Færslur frá 2. desember 2012

2. desember 2012

Er ég femínisti?

 Fors�ða Vikunnar 1939Ég var að velta því fyrir mér að hefja færsluna á dæmigerðri femínistavitnun, t.d. um þátttöku mína í Kvennalistanum og fleiri sérkvenlegum félagsskap eða öðrum ævisögulegum vitnisburði … en sá að þeir sem þetta káfaði upp á myndu hvort sem er skella skollaeyrum við svoleiðis trúarjátningu og annar vettvangur en Netið er oft heppilegri fyrir játningar.

Skilgreining Femínstafélags Íslands á femínista er: „Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.“ Samkvæmt þessari skilgreiningu er ég femínisti. En birtingarmynd femínisma á Íslandi er talsvert önnur og af „fréttum“ og opinberri umræðu virðast femínistar sem telja sig í forsvari fyrir þá hugmyndafræði gera þá kröfu að almennilegir femínistar hafi asklok fyrir himin; allir aðrir eru andfemínistar. Femínistar og vantrúarfélagar hafa sakað mig um að vera kvenfjandsamlegur illa innrættur andfemínisti. Því er ég ósammála en fellst fúslega á að ég hafi andæft málflutningi þessara hópa enda tel ég fulla ástæðu til þess.
 

Vettvangur íslenskra femínista er Netið. Þar er annars vegar vefritið Knúz og hins vegar yfirlýsingar og fréttir frá femínistum mest áberandi, nokkrir femínistar reka eigið blogg en flestir blogga sjaldan og slitrótt. Kveikjan að Knúz er fögur hugsjón og einkunnarorðin þess bera henni vitni: „Alnetið þarf knúz miklu oftar. Annars breytist það í vígvöll.“ Vefritið ber þessa æ minni merki; Æ fleiri greinar virðist eingöngu hafa þann tilgang að stuða fólk með einhverjum hætti; ögra eða espa til illinda, þ.e. leggja sitt til af mörkum til að  breyta alnetinu í vígvöll. Af nýlegum greinum má nefna sem dæmi Til varnar femíniskum framhaldsskólanemum eftir Thomas Brorsen Smidt (29. nóvember 2012), Drykkjubingó femínista eftir Ingólf Gíslason (15. nóvember 2012) og  „Öfgafemínista vísað úr strætó: Notar túr til að gagnrýna auglýsingar á apótekapokum“ MYNDIR eftir Hildi Lilliendahl Viggósdóttur (21. ágúst 2012). Í þessum greinum eru mismunandi aðferðir notaðar til að ögra; óheflað málfar, smekklaus og fáránleg tillaga sem líklega á að vera brandari og frásögn af líkamsvessa sem venjulegt fólk sér ekki ástæðu til að hafa í hámæli. En inn á milli eru skínandi góðar og vandaðar greinar á vefritinu Knúz, t.d. „Hún skrifaði það ekki … Hún skrifaði það en hún hefði ekki átt að skrifa það … Hún skrifaði það EN …“ eftir Magneu Matthíasdóttur (26. nóvember 2012) eða Birtingarmyndir fordóma og mismunar eftir Eyju M. Brynjarsdóttur (13. nóvember 2012). Á Knúz ægir nefnilega öllu saman: Ómerkilegum klögumálum og málefnalegum greinum; Rexi yfir smámunum og tilraunum til að fjalla um raunveruleg vandamál; Ómerkilegum illa skrifuðum greinum og vönduðum texta.

Yfirlýsingar og fréttir sem einstakir femínistar standa að eru því miður oftast um smámuni og virðast einungis til þess ætlaðar að ná athygli hvað sem það kostar, helst með því að espa til illinda. Þar ber Hildur Viggósdóttir Lilliendahl höfuð og herðar yfir aðra femínista. (Ég tek fram að ég tel Hildi ekki bera ábyrgð á fréttaflutningi af sér nema að takmörkuðu leyti. Hún er hins vegar ódeig við að vekja athygli á sér og netmiðlar snúa því alla vega.) Undanfarið hefur Hildur einkum vakið athygli fyrir tvennt: Úrklippualbúm með ummælum eftir karla, sem kallast Karlar sem hata konur, og að Facebook hefur fjórum sinnum lokað aðgangi hennar af því hún hefur brotið reglur samskiptamiðilsins, reglur sem hún samþykkti þegar hún stofnaði til aðgangs að honum.

Úrklippusafn Hildar er merkilegt að mínu mati. Ekki af því að það sýni að karlar hati konur í stórum stíl, það sýnir ekki einu sinni að karlarnir sem eiga ummælin hati konur sérstaklega mikið því ummælin eru af ýmsum toga, klippt úr samhengi og kríterían í söfnuninni óljós. Úrklippusafnið er fyrst og fremst góð heimild um orðræðu á Vefnum. Það væri enginn vandi að búa til samsvarandi albúm um eitthvað annað, í svipinn dettur mér í hug: Fólk sem hatar banka, fólk sem hatar lögfræðinga, fólk sem hatar vinstri græna/ samfylkinguna/ sjálfstæðisflokkinn … nú eða sérhæfðari albúm eins og fólk sem hatar Hildi Lilliendahl, vantrúarfélagar sem hata Bjarna Randver Sigurvinsson, femínistar sem hata Brynjar Níelsson o.s.fr. Orðræða á Vefnum verður sífellt grófari og er merkilegt rannsóknarefni að mínu mati. Ég efast um að hægt sé að greina kynjaða orðræðu þegar þessi vettvangur er skoðaður en það væri vissulega áhugavert að sjá rannsókn á slíku og verðugt efni fyrir málfræðinga sem hafa áhuga á muninum á málsniði kvenna og karla.

