Færslur desembermánaðar 2012

27. desember 2012

HAM og Hávamál

Hávamál eru safn kvæða frá óvissum tíma, oft eru þau talin frá 12. eða 13. öld en einstakar vísur kunna að vera talsvert eldri.  Þekktast þessara kvæða er Gestaþáttur, 77 (eða 79) erindi sem fjalla fyrst og fremst um æskilega hegðun og æskileg viðhorf í lífinu. Hermann Pálsson kallaði umfjöllunarefni Gestaþáttar Geðspeki. Þeir sem lesið hafa kvæðið eru sjálfsagt sammála því. Síðan ég sótti námskeið í hugrænni atferlismeðferð (HAM) við þunglyndi og kvíða snemma í haust hef ég af og til velt fyrir mér hvort Gestaþáttur Hávamála væri kannski HAM fyrri alda. Færslan er tilraun til að svara þeirri spurningu.

Hugræn atferlismeðferð gerir ráð fyrir að hugsanir, hegðun og líðan hangi saman og hafi áhrif hvert á annað. Vilji menn breyta líðan þarf að breyta hugsunum (hugrænum þáttum) og besta leiðin til að breyta hugsunum er að breyta hegðun sinni (atferli). Þessi áhersla á að breytt hegðun geti haft áhrif á hugarfar sem hafi áhrif á líðan er notuð víðar en í HAM, t.d. kannast þeir sem eru virkir í AA samtökunum mætavel við allt talið um „litlu hlutina sem verða að vera í lagi“; oft er þar vísað til þess að hafa reglu á svefni og mataræði, hreyfa sig reglulega og fleira svoleiðis smotterí sem skilar sér í betra jafnvægi.

Í hugrænni atferlismeðferð er lögð áhersla á að laga hugsanaskekkjur. Lista yfir þær algengustu má sjá hér í HAM. Meðferðarhandbók Reykjalundar.

Gestaþáttur Hávamála dregur nafn sitt af því að fyrstu erindin fjalla um hvernig gestur á bæ ætti að haga sér og hvernig gestgjafar ættu að haga sér. Síðan er fjallað um æskilega hegðun í víðara samhengi og seint í kvæðinu er farið að fjalla um hvað gefi lífinu gildi og sé mikilsverðast í lífi hvers manns. Víða er bent á hvað sé skynsamleg hegðun og hvað sé heimskuleg hegðun, einnig hvað séu skynsamleg viðhorf og hvað óskynsamleg.

Segja má að fjöldi erinda miði að því að leiðrétta algengar hugsanaskekkjur. Fyrir það fyrsta boðar Gestaþáttur Hávamál eindregið að hóf sé best á hverjum hlut. Menn eiga að tala mátulega mikið, hvorki of né van, menn eiga að drekka og eta mátulega mikið, hvorki fasta né hella/graðga í sig, o.s.fr. Það er því unnið einart gegn allt-eða-ekkert hugsunarskekkjunni, sem og ýkjum eða minnkun. Það er meira að segja óæskilegt að vera of vitur: „Því að snoturs manns hjarta/verður sjaldan glatt/ef sá er alsnotur er á“! Eftirsóknarverðast er að vera hæfilega vitur, þeir menn lifa fegurstu lífi.

Í Gestaþætti er staðhæft að illt sé að spegla sig í áliti annarra og vænlegra að hafa næga skynsemi og rétt sjálfsmat til að bera: „Sá er sæll/er sjálfur um á/ lof og vit meðan lifir“. Sá sem byggir sjálfsálit sitt á viðmóti annarra er heimskur: „Ósnotur maður/hyggur sér alla vera/viðhlæjendur vini.“

Hörmungarhyggja er algeng hugsanaskekkja, nokkurs konar sambland af hrakspám og ýkjum svo menn trúa því að eitthvað svo hræðilegt muni gerast að þeir muni ekki þola það eða að allt fari á síversnandi veg. Hávamál andæfa þessum hugsunarhætti annars vegar með því að segja að það sé slæmt að vera svo vitur að menn viti örlög sín, hins vegar að það sé heimskulegt að kvíða fyrir öllu: „ósnjallur maður/uggir hotvetna“.

Gestaþáttur leggur áherslu á reglusemi í mataræði og svefni. Menn eiga að „rísa ár“, þ.e. fara snemma á fætur, og borða snemma. E.t.v. mætti heimfæra þetta upp á virkni-boðskap HAM fræða, mikilvægi þess að vera virkur og halda stundarskrá. Sama má segja um áherslu Hávamála á að umgangast fólk og rækja vináttu. Ómannblendni gerir manninn heimskan: „Maður af manni/verður að máli kunnur/en til dælskur af dul.“ Hamingja mannsins felst í félagsskap: „Maður er manns gaman.“

Neikvæð rörsýn og að afskrifa jákvæða reynslu, frammistöðu og hrós eru hugsanaskekkjur skv. hugrænni atferlismeðferð. Í Hávamálum er bent á að þótt maður eigi lítið af efnislegum gæðum, t.d. lítið bú eða lélegan hest og klæðnað, geti menn glaðst yfir að vera sjálfstæðir og þurfi ekki að skammast sín fyrir fátækt svo lengi sem þeir eru þvegnir og mettir. Mikið fé er ekki eftirsóknarvert því „margur verður af aurum api“ og „svo er auður/ sem augabragð:/hann er valtastur vina.“ Undir lok Gestaþáttar er undirstrikað að það eitt að vera lifandi sé næg ástæða til að finna hamingju. Menn geta ævinlega fundið eitthvað til að gleðjast yfir, einnig þótt heilsan sé slæm:

Erat maður alls vesall,
þótt hann sé illa heill:
Sumur er af sonum sæll,
sumur af frændum,
sumur af fé ærnu,
sumur af verkum vel.

