eru yfirleitt á EPUB eða PDF formi, með DRM-læsingu. Bækurnar í sænska rafbókasafninu eru af ýmsum toga en vinsælastar eru auðvitað glæpasögurnar og sögurnar sem ég hef nefnt hér á undan standa þar til boða. Hægt er að fá lánaðar tvær bækur á viku og hafa þær í láni í fjórar vikur. Mörg dönsk bókasöfn bjóða upp á rafbókalán og vonandi tekst bókasafni Norræna hússins að ná samningum við eitthvert af þeim.

  

Hvað gera Kindil-eigendur þegar einungis EPUB-skrár eru í boði?

KindillDRM stendur fyrir Digital rights management og er notað til að læsa stafrænum skrám, t.d. rafbókaskrám, svo ekki sé hægt að deila þeim frítt um víðan völl. Þetta er stundum kallað afritunarlæsing.  Það kemur þó fyrir lítið því á torrent-bönkum úir og grúir af ólæstum rafbókaskrám. Enginn skortur er á smáforritum sem brjóta upp slíka læsingu. Þegar læsingin er farin er ekkert mál að nota Calibre til að breyta t.d. EPUB skrá í MOBI skrá, sem Kindill les. Calibre er reyndar hið mesta þarfaþing lesi menn rafbækur því þar má flokka sitt bókasafn og raða skipulega upp. Forritið er ókeypis.

Í næstu færslu fjalla ég um rafbækur á íslensku.

Ummæli (14) | Óflokkað, Bækur, Daglegt líf