Færslur septembermánaðar 2012
Prjónið og fagorðin
Elstu ritheimildir um prjón hér á landi er að finna í skjölum Guðbrands biskups Þorlákssonar á Hólum. Þar segir:
af landskylldum giort j Suarf(ad)ardals vmbodum med Vrda jordum og Socku. anno 1582 j fardogum. burt golldit j kaupgiolld og skullder. [- - -] prioonasaumur 22 paur.
og
[- - -] a Vrdum Domnicia 2a post epi(phaniam) anno 1583 [- - -] a eg nü þar von ae af tijundarvadmalum xx alnum. jitem j vor ad kom v voder og vij alner. jitem prionasaumur lxxx og xvj pör.
(Bréfabók Guðbrands byskups Þorvaldssonar, s. 227-228)
Árið 1581 bókar Guðbrandur biskup að upp í landskuld af Gardzhorni hafi verið goldið m.a. með „vj paur socka“ (Bréfabók G. s. 195) og minnist á „íííj paur so(k)ka“ í öðru skjali (Bréfabók G. s. 218). Það má því ætla að prjónasaumurinn sem hann nefnir 1582 hafi verið prjónaðir sokkar.
Orðið prjónasaumur var svo notað áfram yfir prjónaðar flíkur, allt fram á 20. öld, skv. dæmum Ritmálssafns (Orðabókar Háskóla Íslands) en frá miðri 17. öld hefur þekkst orðið prjónles og hefur það á síðari öldum orðið ofan á.
Orðið prjónaður kemur líka fyrst fyrir í efni tengt Guðbrandi biskupi, þ.e. í Guðbrandsbiblíu, Jóhannesarguðspjalli 19:24, þar sem segir um kyrtil Jesú: „Enn kyrtillin[n] var eigi saumaðr / helldr fra ofan verdu allr prionadr.“ Í ofurlítið yngri heimild segir um sama kyrtil: „hann [kyrtillinn] var ecke saumadur helldur prionadur.“ (Passio, þýdd bók eftir Lúther, gefin út á Hólum árið 1600, s. 208.)
Orðið prjónn var þekkt í íslensku frá fornu fari og líklega merkti það síll/sýll eða alur, a.m.k. oddmjótt hvasst verkfæri. Í Sturlungu er nefndur Ögmundur nokkur sem hafði viðurnefnið prjónn. „[…] lat brenna allann [fjárhlut] sva ath konungr hafi hvorki af prionn ne pening“ segir Valgautur jarl í Ólafs sögu hins helga; “alin [er] kambur og prionn og nal” segir í lista yfir verðgildi í handriti af Búalögum, líklega frá 1550. Í Íslenskri orðsifjabók segir að uppruni orðsins sé umdeildur; sumir telji það fornt tökuorð úr fornslavnesku, prionu, sem sé sama orðið og prion[i] í grísku og merki sög eða bor. Aðrir haldi að orðið sé af germönskum toga, upphaflega rótin hafi verið *preu-, sem þýði stinga eða ota. Í sömu heimild segir að ólíklegt sé að íslenska orðið prjónn sé tökuorð úr fornensku, fornenska (og miðenska) orðið var preon, en það er ekki rökstutt nánar. Cleasby og Vigfússon halda því hins vegar fram að íslenska orðið prjónn samsvari gelíska orðinu prine og skoska orðinu prin. Í miðensku var til orðið preon, sem þýddi prjónn, og mögulega sögnin preonen (dæmin sem tekin eru í A Middle English Dictionary eftir Stratman um þessa sögn sýna ekki afdráttarlaust að hún hafi þýtt að prjóna þótt höfundur orðabókarinnar staðhæfi það). Í Hjaltlandseyja-Norn var til nafnorðið prin, sem þýddi alur eða stór títuprjónn. Jakob Jakobsen telur að þetta sé sama orðið og íslenska orðið prjónn. Í færeysku er til orðið prónur (eldra preunur) sem þýðir stór títuprjónn eða prjónn og rekja má þetta orð víðar.
Í Guðbrandsbiblíu sést mætavel að orðið prjónn hefur á dögum Guðbrands ennþá verið samheiti við al eða sýl þótt Íslendingar hafi þá tileinkað sér tæknina að prjóna og líklegt er að sögnin sé mynduð með hliðsjón af verkfærunum, prjónum: „… tak einn Prion / og stijng i giegnum hans Eyra“ (5. Mósebók 15:17) - í nútímaþýðingu er klausan: „… þá skaltu taka al og stinga honum í gegnum eyrnasnepil hans.“ Annars staðar í Guðbrandsbiblíu stendur: „… og stinga i giegnum hanns Eyra med Al“ (2. Mósebók 21:6) - nútímaþýðingin er: „[Síðan skal húsbóndi hans] stinga al í gegnum eyra hans.“
Danski málfræðingurinn Inge Lise Pedersen telur að norska sögnin pjåna eða pjaodna sé upphaflega sama sögn og sú íslenska, prjóna. Hún vitnar í Ross [sem hlýtur að vera Hans Ross orðabókarhöfundur, f. 1833, en heimildar er að öðru leyti ekki getið] sem skýri sögnina „hekle ell. strikke paa en egen maade“. Orðið var algengast á Hörðalandi. Nú á dögum er norska nafnorðið pjoning notað um ákveðið hekl, stundum kallað bosnískt hekl (shepherd’s knitting á ensku), sem er eiginlega bara heklaðar fastalykkjur. Hekl er hins vegar miklu yngri tækni á Norðurlöndunum en prjón. Inge Lise Pedersen rökstyður að pjåna hljóti að hafa upphaflega átt við nálbragð. (Rökstuðning fyrir hinu sama má sjá í grein Margarete Morset, Hårnål eller heklenål? í tímaritinu Spor 1987.) Af því að orð geti færst af einni tækni yfir á aðra geri það mönnum erfiðara fyrir að að meta hvort upplýsingar [Ross] um að pjåna hafi þýtt prjóna sé misskilningur eða að sú merking hafi verið til en sé nú týnd, segir Pedersen. Hún getur sér síðan til að pjåna hafi áður verið notað um ákv. tvíbandaprjón, kallað tvåäandstickning nú, og enn eldri notkun sé nálbragð. Loks stingur hún upp á að Norðmenn hafi haft orðið í farteskinu þegar þeir námu land á Íslandi og jafnvel mætti halda því fram að orðið pjåna (nú pjona) sé nú eitt af örfáum íslenskum tökuorðum í norsku. Satt best að segja skil ég ekki alveg hvernig hún hugsar síðastnefndu fullyrðinguna en vel að merkja segir Pedersen sjálf að hún sé „kættersk tanke“ (villutrúarhugmynd)! Fyrir um ári síðan bar ég þessi líkindi með pjone og prjóna undir málfræðinginn Guðrúnu Kvaran en hún taldi ekki vera tengsl milli þessara tveggja orða. Myndin er af pjoning-nál og pjonuðu stykki.
Til að draga þetta saman má segja að nokkuð öruggt sé að íslenska orðið prjónn hafi verið til, í annarri merkingu þó, þegar Íslendingar lærðu að prjóna. Það að dregin sé sögn af þessum verkfærum (prjónum) hafa sumir viljað tengja við Englendinga, því líkt orð þekktist um verkfærið prjón á ensku, og notað sem rök fyrir að Íslendingar hafi lært að prjóna af enskum sjómönnum. En af því orðið má rekja víðar eru þetta ekki sérlega góð rök fyrir þeirri tilgátu, allt eins líklegt er að Íslendingar hafi lært þessa tækni af hollenskum eða þýskum. Mögulegt er að eitthvert orð hafi verið til í íslensku yfir nálbragð sem líktist sögninni prjóna en um það er ekkert vitað. (Kristján Eldjárn stakk á sínum tíma upp á orðinu nálbragð og mér vitanlega er ekki varðveitt neitt gamalt íslenskt orð yfir þá tækni.)
Gömul prjónaorð á hinum Norðurlöndunum
- Binde var algengasta sögnin fyrir prjóna í Danmörku. Það er reyndar líka þekkt í eistlandssænsku, sums staðar í Noregi og í Færeyjum. Enn þann dag í dag binda Færeyingar og nota til þess stokka (orðið yfir prjóna).
- Knytte var notað í Danmörku og Skáni og Hallandi í Svíþjóð. Í Slésvík var orðið notað yfir h-prjón, þ.e.a.s. þegar menn prjónuðu líkt og Englendingar gera ennþá, kasta þræðinum yfir með vísifingri á hægri hönd, en á Mið-Sjálandi var knytte aðallega notað um v-prjón, þ.e.a.s. prjónaðferð þá sem Norðurlandabúar nota flestir í dag þar sem garnið hvílir á vísifingri vinstri handar.
- Lænke var einungis notað í Danmörku, á Lollandi, Falstri, Vestmøn og Suður-Jótlandi.
- Pregle er lágþýskt tökuorð og var notað syðst á Jótlandi.
- Pinde var notað á afmörkuðu svæði á Vestur-Jótlandi.
- Spete þekktist í Borgundarhólmi og á Suður-Skáni.
- Sy var notað sums staðar í Smálöndum og Austgotalandi.
- Sömma þekktist víða annars staðar í Svíþjóð yfir prjóna.
- Sticka er gamalt orð í mjög mörgum sænskum mállýskum. Sticka getur líka þýtt sauma. Svíar sticka nú á dögum þegar þeir prjóna.
- Strikke / stricke var notað í Danmörku og Svíþjóð. Orðið kemur fyrir í ýmsum myndum, t.d. þekkjast strick-, strix, strigstrømper í dönskum textum frá 17. öld. Strikke er nútíma danska og norska sögnin yfir prjóna.
- Spita (og spyte) var algengt víða í Noregi. Sums staðar var notað orðmyndin spøte.
Að mati Inge Lise Pedersen má skipta norrænum orðunum sem þýða prjóna nokkurn veginn í þrjá flokka:
Flokkur orða sem lýsir því hvað gert er við garnið; binde, knytte, lænke, strikke þýða í raun öll að hnýta saman þráð í hnúta eða lykkjur;
Flokkur orða sem lýsir því hvað gert er með prjónunum; pinde, pregle, prjóna, spøte (og sticka?) lýsa því að prjónum er stungið í lykkjur til búa til nýjar lykkjur;
Flokkur orða sem eru fengin að láni úr annarri hannyrðahefð; sy, sömma (og sticka?).
