Færslur frá 27. ágúst 2012

27. ágúst 2012

Vörn Jakobs og Frjálsar hendur

Það mundi æra óstöðugan ef ég færi að skrifa um allan þann morðlitteratúr sem ég hef lesið í Kindlinum mínum í sumar! Og um einu bókina sem er ekki af þeim toga en ég las samt af miklum áhuga í sólbaði sumarsins og fannst jafnspennandi og morðbókmenntirnar, Anatomy of an Epidemic, ætla ég að blogga sérfærslu um síðar.

Defending JacobHér ætla ég aðeins að nefna Defending Jacob eftir William Landay, sem vissulega má fella undir morðbókmenntir en er mjög sérstök. Ég byrjaði að lesa hana haldandi að þetta væri eins og hvert annað lögfræðidrama, svipað og Grisham skrifar (mistækur er hann vissulega en sumar bækurnar hans eru glettilega góðar). Defending Jacob fjallar um piltinn Jacob sem er 14 ára gamall en faðir hans, saksóknari, er sögumaður. Skólabróðir Jacobs finnst myrtur og böndin berast að Jacob; hann er handtekinn fyrir morðið og réttað yfir honum. Ákveðið atvik verður til þess að réttarhöldum er hætt og málið fellt niður. En svo tekur sagan óvænta stefnu …

Defending Jacob  fjallar samt kannski að minnstu leyti um morðið og réttarhöldin, það er bara yfirborðið. Fyrst og fremst fjallar sagan um stöðu og afstöðu foreldra þegar barnið þeirra er ákært fyrir morð. Hversu vel þekkja foreldrar börnin sín? Er til sérstakt drápsgen (killer-gene /warrior-gene) og er réttlætanlegt að brúka erfðafræði í vörn í morðmáli? (Þetta eru ekkert svo vitlausar vangaveltur því þegar hefur einn amrískur morðingi sloppið við aftöku út á þetta warrior-gene.) Eru til börn og unglingar sem eru illmenni af náttúrunnar hendi? Hvað hugsar foreldri sem ber drápsgenið og veit að ákærði unglingurinn þess ber það líka? Hvernig bregðast nágrannar eða fólkið í bænum við þegar unglingur hefur verið ákærður fyrir að myrða skólafélaga sinn? Hversu langt ertu tilbúin(n) til að ganga til að verja barnið þitt og hverjar eru afleiðingarnar? 

Þetta eru aðalatriðin í  Defending Jacob. Mér finnst að það hefði vel mátt stytta bókina um svona 20-30% og viðurkenni alveg að ég rétt skannaði síðurnar um miðbik bókarinnar og nennti ekki að lesa þær frá orði til orðs. En fyrsti og síðasti hlutinn eru mjög góðir. Endirinn er óvæntur og fær lesanda til að endurmeta allt sem áður hafði verið lýst.

Þessi bók hefur fengið góða dóma, sýndist mér, og til stendur að gera kvikmynd eftir henni. Ég mæli eindregið með bókinni og ætla sko örugglega að sjá myndina!

Frjálsar hendur KennarahandbókSvo hef ég nýverið gluggað í tvær bækur á pappír sem báðar eru eftir kennara í MR; Annars vegar Óð, ljósmyndabók Davíðs Þorsteinssonar, og hins vegar Frjálsar hendur. Kennarahandbók, eftir Helga Ingólfsson. Sú síðarnefnda er kilja og mögulega hafa starfsmenn bókabúða raðað henni með skólabókunum ;)

Ég hugsa að kennurum, einkum framhaldsskólakennurum, einkum íslenskukennurum í framhaldsskóla, og ekki hvað síst íslenskukennurum í fjölbrautaskóla, finnist Frjálsar hendur. Kennarahandbók óborganlega fyndin! Aðalpersónur eru flestar kennarar í Fjölbrautaskólanum í Kringlumýri. Inn í bókina fléttast svo gamlir kunningjar úr fyrri bókum Helga, t.d. þingmaðurinn Hreggviður og skáldið Gissur Þorvaldsson. Ég veit ekki alveg hvort aðrir en þeir sem hafa reynslu af kennslu fatta húmorinn almennilega en megnið ætti nú að skila sér til hvers sem er. Skilyrðið er að finnast farsar skemmtilegir, þar sem persónurnar lenda í ótrúlegustu ógöngum og uppákomum, oft algerlega óvart. Það eina sem mér fannst leiðigjarnt í sögunni voru birtir kaflarnir úr nútímafornaldasögunni sem íslenskukennarinn var að semja … en ég hoppaði þá bara yfir þá. (Jújú, ég fattaði flestar vísanirnar en hef bara ekki húmor fyrir hugmyndinni - mér duttu samt í hug nokkrir sem fyndust þetta bestu kaflar bókarinnar svo þetta er fyrst og fremst spurning um persónulegt skopskyn.)

Ég mæli eindregið með Frjálsum höndum. Kennarahandbók, ekki hvað síst fyrir framhaldsskólakennara. Auk þess held ég að starfsmenn Menntamálaráðuneytisins hefðu voðalega gott af því að lesa bókina. Hennar stærsti ókostur er að hún er ekki fáanleg sem rafbók!
 
  

Ummæli (6) | Óflokkað, Bækur