Reynsla mín af því að lesa Gestaþátt Hávamála með unglingum er mjög góð. Þeim þykir yfirleitt mikið til lífspeki kvæðisins koma enda eiga flest hollráðin og ábendingarnar vel við enn þann dag í dag því Gestaþáttur Hávamála boðar einkum heilbrigða skynsemi. Hugræn atferlismeðferð miðast og við að vekja fólk til umhugsunar um heilbrigða skynsemi og æfa það í henni. Margt er því líkt með þessu tvennu.

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa

24. desember 2012
13. desember 2012

Status

Eftir því sem ég varð virkari notandi Facebook fækkaði persónulegum færslum á þessu bloggi. Mikilvægi slíkra pistla er samt ómælt, fyrir mig. Það hjálpar mér mjög að eiga heimildir um þann hluta lífs míns sem er í algeru óminni og þau mörgu ár sem eru að hluta í óminni þegar ég skoða sjúkrasögu mína og veg og met hvað hafi verið skynsamleg inngrip heilbrigðiskerfisins og hvað hafi verið skaðlegar firrur byggðar á hindurvitnum. Svoleiðis að statusa-skrif gætu komið sér vel einhvern tíma seinna, það er aldrei að vita.

Mér gengur ótrúlega allt í haginn! Ef þú smælar framan í heiminn smælar heimurinn framan í þig, söng Megas um árið, og reynist hafa rétt fyrir sér. (Ég bendi samt á þann augljósa varnagla að sé maður í djúpu þunglyndiskasti er ekki hægt að smæla framan í eitt né neitt svo þetta er sosum ekkert allsherjarráð fremur en góð ráð eru yfirleitt.) Til marks um þann góða bata sem mér hefur hlotnast eftir að hafa gefið vestrænum geðlækningum langt nef í aprílbyrjun má nefna að ég hef gerst smáborgari og keypt seríur og plantað í tvo glugga: Líklega er þetta í fyrsta sinn í minni búskapartíð sem skreytt er með seríum fyrir jól! Og svo hef ég dregið fram jóladúka og slatta af skrauti og plantað þessu á áberandi stöðum hist og her hér innanhúss í stað þess að skreyta á heilagan Þodlák svo sem venja hefur verið. Búin að kaupa sirka helminginn af jólagjöfunum OG pakka þeim inn!

Jól liðinna ára eru í blakkáti en eftir því sem ég kemst næst hefur eina markmiðið í desember verið að lifa af, einn dag í einu, í mínu lífi í mörg ár. Stundum hef ég ekki getað keypt jólagjafir og treyst á mína nánustu til að redda þeim. Aðfangadagskvöld hefur útheimt alla mína orku. Ég hlakka til jólanna í fyrsta sinn í mörg ár.

Samskipti við lækna (og kuklara), lífeyrissjóði, Virk og aðra sem ég þarf að leita til hafa verið til algerrar fyrirmyndar. Ég er svo lúsheppinn öryrki að eiga ekkert undir Tryggingastofnun (fyrri samskipti við þá stofnun sannfæra mig um að það er mikil guðsblessun að þurfa ekki að standa í að tala við starfsfólk þar). Samskipti dags daglega eru aðallega við köttinn. Þetta er að vísu fluggreindur köttur, skáldmæltur mannfræðingur af tignum ættum … en eigi að síður bara köttur. Ég hlakka mjög til að eiga meiri samskipti við fólk á næsta ári.

Dagurinn í dag lofar góðu. Ég er farin að leyfa mér örlitla óreglu og svaf út í morgun. Nú eru tvær vikur síðan ég lagði síðustu flísinni af Rivotril, að venju fann ég fyrir fráhvörfum, t.d. svefnleysi, en veit að svoleiðis lætur undan eftir u.þ.b. þrjár vikur í hverri tröppu. Það gladdi mig að tala við sérfræðilækni í vikunni sem taldi að helv. kjálkaverkirnir sem ég sit uppi með gætu vel stafað af Rivotril-tröppun, þetta er sá fyrsti í heilbrigðiskerfinu sem tekur undir þetta álit mitt, sem er einungis byggt á klínískri reynslu af sjálfri mér. Það skiptir mig þó litlu máli að þetta séu sárasjaldgæf einkenni af því að hætta á þessu viðbjóðslega lyfi - ég hef ekki einu sinni nennt að andmæla heilbrigðiskerfisstaffi sem vill rekja þessa verki til einhvers annars - aðalmálið er hvort tekst að laga þetta og ég hef trú á að það sé hægt, til vara að þetta dofni með tímanum.

Og á eftir er skemmtileg ferð til borgarinnar handan Flóans, með vinkonu minni (maðurinn sést ekki nema í mýflugumynd því nú er álagstíminn mikli í hans vinnu), sem lýkur á Mahaliu Jackson tónleikum. Eftir þá verð ég aldeilis komin í jólastuðið ;)

Ummæli (13) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

11. desember 2012

Vandinn að kenna rétt

Á vorönn komandi kenni ég einn áfanga, ÍSL 212. Ég hef verið með öllu óvinnufær síðastliðin þrjú ár og raunar er meir en áratugur síðan ég kenndi þennan áfanga síðast. Svo ég er aðeins byrjuð að glöggva mig á námsefni og kennsluháttum þessa áfanga undanfarnar annir, einnegin námskrá.

Undanfarið hefur mér orðið æ ljósara hve pólitísk rétthugsun er nú mikilvæg og hvernig röngtensjónum hinna rétthugsandi er beint að einstökum skólum, frá leikskólanum Hagaborg upp í einstaka framhaldsskóla. Rétthugsunarstígurinn er vandrataður, hættulegir fordómapyttir við hvert fótmál og vei þeim kennara sem verður uppvís að ranghugsun!  Sama gildir um nemendur.