Heimildir:
Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans 1989.
Bréfabók Guðbrands byskups Þorvaldssonar birt af Hinu Íslenzka Bókmenntafélagi 1919-1940. Páll Eggert Ólason sá um þessa útgáfu.
Cleasby, Richard og Guðbrandur Vigfússon. 1874. An Icelandic-English Dictionary.
Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
Føroysk orðabók. Føroya Fróðskaparfélag 1998.
Guðbrandsbiblía (Biblía. Þad Er Øll Heilóg Ritning vtlógd a Norrænu.) útg. 1584.
Jakobsen, Jakob. Etymologisk ordbog over det norrøne sprog på Shetland. Útg. 1921.
Jón Hilmar Magnússon. Íslensk færeysk orðabók. Útg. 2005
Luther, Martin. Passio. Þad er Historian Pijnunnar og Daudans vors Frelsara Iesu Christi. Útg. 1600.
Morset, Margarete. Hårnål eller heklenål? Spor - fortidsnyt fra midt-norge. 1987, 2. árg. 4. hefti s. 8-9.
Orðabók Árnanefndar: Ordbog over det norrøne prosasprog. Árnastofnun í Kaupmannahöfn og Kaupmannahafnarháskóli.
Pedersen, Inger [svo] Lise. Binde, pregle, spita, sticka, sy. Udkast til en kortlægning af nordisk strikketerminologi. Nordiska Studiar. Innlegg på den tredje nordiske dialektologkonferansen, s. 303- 325. Útg. 1988 (en ráðstefnan var haldin 1986).
Svabo, J. C. Dictionarium Færeoense. Færøsk - dansk - latinsk ordbog. Útg. 1966
Stratmann, Francis Henry og Henry Bradley. A Middle-English Dictionary. Útg. 1891.
Af límingunum - um Unhinged
Í sumar og haust hef ég lesið ýmsar bækur og greinar um geðlyf og geðlækningar. Ég hef áður bloggað um bók sálfræðingsins Irving Kirsch, Nýju lyfin keisarans, og gagnrýni á hana. Kannski blogga ég einhvern tíma um Anatomy of an Epidemic eftir blaðamanninn Robert Whitaker, fína bók til að byrja á að átta sig á ýmsum hindurvitnum í nútíma geðlækningum, og vonandi kemst ég í gegnum þau massífu fræði The Myth of the Chemical Cure. A Critique of Psyhiatric Drug Treament, eftir breska geðlækninn Joanna Moncrieff, sem ég er að lesa núna.
Bók bandaríska geðlæknisins Daniel J. Carlat, Unhinged. The Trouble with Psychiatry - a Doctor’s Revelations about a Profession in Crisis, er ákaflega vel skrifuð og læsileg, heimilda er og getið ítarlega. Hún kom út fyrir tveimur árum og satt best að segja held ég að allir geðlæknar hefðu ákaflega gott af því að lesa hana, ekki síður en geðsjúklingar. Það er erfitt að þýða titilinn, unhinged getur þýtt „af hjörunum“, „úr skorðum“ eða bara hreinlega „klikkaður“. Líklega nær íslenska orðalagið „gengið/farið af límingunum“ best merkingunni. Titillinn vísar til þeirrar skoðunar höfundar að einhvers staðar hafi geðlæknisfræði farið út af sporinu/af hjörunum og hann lýsir mætavel þeirri hugmyndafræðilegu kreppu sem hann sjálfur og kollegar hans eru í. Þessari kreppu hefur Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur gert ágæt skil í greininni Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni, í Tímriti félagsráðgjafa, 1.tbl. 5.árg. 2011, s. 5-14.
Unhinged er samtíningur af ýmsu efni sem er haganlega felldur saman í eina heild. Sumt er frásagnir Carlat af sínu námi, margt frásagnir úr starfi, t.d. ýmsar smásögur (anekdótur) af sjúklingum og sjúkratilfellum, sumt er umfjöllun um geðlyf, þ.á.m. blekkingarleik og sölumennsku risastórra lyfjafyrirtækja en einnig er tæpt á sögu lyfjanna, sumt er umfjöllun um aðrar aðferðir við geðlækningar, t.d. raflækningar (ECT), skreyjutaugarörvun (VNS), segulómörvun (TMS) o.fl. Veigamikill hluti bókarinnar eru vangaveltur Carlat sjálfs og í lok hennar setur hann fram nokkrar hugmyndir um hvernig megi koma geðlækningum á rétta braut.
Carlat hefur verið harkalega gagnrýndur af kollegum sínum fyrir þessa bók. Niðurstöður hans, sem starfandi geðlæknis, eru þó ekkert ákaflega byltingarkenndar. Hann vill áfram ávísa þunglyndislyfjum þegar það á við þótt hann viðurkenni fúslega að vísindin sem þau eiga að byggja á séu hugarsmíð og mögulega felist lækningarmáttur þeirra aðallega í lyfleysuáhrifum. Hann er hlynntur raflækningum þótt hann dragi ekki fjöður yfir það að enginn viti hvernig 40-45 sekúndna krampi heila geti haft lækningarmátt fyrir marga þunglyndissjúklinga og að þessi aðgerð geti haft geigvænlegar afleiðingar fyrir lítinn sjúklingahóp. Kannski er það sem fer mest fyrir brjóstið á öðrum geðlæknum að Carlat viðurkennir hikstalaust að menn séu litlu nær um af hverju þunglyndi stafar en menn voru á dögum Hippókratesar, að kenningasmíð til að útskýra orsakir þess er að mestu hugarleikfimi en ekki byggð á vísindum og að hann heldur því fram að akkilesarhæll geðlækna sé vangeta og síminnkandi vilji til að hlusta á sjúklinga og veita almennilega viðtalsmeðferð. Carlat telur að grunnnám í læknisfræði nýtist geðlæknum næsta lítið og að þeir hefðu miklu meira gagn af því að læra sálfræði. Ofuráhersla síðustu áratuga á líffræðilegar skýringar geðsjúkdóma hafi alls ekki skilað góðum árangri. Hann er og jákvæður fyrir því að sálfræðingar fái að ávísa geðlyfjum eftir skemmri skírn í lyfjafræði og læknisfræði.
Lofsamlegir dómar um Unhinged almennt urðu ekki til að lægja öldurnar sem bókin vakti hjá kollegum Carlat, amerískum geðlæknum. Sem dæmi má nefna ritdóm Chetan Haldipur, prófessors í geðlæknisfræðum, sem birtist í Psychiatric Times 6. júlí 2011 en honum lýkur á klausunni:
Unhinged er ein margra bóka sem komið hafa út upp á síðkastið og gagnrýna geðlæknisfræði. Það hefði mátt búast við meiru af hæfileikaríkum og hálærðum geðlækni á borð við Daniel Carlat. En þess í stað er hér bók sem er uppfull af hneykslum og álitaefnum og nokkurs konar ádeilurit - nokkur konar „trahison des clercs“ [þetta er líklega vísun í titil frægrar bókar heimspekingins Julien Benda, enska þýðingin var kölluð The Betrayal of the Intellectuals, þ.e. Svik menntamannanna] - fremur en gáfuleg umræða um geðlæknisfræði. Í þessu felst vandi geðlæknisfræðinnar.
Daniel Carlat svaraði þessum ritdómi samdægurs.
En fyrst færðist þó fjör í leikinn þegar Marcia Angell, fyrrum ritstjóri The New England Journal of Medicine, skrifaði langan ritdóm um bækur Kirsch og Whitaker, sem nefndar voru hér efst í færslunni, og Unhinged Daniels J. Carlat í New York Review of Books (sjá The Epidemic of Mental Illness: Why?, 23. júní 2011 og The Illusions of Psychiatry 14. júlí 2011). Í þessari löngu umfjöllun segir Angell undan og ofan af bókunum og ræðir þær skoðanir og staðhæfingar sem í þeim eru settar fram, reynir að meta þær og niðurstaðan er yfirleitt sú að rökstuðningur höfundanna sé góður og megi ætla að þeir fari með rétt mál. Raunar stendur þessi langi dómur ágætlega fyrir sínu sem sjálfstæð umfjöllun og er prýðilega skrifaður - áhugafólk um þunglyndi eða aðra geðræna sjúkdóma og hefðbundnar lækningatilraunir nútímans við þeim hefði eflaust gagn og gaman af því að lesa hann. Í seinni ritdómnum gerir hún einnig DSM-IV-R (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, endurskoðaða fjórðu útgáfu, þ.e.a.s. þann staðal sem Bandarísku geðlæknasamtökin nota til að greina geðsjúkdóma) að umtalsefni.
Sjá má aðsend bréf vegna ritdómsins hér og má benda á að Daniel Carlat tekur þar til máls og álasar Angell fyrir að taka gagnrýnilaust undir niðurstöður Kirsch, þ.e. að munurinn á gagnsemi lyfleysu og geðlyfja í rannsóknum sé svo lítill að hann sé ekki klínískt marktækur. Carlat staðhæfir að munurinn skipti máli þótt lítill sé. Þetta hefur væntanlega glatt geðlækna en næsta efnisgrein Carlat kann að hafa hleypt duglega upp í þeim sumum:
Það er engin spurning að innan læknisfræðinnar er geðlæknisfræði frumstæðust þegar litið er til vísinda. Við höfum einungis mjög ófullkominn skilning á lífeðlismeinafræði geðrænna sjúkdóma og í neyð höfum við gripið til hálmstráa og síbreytilegra kenninga um hvernig meðferð okkar virkar. Dr. Angell dregur vel fram þennan sannleik en á sama tíma afgreiðir hún með fljótaskrift þann sannanlega ávinning sem við getum þrátt fyrir allt veitt sjúklingum okkar.
