12. apríl 2013

Tvöfalt prjón, frh.

Þessi færsla er framhald af hinni fyrri um tvöfalt prjón.
 
 

Að prjóna út letur með tvöföldu prjóni

Einfalda meginaðferðin, þ.e. að einbeita sér að sléttu lykkjunum í munstri og bakgrunnslit og passa alltaf að prjóna „brugðna tvíburann“ í andstæða litnum virkar ekki þegar prjóna á letur því þá birtist letrið speglað á „bakhliðinni“ og speglað letur er ólæsilegt. Það verður því að prjóna sitt hvort munstrið í einu.

Ég bý ævinlega til prjónamunstur í íslenska forritinu KnitBird. Þetta er ódýrt forrit, mjög einfalt að læra á það og nota það. Mæli sem sagt eindregið með þessu forriti! Í KnitBird er m.a. hægt að vista munstur sem pdf-skjal. Litla myndin hér að neðan sýnir uppskriftina að seinna nafninu á teppinu sem ég prjónaði (sjá mynd í fyrri færslu), þetta er nafnið Vala. Séð frá vinstri til hægri er Vala munstrað með bláu, séð frá hægri til vinstri er Vala munstrað með rauðu. (Litla myndin krækir í pdf-skjalið með þessu munstri.)

Letur � tvöföldu prjóni
 

Í munstrinu er önnur hliðin táknuð með hvítum (ólituðum) reitum og munsturlitur táknaður með bláum lit. Hin hliðin er táknuð með gulum reitum og munsturliturinn hafður rauður. Lesið er úr fyrstu línu munstursins einhvern veginn svona (miðað við að prjóna hliðina sem er táknuð með hvítum reitum, munstrið byrjar þá á fyrsta bláa reitnum, frá hægri til vinstri):

Slétt lykkja í munsturlit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit (sem er reyndar sami litur og munsturliturinn á þessari hlið);
Slétt lykkja í munsturlit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit (sami litur og munsturlitur á þessari hlið);
Slétt lykkja í aðallit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit;
Slétt lykkja í aðallit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit;
Slétt lykkja í munsturlit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit (sem er munsturliturinn hinum megin á stykkinu);
o.s.fr.

Það þarf sem sagt að hugsa stíft um bæði litinn á hverri einustu sléttu lykkju og litinn á brugðnu lykkjunni við hlið hennar, lesa svo munstrið frá vinstri til hægri þegar prjónað til baka á hinni hliðinni. Ég þurfti að einbeita mér algerlega að þessu og gat ekki horft á sjónvarpið meðfram eins og ég geri venjulega þegar ég prjóna :)  Ef menn vilja prjóna mismunandi munstur á hvorri hlið þarf væntanlega að búa til uppskrift á svipaðan hátt og hér er sýnt, þ.e.a.s. að raða munstrunum saman í eitt.
 

Að prjóna tvöfalt prjón í hring

Það er í rauninni einfaldara en að prjóna flatt stykki því þá snýr sami aðallitur alltaf að manni. Aðalatriðið er að muna að hver slétt lykkja á sér brugðna tvíburalykkju í andstæðum lit. Ég gerði tilraun til að prjóna húfu með tvöföldu prjóni, misreiknaði að vísu stærðina svo þessi húfa passar á kött en að öðru leyti tókst tilraunin vel. Hún sést hér að neðan (ath. að ég prjóna brugðnu lykkjuna með austrænu snúnu prjóni svo áferðin á ljósbláu hliðinni er dálítið öðru vísi, ég snéri dökkbláu hliðinni að mér meðan ég var að prjóna húfuna).

Húfa með tvöföldu prjóni

Aðalatriðið í þessu húfuprjóni var að læra úrtöku í tvöföldu prjóni. (Úrtakan á prufuhúfunni er of laust prjónuð, ég laga það í næstu tilraun.) Til að taka úr þarf að raða saman tveimur sléttum lykkjum og tveimur brugðnum og pjóna saman. Handhægast er að hafa aukaprjón við verkið. Hér má sjá góða útskýringu á þessu í myndum.

Sjálf er ég ekki komin lengra en þetta í listinni að prjóna tvöfalt prjón og lýk færslunni á að krækja í efni á Vefnum sem mér finnst þess virði að skoða. Ég kræki ekki í YouTube myndbönd en bendi fólki á að fara á YouTube og leita með leitarorðinu Double knitting.
 

  • Nancy Kremer: Free Knitting Patterns - Heart Double Knit Hot Pad. Þetta er síða með einföldu munstri að tvöfalt prjónuðum pottaleppum. Á síðunni er vísað í myndband þar sem er sýnt hvernig þeir eru prjónaðir, mjög gott myndband að mínu mati þótt prjónaaðferðin sér ensk.
  • Stitch Diva Studios er með heilmikið kennsluefni með ljósmyndum um tvöfalt prjón (t.d. hvernig á að auka út, hvernig á að taka úr, hvernig á að prjóna „styttar umferðir“, þ.e. short rows, hvernig á að leiðrétta villu í munstri o.fl.). Ef litið er framhjá hvernig haldið er á garnendum (efnið er miðað við enska prjónaðaferð) er þetta mjög góð síða.
  • Vigdis Flowers er ljómandi fallegur trefill, uppskriftin er til sölu á Ravelry.

  • Apfelbluete er annar gullfallegur trefill, uppskriftin er til sölu á Ravelry.

  • Hér eru skemmtilegir tvöfaldir kisuvettlingar, Kittens Mittens, sem seld er uppskrift að á Ravelry.
  • En þessa ótrúlega fallegu vettlinga, Yuma Double Knitting Mittens, einnig til sölu á Ravelry, er líklega mun vandasamara að prjóna með tvöföldu prjóni.

 Svo er bara að vera dugleg(ur) að myndagúggla Double Knitting, jafnvel Extreme Double Knitting :)
 
 
 
 

Ein ummæli við “Tvöfalt prjón, frh.”

  1. Sigurbjörg Ólafsdóttir ritar:

    takk takk Gleðileg jól