11. apríl 2013

Tvöfalt prjón

Bernateppi með tvöföldu prjóniÞað er fullt af kennsluefni um tvöfalt prjón á Vefnum en mér þótti sjálfri óþægilegt að í því er prjónað með „ensku prjóni“ sem er talsvert ólíkt þeirri aðferð sem flestir Íslendingar nota í prjóni. Svo ég ákvað að setja inn leiðbeiningar um tvöfalt prjón sem e.t.v. gætu hjálpað einhverjum til að læra þessa einföldu aðferð.

Frumraun mín í tvöföldu prjóni er þetta teppi sem sést hér til hliðar og ég gaf í skírnargjöf. (Sé smellt á myndina kemur upp stærri mynd.) Dæmin sem ég sýni hér að neðan eru prjónuð úr sama garni í sömu litum. Sé stykki prjónað með tvöföldu prjóni verður bæði framhlið og bakhlið sléttprjónuð og litir víxlast þannig að munstrið kemur speglað á annarri hliðinni. Það er einungis hægt að nota tvo liti. Munstrið má vera dreift (ólíkt hefðbundnu tvíbandaprjóni) því maður er alltaf með báða litina/báða garnþræðina á prjónunum. Þess vegna hentar tvöfalt prjón vel til að prjóna stóra, staka litaflekki.
 

Að fitja upp í tvöföldu prjóni

Á Vefnum eru ýmist gefnar leiðbeiningar um að fitja upp með báðum litunum eða bara öðrum. Mér fannst fallegra að hafa uppfitina í einum lit og fitjaði upp með bleikum. Af því maður fitjar upp lykkjurnar bæði á framhlið og bakhlið í einu þarf að fitja upp tvöfaldan fjölda lykkja (miðað við hvernig uppfit er venjulega hugsuð) og gera ráð fyrir tveimur kantlykkjum. Hér að neðan sést uppfit á stykki sem á að vera 20 lykkjur á framhlið (og 20 lykkjur á bakhlið): Fitjaðar eru upp 20 + 20 + 2 (kantlykkjur) = 42 lykkjur.

Fitja upp � tvöföldu prjóni
 

Byrjað að prjóna
 

Sjálfsagt er misjafnt hvernig menn vilja fara að í köntunum en mér þótt fallegast að taka fyrstu lykkju (fyrri kantlykkju) óprjónaða og prjóna síðustu lykkjuna (seinni kantlykkju) með báðum litum, þ.e. tvöfalda. Þá myndast nokkurs konar fléttukantur á jöðrunum.

Þess utan er bara prjónað hefðbundið tvöfalt prjón þannig:
Önnur hver lykkja slétt í öðrum hvorum litnum.
Hin hver lykkja brugðin í hinum litnum.

Ég byrjaði á bleiku hliðinni og:
- tók fyrstu lykkjuna óprjónaða;
- sléttprjónaði næstu lykkju bleika;
- prjónaði næstu lykkju hvíta brugðna;
- prjónaði næstu lykkju slétta bleika;
o.s.fr.
- prjónaði síðustu lykkjuna með hvorutveggja garninu (tvöföldu garni).

Hér sést bleika hliðin (að vísu eftir 2 umferðir):
 

Tvöfalt prjón

Svo er prjónað til baka á hvítu hliðinni þannig:

- fyrsta lykkjan (sú tvöfalda) tekin óprjónuð;
- hvít lykkja prjónuð slétt;
- bleik lykkja prjónuð brugðin;
- hvít lykkja prjónuð slétt;
o.sfr.
- endalykkjan prjónuð með báðum litum (tvöföld).

Þá lítur þetta svona út:

Tvöfalt prjón
 
 

Hvernig á að halda á garninu

Það vafðist fyrir mér að finna út hvernig ætti að bera sig við með litina tvo en mér fannst svo best að hafa garnið eins og þegar prjónað er tvíbanda. En aðalatriðið er að passa að aðalliturinn sé ofar á fingrinum, þ.e.a.s. sá litur sem er á sléttu lykkjum. Brugðnu lykkjurnar eru prjónaðar með neðra bandinu, þær sléttu með efra bandinu. Hér er skýringarmynd sem ég fann á Vefnum og aðlagaði að evrópskri prjónaaðferð (sem við Íslendingar notum):

