Færslur frá 9. desember 2012

9. desember 2012

Svarthvíta hetjan mín …

Ég hef undanfarið fylgst með netumræðu um tillögu til þingsályktunar um heildrænar meðferðir græðara. Þetta er varlega orðuð tillaga um að Alþingi feli velferðarráðherra að skipa starfshóp til að kanna hvort niðurgreiða ætti meðferðir græðara eða gera greiðslur til þeirra undanþegnar virðisaukaskatti. Í nethamförum hefur umræðan snúist upp í að Ólína Þorvarðardóttir (meðflutningsmaður þessarar tillögu) vilji láta okkur skattgreiðendur borga fyrir kukl; snákaolía og miðlar eru nefnd í því sambandi og síðan í gær hefur einn og einn hamfarakommentari splæst óskyldri frétt um andsetin börn við þessa umræðu: Nú vill Ólína láta okkur skattgreiðendur halda uppi særingamönnum …

SvæðanuddÞegar svokallað kukl berst í tal stígur ávallt fram á sjónarsviðið sjálfskipaður riddari okkar pöpulsins, læknirinn og vantrúarfélaginn Svanur Sigurbjörnsson*. Hann er óþreytandi í sinni baráttu fyrir að ullabjakki og kukli sé ekki haldið að okkur hinum, líklega okkur hinum fávísu sem ella létum glepjast af gylliboðum. Baráttuna heyr hann einkum á sínu bloggi, vefsíðu Raunfélagsins, spjallþráðum Vantrúarvefjarins og í Læknablaðinu.

Málflutningur Svans í þessum miðlum er keimlíkur og felst einkum í að benda (okkur hinum) á að ýmsar kukl-aðferðir hafi aldrei verið sannaðar vísindalega og séu ekki reistar á vísindalegum grunni. Í leiðara í Læknablaðinu 07/08. tbl. 98. árg. 2012 skilgreinir hann kukl þannig:

Hvað er kukl? Til forna var kuklari sá sem iðkaði galdur eða fúsk, oft með dulúð og sjónarspili. Einnig beindist kukl að lækningum og þó að yfirbragðið sé annað í dag er þetta orð mest lýsandi fyrir þær meðferðartilraunir sem byggja á gervivísindum. Það einkennist af því að hugmyndafræðin er í andstöðu við sannreynda lífeðlisfræði, efnafræði og sjúkdómafræði nútímans. Kukl stenst ekki lágmarksrannsókn á verkun þess sem sagt er að eigi sér stað, það kann að vera gamalt en aldur fræða segir ekkert til um sannleiksgildi þeirra. Jafnframt ber það þess öll merki þess að vera skáldskapur og byggir oft á margnotuðu þema sem getur verið aðlaðandi fyrir ófaglært fólk í heilbrigðisvísindum eins og „styrking ónæmiskerfisins“, „losun eiturefna“ og svo framvegis.

Svanur blæs á mögulega lækningu kukls af lyfleysuáhrifum því siðferðilega sé engin réttlæting fyrir notkun lyfleysu nema í rannsóknum. Afleiðingar kukls eru m.a. fjárhagslegt tjón og „útbreiðsla ranghugmynda um mannslíkamann og meðferðir“, segir hann.

Ég hef dálítið velt fyrir mér þessum skörpu skilum sem Svanur o.fl. sjálfskipaðar hetjur, sem vernda okkur almúgann fyrir ásælni kuklara, telja vera milli vísindalegra lækninga lækna annars vegar og kuklara hins vegar. Eftir að hafa kynnt mér þokkalega vel minn eigin sjúkdóm, þunglyndi, og reynt vestrænar læknisaðferðir við honum í þaula er niðurstaðan sú að:

  • Ekki er vitað af hverju sjúkdómurinn þunglyndi stafar (það eru til ýmsar kenningar um það en engin þeirra hefur verið sannreynd með óyggjandi hætti);
  • Tilgátan um boðefnaójafnvægi í heila sem þunglyndislyf geti leiðrétt verður æ ósennilegri (við því er brugðist með að reyna að flækja tilgátuna en hún er jafn ósönnuð eftir sem áður);
  • Þunglyndislyf virka yfirleitt ekki betur en lyfleysa í vísindalegum rannsóknum (munur á virkni þunglyndislyfja og lyfleysu er lítill sem enginn nema í hópi alveikustu sjúklinga og þar skýrist munurinn af því að lyfleysa virkar síður á þá sjúklinga).

