Færslur frá 5. október 2012

5. október 2012

Siðanefnd vísar kæru Vantrúar frá

Garðalundur á AkranesiFélagið Vantrú kærði Bjarna Randver Sigurvinsson enn einn ganginn fyrir siðanefnd Háskóla Íslands nú í sumar (sjá færsluna Vantrú kærir Bjarna Randver í fimmta sinn). Skipuð var ný siðanefnd til að fjalla um þetta mál enda höfðu þeir tveir sem skipa venjulegu siðanefnd HÍ starfað í tveimur siðanefndum sem hvorugri tókst að ljúka málinu.

Í dag bárust þær gleðilegu fréttir að siðanefnd HÍ hefði vísað kæru félagsins Vantrúar frá enda sé hún sé hún tilefnislaus og uppfylli þar með ekki skilyrði 4. gr. starfsreglna nefndarinnar um málsgrundvöll.

Þessi siðanefnd vann málið mjög faglega frá grunni. Andmælaréttur félagsins Vantrúar og Bjarna Randvers var virtur í hvívetna og því leið talsverður tími þar til svör og andsvör voru komin í hús. Félagið Vantrú fór reyndar fram á að ekki yrði tekið mark á flestum þeim gögnum sem Bjarni Randver lagði fram en siðanefnd tók ekki tillit til þeirrar óskar Vantrúar nema að takmörkuðu leyti.

Í úrskurði siðanefndar segir m.a. (feitletrun í texta er mín):

Til að geta skorið úr um hvort kæra um brot á siðareglum sé tilefnislaus samkvæmt 4. gr. starfsreglna nefndarinnar verður að kanna hvort tilefni hennar er til staðar eða hún reist á röngum forsendum. Fyrst er að líta til þess að enginn félagsmanna Vantrúar sat umrædda kennslustund í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar og þeir sáu glæruraðirnar ekki fyrr en síðar. Glærurnar voru til umræðu, umfjöllunar og greiningar í lokaðri kennslustund en voru ekki ætlaðar til opinberrar birtingar, enda kemur samhengi námskeiðsins ekki fram á þeim. Mikilvægt er að skoða glærurnar í samhengi við efni og markmið námskeiðsins, kennsluaðferðir og nálgun að viðfangsefninu svo og útskýringar kennara á tilgangi þeirra og framsetningu. Ekki síst skiptir máli hver var upplifun þeirra nemenda sem sátu kennslustundina þar sem þær birtust, þegar leggja skal mat á hvort umfjöllun um trúlausa og félagið Vantrú gaf tilefni til kærunnar. Þá þarf að taka tillit til víðtæks svigrúms kennara til að haga framsetningu efnis og kennsluaðferðum eftir því sem hann telur hæfa best til að ná markmiðum námskeiðs og námskeiðslýsingar, á þeim akademísku forsendum sem hann leggur til grundvallar.
[- - -]
Þegar allt framangreint er virt er það mat siðanefndar að umfjöllun Bjarna Randvers Sigurvinssonar um trúlausa og félagið Vantrú í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar hafi samrýmst viðurkenndum kennsluaðferðum, verið innan ramma lýsingar á viðfangsefnum, efnistökum og markmiðum námskeiðsins og hvorki falið í sér áróður né skrumskælingu. Hefur þannig verið leitt í ljós að ekki sé tilefni til þeirrar kæru sem hér er til skoðunar. Þar sem skilyrði 4 gr. starfsreglna siðanefndarinnar um málsgrundvöll eru ekki uppfyllt er málið ekki tækt til umfjöllunar hjá nefndinni.

Tveggja ára og átta mánaða martröð Bjarna Randvers er loksins lokið nema félagið Vantrú upphugsi fleiri stofnanir til að kæra hann fyrir. Í tilefni þessara gleðilegu frétta er færslan myndskreytt með friðsældinni í Garðalundi í dag.

Félagið Vantrú mun væntanlega tjá sig von bráðar um þennan úrskurð á sinni heimasíðu. Kann að hugsast að Matthías Ásgeirsson, fyrrverandi formaður Vantrúar og ötull talsmaður félagsins í málavafstri þess gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni, sé að tjá skoðun sína á úrskurðinum í nýjustu bloggfærslu sinni, en mögulega er kveikjan að henni eitthvert annað óréttlæti sem Matthías telur sig nýlega hafa orðið fyrir. [Ath. að Matthías leyfir ekki aðgang að sínu bloggi af þessu bloggi svo það þarf að afrita slóð Örvitans í nýjan glugga í vafranum.] 
 

Ummæli (48) | Óflokkað, Vantrú og siðanefnd HÍ