Ári eftir að hinn langi ritdómur Marciu Angell birtist andmælti þungavigtarmaður í geðlæknisfræðum, John H. Krystal, henni harðlega, sjá Dr Marcia Angell and the Illusions of Anti-Psychiatry í Psychiatric Times 12. ágúst 2012. Þótt hann sé á yfirborðinu að finna að umfjöllun Angell er hann vitaskuld einnig að andmæla Kirsch, Whitaker og Carlat því Marcia Angell tók mjög undir þeirra málflutning. Aðalatriðin í grein Krystal eru sömu rök sem maður sér víða notuð af geðlæknum í viðbrögðum við gagnrýni á hvernig geðlækningar eru praktíseraðar, s.s. að það sé hættulegt að halda því að almenningi að geðlyf séu gagnslítil eða gagnslaus og vísindin á bak við þau engin vísindi; að það auki brennimerkingu geðsjúklinga þegar fundið er alvarlega að DSM-greiningarstaðlinum; að ritandi (í þessu tilviki Marcia Angell) hafi ekki nægilega mikla þekkingu til að fjalla um efnið o.s.fr. Um leið finnur Krystal að því að manneskja eins og Angell sé hátt skrifuð í fræðaheimi sem fyrrverandi ritstjóri The New England Journal of Medicine og misnoti þá stöðu sína í skaðlegum málflutningi og álasar henni fyrir að benda ekki á nýjar leiðir í geðlækningum úr því hún taki undir gagnrýni á núverandi ástand.
John H. Krystal skartar traustvekjandi titlafjöld, þ.á.m. er hann forseti The American College of Neuropsychopharmacology, leiðandi félags fræðimanna í rannsóknum á heila, atferli og geðlyfjunarfræðum (segir á heimasíðu þess). Á hinn bóginn renna á lesanda tvær grímur þegar kemur í ljós að hann þiggur greiðslur frá mörgum stærstu geðlyfjaframleiðendum í heimi og læðist að manni sá grunur að kannski geri þau tengsl hann ekki algerlega hlutlausan í sinni gagnrýni.
Loks má nefna að mögulega hefur Unhinged haft einhver jákvæð áhrif á geðlæknastétt vestanhafs, orðið til þess að einhverjir geðlæknar séu til í að ræða þessi mál án þess að hrökkva í harða vörn, líkt og Haldipur og Krystal. Ronald W. Pies, prófessor í geðlæknisfræði og skáld, skrifaði tvær greinar um stöðu og framtíðarhorfur geðlækninga í Psychatric Times, How American Psychiatry Can Save Itself, og birtist fyrri greinin 8. febrúar 2012, sú síðari þann 1. mars 2012. Þar ræðir hann gagnrýni á geðlækningar, reynir að meta hvað sé réttmæt gagnrýni og hvað byggist á hindurvitnum og kemur loks með tillögur að því hvernig geðlæknastéttin geti bætt sín vinnubrögð og endurheimt virðingu sína. Ég sé raunar ekki betur en tillögur hans séu að miklu leyti samhljóða tillögum Carlat í lok bókarinnar Unhinged.
Ég mæli eindregið með bókinni Unhinged fyrir alla sem eiga við geðræna kvilla að stríða og alla geðlækna. Þess utan er þetta skemmtileg og vel skrifuð bók sem margir hefðu sjálfsagt gaman af að lesa.
Af Rivotril-tröppun og fráhvörfum
Svo sem sést á töfluglasinu hér til hliðar (sem var leyst út þann 9. mars 2012) hefur mig líklega misminnt hve háan Rivotril-skammt ég tók að staðaldri þegar ég steig fyrstu tröppuna í að hætta á þessu lyfi, seinna í mars 2012. Geðlæknirinn minn hefur ávísað mér 2 mg á dag. Mér þykir ólíklegt að ég hafi tekið þann skammt, yfirleitt hef ég reynt að taka heldur minna af þessu lyfi en lækninum hefur þótt ráðlegt. Ég minnkaði niður í 0,5 mg Rivotril þann 17. mars, úr 1 mg að ég hélt, en e.t.v. tók ég 1,5 mg á dag (3 töflur). Þann 22. apríl bloggaði ég, svívirðilega bjartsýn:
Ég setti upp þriggja mánaða áætlun, sá að happadrýgst yrði líklega að nota svefnlyf a.m.k. allan þann tíma (ég hef ekki náð upp eðlilegum svefni frá Marplan-tilrauninni, sem ég lýsti í síðustu færslu - las raunar talsvert um slæm áhrif Imovane og ávanahættu af því en það er seinni tíma vandamál) og sá að ég ætti að nýta mér það eina ráð sem mér tókst að tosa út úr hjúkrunafræðingi á Vogi, sumsé að hafa samráð við lækni. Svo ég setti heimilislækni, sem ég treysti vel og þekkir vel til mín og minna mála, inn í málin. Að auki setti ég fjölskylduna, bestu vinkonu mína og AA-deildina mína inn í þetta sem ég er að gera og byrjaði að ganga til sálfræðings hér uppi á Skaga, fyrst og fremst til að “fá lánaða dómgreind” (eins og alkafrasinn hljómar).
Þetta hefur gengið eftir til þessa. Fyrsta trappan var úr 1 mg niður í 0,5 mg og hún var mjög erfið! (Mögulega var ég að taka meir en 1 mg á sólarhring, ég er ekki viss því það hefur verið ansi mikið hringl á Rivotril skömmtum í vetur.) Næsta trappa, sem ég er stödd á núna, niður í 0,25 mg, er líka mjög erfið (því miður, ég hélt að hún yrði kannski dálítið skárri en það gekk ekki eftir).
Þetta reyndist sérlega óskynsamlegt ráðslag og ég hefði betur tekið almennilega eftir í efninu sem ég las! Hef mér þó til málsbóta að bensódíazapemlyf eins og Rivotril valda miklum truflunum á minni og annarri hugrænni starfsemi, sérstaklega ef þau hafa verið tekin um árabil. (Sjá t.d. Barker o.fl. Cognitive Effects of Long-Term Benzodiazepine Use. A Meta-Analysis í CNS Drugs 2004; 18 (1), s. 37-48). Ég lauk að vísu tröppun Rivotrils eftir þessari áætlun en sat uppi með slæm líkamleg einkenni á eftir og geri enn.
Nú er mjög upp og ofan hvernig fráhvörf af bensólyfjum lýsa sér, það er einstaklingsbundið. Í stöku tilvikum situr maður uppi með langvinn (protracted) einkenni (sjá Protracted withdrawal symptoms í The Asthon Manual, handbókinni sem flestir sem fjalla um bensódíazapemfráhvörf vísa í, eða What is protracted withdrawal syndrome? á Benzodiazepine Dependency and Withdrawal Frequently Asked Questions (FAQ) file, Version 1.2 ) og því miður lenti ég í því, kannski af því ég fór of geyst í byrjun. Í mínu tilviki eru þetta sárir verkir í neðri kjálka og neðri gómi vinstra megin, sem og oft sviði í munni (burning mouth syndrome). Auðvitað er ég búin að láta tannlækni athuga hvort allt sé í lagi - allt var í sallafínu lagi - og heimilislæknir taldi mig vera með skútabólgu en röngtenmyndataka leiddi ekkert í ljós nema tandurhreinar og fínar ennisholur. Svo ég reikna með að stóri kjálkavöðvinn sé að fríka út af einhverjum röngum taugaboðum sem megi rekja til þess að Rivtotrilið hafi fokkað upp GABA-kerfinu í heilanum á mér. Enda hef ég prófað að taka heila Rivotril-töflu og einkennin hurfu eins og dögg fyrir sólu … sem er ágætis staðfesting á að þessir verkir séu af fráhvarfi.
Ég er auðvitað búin að lesa helling um svona kjálkaverki og burning mouth syndrom og finnst dálítið athyglisvert að í greinum í ritrýndum tímaritum (gjarna læknisfræðitímaritum eða tannlæknisfræðitímaritum) er vitnað hægri vinstri í rannsóknir sem sýna að lyfið Rivotril (klónazepam) virki einna skást lyfja á þessa kvilla! Flestir sem finna fyrir miklum fráhvörfum af bensódíazapemlyfjum fá afturkastsáhrif (rebound effect), þ.e. að einkennin sem lyfið átti að hemja aukast þegar lyfjagjöf er hætt. Ég fékk þessu lyfi ávísað vegna kvíða, einkum ofsakvíðakasta, fyrir um níu árum síðan og mér hefur verið ávísað því að staðaldri síðan. Vissulega fann ég fyrir kvíða þegar ég byrjaði að trappa niður en ekkert svo miklum, í rauninni ekkert meir en verandi á Rivotril; þetta lyf virkaði nefnilega aldrei neitt sérlega vel á almennan kvíða og nánast ekkert á ofsakvíðaköstin. Mér finnst dálítið ósanngjarnt að sitja uppi með langvarandi fráhvarfseinkenni sem ég hef aldrei orðið vör við áður og kvilla sem lyfinu var alls ekki ávísað við Gleðilegu fréttirnar eru þær að kvíði, ofsakvíðaköst meðtalin, hverfa hratt eftir því sem ég minnka töku Rivotrilsins meir.
Óskynsamlega leiðin sem ég valdi var óskynsamleg að tvennu leyti: Í fyrsta lagi trappaði ég Rivotril alltof hratt niður; Í öðru lagi verkar svefnlyfið Imovane (tilheyrir svokölluðum z-lyfjum eða cýklópyrrólon-lyf) á mjög svipaðan máta og bensódíazapemlyf og sama vesenið fylgir að hætta á því. Ég varð verulega veik þegar ég var hætt á Rivotril og tók þá strax til að trappa Imovane of hratt niður. Snemma í júlí voru þessir kjálka-/góm-/sviðaverkir orðnir nánast óbærilegir. Þá fór ég aftur á Rivotril, 0,5 mg á sólarhring, og hélt því meðan ég trappaði lúshægt niður Imovane, sem ég losnaði endanlega af í júlílok.