PilluboxVísindaleg og sönnuð útskýring á orsök þunglyndis er sem sagt ekki til, ekki heldur vísindaleg sönnun fyrir að lyfin sem notuð eru við sjúkdómnum virki, þau eru heldur ekki reist á neinum vísindalega sönnuðum grundvelli. Lyflækningar við þunglyndi eru samt mjög algengar. Þær byggjast oftar en ekki á dularfullu hugrænu fyrirbrigði sem kallast klínísk reynsla (lækna). Klínísk reynsla virðist geta verið hvað sem er, hún er a.m.k. ómælanleg með öllu. Einfaldar (en ósannar) boðefnaruglingsskýringar eru oft gefnar sjúklingum og þeirra aðstandendum og tilraunamennska lækna í blöndun lyfjakokteila er rökstudd með „klínískri reynslu“.

Satt best að segja er það mín sjúklingsreynsla (og hún er ansi yfirgripsmikil) að nútíma þunglyndislækningar byggi einmitt afskaplega mikið á dulúð og sjónarspili en ekki vísindalegum rökum eða sönnunum. Ég hef spurt Svan Sigurbjörnsson um hvort hann telji nútíma þunglyndislækningar kukl, af því þær uppfylla öll skilyrði hans fyrir að svo sé, en hann sá ekki ástæðu til að svara þeirri spurningu. Ég tek fram að þunglyndi er sko ekki neinn jaðarsjúkdómur: Innan fárra ára verður þunglyndi mest heilsufarsvá á Vesturlöndum að mati Heilbrigðisstofnunarinnar Sameinuðu þjóðanna og fjölda annarra. Svoleiðis að mér finnst mikilvægt að hetjan okkar, sem berst gegn því illa kukli, beiti sínum kríteríum á þá læknismeðferð sem býðst þorra þunglyndissjúklinga, sem eru fjölmennur hópur í heilbrigðiskerfinu, og felli sinn úrskurð.

Nú þekki ég fólk sem hefur batnað þunglyndi af því að eta algeng þunglyndislyf. Ég þekki líka fólk sem hefur ekki batnað baun við hið sama. Ég þekki fólk sem hefur hlotið bata af ýmsum kvillum af magnesíumsprautum, LDN, nálastungum eða hómópatíulyfjum. Ég þekki líka fólk sem þetta hefur ekkert virkað á. Sjálf var ég nógu vitlaus til að trúa goðsögnum um þunglyndislyf, geðlyf og raflækningar í meir en áratug en hef aldrei náð því að trúa á hómópatalyf: Líklega flytur trúin fjöll í hvoru tveggja tilvikinu.

Síðustu vikurnar hef ég þegið meðferð annars vegar hjá nuddara (nuddarar eru í Bandalagi íslenskra græðara, eru sem sagt kuklarar) og hins vegar sjúkraþjálfa. Hvor hefur til síns ágætis nokkuð: Nuddarinn er miklu flinkari að finna auma bletti með fingrunum en sjúkraþjálfarinn hefur yfir góðum græjum að ráða, í þessu tilviki hljóðbylgjunuddtæki. Árangurinn af veittri meðferð beggja er enn sem komið er hinn sami, þ.e.a.s. enginn. Aðalmunurinn fyrir mig er sá að ég borga skít á priki fyrir tímann hjá sjúkraþjálfaranum en margfalt meira fyrir tímann hjá nuddaranum. Ég ætla að halda áfram að skipta við báða og mér er alveg sama hvor læknar mig, vona einungis að öðrum hvorum takist það :)

Í fullkomnasta heimi allra heima ættu sjúklingar hafa algert val um hvernig meðferð þeir kjósa að þiggja og fá hana niðurgreidda úr sameiginlegum sjóðum. Við lifum ekki í slíkum heimi heldur þurfum að forgangsraða. Mér finnst litlu skipta hvort Alþingi skipar einum starfshópi fleiri eða færri en held að niðurstaðan hljóti að vera að skynsamlegast sé að niðurgreiða þá þjónustu sem flestum kemur til góða og er að því leyti sammála Svani og skoðanasystkinum hans: Líklega er flestum til hagsbóta að niðurgreiða næst þjónustu tannlækna og sálfræðinga.

Umræðan á netinu um þingsályktunartillöguna undanfarið lýtur sömu lögmálum og önnur umræða sem aktívistahópar einhenda sér í, er sem sagt ekki umræða heldur keppni í hver getur haft svarthvítasta viðhorfið og gargað hæst í netheimum. Ég er engin Dúkkulísa en fæ samt ekki varist því að hugsa í hvert sinn sem ég les málflutning Svans Sigurbjörnssonar: Hvernig ertu í lit?
 
 
 

* Ég veit ekki hvort Svanur Sigurbjörnsson læknir er ennþá félagi í Vantrú, athugasemdir hans á vef Vantrúar í sambandi við þessa þingsályktunartillögu eru ekki merktar þannig.
 
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (37) | Óflokkað, Geðheilsa