16. febrúar 2013

Skjalafals á Sjúkrahúsi Akraness?

Sjúkraskrá á HVEÉg er varla búin að ná mér eftir Kastljós gærdagsins. Þar lýsti ung kona reynslu sinni af þjónustu fæðingardeildar Sjúkrahúss Akraness (sem er hluti Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, HVE) og stjórnendum sjúkrahússins af miklu æðruleysi, eiginlega var hún ótrúlega málefnaleg og róleg miðað við hvernig brotið hefur verið á henni og dóttur hennar. Mistök sem gerð voru þegar hún fæddi dóttur sína eru ótrúleg, það er varla hægt að nota orðið mistök yfir atburðarásina eins og henni var lýst í Kastljósi og gögn sýndu, heldur kannski frekar afdrifaríkt slugs starfsmanna á fæðingardeildinni (sem kallast kvennadeild á skipuriti HVE).

Hitt var þó enn ótrúlegra: Vafasömu hagræðing gagna! Yfirlæknirinn skáldar upp atvikalýsingu sem er alls ekki í samræmi við myndband af fæðingunni … konan hefur svo eftir honum að hann muni ekki eftir henni. Ég trúi því ekki að grafalvarlegur súrefnisskortur sé það algengur meðal nýfæddra barna á þessari fæðingardeild að yfirlæknirinn geti hreinlega ekki munað eftir hverju tilviki fyrir sig og neyðist til að uppdikta eigin frásögn af fæðingunni.

Einhver hefur vísvitandi eytt mikilvægum upplýsingum úr sjúkraskrá og bætt inn upplýsingum sem láta háttalag ljósmóður og aðstoðarlæknis líta eilítið skár út, sem sagt hagrætt sjúkraskrá verulega! Þessi ritskoðaða og breytta sjúkraskrá var send Landlæknisembættinu sem gögn sjúkrahússins í málinu. Það ætti að vera auðvelt að sjá hver gerði þetta því skv. reglum HVE ber að skrá hver afritar sjúkraskrá hverju sinni.

Landlæknir kom sér undan að svara spurningu Kastljóss um hvort hann teldi að um rangfærslur eða skjalafals væri að ræða í gögnum Sjúkrahúss Akraness og taldi ekki ástæðu til að vísa málinu til lögreglu. Framkvæmdastjóri lækninga á HVE vildi ekki tjá sig og vísaði til trúnaðar- og þagnarskyldu. Ég veit ekki til þess að hann sé bundinn sérstökum trúnaði um mögulegt skjalafals starfsfólksins sem hann á að hafa eftirlit með en af því erindisbréf hans liggur hvergi frammi get ég sosum ekki fullyrt um að svo sé ekki. Hann ber hins vegar ábyrgð á meðhöndlun sjúkraskráa enda skrifaður fyrir reglum um notkun þeirra sem krækt er í hér að ofan.

Í ljósi þess sem Kastljós hefur eftir Landlækni og framkvæmdastjóra lækninga á HVE þarf varla að koma á óvart að á mánudaginn síðasta, 11. janúar, skrifuðu Landlæknir og forstöðumaður HVE undir samning um að HVE tæki að sér að prófa og þróa rafræna sjúkraskrá. „Markmið samningsins er að stuðla að vönduðum og faglegum vinnubrögðum við innleiðingu og þróun rafrænnar sjúkraskrár.“ Má af þessu ráða að Landlæknir telji Sjúkrahúsið á Akranesi (sem er hluti af HVE) hafa staðið sig vel í vönduðum og faglegum vinnubrögðum við færslu og meðhöndlun sjúkraskráa til þessa?
 

Myndin við þessa færslu er skjámynd úr þætti Kastljóss og sýnir sjúkraskýrsluna sem móðirin fékk afhenta og eintak sömu skýrslu sem Landlæknir fékk afhenta, hvort tveggja frá HVE.
 
 

Ein ummæli við “Skjalafals á Sjúkrahúsi Akraness?”

  1. Blogg Hörpu Hreinsdóttur » Viðhorf Landlæknis og HVE til eftirá-hagræddrar sjúkraskrá og vanrækslu ritar:

    […] Það er því ótrúlegt að sjá í sjónvarpi að mikilvægum hluta er eytt úr sjúkraskrá áður en hún er send til Landlæknis og það löngu eftir að skráin var færð.  Þetta sást mætavel í fyrrnefndum Kastljósþætti og birt var skjámynd sem sýndi muninn við síðustu færslu mína. Hlutinn sem þurrkaður var út segir frá ástandi barnsins rétt eftir fæðingu og krampaköstum sem komu síðar. Til hægri sést lítil mynd af stykkinu sem einhver hjá HVE þurrkaði út úr sjúkraskránni, sé smellt á myndina birtist hún stærri (hvort tveggja er skjámynd úr Kastljósi). Hver voru rök HVE fyrir að eyða þessum upplýsingum áður en skjalið var sent til Landlæknis? Og finnast Landlækni þessi vinnubrögð í góðu lagi? […]