Svo hófst Rivotril-tröppun á ný. Í þetta sinn las ég almennilega yfir greinar og bæklinga og vefsíður um bensódíazapemlyf. Má nefna að Landlæknisembættið hefur gefið út klínískar leiðbeiningar um slík lyf, Um notkun benzódíazepín-lyfja. Leiðbeiningar um ábendingar, ávísun og stöðvun lyfjanotkunar. Bæklingurinn kom út árið 2008. Þar segir m.a.:
Rannsóknir hafa leitt í ljós að unnt er að hætta meðferð með benzódíazepín-lyfjum sem jafnvel hefur staðið í mjög langan tíma. Langtímanotendur sem hætta meðferð láta þess oft getið hvernig líf þeirra breyttist eftir að þeir lögðu töflurnar á hilluna. Margir lýsa því að þeim hafi fundist þeir vera í þokukenndu ástandi meðan meðferðin stóð og hafi skort framtak og átt í erfiðleikum með einbeitingu. Einkennin hurfu eftir að lyfjameðferðinni var hætt og þeir urðu hæfir til þess að hugsa skýrar og fengu nýjan áhuga á umhverfi sínu. (S. 2.)
Þetta er einmitt upplifun mín, ég hugsa æ skýrar eftir því sem Rivotrilmagnið minnkar, minnið hefur snarbatnað o.fl. og mér er spurn: Af hverju í andskotanum var ég látin taka Rivotril í níu ár?
Í þessum sömu klínísku leiðbeiningum Landlæknisembættisins kemur skýrt fram að notkun bensódíazapemlyfja gegn kvíða eigi að vera skammtímameðferð.
Víða er þess getið að því lengri sem helmingunartími bensódíazapemlyfs er því erfiðara sé að hætta notkun þess. Þetta á einmitt við Rivotril enda segir geðlæknirinn Daniel J. Charlat í bókinni frægu Unhinged (sem kom út fyrir tveimur árum og ég mun blogga um fljótlega): „Klonopin [Rivotril er selt í Amríku undir þessu nafni], a highly addictive benzodiazepine, is notoriously hard to discontinue.“ (S. 196.)
Bæklingur Landlæknisembættisins virðist saminn að hluta upp úr The Ashton Manual. Í þeim segir hið sama um hvernig eigi að hætta á bensólyfjum eftir langvarandi notkun, hér tilvitnun í klínískar leiðbeiningar Landlæknisembættisins:
Sú þumalfingursregla hefur verið notuð að tíminn sem stigminnkun lyfjaskammtsins tekur, talinn í mánuðum, eigi að vera svipaður og notkunartíminn í árum. Hvort minnkunarferlið í heild tekur 3, 6 eða 12 mánuði skiptir litlu máli þegar notkunin hefur staðið árum saman. Mestu máli skiptir að dregið sé úr meðferðinni jafnt og þétt og sífellt sé stefnt fram á við. (S. 6.)
Ég ákvað, í þessari annarri tilraun til að losna af Rivotrili, að styðjast við þumalfingursregluna og taka mér þá allt í allt níu mánuði til að hætta. Þótt ráðlagt sé bæði í klínískum leiðbeiningum Landlæknisembættisins og í Ashton handbókinni að skipta yfir í díazepam (valíum) og trappa það síðan lúshægt niður (bæði vegna þess að það hefur bensólyfja lengstan helmingunartíma og er því ólíklegt til að valda rúsi heldur helst sæmilega stabílt í líkamanum og einnig vegna þess að það lyf má fá í ótal skammtastærðum) fannst mér ég vera komin of langt í tröppun til að standa í slíku. Svoleiðis að nú minnka ég Rivotril um ca. 6 mg á þriggja vikna fresti. Það er hægara sagt en gert og reynir á föndurhæfileika! Eftir að hafa prófað alls konar hnífa og bölvað slælegum vinnubrögðum Roche í töflusteypu fann ég út að skást var að klípa sneið af pilluhelmingum með augabrúnaplokkara. Aðferðin sést á myndinni til hliðar. Hún er ekki mjög vísindaleg, líklega hitti ég sjaldnast á akkúrat 6 mg sneið, en hún dugir. Með þessari aðferð ætti ég að losna af Rivotril laust fyrir jól. Vonandi sit ég ekki uppi með helvítis verkina næsta árið, það getur þó verið skv. Asthon handbókinni.
Þess ber að geta að ég hef engan stuðning við þetta baks við að hætta á Rivotril frá mínum geðlækni. Hann sagði mér í síðustu viku að það tæki 4-6 vikur (mögulega sagði hann 4-8 vikur) að hætta á Rivotril, líka fyrir þá sem hefðu notað lyfið árum saman. Honum fannst ósennilegt að verkirnir sem ég sagði honum frá stöfuðu af Rivotril-fráhvarfi og lagði til að ég pantaði tíma hjá háls-nef- og eyrnalækni. Ég hef reynt að ná tali af lækni á Vogi til að vita hvort fagmenn þar á bæ kannist við akkúrat svona fráhvörf en það er ekki hægt að fá að tala við lækni á Vogi.
Til gamans kræki ég í lokin í gamla grein eftir íslenskan geðlækni og annan til þar sem kemur prýðilega fram hvaða fráhvarfseinkenni fylgja því að hætta á bensódíazapemlyfjum á 4-6 vikum eftir langvarandi töku slíkra lyfja og einnig skín vel í gegn hvað höfundum greinarinnar virðist skítt sama um líðan sjúklinganna, aðalatriðið er að gera á þeim spennandi rannsókn:
Petursson og Lader. 1981. Withdrawal from long-term benzodiazepine treatment í British Medical Journal 1981 September 5; 283(6292): 643–645. Þetta er skönnuð grein og þarf að fletta áfram með því smella á blaðsíðutakkana neðst á síðunni.
María mey prjónar
Til eru nokkur gömul málverk sem sýna Maríu mey prjóna. Þessi málverk eru fyrst og fremst heimild um að prjón hafi þekkst á dögum málaranna og á þeirra heimaslóðum. En auðvitað eru þessar myndir líka heimild um kyrtilinn saumlausa hans Jesú og að mamma hans hafi prjónað hann
![]() Ambrogio Lorenzetti bjó í Siena á Ítalíu. Talið er að hann hafi látist 1348 þegar svartidauði geisaði í borginni. Þetta málverk tilheyrir myndastíl sem kallaður hefur verið Madonna auðmýktarinnar, Madonna dell’Umilitá. Á slíkum myndum situr María mey ekki í hásæti heldur á gólfinu. Talið er að Lorenzetti hafi málað þessa mynd um 1345. María prjónar úr rauðu garni með fjórum prjónum í hring en ómögulegt er að sjá hvað hún er að prjóna. Garninu bregður hún yfir hægri vísifingur. Á gólfinu sést hringlaga tréstykki með garnspólum í ýmsum litum. Jósef situr þarna hjá mæðginunum. Smelltu á myndina til að sjá nærmynd af Maríu og Jesú. |
![]() Þetta málverk er eftir ítalska málarann Tommaso da Modena (1325-1375). Það er hluti af þremur panelmyndum þar sem María situr alls staðar í hásæti: Á einni myndinni situr hún með bók í kjöltu sér, á annarri hefur hún Jesúbarnið á brjósti og á þessari þriðju er hún að prjóna, með Jesú sér við hlið. Hún prjónar í hring, að því er virðist með fimm prjónum, Garnið er á spólum á hringlaga stykki, alveg eins og á mynd Lorenzetti, en á þessu málverki situr María með spólustykkið kjöltunni. Talið er að myndin sé máluð á árabilinu 1345-1355.Smelltu á myndina til að sjá nærmynd af prjónlesinu. |
![]() Þetta er líklega frægasta myndin af Maríu mey að prjóna, málverkið er hluti af Buxtehude-altaristöflunni svokölluðu (af því hún var máluð fyrir benediksnunnur í Buxtehude, Þýskalandi). Meistari Bertram (af Minden), þýskur málari sem uppi var 1345-1415, málaði Buxtehude-altaristöfluna líklega skömmu fyrir árið 1400. Þessi hluti altaristöflunnar er oft nefnd “Heimsókn englanna” enda sjást þeir Mikael og Gabríel erkienglar heimsækja þau mæðgin Maríu og Jesú, berandi tákn sem boða krossfestinguna. María er að ljúka við kyrtilinn saumlausa, sem Jesú bar síðan til dauðadags. Hún hefur prjónað hann í hring, á fjóra eða fimm prjóna, og virðist hringúrtaka á berustykkinu. Smelltu á myndina til að sjá nærmynd af prjónlesinu. |
![]() Þetta málverk sýnir Madonnu auðmýktarinnar, Madonna dell’Umiltà, og var málað af ítalska málaranum Vitale degli Equi. Málverkið er talið frá því um 1350. Á því sjást Maríu mey, heilög Katrín og einhver annar dýrlingur. Jesús litli situr við hlið móður sinnar og grípur í garnspólu á hringlaga borði. Að sögn Richards Rutt (í A History of Hand Knitting) er María með prjónles í hendi en er einmitt að kitla Jesú litla undir kinn með vísifingri sömu handar. Prjónlesið er með blómamunstri í tveimur litum. Ekki er hægt að sjá hvað þetta á að vera, það virðist of vítt til að vera sokkur, of þröngt til að vera barnskyrtill. Rutt stingur upp á að þetta sé skjóða, svipuð og fornar svissneskar skjóður sem hafa varðveist og geymdu helga dóma. Smelltu á myndina til að sjá nærmynd af prjónlesinu. Sjálf get ég ekki með nokkru móti séð að þetta sé prjónað stykki, hvað þá að ég komi auga á prjónana. Og ég sé ekki betur en María hafi sex fingur … En ég hef náttúrlega ekki séð málverkið sjálft, sem ég reikna með að Richard Rutt hafi skoðað vel. |
![]() Þessi mynd sýnir hluta koparstungunnar Heilaga fjölskyldan eftir Veit Stoß/Stoss (kallaður Wit Stwosz á pólsku) sem uppi var 1447-1533. Hann var þýskur en starfaði um tíma í Póllandi. Koparstungan er talin frá um 1480 og sýni Maríu nálbregða kyrtilinn saumlausa. Henni var fleira til lista lagt en prjónaskapur. |
![]() Á þessari tréristu frá 1619, eftir hinn flæmska Hieronymus Wierix, sjást þeir feðgarnir Jósef og Jesús smíða bát og englar aðstoða Jesú við verkið. María situr hjá og prjónar sokk, að því er virðist úr tveimur hnyklum í senn svo kannski hefur þetta verið útprjónaður sokkur. |
![]() Þessi mynd af Maríu að prjóna, líklega kyrtilinn saumlausa, er mun nýrri en myndirnar að ofan. Þetta er grafíkmynd eftir breska listamanninn Eric Gill (1882-1940). |
Sture-vettlingurinn og dramatík í konungsfjölskyldu
Þennan fingravettling átti Svíinn Sten Svantesson Sture. Hann var af stórmennum kominn því faðir hans var Svante Stensson Sture, ríkismarskálkur, greifi, fríherra og á tímabili landstjóri yfir Eistlandi. Svante var og vinur konungs, Eiríks XIV, en því miður var sá kóngur geðveikur, talinn hafa þjáðst af geðklofa, og vó Nils Svanteson, bróður Stens í brjálæðiskasti. Menn konungs drápu föðurinn, Svante, og annan bróður, Erik Svantesson, við sama tækifæri. (Eiríkur XIV Svíakonungur kemur reyndar líka við prjónasögu Svíþjóðar því hann er talinn fyrstur Svía hafa eignast prjónaða sokka, árið 1562. Sokkarnir voru enskir, prjónaðir úr silki og rándýrir.) Eiríkur konungur má eiga það að hann iðraðist þessa óhæfuverks ákaflega þegar af honum bráði.
