8. febrúar 2013

Geldingarlyf, andvökulyf, sjálfsvígshvatalyf …

Ég var að lesa greinina Relabeling the Medications We Call Antidepressants eftir David Healy og David Antonuccio (birtist í Scientifica 2012). Að vísu vissi ég fyrir flest það sem þeir fjalla um en dáist að stuttu og skipulegu yfirliti og mæli eindregið með þessari grein hafi menn áhuga á því hvort þunglyndislyf virki við þunglyndi og hvernig þau virka sannanlega á ýmsan annan óheppilegan máta. Greinarnar sem þeir vísa í eru flestar aðgengilegar í landsaðgangi (gegnum hvar.is).

Spurning um lyfHealy og Antonuccio draga upp nokkrar mælistikur og máta algeng þunglyndislyf við þær.

Fyrsta mælistikan er: Þunglyndislyf ætti að sýna marktækt meiri verkun en lyfleysa. Þeir gera grein fyrir frægustu rannsóknum á þessu og rekja niðurstöður þeirra sem eru í stuttu máli sagt að bati af þunglyndislyfjum umfram lyfleysu mælist sáralítill og nær eingöngu í hópi sjúklinga sem teljast fárveikir af þunglyndi. Raunar er þessi litli munur sem mælist líka hálfgerð blekking því yfirleitt leyfist sjálfsvígskandídötum ekki að taka þátt í lyfjarannsóknum lyfjafyrirtækja og í mörgum rannsóknum er byrjað á að gefa öllum lyfleysu í tvær vikur og þeir reknir úr rannsókninni sem byrjar að batna af lyfleysunni („wash-out period“ er þetta kallað og dregur auðvitað úr möguleikanum á að lyfleysa ein og sér svínvirki á þátttakendur).

Þeir gera líka grein fyrir hörmulegum niðurstöðum sem fengust í risastórri rannsókn sem snérist um árangur af þunglyndislyfjum í raunheimi en ekki stýrðum tímabundnum lyfjarannsóknum, þ.e. STAR*D rannsókninni. Í henni voru prófaðar ýmsar samsetningar sem áttu að nýtast þunglyndissjúklingum, s.s. fleiri þunglyndislyf en eitt samtímis, stoðlyf úr öðrum lyfjaflokkum eða hugræn atferlismeðferð sem stoð. Sjúklingunum var fylgt eftir í ár og í ljós kom að 3% batnaði að ráði (108 þunglyndissjúklingum af 4.041); hinir ýmist hættu þátttöku í rannsókninni eða náðu einungis mjög tímabundnum bata og veiktust aftur. Það sem er kannski aðallega athyglisvert í sambandi við niðurstöður STAR*D könnunarinnar er að í fyrstu birtu niðurstöðum, þ.e. á vegum þeirra sem gerðu rannsóknina, var því haldið fram að 67% þátttakenda hefði batnað þunglyndið með þessum aðferðum …

Þunglyndislyf eru vegin og léttvæg fundin í öðru því mati sem Healy og Antonuccio nota. Sumar niðurstöðurnar eru auðvitað velþekktar, s.s. aukin sjálfsvígshætta ungs fólks sem gefið er þunglyndislyf (þess vegna er svartur aðvörunarmiði á þessum lyfjum í Bandaríkjunum, ég veit ekki hvort svo er hér á landi) eða sú mjög algenga og velþekkta aukaverkun flestra algengustu þunglyndislyfjanna að draga úr eða drepa kynhvöt fólks.

Mér þótti athyglisvert að lesa samantekt þeirra um rannsóknir sem benda til þess að í sumum tilvikum auki þunglyndislyf líkurnar á viðvarandi þunglyndi. Um þetta hafði ég lesið svolítið áður, t.d. flestar greinarnar sem þeir vísa í, en var ekki búin að læra hugtakið „tardive dysphoria“ sem mætti kalla síðkomna vanlíðan/óeirð á íslensku (hugtakið er búið til með hliðsjón af velþekkta hugtakinu „tardive dyskinesia“, síðkomin hreyfitruflun sem fylgir stöku sinnum töku sefandi lyfja og lýsir sér í kækjum og kippum  … í rauninni er síðkomin sút miklu betri þýðing á tardive dysphoria en því miður skilja of fáir gamla orðið sút). Þeir sem telja að þunglyndislyf valdi síðkominni vanlíðan, jafnvel krónísku þunglyndi, byggja á því að boðefnakerfi heilans bregst fljótt við inngripum (sem sést vel í tilraunum á dýrum) og gæti t.d. brugðist við serótónín-aukandi lyfi með því að draga saman serótónín-framleiðslu, þau viðbrögð endist lengi, séu jafnvel óafturkræf. Ein greinin um þetta, sem vísað er í úr Relabeling the Medications We Call Antidepressants, var ný fyrir mér, Tardive dysphoria: The role of long term antidepressant use in-inducing chronic depression? sem birtist í Medical Hypotheses í júní 2011. Eftirtektarverðast við þá grein þótti mér að málflutningurinn er í viðtengingarhætti … ólíkt greinafjöld um gagnsemi þessa eða hins þunglyndislyfsins ;)

Niðurstöður Healy og Antonuccio eru, eins og vænta má, að svokölluð þunglyndislyf sýni næsta lítinn vísindalega mældan árangur í lækningu á þunglyndi en sýni á hinn bóginn margs konar aðra verkan mætavel í sömu vísindalegu rannsóknunum. Þess vegna myndu ýmis önnur heiti þessara lyfja vera mun meir lýsandi og meira í samræmi við vísindalega mælda verkun þeirra, s.s. geldingarlyf (antiaphrodisiac medications - frygðarhamlandi lyf er eiginlega vonlaus samsetning á íslensku, finnst mér, þótt það væri nákvæmari þýðing); andvökuhvetjandi lyf; kvíðaaukandi lyf o.s.fr. En þeir viðurkenna fúslega að svoleiðis heiti sem tengjast betur vísindalega mældri algengustu og öflugustu verkun lyfjanna væru ekki sérlega markaðsvæn.