Til öryggis hef ég skoðað Aðalnámskrá framhaldsskóla enn einn ganginn og ígrundað sex grunnþætti menntunar á þessu skólastigi í allan dag. Suma er auðvelt að flétta í kennslu ÍSL 212 en málin þykja mér vandast talsvert þegar ég fer að velta fyrir mér sjálfbærni, jafnrétti og mannréttindum í tengslum við námsefni og algenga kennsluhætti. Ég reikna með að halda fyrri venjum í þessu starfi þ.e. að líta á nemendur sem fólk og umgangast þá eins og fólk en ekki staðalmyndir síns kyns. En dugir svoleiðis afdalamennska til að afgreiða grunnþættina jafnrétti og mannréttindi? Þarf ekki að passa annars vegar að kennslan og námsefnið endurspegli jafnrétti og taki á mögulegu kynjamisrétti og hins vegar að gæta afar vel að mannréttindum (þ.e. helgu trúleysi) minnihlutahópa? Eftir dyggan lestur netmiðla þetta haustmisseri virðist mér að akkúrat þetta séu mál málanna.

Í ÍSL 212 eru aðalviðfangsefnin málsaga og Snorra-Edda Snúum okkur fyrst að málsögunni:

Úlfur litliÍ fljótu bragði sýnist mér auðsýnt að ég verð að hætta að nota Faðirvorið í samanburðardæmum á gotnesku, fornensku, Norn, latínu og íslensku. Hef umhugsunarlaust flaggað þessum útlendu textum og treyst á að nemendur kynnu íslensku útgáfuna en sé auðvitað núna að þarna gæti ég talist vera með hroðalegt og ísmeygilegt trúboð. Svo það verður að skipta um texta … verstur fjandinn að það er ekkert bitastætt til á gotnesku nema Nýjatestamentsþýðing Úlfs litla! Ég sé ekki alveg hvernig ég get kennt málsögu án þess að minnast á gotnesku en ég hlýt að finna út úr því, ekki vill kennari láta hanka sig á kristniboði.

Það er óskaplega erfitt að draga taum kvenna í málsögu, meira að segja nógu erfitt að passa að fjalla jafnt um bæði kyn (má samt auðvitað telja orð eftir málfræðilegu kyni - en hvað gerir maður þá við hvorugkyns orð?). Flest klassísk gömul dæmi um málfar eru annað hvort höfundarlaus eða eignuð nafngreindum körlum. Því miður. Mér dettur helst í hug að styðjast við táknfræðilegan kynjafræðilegan fróðleik og kappkosta að gera hlut u-hljóðvarps sem mestan, um leið og ég geri lítið úr i-hljóðvarpi. O er kvenlægt tákn, I karllægt. Því miður er o verulega ómerkilegt hljóð í sögu málbreytinga frá frumnorrænum tíma til okkar daga. U hefur þann kost að með góðum vilja má sjá líkindi með U og æxlunarfærum kvenna (eggjastokkum, eggjaleiðurum og …). V væri auðvitað heppilegra en þótt menn hafi stafsett V fyrir U í nokkrar aldir myndi svoleiðis fróðleikur líklega rugla nemendur. Svo ég mun kappkosta að gæta algers jafnréttis í umfjöllun um u- og i-hljóðvarp, helst draga taum usins. Og líklega er best að sleppa klofningu út af því hve orðið líkist mikið dónalegu orði, ekki vill maður styðja klámvæðinguna sem alls staðar blasir við unglingum á framhaldsskólaaldri.
 
 

Það er spurning hvort megi yfirleitt kenna óhörðnuðum unglingum bók á borð við Snorra-Eddu því þetta er hræðileg bók, séð undir (þröngu) jafnréttis- og mannréttindasjónarhorni! Í formálanum heldur höfundur, Snorri Sturluson, því blákalt fram að almáttugur guð hafi skapað himin og jörð og gerir síðan lítið úr raunvísindamönnum: Segir hæðnislega að þeim sem beita vísindalegum aðferðum sé „ekki gefin andleg spektin“ og að alla hluti skilji þeir „jarðlegri skilningu“ (af samhenginu er auðséð að Snorra finnst það ansi takmörkuð skilning). Líklega er best að halda Prologus frá krakkaskinnunum.

Óðinn og GunnlöðEkki tekur betra við þegar megintextinn er lesinn: Þar er goðum hossað ótæpilega en rétt svo minnst á örfáar gyðjur; Þar er haldið fram tómum hindurvitnum og firru, t.d. um sköpun heims og endalok heims (og raunar er hið síðarnefnda óþægilega líkt lýsingu Opinberunarbókar Jóhannesar og mætti líta á sem viðurstyggilega lúmska leið til að smygla kristnum hugmyndum inn í barnssálir); Kennt er að jörðin sé flöt, að teymi þriggja guða hafi skapað mannkynið úr sjóreknum trjádrumbum (sem gengur augljóslega þvert á þá góðu þróunarkenningu) og annað er í sama dúr. Sumar sögurnar eru í meira lagi vafasamar, t.d. sagan af skáldamiðinum sem mætti segja að fjallaði um vændi og til að taka steininn úr er það karlmaður sem selur blíðu sína fyrir bjórsopa! Hvaða skilaboð sendir svoleiðis saga? Er verið að hampa aldagamalli klámvæðingu karla? Svo ekki sé minnst á hve bjórdrykkja er sýnd í jákvæðu ljósi í þessari sögu sem samrýmist alls ekki forvarnarstefnu skólans. Ekki er sagan af Gefjuni og Gylfa skárri (vændi enn og aftur) … eða sagan af Grótta sem fjallar athugasemdalaust um mansal … eða sagan sem segir frá athæfi Gjálpar … 

Ég sé fram á að þurfa að ritskoða Snorra-Eddupartinn ofan í svona tuttugu blaðsíður eða svo. Verð þó ekki óhult því áfram má rökstyðja að ég stundi (heiðið) trúboð sem er eitt það versta sem nemendur upplifa, frá leikskóla og uppúr.

Úr mínu menntaskólanámi veit ég vel hvernig gera má kennslu/nám í þessum áfanga sjálfbæra. Í menntaskólanum sem ég var í, í eldgamla daga, var haldin hátíðleg málsögubrenna samdægurs að loknu stúdentsprófi í málsögu. En á þeirri fornöld var kennt ómerkilegt fjölrit - er forsvaranlegt að hvetja nemendur til að brenna útgefnar bækur sem þeir geta selt notaðar?

