Færslur frá 29. október 2012

29. október 2012

Réttlætir tjáningarfrelsi einelti?

Nornahamar fem�nistaUndanfarna daga hafa netheimar logað eins og oft gerist og kveikjan er að þessu sinni Hildur Lilliendahl eins og oft gerist.

Upphaf máls í þetta sinn var að Fr. Lilliendahl var talin ein af áhrifamestu konum landsins skv. víðlesnu kvennablaði. Í umræðuþræði við frétt af þeirri upphefð skrifaði maður nokkur ósmekkleg skilaboð gegnum fésbókina sína; skilaboð þar sem hann grínast með að keyra yfir Hildi (ég tek glottmerkið sem svo að þetta hafi átt að vera grátt gaman eða einhvers konar vantrúarkaldhæðni) og storkar henni síðan til að birta þessi ummæli í víðfrægu albúmi sínu yfir karla sem ku hata konur. Hildur tók auðvitað umsvifalaust skjámynd af skilaboðunum en lét ekki duga að koma þeim bara fyrir í albúminu sínu heldur birti úrklippuna á fésbók.

Það varð til þess að einhver gerði símaat í sambýlismanni Hildar Lilliendahl og símaatið varð umsvifalaust að frétt: Úrklippan af smekklausu skilaboðunum fylgdi fréttinni. Nú er alls óvíst hvort sami maður og skrifaði fésbókarummælin stóð einnig fyrir símaatinu en tilefni atsins var úrklippan með smekklausu ummælunum. Um leið og fréttin af því að gert hefði verið símaat í sambýlismanninum út af smekklausu ummælunum birtist linkuðu rétthugsandi femíniskir fésbókarnotendur í fréttina og ýmis ósmekkleg ummæli í garð smekklausa-ummæla-mannsins mátti sjá við svoleiðis linka.

Hið næsta sem gerist er að Facebook lokar aðgangi Hildar Lilliendahl í fjórða sinn. Það er í sjálfu sér ekkert sérlega dularfullt því Hildur Lilliendahl braut notendaskilmála Facebook í fjórða sinn. Það er nefnilega óheimilt að birta skjáskot af ummælum annars Facebook-notanda nema með skriflegu leyfi þess notanda. Umsvifalaust birtast fréttir á netmiðlum um að aðgangi Hildar Lillendahl hafi verið lokað í fjórða sinn, menn fara mikinn og kalla þetta pólitískar ofsóknir (af hálfu Facebook væntanlega) og aðför að tjáningarfrelsinu o.s.fr. og meðfylgjandi eru birt smekklausu ummælin sem Hildur Lilliendahl tók skjámynd af, klippti til og birti. Rétthugsandi femíniskir fésbókarnotendur deila nú þeim fréttum ákaft og ýmis ósmekkleg ummæli í garð smekklausa-ummæla-mannsins og Facebook má nú sjá við svoleiðis linka.

Bloggarinn ágæti, Eva Hauksdóttir, sem er nýbúin að blogga skemmtilega færslu um nornabrennur, kyndir nú undir einni slíkri í færslunni Verjum tjáningarfrelsi Hildar Lilliendahl. Í þeirri færslu er að sjálfsögðu birt skjáskot af smekklausu ummælunum - svona ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum - og Eva hefur skrifað, hringt og efnt til undirskriftasöfnunar, allt til að verja rétt Hildar Lilliendahl til að brjóta reglur þess amríska umræðuvettvangs Facebook. Og auðvitað linka réttsýnir femíniskir fésbókarnotendur í bloggið Evu og deila á sínum fésbókum og ýmis ósmekkleg o.s.fr.

Einhverjir eru búnir að fletta upp ósmekklega skilaboðamanninum í þjóðskrá og aðrir hafa flett honum upp á ja.is. Það er bara tímaspursmál hvenær einhverjir rétthugsandi tjáningarfrelsiselskendur færa sig úr sýndarheimum í kjötheima, henda grjóti í hús mannsins, teppa símann hans með hótunum, velta honum upp úr tjöru og fiðri eða þaðan af verra. Skjáskotið af ummælum hans lifir áfram víða á vefnum. Líklega er heppilegast fyrir hann að sækja um nafnbreytingu eða flytja úr landi úr því sem komið er: Skömm þessa manns verður uppi meðan netheimar byggjast.

Hildur Lilliendahl er Pussy Riot Íslands, hlutskipti hennar er jafnvel líkt við við aðstæður rithöfundarins Salman Rushdie eða pakistönsku stúlkunnar Malala Yousafzai. Hildur sætir jafn ómaklegum ofsóknum og þau fyrir skoðanir sínar: Ósmekklegum fésbókarummælum, símaati og fésbókarlokun! Eða eins og einn aðdáandi hennar orðar það:

Hins vegar ef við notum eitthað [svo] hlutlægt mat á hvað hetja er þá væri það einmitt einhver sem stendur á sinni sannfæringu samkvæmt sinni réttlætiskennd, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til skoðanakúgunar, þöggunar og hótanir um líkamsmeiðingar og skemmdarverk. Ég fæ ekki séð hver munurinn er á Hildi í þessu sambandi og Salmon [svo] Rushdie eða Malölu, Rushdie var aðeins hótað, líkt og Hildi, er hann ekki bara paranoid?

Réttsýnir og rétthugsandi netnotendur munu væntanlega halda áfram að úthrópa manninn sem var svo vitlaus að skrifa ósmekkleg fésbókarskilaboð um Hildi Lilliendahl og leggja sitt af mörkum til þess að Fr. Lillendahl megi brjóta reglur Facebook vegna þess að málstaður hennar er svo göfugur. Ég hugsa að hinir réttsýnu og rétthugsandi séu fjarskalega mikið á móti einelti á netinu en finnist í þessu tilviki í góðu lagi að leggja sjálfir smekklausa skilaboðamanninn í rækilegt óafturkræft einelti … allt er eineltið jú í þágu hins góða málstaðar.

Ummæli (29) | Óflokkað, Daglegt líf