Halda á garninu � tvöföldu prjóni
 

Hvernig á að prjóna munstur

Það er í rauninni ákaflega einfalt þegar maður hefur náð því að sléttu lykkjurnar eru þær sem birtast á viðkomandi hlið, þær brugðnu eru sléttu aðallykkjurnar á bakhliðinni/hinni hliðinni. Setjum svo að munstrið sé hjarta, sem hefst á einni lykkju í munsturlit, í næstu umferð eru þrjár lykkjur í munsturlit o.s.fr. Ef ég ætla að prjóna hvítt hjarta á bleiku framhliðina prjóna ég allar bleiku lykkjurnar sléttar og allar hvítu lykkjurnar brugðnar nema þar sem munstrið hefst: Þar víxla ég böndunum, hef hvíta litinn ofar á fingrinum og þann bleika neðar, prjóna eina slétta hvíta lykkju og eina brugðna bleika lykkju, víxla böndunum aftur í venjulegt horf og prjóna bleikar sléttar lykkjur og brugðnar hvítar lykkjur til enda.  Þegar ég sný stykkinu til að prjóna til baka eru hvítu lykkjurnar sléttar og þær bleiku brugðnar, nema ég sé auðvitað eina slétta bleika lykkju, sem er upphafið að munstrinu. Svo í þessari „hvítu [næstu] umferð“ prjóna ég þrisvar sinnum bleika slétta lykkju og hvíta brugðna þar sem munstrið er.

Mér fannst þægilegast að hugsa um lykkjurnar í pörum: Hvert par er slétt lykkja í „aðallit“ og tvíburi hennar brugðin í „aukalit“. Til að átta sig á munstrinu telur maður bara sléttu lykkjurnar en gleymir vitaskuld ekki að hver svoleiðis lykkja á sér brugðinn tvíbura í hinum litnum.

Hér er bleika hliðin eftir fimm umferðir:

Munstur � tvöföldu prjóni

Og hér sú hvíta:

Munstur � tvöföldu prjóni
 

Hvernig á að ganga frá endum?

Teppið sem ég prjónaði var 2×137 lykkjur + 2 kantlykkjur og varð u.þ.b. 150 cm langt. Svo dokkurnar kláruðust öðru hvoru og þurfti því að ganga frá endum. Á Vefnum er sumstaðar gefin sú ráðlegging að láta endana bara dingla lausa innan í stykkinu en ég gat ekki hugsað mér það; alin upp við að ganga alltaf frá endum!

Í rauninni er svona tvöfalt prjónað stykki eins og poki, a.m.k. þar sem litaflekkirnir eru stórir. Ég raðaði því saman svona 10-12 sléttum lykkjum á einn prjón, brugðnu tvíburalykkjunum á aukaprjón. Þá „opnaðist pokinn“ og mátti auðveldlega ganga frá endum á röngunni „ofan í pokanum“. Svo raðaði ég lykkjunum aftur rétt á prjóninn og hélt áfram að prjóna.

Á YouTube má finna myndband þar sem sýnt er hvernig má ganga frá endum „á réttunni“ án þess að það sjáist. Það er gott að kunna þá aðferð líka, t.d. til að ganga frá síðustu endunum ef prjónuð er húfa með tvöföldu prjóni.

Hér er framhaldsfærsla um hvernig maður getur prjónað sitt hvort munstrið, þ.e.a.s. ekki sama munstur á hvorri hlið, í tvöföldu prjóni, t.d. letur,  og hvernig úrtaka er þegar prjónað er svona tvöfalt. Í þeirri færslu kræki ég líka í það efni á Vefnum sem mér þykir skiljanlegast. (Ef menn vilja leita sjálfir þá heitir tvöfalt prjón Double Knitting á ensku.)
 
 
 
 

12 ummæli við “Tvöfalt prjón”

 1. Guðrún E ritar:

  takk Harpa mín, þetta er mjög auðskilið

 2. unnur karlsdóttir ritar:

  Takk fyrir Harpa hef verið að leita eftir námskeiði en hefur ekki verið í boði ætla að prufa þetta ef skilingur leyfir.