Það er greinlega mun vandasamara að skipuleggja kennslu nú en fyrir þremur árum og góð ráð eru vel þegin.

Efri myndin er af Úlfi litla biskup og hin neðri af Gunnlöðu Suttungsdóttur að sörvera Óðin.
 
 

Ummæli (11) | Óflokkað, Skólamál

9. desember 2012

Svarthvíta hetjan mín …

Ég hef undanfarið fylgst með netumræðu um tillögu til þingsályktunar um heildrænar meðferðir græðara. Þetta er varlega orðuð tillaga um að Alþingi feli velferðarráðherra að skipa starfshóp til að kanna hvort niðurgreiða ætti meðferðir græðara eða gera greiðslur til þeirra undanþegnar virðisaukaskatti. Í nethamförum hefur umræðan snúist upp í að Ólína Þorvarðardóttir (meðflutningsmaður þessarar tillögu) vilji láta okkur skattgreiðendur borga fyrir kukl; snákaolía og miðlar eru nefnd í því sambandi og síðan í gær hefur einn og einn hamfarakommentari splæst óskyldri frétt um andsetin börn við þessa umræðu: Nú vill Ólína láta okkur skattgreiðendur halda uppi særingamönnum …

SvæðanuddÞegar svokallað kukl berst í tal stígur ávallt fram á sjónarsviðið sjálfskipaður riddari okkar pöpulsins, læknirinn og vantrúarfélaginn Svanur Sigurbjörnsson*. Hann er óþreytandi í sinni baráttu fyrir að ullabjakki og kukli sé ekki haldið að okkur hinum, líklega okkur hinum fávísu sem ella létum glepjast af gylliboðum. Baráttuna heyr hann einkum á sínu bloggi, vefsíðu Raunfélagsins, spjallþráðum Vantrúarvefjarins og í Læknablaðinu.

Málflutningur Svans í þessum miðlum er keimlíkur og felst einkum í að benda (okkur hinum) á að ýmsar kukl-aðferðir hafi aldrei verið sannaðar vísindalega og séu ekki reistar á vísindalegum grunni. Í leiðara í Læknablaðinu 07/08. tbl. 98. árg. 2012 skilgreinir hann kukl þannig:

Hvað er kukl? Til forna var kuklari sá sem iðkaði galdur eða fúsk, oft með dulúð og sjónarspili. Einnig beindist kukl að lækningum og þó að yfirbragðið sé annað í dag er þetta orð mest lýsandi fyrir þær meðferðartilraunir sem byggja á gervivísindum. Það einkennist af því að hugmyndafræðin er í andstöðu við sannreynda lífeðlisfræði, efnafræði og sjúkdómafræði nútímans. Kukl stenst ekki lágmarksrannsókn á verkun þess sem sagt er að eigi sér stað, það kann að vera gamalt en aldur fræða segir ekkert til um sannleiksgildi þeirra. Jafnframt ber það þess öll merki þess að vera skáldskapur og byggir oft á margnotuðu þema sem getur verið aðlaðandi fyrir ófaglært fólk í heilbrigðisvísindum eins og „styrking ónæmiskerfisins“, „losun eiturefna“ og svo framvegis.

Svanur blæs á mögulega lækningu kukls af lyfleysuáhrifum því siðferðilega sé engin réttlæting fyrir notkun lyfleysu nema í rannsóknum. Afleiðingar kukls eru m.a. fjárhagslegt tjón og „útbreiðsla ranghugmynda um mannslíkamann og meðferðir“, segir hann.

Ég hef dálítið velt fyrir mér þessum skörpu skilum sem Svanur o.fl. sjálfskipaðar hetjur, sem vernda okkur almúgann fyrir ásælni kuklara, telja vera milli vísindalegra lækninga lækna annars vegar og kuklara hins vegar. Eftir að hafa kynnt mér þokkalega vel minn eigin sjúkdóm, þunglyndi, og reynt vestrænar læknisaðferðir við honum í þaula er niðurstaðan sú að:

  • Ekki er vitað af hverju sjúkdómurinn þunglyndi stafar (það eru til ýmsar kenningar um það en engin þeirra hefur verið sannreynd með óyggjandi hætti);
  • Tilgátan um boðefnaójafnvægi í heila sem þunglyndislyf geti leiðrétt verður æ ósennilegri (við því er brugðist með að reyna að flækja tilgátuna en hún er jafn ósönnuð eftir sem áður);
  • Þunglyndislyf virka yfirleitt ekki betur en lyfleysa í vísindalegum rannsóknum (munur á virkni þunglyndislyfja og lyfleysu er lítill sem enginn nema í hópi alveikustu sjúklinga og þar skýrist munurinn af því að lyfleysa virkar síður á þá sjúklinga).

PilluboxVísindaleg og sönnuð útskýring á orsök þunglyndis er sem sagt ekki til, ekki heldur vísindaleg sönnun fyrir að lyfin sem notuð eru við sjúkdómnum virki, þau eru heldur ekki reist á neinum vísindalega sönnuðum grundvelli. Lyflækningar við þunglyndi eru samt mjög algengar. Þær byggjast oftar en ekki á dularfullu hugrænu fyrirbrigði sem kallast klínísk reynsla (lækna). Klínísk reynsla virðist geta verið hvað sem er, hún er a.m.k. ómælanleg með öllu. Einfaldar (en ósannar) boðefnaruglingsskýringar eru oft gefnar sjúklingum og þeirra aðstandendum og tilraunamennska lækna í blöndun lyfjakokteila er rökstudd með „klínískri reynslu“.

