15. janúar 2013

Helvítis þunglyndið!

Milli jóla og nýárs fór þunglyndið að versna. Ég ól þá von í brjósti að eðlileg óregla spilaði þar inn í, þ.e. að ég var farin að sofna seint að nóttu og sofa fram að hádegi og hékk inni og slaufaði hollum labbitúrum o.þ.h. Í byrjun ársins tók ég upp meinta hollari lífshætti en það hafði ekki neitt að segja: Ég finn verulega fyrir þunglyndinu ennþá!

Fyrir utan einkenni sem ég þekki ágætlega af langri reynslu (fánýtistilfinningu, firringartilfinningu, jafnvægistruflunum, truflunum á tímaskyni, sorgar/sútartilfinningu eins og einhver mér nákominn hafi dáið o.s.fr.) sýnir eina ótvíræða geðlægðarmælitækið sem ég hef kynnst, sunnudagskrossgáta moggans, verulega niðursveiflu. Ég gat svona 30% af krossgátu sunnudagsins! Þessi krossgáta byggir töluvert á hugrenningatengslum og þegar ég er mikið veik af þunglyndi lamast hugarstarf æ meir. Ástandið gæti vissulega verið verra, ég man eftir köstum þar sem ég hef getað ráðið eitt eða ekkert orð, en það er svo sem engin huggun í því. Nú er kominn tími til að betrekkja heimilið með minnismiðum … út af athyglisbrestinum sem fylgir þunglyndisköstum.

Þetta er fyrsta þunglyndiskastið sem ég tekst á við ein og sjálf. Venjulega hef ég leitað til míns geðlæknis sem hefur ævinlega snarlega skaffað nýja(r) pillusort(ir) eða hrist í nýjan lyfjakokteil. Árangurinn af þeim tilraunum hefur verið enginn og raunar hafa þær langoftast gert ástandið verra en af því sá læknir hafði það fyrir reglu að taka lítið mark á aukaverkana- eða aðalverkanakvörtunum síns sjúklings ef hann hafði lesið einhverja grein einhvern tíma sem sýndi fram á árangur pillanna þýddi lítið að andæfa þeim lærðu meintu vísindalegu vestrænu geðlæknistilraunum. Þrátt fyrir þunglyndisþokuna sé ég í hendi mér að ég er miklu betur sett núna eftir að hafa áttað mig á hve skelfilega lítil þekking hefðbundinnar læknisfræði er á þunglyndi, eiginlega get ég ekki séð að henni hafi þokað neitt frá dögum Hippokratesar. Verandi lítt höll undir kukl sé ég engin ráð í þeirri deildinni. Líklega er skást að beita heilbrigðri skynsemi.

Sú heilbrigða skynsemi segir mér að með því að gera mitt best til að láta ekki þunglyndið yfirskyggja allt mitt daglega líf muni ég verða minna veik en ég hef orðið til þessa. Ef ég samþykki ekki að gegna hlutverki sjúklings hundraðprósent verð ég ekki hundraðprósent sjúklingur. Gildir einu þótt ég eigi alls konar pappíra upp á að ég sé hundraðprósent öryrki og það svartsýnasta læknisvottorð frá því í haust sem ég hef séð.

Svoleiðis að ég hjúpa mig afneitun og dúkka upp sem hundraðprósent-í-lagi kennari einu sinni á dag, píni mig út á meðal fólks á hverjum degi, hef mig á lappir á morgnana og fer í clean-and-sober-leikinn, set upp stundarskrá fyrir sjálfa mig með nokkrum atriðum sem mér þætti gaman að undir eðlilegum kringumstæðum, hugsa sem minnst um helvítis þunglyndið og hef á stefnskránni að gera en ekki hugsa um að gera. Þetta hefur virkað vel.

Ég hitti sálfræðinginn núna áðan og jós þessu yfir hann, finnandi mjög til þess hvað var erfitt að tala og orða hugsanir mínar og hafandi á tilfinningunni að ég liti fyllibyttulega út til augnanna. Það er eru mjög venjuleg og skýr þunglyndiseinkenni. Eins og venjulega var gott að tala við sálfræðinginn. Því oftar sem ég hitti þennan sálfræðing því betur verður mér ljóst að til þess að sinna þunglyndu fólki þarf innsæi, mannþekkingu og opinn hug. Ég hafði ekki hitt minn fyrrverandi geðlækni nema nokkrum sinnum þegar mér var orðið ljóst að hann hafði ekkert af þessu til að bera en ég hélt í meir en áratug að “vísindalega þekking” hans myndi vega það upp og verða mér haldreipi. Svo reyndist ekki og miðað við það sem ég hef lesið á síðasta ári er vísindaleg þekking geðlæknisfræða afskaplega óvísindaleg þegar grannt er skoðað, eiginlega miklu skyldari kukli en vísindum.