Móðir Stens Svantessonar Sture var Märta Erikdotter Leijonhufvud. Hún var systir drottningar Svíþjóðar á tímabili, þ.e. Margaretu Eiriksdotter Leijonhufvud, sem hafði raunar upphaflega verið trúlofuð Svante Stensson Sture en Gústaf konungur Vasa sleit trúlofuninni og kvæntist Margaretu sjálfur. Svante fékk eiginlega Mörtu í staðinn. Marta þessi var kunn að stórmennsku, eignaðist 15 börn með Svante sínum, sá iðulega ein um börn og bú því Svante var mikið að heiman og hlaut viðurnefnið Marta konungur af sínum skörungsskap. Í anda sumra kvenhetja Íslendingasagna varðveitti hún blóðug klæði feðganna og lét koma þeim fyrir í skreyttri járnkistu í grafhvelfingu Sture fjölskyldunnar í dómkirkjunni í Uppsölum. Því miður hefur dálítið verið rutlað með klæðin síðan og hluta þeirra stolið í aldanna rás en það sem eftir er þykir mikilvægur skerfur í klæðasögu Svía
Sture drápin voru framin 24. maí 1567. En þá hafði eigandi fingravettlingsins verið látinn í tvö ár. Sten Svantesson Sture var nefnilega skipherra á herskipi konungs og féll í sjóorustu við Rügen 1565, 21 árs að aldri. Einhverjum fötum hans var einnig komið fyrir í járnkistunni, þ.á.m. þessum fingravettlingi. Hann var upphaflega nældur við skipherrahattinn hans Stens en hattinum hefur fyrir löngu verið stolið.
Fingravettlingurinn er prjónaður úr silkigarni og gullþræði. Prjónafestan er um 9 lykkjur á sentimetra. Upphaflega voru litirnir í munstrinu gulur, grænn og appelsínugulur og grunnurinn skarlatsrauður (að sögn Agnesar Gejer) en sumir litirnir hafa upplitast mjög (mér finnst reyndar þessi staðhæfing Gejer um „karmosinröd botten“ tæplega geta staðist). Á vísifingri, baugfingri og litlafingri eru prjónaðir hringir úr gullþræði. Orðin „FREVCHEN SOFIA“ eru prjónuð í hring um miðjan vettlinginn (segir Agnes Gejer, Richard Rutt og Nancy Bush segja þessi orð prjónuð yfir lófann). Handarbreidd er 7 cm og vettlingurinn er 17 cm langur. Það er mjög lítill vettlingur og þess vegna giska menn á að Sofia þessi hafi átt hann því hann geti ekki hafa passað á Sten. Sjá má stærri mynd af vettlingnum með því að smella á myndina sem fylgir færslunni.
En hver var Sofia? Til þessa hafa menn talið að þetta hafi verið einhver þýsk stúlka (fröken Soffía sem sagt) sem hafi verið trúlofuð Sten Svantesson Sture og fingravettlinginn hafi hún sjálf prjónað og gefið Sten í tryggðapant. Nýverið hefur svo verið sett fram sú kenning að „frevuchen“ hafi á sextándu aldar sænsku þýtt prinsessa. Þessi kenning er eignuð Lise Warburg, mjög frægri danskri veflistarkonu sem jafnframt hefur skrifað talsvert um textílsögu - í hana vitnar Nancy Bush í grein um hanska í tímaritinu Knitting Traditions 2010. Ég hef því miður ekki komist yfir frumheimildina.
Af frásögn Nancy Bush af því sem Lise Warburg heldur fram má ráða að Sofia sé engin önnur en Sofia Gustavsdotter Vasa, dóttir Gústafs Vasa Svíakonungs og Margaretu Eiriksdotter Leijonhufvud. Sofia Vasa var þremur árum yngri en Sten Svantesson Sture og skv. þessu voru þau trúlofuð þegar Sten féll. Þremur árum síðar giftist hún dusilmenninu Magnúsi II hertoga af Sachsen-Lauenburg, fyllibyttu sem lagði margoft hendur á hana og var ömurlegur eiginmaður. Magnús þessi var bróðursonur fyrri konu Gústafs Vasa, sem sagt ekki skyldur Sofiu en nátengdur fjölskyldu hennar. Jóhann III Svíkonungur, sem tók við þegar Eiríkur XIV var settur af vegna geðveiki (og seinna myrtur með arseniki), var albróðir Sofiu og rak Magnús hertoga úr landi þegar þau Sofia höfðu verið gift í tíu ár. Eina son sinn missti hún ungan af voðaskoti. Eftir það bjó hún ein til dauðadags en hún lést 64 ára að aldri. Hún varð sinnisveik á sínum hjónabandsárum og jafnaði sig aldrei. Sofia hefur verið sögð „óhamingjusamasta barn Gústafs Vasa“ - líklega hefur hún mornað og þornað og aldrei táð tanna frá því fullorðinsaldri var náð. Sjá má yfirlit yfir æviferil Sofiu hér.
Kenningin er skemmtileg en í fyrsta lagi finnst mér allt eins líklegt að „freuvchen“ hafi verið þýska orðið yfir fröken og í öðru lagi má benda á að þau Sten Svantesson Sture og Sofia Gustavsdotter Vasa voru systrabörn og spurning hvort hjónaband þeirra hefði verið löglegt í Svíþjóð á sextándu öld?
En hvort sem einhver þýsk frauka að nafni Sofia eða Sofia Svíaprinsessa prjónaði og átti þennan fingravettling er þetta fallegur vettlingur. Hann er með elsta prjónlesi sem varðveist hefur í Svíþjóð.
Heimildir aðrar en krækt er í úr texta:
Bush, Nancy. 2010. „Romantic Gloves“ í Knitting Traditions 2010;
Gejer, Agnes. 1964. Textila skatter i Uppsala domkyrka från åtta åhundraden;
Rutt, Richard. 1987. A History of Hand Knitting.
Baltneskir vettlingar
Í þessari færslu er einkum fjallað um prjónaðan eistneskan vettling frá 13. öld en einnig gerð lítilsháttar grein fyrir eistneskum og lettneskum vettlingum.
Vodíski vettlingurinn í Eistlandi
Lítil prjónapjatla fannst í uppgreftri í vodískum greftrunarstað í eistneska bænum Jõuga árið 1949. (Vodar voru þjóð sem talaði finnsk-úgrískt tungumál, nú nánast útdautt, og bjuggu við Eystrasalt og í Rússlandi. Leitt hefur verið getum að því að Kylfingar þeir sem koma fyrir í Egils sögu hafi verið Vodar en sú ágiskun er reist á afar ótraustum grunni.) Í gröfinni í Jõuga hvíldi kona og af því þessi litla pjatla lá við handarbeinin er talið að hún sé leifar af belgvettlingi. Sú ágiskun byggir á því að prjónaðir hanskar/ fingravettlingar urðu ekki vinsælir meðal eistneskrar alþýðu fyrr en á átjándu. öld. Gröfin er talin vera frá því einhvern tíma á árabilinu 1238-1299.
Þessi vettlingur hefur verið prjónaður á nokkra prjóna, þ.e. sléttprjónaður í hring. Raunar er allt elsta prjónles sem hefur fundist prjónað þannig því menn lærðu ekki að prjóna brugðnar lykkjur fyrr en seint á sextándu öld, að talið er. Hann var tvíbandaprjónaður úr ullargarni og eru litirnir í munstrinu rauður og blár, grunnurinn úr ólitaðri hvítri ull. Bláa garnið var litað með indígó og rauða garnið með möðrurót (Rubia tinctorum). Rauður litur var talinn hafa varnarmátt segir í greininni sem ég styðst aðallega við um þennan vettling.
![]() Myndin er af vodísku prjónapjötlunni |
|
![]() Pjatlan er líklega af stykki sem leit svona út |
![]() Munstrið er svona |
Menn hafa eitthvað deilt um hvort þessi vettlingur og nálbrugðnir vettlingar sem fundist hafa í vodískum grafreitum í norðaustur Eistlandi hafi verið hluti af líkklæðum, hafi verið hluti af brúðarklæðum hinnar látnu eða tilheyrt hvunndagsklæðnaði. Helst er talið að vettlingarnir hafi verið prjónaðir sérstaklega fyrir jarðsetningu.
Vettlingspjatlan úr vodíska grafreitnum í Jõuga er elsta þekkta dæmið um prjón í austur og norður Evrópu og er þ.a.l. stórmerkilegur fundur. Sjá má endurgerð af þessum vettlingi hér.
Þeim sem vilja kynna sér þennan merka vettling rækilega er bent á grein Anneke Lyffland: A study of a 13th-century votic knit fragment. Í grein Juri Peets, Totenhandshuhe im Bestattungsbrauchtum der Esten und anderer Ostseefinnen (birtist fyrst í Fennoscandia archaeologica IV árið 1987), er gerð grein fyrir vettlingaleifum fornum sem fundist hafa í Eistlandi en allir nema þessi sem um var fjallað að ofan eru nálbrugðnir.