Satt best að segja er það mín sjúklingsreynsla (og hún er ansi yfirgripsmikil) að nútíma þunglyndislækningar byggi einmitt afskaplega mikið á dulúð og sjónarspili en ekki vísindalegum rökum eða sönnunum. Ég hef spurt Svan Sigurbjörnsson um hvort hann telji nútíma þunglyndislækningar kukl, af því þær uppfylla öll skilyrði hans fyrir að svo sé, en hann sá ekki ástæðu til að svara þeirri spurningu. Ég tek fram að þunglyndi er sko ekki neinn jaðarsjúkdómur: Innan fárra ára verður þunglyndi mest heilsufarsvá á Vesturlöndum að mati Heilbrigðisstofnunarinnar Sameinuðu þjóðanna og fjölda annarra. Svoleiðis að mér finnst mikilvægt að hetjan okkar, sem berst gegn því illa kukli, beiti sínum kríteríum á þá læknismeðferð sem býðst þorra þunglyndissjúklinga, sem eru fjölmennur hópur í heilbrigðiskerfinu, og felli sinn úrskurð.

Nú þekki ég fólk sem hefur batnað þunglyndi af því að eta algeng þunglyndislyf. Ég þekki líka fólk sem hefur ekki batnað baun við hið sama. Ég þekki fólk sem hefur hlotið bata af ýmsum kvillum af magnesíumsprautum, LDN, nálastungum eða hómópatíulyfjum. Ég þekki líka fólk sem þetta hefur ekkert virkað á. Sjálf var ég nógu vitlaus til að trúa goðsögnum um þunglyndislyf, geðlyf og raflækningar í meir en áratug en hef aldrei náð því að trúa á hómópatalyf: Líklega flytur trúin fjöll í hvoru tveggja tilvikinu.

Síðustu vikurnar hef ég þegið meðferð annars vegar hjá nuddara (nuddarar eru í Bandalagi íslenskra græðara, eru sem sagt kuklarar) og hins vegar sjúkraþjálfa. Hvor hefur til síns ágætis nokkuð: Nuddarinn er miklu flinkari að finna auma bletti með fingrunum en sjúkraþjálfarinn hefur yfir góðum græjum að ráða, í þessu tilviki hljóðbylgjunuddtæki. Árangurinn af veittri meðferð beggja er enn sem komið er hinn sami, þ.e.a.s. enginn. Aðalmunurinn fyrir mig er sá að ég borga skít á priki fyrir tímann hjá sjúkraþjálfaranum en margfalt meira fyrir tímann hjá nuddaranum. Ég ætla að halda áfram að skipta við báða og mér er alveg sama hvor læknar mig, vona einungis að öðrum hvorum takist það :)

Í fullkomnasta heimi allra heima ættu sjúklingar hafa algert val um hvernig meðferð þeir kjósa að þiggja og fá hana niðurgreidda úr sameiginlegum sjóðum. Við lifum ekki í slíkum heimi heldur þurfum að forgangsraða. Mér finnst litlu skipta hvort Alþingi skipar einum starfshópi fleiri eða færri en held að niðurstaðan hljóti að vera að skynsamlegast sé að niðurgreiða þá þjónustu sem flestum kemur til góða og er að því leyti sammála Svani og skoðanasystkinum hans: Líklega er flestum til hagsbóta að niðurgreiða næst þjónustu tannlækna og sálfræðinga.

Umræðan á netinu um þingsályktunartillöguna undanfarið lýtur sömu lögmálum og önnur umræða sem aktívistahópar einhenda sér í, er sem sagt ekki umræða heldur keppni í hver getur haft svarthvítasta viðhorfið og gargað hæst í netheimum. Ég er engin Dúkkulísa en fæ samt ekki varist því að hugsa í hvert sinn sem ég les málflutning Svans Sigurbjörnssonar: Hvernig ertu í lit?
 
 
 

* Ég veit ekki hvort Svanur Sigurbjörnsson læknir er ennþá félagi í Vantrú, athugasemdir hans á vef Vantrúar í sambandi við þessa þingsályktunartillögu eru ekki merktar þannig.
 
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (37) | Óflokkað, Geðheilsa

6. desember 2012

Hefur barátta íslenskra femínista skilað árangri?

Femínistafélag Íslands var stofnað vorið 2003. Það er vitaskuld nokkrum erfiðleikum háð að meta hvort eða hversu mikil áhrif þetta félag og einstaklingar sem þar eru í forsvari hafa haft. Baráttumálin eru þess eðlis að auðvelt ætti að vera til að fá fólk til að styðja baráttuna. Markmið og leiðir Femínistafélags Íslands eru skv. heimasíðu félagsins:

Að vinna að jafnrétti kynjanna.
Að vinna gegn hverskonar birtingarmyndum kynjamisréttis. Þar má nefna klámvæðinguna, ágengar, lítilsvirðandi auglýsingar, ofbeldi, mansal og vændi.
Að uppræta staðalmyndir um hlutverk og eðli kvenna og karla.
Að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og auka hlut kvenna í stjórnun auðlinda og fjármagns.
Að styrkja þátttöku kvenna í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.
Að stuðla að samfélagi sem tekur mið af mismunandi hagsmunum og sjónarmiðum karla og kvenna svo sem í atvinnu- og menntamálum, stjórnmálum, menningu og á vettvangi einkalífsins.

Markmiðum þessum skal náð með lýðræðislegri, gagnrýnni og sýnilegri umræðu á fundum, Netinu og í öðrum fjölmiðlum.

ÖskurEn eins og ég rakti í síðustu færslu snýst framganga femínista í æ ríkari mæli um ögrun og athygli á sínum aðalvettvangi, Netinu. Ögrun og öfgafullur málflutningur kalla á öfgafull viðbrögð. Auðvitað bera femínistar ekki ábyrgð á niðrandi, særandi og jafnvel hótandi ummælum sem að þeim beinast en þeir eru ekki algerlega blásaklausir heldur því þeir haga málflutningi sínum stundum þannig að þessi viðbrögð eru fyrirsjáanleg, stimpla sig síðan fórnarlömb ofsókna í kjölfarið. (Nákvæmlega sömu hernaðarlist má sjá í öðrum aktívistahópum á netinu, t.d. félaginu Vantrú.) Skyldu svona baráttuaðferðir vera vænlegar til árangurs? Er líklegt að þær auki samstöðu fólks með málstaðnum, þ.e. efli jafnrétti og hvetji fólk til að vilja jafna stöðu karla og kvenna? Þetta er erfitt að mæla en finna má rannsóknir sem gefa vísbendingar um svarið.