 3. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Bara að prófa, Unnur, hannyrðakona af þínu kalíberi rúllar þessu upp á engri stund! :)

 4. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  … og ég er búin að skrifa framhaldsfærsluna og í lok hennar er krækt í fullt af góðu efni á Vefnum …

 5. Hafdís Helgadóttir ritar:

  Frábært hjá þér á eftir að prufa þetta :) virkar mjög einfalt

 6. Sigurbjörg Ólafsdóttir ritar:

  Takk fyrir ætla að reina að gera þetta

 7. Svava Kristinsdóttir ritar:

  Takk fyrir, þett á eg eftir að prufa. ;)

 8. Unnur Guðmundsdóttir ritar:

  Takk fyrir þetta,
  ég fór á námskeið en náði ekki allveg öllu og gott að geta kíkt á þessar leiðbeiningar með prjónafiktinu mínu

 9. Margrét Teitsdóttir ritar:

  Takk fyrir þetta. Ég hef farið á námskeið í tvöföldu prjóni og hef langað að prjóna barna húfu en hef enga uppskrift, þarf ekki að vera fitja upp fleiri lykkjur en venjulega? Kveðja Margrét

 10. sara Hólm ritar:

  Kærar þakkir Harpa mig hefur lengi langað til að prófa þetta tvöfaldaprjón. En það hafa ekki allir tækifæri til að komast á námskeið hjá Prjónakistunni eða annarstaðar sem þau kunna að vera. Og ég kann ekki að lesa enskar leiðbeiningar. Þú ert frábær að miðla þessu til okkar.
  M.b. kv.
  Sara

 11. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Þegar ég gerði tilraun með húfu (sem er fjallað um í framhaldsfærslu við þessa færslu, sjá krækju neðst í færslunni) hafði ég stroffið tvöfalt, þ.e.a.s. fitjaði upp með heklaðri fit og tók svo þær lykkjur upp og raðaði með síðustu lykkjunum í lok stroffsins. Það kom ekki vel út, stroffið var, að mínu mati, alltof þykkt.

  Ég mæli með því að fitja bara upp venjulegan fjölda lykkja og prjóna stroff eins og venjulega, að því loknu þarf að tvöfalda lykkjufjöldann. Líklega er best að prjóna bara tvisvar í hverja lykkju stroffsins, aðra hvora lykkju slétta í “aðallit”, hina hvora lykkjuna brugðna í “aukalit”. Svo prjónar maður bara hring eftir hring sléttar lykkjur í aðallit og “brugðna tvíburann” í aukalitnum. Aukaliturinn er svo aðalliturinn í húfunni innanverðri. Þetta skýrist kannski betur ef framhaldssfærslan er skoðuð líka.

 12. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Og Margrét Teitsdóttir: Þú getur bara notað einhverja uppskrift af barnahúfu en jú: Þú þarft að fitja upp tvöfaldan fjölda ef þú ætlar að prjóna tvöfalt prjón því þú fitjar í rauninni upp bæði lykkjurnar á “réttunni” og “röngunni” (þótt sé í rauninni varla hægt að tala um réttu og röngu í tvöföldu prjóni).

  Sumir fitja samt upp með tvöföldu garninu, þ.e. báðum litunum í einu og prjóna svo úr hvoru garni eina lykkju (ein lykkja í uppfit verður að tveimur prjónuðum lykkjum).

  Loks eru sumir sem vilja fitja upp tvöfaldan lykkjufjölda þar sem önnur hvor lykkja er í hvorum lit, sú aðferð heitir ítölsk fit (Italian cast on - ekkert mál að finna vídeó um svoleiðis á YouTube) og er notuð í tvöföldu prjóni og tvílitu klukkuprjóni. Mér finnst þetta leiðinleg fit en óneitanlegur kostur hennar er að í uppfitinni sjálfri verður önnur hvor lykkja slétt og önnur hvor brugðin …

  Ég mæli einfaldlega með þeirri uppfit sem menn eru vanastir, t.d. húsgangsfit, og tvöföldum lykkjufjölda (nema prjónað sé stroff fyrst) og muna svo:

  Slétt aðallykkja í aðallit, brugðinn tvíburi hennar í aukalit. Aðallitur ofar á fingri, aukalitur neðar á fingri. Bæði böndin alltaf fyrir aftan prjónlesið. (Skiptir ekki máli hvernig menn prjóna brugðnu lykkjuna eða þá sléttu, þessar leiðbeiningar duga fyrir bæði slétt og snúið prjón.)

  (Tek samt fram að í Prjónabiblíunni er þetta ráðlagt öfugt, þ.e. aukalitur ofar og aðallitur neðar, en ég gerði tilraun til að prjóna tvöfalt prjón eftir leiðbeiningum í henni og mæli engan veginn með þeim - það þurfti sífellt að vera að færa böndin (garnið) fram og aftur fyrir prjónlesið og þetta varð allt frekar umhendis og seinlegt.)