Aðrir eistneskir vettlingar
Til skamms tíma var bók eistneska þjóðfræðingsins Ilmari Manninen, Eesti Kindad (Eistneskir vettlingar), útg. 1927 helsta heimildin um efnið. Hægt er að hlaða henni niður á pdf-formi héðan og þótt maður skilji ekki orð í eistnesku er gaman að skoða myndir af gripunum sem hann fjallar um, athugið að aftast í bókinni eru litmyndir.
Til gamans má geta þess að Eistur nálbrugðu vettlinga langt fram á átjándu öld þótt prjónakunnátta hafi fyrir löngu verið almenn og er í Eistlandi þekkt orðatiltækið „Prjónaðir vettlingar - löt eiginkona“ (sjá s. 16 í Crafts and Arts in Estonia). Það tekur vitaskuld miklu lengri tíma að nálbregða vettling en prjóna hann og nálbrugðinn vettlingur raknar ekki svo glatt upp. Í Karelíu í Finnlandi var haft á orði alveg fram undir seinni heimstyrjöldina að eiginkona væri illa að sér kynni hún ekki að nálbregða og var þar um slóðir lagt þeirri konu til lasts að geta ekki nálbrugðið vettlinga handa sínum eiginmanni (sjá tilvitnun í Toini-Inkeri Kaukonen, „Kinnasompelun levinneisyys ja työtavat Suomessa“, Suomen Museo 1960, s. 44-71, á Neulakinnas Nalbinding). Þessi orðatiltæki sýna áhugaverð tengsl milli prjónamenningar finnsk-úgrískra þjóða.
Á síðunni Silmuskudumise ajaloost (prjónasaga) á Etnograafilised koed - kirjamine ja roosimine sést mynd af eistneskum fornleifum (vettlingum). Krækjur á krækjulista til vinstri á síðunni vísa á síður með myndum af gömlu eistnesku prjónlesi, þó ekki fornminjum. Það er mjög gaman að skoða þessa síðu. Myndin til hægri er af eistneskri prjónabók um vettlinga, sem er nýkomin út á ensku (myndin krækir í sölusíðu Amazon). Mér finnst sérstaklega áhugavert að sjá þarna íslenskan galdrastaf, draumstaf eða Ginni, útsaumaðan á handarbök því uppskriftir í bókinni eru sagðar byggja á gömlum hefðbundnum eistneskum mynstrum.
Lettneskir vettlingar
Irena Turnau heldur því fram að í Lettlandi hafi fundist prjónles frá fjórtándu og fimmtándu öld: Prjónuð húfa og fernir vettlingar, þar af tvennir fingravettlingar. (Turnau, Irena, 1991. History of Knitting before Mass Production.) Því miður hef ég ekki fundið neinar myndir af þessum gripum og heldur ekki getað haft upp á umfjöllun um þá, hef einungis fundið munstrið sem sést hér til hliðar og ku vera af öðrum af þessum fingravettlingum, frá fimmtándu öld. (Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.) Satt best að segja hafa margir lýst vantrausti á fullyrðingar Irenu Turnau um hversu gamlar leifar af prjónlesi við Eystrasalt og í Austur-Evrópu eru. Heimildir þær sem hún vísar í liggja hins vegar ekki á lausu.
Hafi fólk áhuga á lettneskum vettlingamunstrum mæli ég með síðunum:
- The story of a thousand year old Latvian mitten en þar eru útskýringar á helstu táknum í munstrunum;
- LATVIEŠU CIMDU RAKSTOS (Lettnesk vettlingamunstur) á RITMS un SIMETRIJA. Krækjur til vinstri á síðunni vísa í myndir af fjölda lettneskra vettlingamunstra;
- Picasa-síða Iaima Stendze geymir mörg lettnesk munstur, líklega skönnuð úr bók, sjá Latviešu rakstainie cimdi.
Litháískir vettlingar
Einhverra hluta vegna virðist áhugi á litháískri prjónamenningu og þ.m.t. vettlingum vera miklu minni en á þeim eistnesku og lettnesku. Áhugasamir ættu þó að geta fundið einhvern fróðleik á vef Donnu Drochunas, Sheep to Shawl, sem er að skrifa bók um litháískt prjón. Sjá t.d.:
- Knitting in Lithuania’s ethnographical regions (stutt ágrip af prjónasögu héraða í Litháen);
- Symbols and Ornament in Lithuanian Knitting;
- Lithuanian Knitting (Mittens).
Tengsl milli baltneskrar og tyrkneskrar prjónahefðar?
Bent hefur verið á líkindi milli baltneskra (eistneskra og lettneskra) vettlinga og tyrkneskra sokka, bæði hvað varðar munstur og snið (sbr. baltneskir totuvettlingar og tyrkneskir totusokkar með totuhæl). Anne Zilboorg segir í bókinni Traditional Knitting Patterns of Turkey. Fancy Feet, útg. 1994, s. 9-10: „Sumir lettneskir vettlingar og tyrkneskir sokkar eru svo líkir og svo ólíkir prjónahefð annars staðar að það er erfitt að horfa fram hjá mögulegum tengslum. [- - -] Ein skýringin á tengslum milli þessara prjónahefða kann að vera norður-suður verslunarleiðin frá Byzans [Miklagarði] gegnum Rússland [Garðaríki], sem blómstraði uns Mongólar náðu yfirráðum í Rússlandi á þrettándu öld.“ Sjálfri finnst mér þetta afskaplega ólíkleg skýring og held að líkindin séu tilviljun.
Saga prjónaðra vettlinga og hanska I
Saga hannyrða er eitt af áhugamálum mínum. Miðað við heimsóknir á bloggið og vefsíður um efnið (oftast gegnum Google-leit) er nokkur hópur sem hefur einnig áhuga á þessu. Færslan verður fléttuð í vefinn Saga prjóns síðarmeir. Mér finnst ágætt að blogga fyrst um efnið, fá athugasemdir og ganga svo endanlega frá skrifunum á vef.
Áður en prjónakunnátta varð algeng í Evrópu voru vettlingar og hanskar saumaðir eða nálbrugðnir. Hér á landi hafa fundist minjar um hvort tveggja: Sjá t.d. mynd af íslenskum saumuðum vaðmálsvettlingum, greinina Three Icelandic Mittens á Medieval Baltic, grein Elsu E. Guðjónsson, Forn röggvavefnaður, í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1962 og grein Margarethe Hald, Vötturinn frá Arnheiðarstöðum, í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1949. Á síðunni Hansker og votter á Kongshirden 1308 Akershus má sjá nokkrar myndir af gömlum norskum og sænskum nálbrugðnum vöttum. Finnar héldu áfram að nálbregða vettlinga fram á 19. öld, þótt þeir hefðu þá fyrir löngu lært að prjóna. Á síðu Satu Hovi er grein um þetta, Viking and Medieval Nålebinding Mitten Replicas. Based on archaeological finds from Finland, með fjölda mynda.
Biskupshanskar
Hin nýja tækni, prjón, var mjög snemma tekin í þjónustu kirkjunnar. Í safni elsta prjónless sem varðveist hefur í Evrópu er fjöldi biskupshanska, hverjir öðrum skrautlegri. Líklega höfðu biskupar tekið upp skrúðhanska (litúrgíska glófa) talsverðu fyrir daga prjóns, þá saumaða eða nálbrugðna. Virðist notkun skrúðhanska orðin almenn á 12. öld, á 14. öld báru þá allir biskupar og sumir ábótar og aðrir kirkjunnar þjónar. Yfirleitt voru þessir hanskar nefndir grísku heiti, stafsett chirothecae á enskan máta (sem þýðir eiginlega „handa-hulstur“). Myndin er af fremur dæmigerðum spænskum prjónuðum biskupshanska úr silki, frá sextándu öld. Sé smellt á myndina opnast síða um hanskann á vef Viktoríu og Albertssafnsins í London.
Til vinstri má sjá mynd af nálbrugðnum hanska Rodrigo Ximanénez de Rada, erkibiskups í Toledo, sem dó árið 1247. Glófarnir hans voru fallega „útnálbrugðnir“ úr fínum silkiþræði eins og önnur nálbrugðin spænsk stykki frá sama tímabili. Mun yfirlætislausari eru nálbrugnir hanskar Pierre de Courpalay ábóta, sem lést 1334, sjá mynd til hægri. Þeir eru úr ólituðu silki en fallega munstraðir. Smelltu á litlu myndirnar ef þú vilt sjá stærri útgáfur.
Biskupshanskar/biskupsglófar voru hluti af biskupsskrúða kaþólsku kirkjunnar og fyrst voru þeir oftast úr ólituðu eða hvítu silki enda skyldu þeir tákna hreinleika. En í Ordo Romanus XI (hvað heitir þetta á íslensku?) árið 1271 var leyft að hanskarnir væru í sama lit og biskupskápan. Rauðir hanskar urðu algengastir en fundist hafa bláir, fjólubláir, bleikir og grænir biskupshanskar. Aldrei voru notaðir svartir hanskar. Fyrst voru hanskarnir skreyttir með skrautskildi á handarbaki, síðan var farið að sauma eða prjóna út handarlíningar og enn seinna prjóna eða sauma út hring á hvurn fingur.
Skv. þeim heimildum sem ég hef aðgang að eru elstu leifar prjónaðra biskupshanska tvær pjötlur úr grafhýsi Siegfrieds von Westerburg biskups, sem var jarðsettur í Bonn árið 1297. Af leifunum má ráða að handlíningar voru prjónaðar með tvíbandaprjóni, munstrið eru bláir og gullnir ernir, rósir með átta krónublöðum og Andrésarkrossar; sumsé sömu mynstur og eru á prjónuðu spænsku þrettándu aldar svæflunum. Munstrin ku minna talsvert á hefðbundin munstur á norskum Selbu-vettlingum. Því miður hef ég hvergi fundið mynd af þessum pjötlum. Hins vegar fann ég mynd af svokölluðum St Rémy hönskum sem geymdir eru í St. Sernin dómkirkjunni í Toulouse. Þeir eru prjónaðir úr fíngerðum hvítum silkiþræði og næsta skrautlausir; á handarbökum eru skrautskildir úr silfri og gulli, myndefnið er annars vegar kross, hins vegar lamb. Nær öruggt er talið að þessir hanskar séu frá þrettándu öld. Sé smellt á litlu myndina til vinstri kemur upp stærri mynd. Á einni af vefsíðum Franska menningarmálaráðuneytisins er svarthvít mynd af þessum hönskum og upplýsingar um þá.