Í norrænni könnun sem gerð var árið 2009, The Nordic Youth Research among 16 to 19 year old in Åland Islands, Denmark, Faroe Islands, Finland,  Greenland, Iceland, Norway and Sweden, voru 16-19 ára nemendur spurðir um ýmislegt, þ.á m. viðhorf til karla og kvenna (sjá s. 92 o.áfr. í skýrslunni sem krækt er í). Svör íslenskra unglinga um þetta skera sig ekki áberandi úr svörum unglinga á hinum Norðurlöndunum nema þegar spurt er hvort þeir telji að kona geti veitt trúfélagi forstöðu, t.d. verið prestur, en íslenskir unglingar af báðum kynjum hafa áberandi litla trú á því að svoleiðis starf henti konum (sjá s. 96).  Í frétt af niðurstöðum þessarar könnunar var því slegið upp að 14% íslenskra unglingsstráka teldu að konur ættu alls ekki að vinna úti (í fréttinni kemur einnig fram að 4,6% stúlkna voru piltunum sammála og raunar voru þessar tölur nánast samhljóða meðaltali álits allra norrænu unglinganna).

Í fréttinni sem krækt er í hér að ofan lýsir Andrea Hjálmsdóttir félagsfræðingur því yfir að niðurstöðurnar séu í samræmi við aðrar kannanir, hennar eigin og annarra. Í  yfirlitsgreininni “Mamma er meira svona í einfalda lífinu, þú veist” rekur Andrea nokkrar niðurstöður sínar og annarra og bendir á að hægt sé að greina bakslag í viðhorfum unglinga til jafnréttis: „Árgangurinn sem var í 10. bekk vorið 1992 hafði mun jákvæðari viðhorf til jafnréttis en 10. bekkingar vorið 2006.“ Í greininni Egalitarian Attitudes Towards the Division of Household Labor Among Adolescents in Iceland fjalla Andrea Hjálmsdóttir og Þóroddur Bjarnason um niðurstöður rannsóknarinnar 2006. Af umfjöllun þeirra má skilja að það atriði sem helst má tengja við viðhorf unglinganna sé hegðun foreldra, t.d. hvort móðir vinnur úti, hvort faðir sé heimaverandi, hvort foreldri sé einstætt o.s.fr. en tengsl milli sjónvarpsgláps og viðhorfa unglinga til jafnréttis mælast ekki, þvert á það sem þau Andrea og Þóroddur bjuggust fyrirfram við (því ætla mætti að ýmsar sápuóperur festu íhaldssöm viðhorf í sessi). Tengsl milli internet-notkunar og viðhorfa til  jafnréttis mældust einungis hjá stúlkum: Því meira sem þær héngu í tölvunum því íhaldsamara var viðhorf þeirra til karlhlutverka. Í þessu sambandi velti ég því fyrir mér hvort mikil áhersla í kynjafræði í sumum skólum á auglýsingar eða kynhlutverk í sjónvarpssápum og kvikmyndum skipti einhverju máli í því að ala upp/mennta jafnréttissinnaðri unglinga en ella - en kannski virkar þessi áhersla eitthvað á stelpurnar og gerir þær eilítið víðsýnni í garð karla.

Bleikt og bláttÍ meistararitgerð sinni, “Reality Bites” Attitudes Toward Gender Equality Among Icelandic Youth segir Andrea frá eigindlegri rannsókn sem hún gerði í júní 2008 og niðurstöðum hennar. Andrea og aðstoðarmaður hennar töluðu við á 22 tíundubekkinga á Akureyri (14 stelpur og 8 stráka). Niðurstaðan er að fylgi við femínisma standi í stað eða fari jafnvel minnkandi. Í ritgerðinni er áhugaverð skírskotun til Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns vinstri grænna, sem fór fram á það að heilbrigðisráðherra rannsakaði upphaf þess siðar að klæða nýfædd stúlkubörn í bleikt og drengbörn í blátt á fæðingardeildum og spurði hvort ráðherra vildi ekki breyta þessu. Orð Kolbrúnar féllu á Alþingi í maí 2007, vöktu mikla athygli og umræðu. Ein unglingsstúlkan sem Andrea talaði við vakti máls á þessu, sagði að stundum væri femínismi einum of mikið af því góða og hún hefði heyrt að á einhverju sjúkrahúsi hefði kona [femínisti] orðið kolvitlaus yfir að ungbörnin voru sett í bleik og blá föt. Stalla hennar tók undir að stundum færi femínismi yfir strikið, sú fyrrnefnda bætti við að það væri pirrandi þegar gert væri stórmál úr einhverju smáræði.

Ég hef ekki aðgang að könnuninni frá 1992 en treysti Andreu Hjálmsdóttur fullkomlega til að fara ekki með fleipur þegar hún segir að tíundubekkingar þá hafi haft mun jákvæðari viðhorf til jafnréttis en mælast í sama aldurshópi á síðustu árum. Andrea dregur af þessu þá ályktun að efla þurfi kynjafræðikennslu í skólum. Ég er sammála því að gott er að bjóða upp á nám um ýmis mál sem snerta jafnrétti karla og kvenna og hvetja nemendur til að ræða þau mál í sínum hópi. En mér sýnist að núverandi áherslur íslenskra femínista ýti ekki undir fylgi við jafna stöðu karla og kvenna meðal íslenskra unglinga og dæmið hér að ofan sýnir að í stöku tilvikum gætu baráttuaðferðir femínista ýtt undir að ungar stúlkur vilji ekki láta bendla sig við femínisma. Það er væntanlega ekki markmið íslenskra femínista.

