Færslur frá 27. nóvember 2012

27. nóvember 2012

Þankar um femínisma, pjatt og froðu

 Tákn fem�nistaNethamfarir dagsins snérust um auglýsingu Kvikmyndaskóla Íslands þar sem notuð var mynd af jólavaralitun, sem einhverjum þótti klámfengin og texti auglýsingarinnar auk þess tvíræður: Svo alvarlegt var málið að Fr. Lilliendahl sá sig knúna til að skrifa opið bréf til skólastjórans og birta það á Knúzinu. Þetta vakti mig til umhugsunar … hvorki þó um Kvikmyndaskólann né jólavaralitun heldur um merki femínista.

Tákn kvennaFemínistatáknið puntar þessa bloggfærslu efst. Ég held að það sé ekki sérlega gamalt en ítarleg gúgglun skilaði fáum upplýsingum um sögu táknsins. Það er samsett úr tákni kvenna og krepptum hnefa, líklega er fyrirmyndin að hnefanum fengin úr réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum á seinni hluta síðustu aldar. Kvennatáknið notaði grasafræðingurinn Linné fyrstur markvisst fyrir kvenkyns, í sínum flokkunarfræðum. En merkið sjálft er gamalt, táknaði reikistjörnuna Venus og í fræðum alkemista stóð það fyrir kopar. Táknið er afleitt úr gríska f-stafnum því Venus kallaðist Fosfóros (Ljósberi) sem morgunstjarna. (Frekari upplýsingar um þetta má lesa hér.)

Venus með spegilFæðing Venus eftir IngresKvennatáknið er tengt Venus á fleiri máta en reikistjörnunni Venus. Það er talið eiga að tákna spegil gyðjunnar Venus, lítinn handspegil. Venus var mikil pjattrófa eins og sést á myndunum hér til hliðar: Myndin af Venus með spegilinn er af styttu frá 1. eða 2. öld eftir Krist sem komst í eigu Freud, hin er af málverki Ingres, Venus Anadyomene, þar sem Venus er nýsköpuð að greiða á sér hárið upp úr bárulaugunum … (Áhugaverða túlkun á hvað vantar á styttuna frægu af Venus frá Míló má sjá hér - en athugið að þetta er grein frá 1908.)

Venus var frjósemisgyðja Rómverja og samsvaraði Afródítu hjá Grikkjum. Venus stóð fyrir ást, fegurð, kynlíf, frjósemi, ríkidæmi og sigur. Nafn hennar, venus, þýðir á latínu losti eða erótísk ást. Hún var sköpuð úr sjávarlöðri, sem sagt froðu.
 

Sú gyðja í norrænni goðatrú sem samsvarar þeim Venus og Afródítu er Freyja. Freyja var lauslát með afbrigðum (eins og þær Venus og Afródíta) og átti nokkra góða gripi, ekki þó spegil. Í eigu hennar eru m.a. tveir kettir sem draga vagninn hennar. Það er því vel við hæfi að eini femínisti þessa heimilis sé felina docta - hún er að vísu nýfemínisti.

Niðurstaðan? Ja, tákn femínista er samsett úr krepptum hnefanum blökkumanna og tákni kvenna, sem rekja má til lauslátrar hégómlegrar gyðju sem sköpuð var úr froðu einni saman …
 
 

Ummæli (18) | Óflokkað, Daglegt líf