Í greininni nefna þeir félagar að „antidepressant“ (and-þunglyndis lyf) sé mjög villandi heiti yfir þessi lyf og velta fyrir sér hvort það skipti ekki máli þegar sjúklingar eru upplýstir um verkunarmátt þeirra. Ég staldraði aðeins við þetta, hafandi etið hinar og þessar þunglyndislyfjasortirnar í meir en áratug og oftar en ekki verið á mörgum lyfjum í senn, af allra handa tagi. Þær upplýsingar sem Healy og Antonuccio birta í greininni eru flestar alls ekkert nýjar af nálinni, ömurlega lítill árangur þunglyndislyfja borinn saman við lyfleysu hefur t.d. verið á almannavitorði frá því 2008. Ég skil ekki hvernig sú staðreynd getur hafa farið fram hjá nokkrum þeim geðlækni sem sýnir lágmarkslit á að fylgjast með í sinni fræðigrein. Á hinn bóginn hafði ég, sjúklingurinn, aldrei heyrt á þetta minnst fyrr en ég fór að lesa mér sjálf til um þunglyndislyf, á útmánuðum liðins árs. Hversu upplýsta ákvörðun getur sjúklingur tekið þegar hann er ekki upplýstur um aðalatriði í læknismeðferð?
 
 
 

9 ummæli við “Geldingarlyf, andvökulyf, sjálfsvígshvatalyf …”

 1. Sonja ritar:

  Er einhver áhugi á því að sjúklingurinn sé upplýstur. Flækir það ekki bara meðferðina?

 2. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Ef viðhorfið er það að læknismeðferðin sé fyrst og fremst fyrir lækninn (t.d. svo hann geti prófað lyf sér til yndis og ánægjuauka) en ekki fyrir sjúklinginn þá flækir upplýsing sjúklings vissulega meðferðina ;)

 3. Elva ritar:

  Fróðlegt að lesa, en nú er ég alveg komin í örlyndið eftir raflostmeðferð og reyndar töfluát líka þannig að ég veit ekki hvort hjálpaði mér upp úr holunni sem eg hef legið í undanfarna mánuði!

 4. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Í greininni sem er umfjöllunarefni færslunnar er ein uppástungan “mania stimulators” enda rökstutt að þunglyndislyf geti ósköp vel valdið maníu (örlyndi). Vonandi ert þú að meina “hæfilegt örlyndi” því örlyndi er tæpast eftirsóknarvert ástand … þótt það sé vissulega tilbreyting frá þunglyndisdofanum mikla.

  Miðað við aðra umfjöllun er Healy talsmaður raflosta við svæsnu þunglyndi.

 5. Elva ritar:

  Já Harpa ég meina hæfilegt örlyndi því eg þekki einkennin svo vel og veit nákvæmlega hvenær ég fer upp, það gerist bara eins og smellt sé fingri og þá oft í sambandi við eitthvað sem kemur óvænt upp á!

 6. Jóhann ritar:

  Hér má líka sjá hversu lyfjageiranum fleygir fram:

  http://www.bbc.co.uk/news/science-environment-21299657

  :(

 7. Hólmfríður Pétursdóttir ritar:

  Þakka þér, Harpa skrifin þín. Mér fannst ég hafa himinn höndum tekið þegar ég sá, að þunglyndislyfin geta framkallað síðbúna sút.
  Ég prófaði þrjár tegundir slíkra lyfja á um það bil 10 ára tímabili en vandi mig svo af síðustu gerðinni. Nú er komið ár síðan ég hætti inntöku, en fljótlega fór að bera á því að ég varð svo meir og grátgjörn, kona sem alltaf hefur getað stjórnað sýnilegum tilfinningum. Ég kenndi reyndar lyfjunum um með sjálfri mér, en sumir vildu meina að gigtinni væri um að kenna.
  Ég ætla því að halda áfram að kenna lyfjunum um þessa mýkingu persónuleikans og læra á þessa nýju konu.

 8. Helena ritar:

  Bandaríski sálfræðingurinn David Rosenhan haslaði sér völl og hristi jafnframt rækilega upp í samfélagi geðlækna og sálfræðinga árið 1973 þegar tímaritið Science birti grein hans On Being Sane in Insane Places. Þar fjallaði Rosenhan um reynslu sína og sjö félaga sinna af því að vera heilir á geði á stofnunum fyrir geðveika.
  http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1296099/?item_num=12&dags=2009-08-16

  Rosenhan-experiment.
  http://en.wikipedia.org/wiki/Rosenhan_experiment

 9. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Þetta er áhugavert, Helena. Ég kynni mér tilraun Rosenhans strax í fyrramálið :)