Vilji menn einkum ná fram hugarfarsbreytingu hjá ungu fólki má til samanburðar nefna vímuefna- og tóbaksneyslu unglinga og viðhorf til svoleiðis neyslu: Undanfarin rúm 15 ár hefur neysla unglinga á vímuefnum og tóbaki minnkað ár frá ári. Þetta er þakkað samanteknum ráðum foreldra, skóla og fleiri aðila. Fjöldi kannana bendir og til þess að sá þáttur sem skipti mestu máli upp á hvort unglingar fara að drekka eða reykja sé hegðun foreldra þeirra þannig að hinn ágæti árangur sem hefur náðst er væntanlega ekki hvað síst þeim að þakka, síður opinberum forvörnum eða húllúmhæi í fjölmiðlum. Ef femínistar vilja ná raunverulegum árangri legg ég til að þeir skoði hvað virkar til hugarfarsbreytinga og breytinga á hegðun í vímuefnaneyslu og tóbaksneyslu og taki sér til fyrirmyndar. Stafrænt garg og stafrænir hurðarskellir virka ekki.
  
  
  
  
 

Ummæli (7) | Óflokkað, Daglegt líf

2. desember 2012

Er ég femínisti?

 Fors�ða Vikunnar 1939Ég var að velta því fyrir mér að hefja færsluna á dæmigerðri femínistavitnun, t.d. um þátttöku mína í Kvennalistanum og fleiri sérkvenlegum félagsskap eða öðrum ævisögulegum vitnisburði … en sá að þeir sem þetta káfaði upp á myndu hvort sem er skella skollaeyrum við svoleiðis trúarjátningu og annar vettvangur en Netið er oft heppilegri fyrir játningar.

Skilgreining Femínstafélags Íslands á femínista er: „Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.“ Samkvæmt þessari skilgreiningu er ég femínisti. En birtingarmynd femínisma á Íslandi er talsvert önnur og af „fréttum“ og opinberri umræðu virðast femínistar sem telja sig í forsvari fyrir þá hugmyndafræði gera þá kröfu að almennilegir femínistar hafi asklok fyrir himin; allir aðrir eru andfemínistar. Femínistar og vantrúarfélagar hafa sakað mig um að vera kvenfjandsamlegur illa innrættur andfemínisti. Því er ég ósammála en fellst fúslega á að ég hafi andæft málflutningi þessara hópa enda tel ég fulla ástæðu til þess.
 

Vettvangur íslenskra femínista er Netið. Þar er annars vegar vefritið Knúz og hins vegar yfirlýsingar og fréttir frá femínistum mest áberandi, nokkrir femínistar reka eigið blogg en flestir blogga sjaldan og slitrótt. Kveikjan að Knúz er fögur hugsjón og einkunnarorðin þess bera henni vitni: „Alnetið þarf knúz miklu oftar. Annars breytist það í vígvöll.“ Vefritið ber þessa æ minni merki; Æ fleiri greinar virðist eingöngu hafa þann tilgang að stuða fólk með einhverjum hætti; ögra eða espa til illinda, þ.e. leggja sitt til af mörkum til að  breyta alnetinu í vígvöll. Af nýlegum greinum má nefna sem dæmi Til varnar femíniskum framhaldsskólanemum eftir Thomas Brorsen Smidt (29. nóvember 2012), Drykkjubingó femínista eftir Ingólf Gíslason (15. nóvember 2012) og  „Öfgafemínista vísað úr strætó: Notar túr til að gagnrýna auglýsingar á apótekapokum“ MYNDIR eftir Hildi Lilliendahl Viggósdóttur (21. ágúst 2012). Í þessum greinum eru mismunandi aðferðir notaðar til að ögra; óheflað málfar, smekklaus og fáránleg tillaga sem líklega á að vera brandari og frásögn af líkamsvessa sem venjulegt fólk sér ekki ástæðu til að hafa í hámæli. En inn á milli eru skínandi góðar og vandaðar greinar á vefritinu Knúz, t.d. „Hún skrifaði það ekki … Hún skrifaði það en hún hefði ekki átt að skrifa það … Hún skrifaði það EN …“ eftir Magneu Matthíasdóttur (26. nóvember 2012) eða Birtingarmyndir fordóma og mismunar eftir Eyju M. Brynjarsdóttur (13. nóvember 2012). Á Knúz ægir nefnilega öllu saman: Ómerkilegum klögumálum og málefnalegum greinum; Rexi yfir smámunum og tilraunum til að fjalla um raunveruleg vandamál; Ómerkilegum illa skrifuðum greinum og vönduðum texta.

Yfirlýsingar og fréttir sem einstakir femínistar standa að eru því miður oftast um smámuni og virðast einungis til þess ætlaðar að ná athygli hvað sem það kostar, helst með því að espa til illinda. Þar ber Hildur Viggósdóttir Lilliendahl höfuð og herðar yfir aðra femínista. (Ég tek fram að ég tel Hildi ekki bera ábyrgð á fréttaflutningi af sér nema að takmörkuðu leyti. Hún er hins vegar ódeig við að vekja athygli á sér og netmiðlar snúa því alla vega.) Undanfarið hefur Hildur einkum vakið athygli fyrir tvennt: Úrklippualbúm með ummælum eftir karla, sem kallast Karlar sem hata konur, og að Facebook hefur fjórum sinnum lokað aðgangi hennar af því hún hefur brotið reglur samskiptamiðilsins, reglur sem hún samþykkti þegar hún stofnaði til aðgangs að honum.