Fyrir utan helsi þunglyndisins gengur allt prýðilega í mínu lífi. Mér tekst ennþá að lesa (sem er mikil guðsgjöf) og ég kenni í kringum hádegið, á þeim tíma er ég yfirleitt nokk normal því mitt þunglyndi er verst seinnipartinn og á kvöldin. Undirbúningi og yfirferð má sinna á morgnana, mínum ógeðveikasta tíma. Það er gulls ígildi að sinna starfi sem ég veit að ég stend mig vel í og takmarkalaus hamingja að endurheimta eitthvert hlutverk í lífinu! (Aðalhlutverk eiginkonu/móður/miðaldra konu hefur aldrei hentað mér og mér finnst í rauninni kjánalegt að ætlast til að nokkur manneskja með fúlle femm sinni bara einhverju múmínmömmuhlutverki á okkar dögum;  baki pönsur eða kökur í sunnudagskaffi handa familíunni, eldi mat á hverjum degi, gott ef ekki riggi upp kvöldhressingu handa sínum manni og börnum … í alvörunni!) Kjálkaverkurinn sem hefur plagað mig mjög allar götur síðan í mars er að dofna talsvert, líklega af því hann var langvinn fráhvarfseinkenni af því að hætta á bensólyfi og z-svefnlyfi frekar en nokkurt gagn hafi verið af sjúkraþjálfuninni, sem ég sæki þó ennþá. Svefninn er enn talsvert í klessu en þeim fækkar hægt og bítandi nóttunum sem ég ligg lengi andvaka. Ég hef lært nokkrar nýjar hannyrðaaðferðir, hannað svolítið af stykkjum sem hafa lukkast vel, og leyft mér að húkkast á Pinterest sem magnar mynda-Gúguls-fíkn í annað veldi ;)  Og lent í dýrlegu rifrildi um kennsluaðferðir …

Sem sagt: Ég mun halda mínu striki svo lengi sem heilsan versnar ekki meir og draga minn djöful af list. Kosturinn er sá að ég get a.m.k. lýst Hel af mikilli innlifun í næstu viku.

7 ummæli við “Helvítis þunglyndið!”

 1. Þ Lyftustjóri ritar:

  En brátt fer að vora. Þannig er ég þegar búinn að éta hrogn og lifur og innan skamms kemur svo blessað hrokkelsið. Troðfullt af vítamínum. Eins og lóan. Henni fylgja reyndar bara unaðsvítamín enda er hún ekki tuggin.

 2. Vala ritar:

  Takk fyrir pistilinn, Harpa. Óska þér sem fyrr góðs gengis í baráttunni og dáist að þér fyrir dugnaðinn við að leita leiða sem henta þér betur en lyfjakokkteillinn. :)

 3. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Hrogn og lifur og hrokkelsi eru enn óprófaðar aðferðir - alger viðbjóður að mínu mati en líklega ekki verri en pillurnar ;)

 4. Þ Lyftustjóri ritar:

  Sakar ekki að kanna það mál; enda bæði hollt og viðbjóðslega gott. Fyrir því er fjallgrimm vissa. Kannski myndi maðurinn líka éta svoleiðis en þó ekki víst; vóru ekki bara lóur í Flóanum í hans ungdæmi?
  Meðul eru hins vegar amk. bragðvond.

 5. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Maðurinn etur allt! Hann minnir mig stundum á Gýpu …

  Nútímapillur eru bragðlausar. En geta gert mann ferlega skrýtinn og lasinn.

 6. Carlos ritar:

  Baráttukveðjur úr Frans! Mér koma ekkert annað en ódauðleg orð prestsfrúarinnar í lagi Ríó tríós í hug:

  “Bíttu þær aftur, góði minn!”

  Ekki að það hjálpi, en ég dáist að baráttu þinni, Harpa.

 7. Hafdís Helgadóttir ritar:

  Gangi þér vel skvís. Finnst þú hetja að ráða við hversdagslegu hlutina það er jú þónokkuð. Vertu góð við þig. Kv.