Svo má nefna tvenna prjónaða hanska sem tengdir eru heilögum Aðalbert og eru með elsta varðveitta prjónlesi í Evrópu. Annað parið er varðveitt í Prag og talið frá fyrri hluta fjórtándu aldar, prjónað úr gráu, hugsanlega ólituðu, silki með þremur grænum röndum á ermalíningum. (Svarthvíta myndin til hægri er af öðrum þessara hanska, hann er illa farinn sem sjá má.) Hitt parið er frá síðari hluta fjórtándu aldar og varðveitt í kirkju heilags Vinceslas í Stará Boleslav, í nágrenni Prag. Þeir hanskar eru prjónaðir úr ólituðu silki, í handlíningum er einfaldur útsaumur með lituðu silkigarni og gullþræði.
Þegar á leið urðu skrúðhanskar kaþólsku kirkjunnar æ íburðarmeiri og var skrautið ýmist prjónað út eða saumað í einlitt prjón. Hafi fólk sérstakan áhuga á að skoða biskupshanska, sem eru fyrirferðamikill hluti elstu prjónastykkja sem varðveist hafa í Evrópu og með skrautlegasta prjónlesinu, má benda á þessar síður:
- Paar Pontifikalhandschuhe í Staatliche Kunstsamlungen Dresden
- Hanskar í safni Viktoríu og Alberts í London
- Hanskar í Museum of Fine Arts í Boston
- Worshipful Company of Glovers of London
- W. B. Redfern. 1904. Royal and Historic Gloves and Shoes. Útg. í London.
Eftir því sem ég best veit hafa ekki fundist neinar leifar biskupshanska hér á landi. Það er þó engin ástæða til annars en gera ráð fyrir að biskupar í kaþólskum sið hafi brúkað skrúðhanska eigi síður en kollegar þeirra erlendis. Glófar eru fyrst nefndir í Páls sögu biskups en síðar einungis getið í Hóladómkirkjuregstrum frá árunum 1374, 1396. 1525 og 1550. Á teikningum í handritum má sjá biskupa og dýrlinga bera hanska, einnig á örfáum útskurðarmyndum úr kaþólskum sið. Til hægri sést hluti myndar af Þorláki Þórhallssyni biskupi í Skálholti, heilögum Þorláki, sem prýðir frægt altarisklæði Hóladómkirkju. Klæðið er líklega frá öðrum fjórðungi sextándu aldar, refilsaumað og mögulega saumað af Helgu Sigurðardóttur, fylgikonu Jóns Arasonar biskups. Á klæðinu sjást hanskar Þorláks biskups prýðilega sem og roðasteinar eða skrautskildir sem prýða þá - Kristján Eldjárn telur að þetta séu tigullaga silfurplötur eða útsaumaðar eftirmyndir af svoleiðis.
Næsta færsla fjallar um prjónaða vettlinga.
Helstu heimildir:
Bækur:
Kristján Eldjárn. 1992. Skálholt: skrúði og áhöld. Reykjavík.
Rutt, Richard. 1987. A History of Hand Knitting. Colorado, Bandaríkjunum.
Schoeser, 2003. Mary. World Textiles. A Concise History. London.
Sundbø, Annemor. 1998. Kvardagsstrikk. Kulturskatter fra fillehaugen. Kristjansand, Noregi.
Turnau, Irena. 1991. History of Knitting before Mass Production. Varsjá, Póllandi.
Vefsíður aðrar en þær sem krækt er í úr textanum
Episcopal Gloves í Catholic Encyclopedia á The New Advent
Histoire du tricot (1) - les origines og Histoire du tricot (2) - Du XIV e au début du XVIIe siècle á Les Petites Mains. Historie de mode enfantine.
Kleidung - Nadelgebundene Seidenhandschuhe á Diu Minnezit
Um vettlinga á Pearl’s Journal
Slik var klærne i middelalderen í Aftenposten 3. apríl 2007
Medieval Gloves á MyGen
Hversu íslensk er áttblaðarós?
Ég hef lengi ætlað að blogga um munstur, sérstaklega áttblaðarós, sem margir virðast halda að sé séríslenskt munstur, til vara norrænt munstur, en er í rauninni alþjóðlegt munstur.
Heitið á þessu munstri er dálítið misvísandi því til er annað mjög algengt munstur sem er stílfærð rós með átta krónublöðum. Það segir kannski ákveðna sögu að orðið er hvorki að finna í Íslenskri orðabók (útg. Edda) né í Ritmálssafni Háskóla Íslands. Hins vegar eru dæmi um áttablaðarós í Ritmálssafninu; hið elsta er frá því seint á nítjándu öld og ekki hægt að sjá af því hvort um nákvæmlega sama munstrið er rætt en næstelsta dæmið á örugglega við þetta munstur. Það er úr Kvennablaðinu, 1. tbl. 1900, s. 7: „Uppdrátturinn er bezt að sé einhver „geometrisk“ mynd, t. d. stjarna, eða sem kallað er áttablaðarós, með sterkum litum, og sé svo fylt upp í kring með dökkleitara garni.“
Í nútímaprjónauppskriftum á ensku er þetta munstur oft tengt Noregi og kallað „Norwegian Star“ eða „Selbu Star“. Á norsku er það oftast kallað „åttebladsstjerna“ en stundum sérstaklega tengt Selbu-munstrum og kallað Selbusrosa. Selbu-stíllinn er samt alls ekki gamall eins og sumir halda heldur má rekja þessa ágætu hönnun til Marit Guldsetbrua Emstad sem skilaði inn vettlingum með „selburosa“ til Husfliden í Þrándheimi árið 1897. Það sem einkennir Selbu-stíl öðru fremur er að munstrin eru yfirleitt svört og grunnurinn hvítur.
Í Noregi eru til innfluttir silkiprjónjaðir jakkar frá því um 1600 með áttblaðarósamunstri, ýmist útprjónaðir í lit eða einlitu útprjóni (damaskprjóni). Svo prjónaði alþýðufólk eftirlíkingar af þessum jökkum. Jakkarnir og eftirlíkingarnar voru kallaðar „nattrøyer“. Í Danmörku prjónuðu menn líka „natttrøjer“. Þær voru prjónaðar með damask-prjóni, þ.e. voru einlitar en brugðnar (snúnar) lykkjur mynduðu munstur og reiti á sléttum grunninum. Áttblaðarósin var mjög algengt munstur á svona treyjum / jökkum, bæði í Noregi og Danmörku. Íslendingar virðast hins vegar ekki hafa hermt þetta eftir og eru minjar um íslenskt einlitt útprjón einungis tvær fremur ómerkilegar tutlur.
Áttblaðarós þekkist víða um heim, táknar ýmislegt og er örugglega ævagamalt mynstur. Sem dæmi má nefna eftirfarandi:
Mafaldapúðinn er eitt af elsta varðveittu prjóni í Evrópu, talinn prjónaður á 13. öld, er skreyttur áttblaðarósum. Á honum má raunar sjá bæði átta-arma-stjörnuna sem hérlendis er kölluð áttblaðarós, og raunverulega áttablaðarós, þ.e. rós með átta krónublöð.
Áttblaðarósin (átta-arma-stjarna) er eitt af þjóðartáknum Lettlands. Hún tengist gyðjunni Auseklis sem í lettneskri goðafræði samsvarar Venus í rómverskri goðafræði. Áttblaðarósin táknaði einmitt reikistjörnuna Venus meðal Babýloníumanna um 1600-1150 f.Kr. og var einnig tákn gyðjunnar Ishtar (frjósemisgyðju sem tengd var plánetunni).
Skv. kristinni táknfræði stendur áttblaðarósin fyrir Jesú Krist; „Ég er rótarkvistur Davíðs, stjarnan skínandi, morgunstjarnan“ sagði Jesú (Opinberunarbókin 22:16). En María mey er einnig tengd áttblaðarósinni því munstrið ku einnig nefnt maríustjarna. Áttblaðarós má og nota til að tákna Betlehemsstjörnuna.
Munstrið er velþekkt fyrir botni Miðjarðarhafs og er stundum talið sérstakt palestínskt munstur. Það vakti nokkra athygli í mínum heimabæ, Akranesi, þegar palestínskar konur sem hingað komu úr flóttamannabúðum en bjuggu áður í Íran settu upp hannyrðasýningu og líta mátti „íslensku“ áttblaðarósina á sumum verkanna (hér er dæmi um það).
Tyrkir kalla áttblaðastjörnuna stundum frelsisstjörnu. Og mætti lengi telja misjöfn heiti og misjafna merkingu sem tengd er þessu alþjóðlega munstri. Þeim sem hafa svo áhuga á dulfræðilegum eiginleikum sem eignaðir eru áttblaðarósinni er bent á að lesa skáldsögu Óttars Norðfjörð, Áttablaðarósina, sem kom út 2010.
Í gömlum sjónabókum íslenskum, þ.e. handritum með munstrum, er áttblaðarósina auðvitað að finna. En þessi munstur voru fyrst og fremst hugsuð fyrir útsaum og langflest eru alveg eins eða náskyld munstrum í útlendum prentuðum bókum. Eftir því sem ég best veit er einungis eitt afbrigði af áttblaðarósinni sem gæti verið séríslenskt, það er oft kallað Skaftafellsrósin.
Elstu íslenskar minjar um útprjón í lit er smápjatla með bekk í tveimur litum á einlitum grunni, líklega frá 18. öld. Næstelstu minjar um svona prjón eru frá seinni hluta 19. aldar. Frá þeim tíma og fram yfir aldamótin 1900 er slíkt varðveitt prjónles nær einvörðungu vestfirskir laufavettlingar og mér þykir ólíklegt að finna megi áttblaðarós á þeim. Til eru prjónaðir vettlingar frá því seint á 19. öld með ísaumaðri áttblaðarós, með fléttusaumi. Um eða uppúr 1900 hefst uppgangur myndprjóns þar sem áttblaðarós í ýmsum útgáfum var með vinsælustu munstrum, nefnilega í garðaprjónuðum íleppum, og um svipað leyti náði tvíbandaprjón vinsældum.