Auglýsingabæklingu Smáralindar 2001Við lestur netmiðla fær alþýðan smám saman þá hugmynd að femínismi snúist um smáatriði eins og hvort bókaforlagi sé yfirhöfuð heimilt að gefa út gamaldags bækur fyrir karlbörn og kvenbörn, hvort verið geti að auglýsing hafi kynferðislega skírskotun og feli í sér niðurlægingu kvenkyns nemenda, með ítrustu táknfræðilegri túlkun, hvort eigi/megi klæða stelpur og stráka í bleik og blá föt, hvort eigi/megi gefa litlum stelpum og strákum meint stelpuleikföng og strákaleikföng, hvort dónalegan menntaskólahúmor eigi að skilja sem svívirðilega árás feðraveldisins á allt kvenkyns o.s.fr. Hver frétt er blásin upp úr öllu valdi og verður að nethamförum, hvort sem um er að ræða auglýsingu sem líklega hefði ella vakið litla athygli eða að Facebook lokar aðgangi Hildar Lilliendahl jafnt og annarra notenda sem tilkynnt er um að hafi brotið notendareglur Facebook. Þegar búið er að endurtaka nógu oft að Hildur Lilliendahl hafi fengið líflátshótun er það orðið satt og geirneglt í hugum manna þótt ómögulegt sé að lesa líflátshótun úr ummælunum sem urðu kveikjan að fárinu; Lögreglan í Reykjavík skal hafa gert lítið úr kynferðislegri misbeitingu þótt engin leið sé að sjá út úr frétt hennar um manninn sem var hent út úr eigin íbúð að um slíkt hafi verið að ræða; Kvikmyndaskóli Íslands hampar klámi og niðurlægir kvenkyns nemendur með auglýsingu; Hagkaup selur dónalegan undirfatnað á smástelpur o.s.fr. 

Þar sem ekki er vandamál en ætti að vera vandamál að mati femínista eru þau búin til. Þetta má t.d. sjá í nýlegum bæklingi Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur, Klám er kynferðisleg áreitni eftir Thomas Brorsen Smith (Einar Steingrímsson gerði þessum bæklingi, rannsókn höfundar og túlkun ágæt skil í færslunni Reykjavíkurborg með klám á heilanum? 2. apríl 2012 og ég vísa í færslu hans til rökstuðnings) eða skemmtilegi farsinn um ónefndan dónalegan leynigest í Harmageddon, kvörtun Hildar Lilliendahl og ákvörðun þáttarstjórnenda að reka sjálfa sig til að undirstrika alvarleika kvörtunarinnar. Netmiðlar flytja alvörugefnar fréttir af þessum óskunda einmitt núna um helgina.

Ég ætlaði að fjalla um ýmis raunveruleg vandamál sem íslenskir femínistar hunsa og um afleiðingar þessara baráttuaðferða sem ég hef rakið hér að ofan en þá yrði færslan of löng svo ég geymi þau umræðuefni.

Myndirnar sem skreyta þessa færslu eru af auglýsingabæklingi Smáralindar vorið 2007, en um þessa mynd er haft eftir dr. Guðbjörgu Hildi Kolbeins: „Á forsíðunni má sjá unga stúlku á háum hælum í velþekktri stellingu úr klámmyndum. Hún er tilbúin til þess að láta taka sig aftan frá. Með munninn opinn býður hún lesendum af karlkyni að setja skaufa sína upp í sig“ (Guðbjörg Hildur Kolbeins barst eilítið í tal í umræðum um síðustu færslu mína og þá næstsíðustu) og forsíðu Vikunnar 1939 (um hana hafa femíniskir fjölmiðlafræðingar ekki tjáð sig en ég vek athygli þeirra á því að stúlkan er með opinn munn, það sést glöggt á frumheimildinni sem ég vísa í).

P.s. Varðandi síðustu færslu mína og umræður við hana: Ég hef rakið nútímaþjóðsöguna um G-strengi handa fjögurra ára stúlkubörnum sem Hagkaup ku selja og I’m a Porn Star barnaboli aftur í umræðu á Barnalandi 2005; það er elsta umræða sem ég finn um I’m a Pornstar/I’m a Pornstar in Training barnaboli sem Hagkaup á að hafa selt „fyrir nokkrum árum“ og umræðan færist síðan yfir í G-strengi fyrir fimm ára. Þessi umræða gengur aftur á yngri barnalandsspjallborðum, femin.is og hugi.is en  ef einhver veit um eldri heimild er ábending vel þegin. Sagan um Pornstar barnabolina í Hagkaup má sjá víðar, t.d. í birtu lokaverkefni nemanda í framhaldsnámi í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands, sjá ritgerðina Klámvæðingin og áhrif hennar á íslensk ungmenni á vefsetrinu Heimasíða Beddu en þar er ekki vísað í heimild.  Haldi femínistar áfram sama málflutningi má ætla að þjóðsagan um I’m a Porn Star in Training barnabolina og G-strengi fyrir börn í verslunum Hagkaups verði útbreiddari en sagan af kettinum í örbylgjuofninum ;)
 

Ummæli (52) | Óflokkað, Daglegt líf