Úrklippusafn Hildar er merkilegt að mínu mati. Ekki af því að það sýni að karlar hati konur í stórum stíl, það sýnir ekki einu sinni að karlarnir sem eiga ummælin hati konur sérstaklega mikið því ummælin eru af ýmsum toga, klippt úr samhengi og kríterían í söfnuninni óljós. Úrklippusafnið er fyrst og fremst góð heimild um orðræðu á Vefnum. Það væri enginn vandi að búa til samsvarandi albúm um eitthvað annað, í svipinn dettur mér í hug: Fólk sem hatar banka, fólk sem hatar lögfræðinga, fólk sem hatar vinstri græna/ samfylkinguna/ sjálfstæðisflokkinn … nú eða sérhæfðari albúm eins og fólk sem hatar Hildi Lilliendahl, vantrúarfélagar sem hata Bjarna Randver Sigurvinsson, femínistar sem hata Brynjar Níelsson o.s.fr. Orðræða á Vefnum verður sífellt grófari og er merkilegt rannsóknarefni að mínu mati. Ég efast um að hægt sé að greina kynjaða orðræðu þegar þessi vettvangur er skoðaður en það væri vissulega áhugavert að sjá rannsókn á slíku og verðugt efni fyrir málfræðinga sem hafa áhuga á muninum á málsniði kvenna og karla.

Auglýsingabæklingu Smáralindar 2001Við lestur netmiðla fær alþýðan smám saman þá hugmynd að femínismi snúist um smáatriði eins og hvort bókaforlagi sé yfirhöfuð heimilt að gefa út gamaldags bækur fyrir karlbörn og kvenbörn, hvort verið geti að auglýsing hafi kynferðislega skírskotun og feli í sér niðurlægingu kvenkyns nemenda, með ítrustu táknfræðilegri túlkun, hvort eigi/megi klæða stelpur og stráka í bleik og blá föt, hvort eigi/megi gefa litlum stelpum og strákum meint stelpuleikföng og strákaleikföng, hvort dónalegan menntaskólahúmor eigi að skilja sem svívirðilega árás feðraveldisins á allt kvenkyns o.s.fr. Hver frétt er blásin upp úr öllu valdi og verður að nethamförum, hvort sem um er að ræða auglýsingu sem líklega hefði ella vakið litla athygli eða að Facebook lokar aðgangi Hildar Lilliendahl jafnt og annarra notenda sem tilkynnt er um að hafi brotið notendareglur Facebook. Þegar búið er að endurtaka nógu oft að Hildur Lilliendahl hafi fengið líflátshótun er það orðið satt og geirneglt í hugum manna þótt ómögulegt sé að lesa líflátshótun úr ummælunum sem urðu kveikjan að fárinu; Lögreglan í Reykjavík skal hafa gert lítið úr kynferðislegri misbeitingu þótt engin leið sé að sjá út úr frétt hennar um manninn sem var hent út úr eigin íbúð að um slíkt hafi verið að ræða; Kvikmyndaskóli Íslands hampar klámi og niðurlægir kvenkyns nemendur með auglýsingu; Hagkaup selur dónalegan undirfatnað á smástelpur o.s.fr. 

Þar sem ekki er vandamál en ætti að vera vandamál að mati femínista eru þau búin til. Þetta má t.d. sjá í nýlegum bæklingi Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur, Klám er kynferðisleg áreitni eftir Thomas Brorsen Smith (Einar Steingrímsson gerði þessum bæklingi, rannsókn höfundar og túlkun ágæt skil í færslunni Reykjavíkurborg með klám á heilanum? 2. apríl 2012 og ég vísa í færslu hans til rökstuðnings) eða skemmtilegi farsinn um ónefndan dónalegan leynigest í Harmageddon, kvörtun Hildar Lilliendahl og ákvörðun þáttarstjórnenda að reka sjálfa sig til að undirstrika alvarleika kvörtunarinnar. Netmiðlar flytja alvörugefnar fréttir af þessum óskunda einmitt núna um helgina.

Ég ætlaði að fjalla um ýmis raunveruleg vandamál sem íslenskir femínistar hunsa og um afleiðingar þessara baráttuaðferða sem ég hef rakið hér að ofan en þá yrði færslan of löng svo ég geymi þau umræðuefni.

Myndirnar sem skreyta þessa færslu eru af auglýsingabæklingi Smáralindar vorið 2007, en um þessa mynd er haft eftir dr. Guðbjörgu Hildi Kolbeins: „Á forsíðunni má sjá unga stúlku á háum hælum í velþekktri stellingu úr klámmyndum. Hún er tilbúin til þess að láta taka sig aftan frá. Með munninn opinn býður hún lesendum af karlkyni að setja skaufa sína upp í sig“ (Guðbjörg Hildur Kolbeins barst eilítið í tal í umræðum um síðustu færslu mína og þá næstsíðustu) og forsíðu Vikunnar 1939 (um hana hafa femíniskir fjölmiðlafræðingar ekki tjáð sig en ég vek athygli þeirra á því að stúlkan er með opinn munn, það sést glöggt á frumheimildinni sem ég vísa í).

P.s. Varðandi síðustu færslu mína og umræður við hana: Ég hef rakið nútímaþjóðsöguna um G-strengi handa fjögurra ára stúlkubörnum sem Hagkaup ku selja og I’m a Porn Star barnaboli aftur í umræðu á Barnalandi 2005; það er elsta umræða sem ég finn um I’m a Pornstar/I’m a Pornstar in Training barnaboli sem Hagkaup á að hafa selt „fyrir nokkrum árum“ og umræðan færist síðan yfir í G-strengi fyrir fimm ára. Þessi umræða gengur aftur á yngri barnalandsspjallborðum, femin.is og hugi.is en  ef einhver veit um eldri heimild er ábending vel þegin. Sagan um Pornstar barnabolina í Hagkaup má sjá víðar, t.d. í birtu lokaverkefni nemanda í framhaldsnámi í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands, sjá ritgerðina Klámvæðingin og áhrif hennar á íslensk ungmenni á vefsetrinu Heimasíða Beddu en þar er ekki vísað í heimild.  Haldi femínistar áfram sama málflutningi má ætla að þjóðsagan um I’m a Porn Star in Training barnabolina og G-strengi fyrir börn í verslunum Hagkaups verði útbreiddari en sagan af kettinum í örbylgjuofninum ;)
 

Ummæli (52) | Óflokkað, Daglegt líf