Nú kann að vera að stefni í dómsmál þar sem áttblaðarósin kemur við sögu. Fyrir skömmu hótaði ullarverksmiðjan Drífa, sem framleiðir undir vörumerkjunum Icewear og Norwear, að kæra fyrirtækin The Viking og Álafoss fyrir að framleiða og selja vöru sem sé óeðlilega lík vöru Drífu og í þokkabót selja hana mun ódýrar en Drífa gerir. Sjá Ullarverslanir sakaðar um hönnunarstuld, á vef RÚV., Vísar ásökunum um hönnunarstuld á bug á RÚV, Segir atlögu gerða að íslenskri hönnun á vef Mbl. og „Aldagamalt og sígilt mynstur“ á vef Mbl.; allar fréttirnar eru frá 30. ágúst sl. Ég er ekki að bera blak af hönnunarþjófnaði en velti fyrir mér hversu mikinn einkarétt ullarverksmiðjan Drífa getur haft á þessu prjónlesi sem forsvarsmenn hennar telja stolna hönnun. Augljóslega getur Drífa ekki átt einkarétt á fingravettlingum, GSM-grifflum/vettlingum og húfum. Litasamsetning er með algengasta móti. Má því ætla að meginumkvörtunarefnið sé það sem Drífa álítur sitt munstur, sjá hitt skjalið sem sent var RÚV.
Grunnmynstrin eru svona:
Munstur Drífu | Munstur The Viking / Álafoss |
![]() |
![]() |
![]() |
Úr áttblaðarós The Viking /Álafoss ganga skálínur milli armanna og enda á ferningum (eins og tíðkast í hamarsrós). Milli áttblaðarósanna er mjög lítill tígull - oft er það munstur kallað einhvers konar fuglsauga. |
Af því sem ég hef rakið hér að ofan er eiginlega augljóst að ekkert íslenskt fyrirtæki getur eignað sér áttblaðarósina sem sína hönnun. Og heldur ekki tígulinn sem er sömuleiðis þekkt munstur víða um veröld og gefin ýmis merking, finnst og í innlendum og erlendum sjónabókum. Borðarnir á flíkunum eru líklega ekki ásteytingarsteinn því þeir eru það ólíkir (auk þess að vera þekkt mynstur fyrir). Það verður spennandi að fylgjast með því hverjar verða lyktir málsins.
Helstu heimildir
Bækur:
Hélene Magnússon. 2006. Rósaleppaprjón í nýju ljósi.
Elsa E. Guðjónsson. 1984. „Traditionel islandsk strikning“ í Stickat och virkat i nordisk tradition.
Elsa E. Guðjónsson. 1982. Íslenskur útsaumur.
Sundbø, Annemor. 1998. Kvardagsstrikk. Kulturskattar frå fillehaugen.
Møller Nielsen, Ann. 1983. Pregle, binde og lænke - gammel dansk strikketradition.
Rutt, Richard. 1987. A History of Hand Knitting.
Vefir
Arfur palestínskra kvenna á Fjölmenningarvef barna.
Spænsku svæflarnir í Saga prjóns
The Latvian Mythology í Latvian History
Auseklis í Wikipedia
Astronomy of Babylon í Classical Astrologer
Vantrú kærir Bjarna Randver í fimmta sinn
Hvað sem fólki kann að finnast um félagið Vantrú verða forkólfar þess seint kallaðir ístöðulausir: Hafi þeir tekið eitthvað í sig hanga þeir á sinni sannfæringu eins og hundar á roði. Mættu mörg trúfélag öfunda félagið Vantrú af heitri sannfæringu og píslarvættisþrá félagsmanna!
Eins og rakið var í firnalöngum færsluflokki fyrir hálfu ári síðan kærði félagið Vantrú stundakennarann Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir að hafa fjallað öðruvísi um félagið en því hugnaðist á nokkrum glærum í kúrsi sem hann kenndi í Háskóla Íslands á haustmisseri 2009. Þáverandi formaður Vantrúar, Reynir Harðarson sálfræðingur, þríkærði Bjarna Randver í nafni Vantrúar; til háskólarektors, guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ og siðanefndar HÍ. Upphófst mikill darraðardans sem lauk með yfirlýsingu háskólarektors um að Bjarni Randver hefði aldrei brotið siðareglur Háskóla Íslands. (Yfirlit yfir feril málsins má sjá í færslunni Samantekt: Vantrú og siðanefnd HÍ gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, skrifuð 22. febrúar 2012.)
27. maí 2011 lagði Þórður Ingvarsson, ritstjóri vefjar Vantrúar, fram kæru hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, þar sem Bjarni Randver Sigurvinsson er kærður fyrir brot á fjarskiptalögum, nánar tiltekið fyrir innbrot á innri vef Vantrúar og fyrir að hafa gramsað þar í læstum hirslum þeirra. (Félögum í Vantrú var raunar fullkunnugt um hvernig Bjarni Randver fékk afrit af lokuðu spjallborði félagsins en kusu eigi að síður að líta fram hjá eigin vitneskju og fylgja eigin sannfæringu í staðinn, nefnilega að ná sér niðri á Bjarna Randveri.) 9. febrúar 2012 mætti Bjarni Randver í skýrslutöku hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. 26. júlí 2012 úrskurðaði embætti lögreglustjórans í Reykjavík að við rannsókn málsins hafi ekkert komið fram sem sé líklegt til að sakfella Bjarna Randver og málið var fellt niður.
18. júní 2012 barst siðanefnd Háskóla Íslands erindi Egils Óskarssonar, formanns félagsins Vantrúar. Þar segir Egill að af því óháð rannsóknarnefnd Háskólaráðs og rektor hafi harmað að ekki hafi fengist efnisleg niðurstaða í siðanefndarmáli 1/2010 og að Vantrú telji að ekki hafi verið staðið við gefin loforð sem voru forsenda þess að málið yrði dregið til baka, þá hafi félagið Vantrú ákveðið að senda upphaflegu kæruna óbreytta til siðanefndar HÍ til efnislegra umfjöllunar og úrskurðar. Ég veit ekki hvaða “gefnu loforð” Vantrú hafa verið svikin en giska á að Egill Óskarsson sé að vísa til umræðu um mögulega aðkomu félagsins Vantrúar að riti um trúarbragðafræðileg efni sem Hugvísindasvið stæði að. Forseti Hugvísindasviðs léði ekki máls á framkvæmdinni. Þar sem aldrei hefur verið upplýst hverjir nákvæmlega sátu fundinn sem rektor hélt með forsvarsmönnum Vantrúar í apríllok 2011 er ómögulegt að segja hvað þar fór fram, t.d. hvort félaginu Vantrú var lofað einu eða neinu gegn því að félagið drægi kæru sína til siðanefndar HÍ til baka.
Vissulega barst nýja (og fimmta) kæra Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni á óheppilegum tíma því í Háskóla Íslands taka menn sér sumarleyfi. Skv. upplýsingum á vef HÍ (sem voru uppfærðar 23. ágúst sl.) hefur siðanefnd HÍ ekki verið fullskipuð síðan snemma í mars á þessu ári þegar fulltrúi Félags háskólakennara, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, sagði sig úr henni. Þeir tveir prófessorar á eftirlaunum sem í henni sitja nú og báðir höndluðu upphaflegu kæru Vantrúar á sínum tíma, Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson, hafa líklega tekið sér umþóttunartíma og svo lýstu þeir yfir vanhæfi til að fjalla um nýju útgáfuna á gömlu kærunni Vantrúar. Í þeirra stað skipaði rektor HÍ þau Björgu Thorarensen prófessor við Lagadeild á Félagsvísindasviði sem jafnframt er formaður og Hafliða Pétur Gíslason prófessor í Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Þriðji nefndarmaðurinn er Sveinbjörn Björnsson, eðlisfræðingur, tilnefndur af Félagi háskólakennara. Svo nú er til fullskipuð siðanefnd í þessu máli.
Þótt Egill Óskarsson leikskólakennari og formaður félagsins Vantrúar hafi skilað inn fimmtu kærunni á hendur Bjarna Randver Sigurvinssyni í júní og HÍ staðfest móttöku hennar þann 18. júní var Bjarna Randveri ekki tilkynnt að hann hefði verið kærður einn ganginn enn fyrr en í fyrradag, fimmtudaginn 30. ágúst 2012. Raunar fékk hann ekki bréfið með þeim upplýsingum í hendurnar fyrr en í gær, föstudaginn 31. ágúst.
Siðanefndin sérstaka í þessu máli heldur sinn fyrsta fund þann 6. september og mun þá kanna málsgrundvöll skv. 4. gr. starfsreglna siðanefndar HÍ. Það þýðir væntanlega að þessi siðanefnd, ólíkt forverum sínum, byrjar á að skera úr um hvort kæra Vantrúar snerti brot á siðareglum Háskóla Íslands.
Í lokin er hér listi yfir kærur félagsins Vantrúar gegn stundarkennaranum Bjarna Randveri Sigurvinssyni. Hann er líklega kærðastur kennara í HÍ frá upphafi!
- Kæra til Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar 4. febrúar 2010. Hún var afgreidd 9. mars 2010 af deildarforseta sem lýsti yfir trausti á Bjarna Randveri Sigurvinssyni og hans kennslu.
- Kæra til siðanefndar HÍ 4. febrúar 2010. Dregin til baka 28. apríl 2011.
- Kæra til rektors HÍ 4. febrúar 2010. Má ætla að rektor hafi brugðist við henni með yfirlýsingu sem hún sendi til allra starfsmanna háskólans 15. febrúar 2012 þar sem segir „að ekkert hefur komið fram í meðferð málsins sem bendir til þess að viðkomandi stundakennari hafi gerst brotlegur í starfi“.
- Kæra til lögreglu 27. maí 2011. Felld niður 26. júlí 2012.
- Kæra til siðanefndar HÍ 18. júní 2012.