Færslur frá 21. nóvember 2012

21. nóvember 2012

FabLab og myndafíkn

Snjókorn skorið út með leisiStundum heyrir maður talað um tölvuleikjafíkla og netklámfíkla. En nethannyrðafíkn er ekki eins viðurkennd. Samt þekki ég margar konur sem eiga erfitt með að slíta sig úr hannyrðaskoðun á netinu. Sjálf missi ég mig gang på gang í að myndagúggla handavinnu: Get alveg setið daglangt við að skoða prjónaflíkur, prjónaaðferðir, prjónauppskriftir, prjónamyndbönd o.s.fr. Hef meira að segja dottið aðeins í hekl!

Nýja dellan er skefjalaus myndagúgglun þess sem hægt væri að brúka til að skera út í leisi-skera. Ég hafði mig loksins yfir götuna til að skoða FabLab í fyrradag. FabLabbið er ábyggilega búið að vera opið í tvö ár og ég hafði svona óljósa hugmynd um að þetta fyrirbæri væri til. Í síðustu viku fór svo kollegi minn á teikninámskeiðinu (ég sæki byrjendanámskeið í teikningu til Reykjavíkur, fæ væntanlega tvær framhaldsskólaeiningar fyrir en ykkur að segja er ég ekki efnileg á þessu sviði) að spyrja mig eitthvað út í FabLab (sem ég vissi ekkert um) og það dugði til hleypa í mig döngun: Ég fór og skoðaði FabLab í fyrradag og sá um leið hversu ótrúlega sniðug þessi smiðja er.

Nú er ég búin að hlaða niður teikniforritinu sem FabLab brúkar, í morgun vaknaði ég með a.m.k. tíu hugmyndir í hausnum og miðað við aðra hannyrðareynslu má ætla að ein eða tvær af tíu hugmyndum sé vel brúkleg. Og í dag hef ég hangið í tölvunni (fyrir utan geðræktarlabbitúrinn) og bölvað sjálfri mér fyrir að hafa aldrei nennt að læra vektorateikningu í myndvinnsluforritinu sem ég brúka dagsdaglega … og myndagúgglað alveg út í eitt! Það prjónast náttúrlega ekki á meðan og krókódílaheklið sem ég kenndi sjálfri mér um helgina verður að bíða aðeins. Ég hef ákveðið að nota sömu aðferð og gefst yfirleitt best, þ.e.a.s. “learning by doing”, sem þýðir að ég kenni sjálfri mér það í vektorateikningu og í nýja teikniforritinu   svona nokkurn veginn jafnóðum og ég þarf á hverri aðferð að halda. Þetta er seinleg aðferð til náms en á hinn bóginn situr betur í manni það sem maður lærir með henni.

Akkúrat núna sagði ég við sjálfa mig: Nú skaltu blogga um FabLab og leggjast svo á sófa með hitapoka og reyfara, það er ekkert vit að hanga lengur í tölvuskömminni! Og ég er að hugsa um að hlýða þessu … eru einhvers staðar til GHA samtök fyrir fólk með myndagúgglunarhannyrðafíkn?

Eins og í öðru gengur FabLabbið mér í haginn: Ég fékk tíma í leisi-skeranum laust fyrir miðjan desember og þá verð ég örugglega búin að hanna dótið sem mig langar að gera, sjá hvaða hugmyndir virka og hverjar virka ekki og kenna mér nóg á myndvinnsluforritin til að mæta með fullbúnar teikningar.

Myndin við færsluna sýnir leisi-skorið snjókorn. Ég ætla reyndar ekki að búa til neitt þessu líkt en það er gaman að skoða á vefnum hvað menn hafa verið að gera í svona græju, þannig fær maður hugmyndir.

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf, handavinna