Færslur frá 12. maí 2013

12. maí 2013

Upphaf lost-lækninga við geðveiki

  
  
Insúlín-lost Manfreds Sakel

Manfred Sakel fæddist í Austurrísk-ungverska keisaradæminu og stundaði nám í Vín. Árið 1927 gegndi hann störfum geðlæknis á hæli fyrir eiturlyfjafíkla í Berlín. Ýmsir listamenn leituðu sér hjálpar á þessu hæli, þar á meðal leikkona sem var morfínfíkill en að auki sykursjúk. Fyrir mistök gaf Sakel henni of stóran skammt af insúlíni og hún féll í dá. Þegar hún rankaði við sér aftur virtist morfínfíknin á bak og burt. Sakel prófaði því að gefa öðrum fíklum stóra skammta af insúlíni og taldi sig hafa uppgötvað lækningu gegn fíkn. Uppgötvun hans fékk engan hljómgrunn en þegar hann flutti aftur til Vínar, árið 1933, hélt hann áfram insúlín-tilraunum sínum.

Insulin lostSvo háttaði til að Sakel hafði umsjón með deild geðklofasjúklinga í Vín. Hann reyndi insúlínið á þeim enda þóttist hann hafa merkt í fyrri tilraunum að insúlín hefði góð róandi áhrif á geðsjúka. Sakel sprautaði sjúklingana með stórum insúlínskömmtum, blóðsykur þeirra féll mjög og þeir féllu í djúpt dá. Áður en þeir misstu meðvitund fengu margir þeirra krampa. Til að lífga sjúklinga aftur úr insúlíndáinu hellti Sakel ofan í þá sykurlausn, ca. 150 g af sykri uppleystum í vatni.

Manfred Sakel hafði enga skýra kenningu um það af hverju þessi meðferð virkaði. Hann taldi að kannski blokkeraði insúlínið virkustu heilafrumurnar - sem yllu geðveikinni - og á sama tíma styrkti það „eðlilega virkni“ í heilanum. Eða að insúlínið hefði „afeitrunaráhrif“, ef vera kynni að seinna kæmi í ljós að geðklofi stafaði af einhvers konar eitrun. Að mati Sakel skipti þetta litlu máli, aðalatriðið var að meðferðin virkaði.

Sakel gaf út fyrstu niðurstöður sínar á tilraunum með stóra insúlínskammta árið 1933, tveimur árum síðar gaf hann út bókina Neue Behandlungsmethode der Schizophrenie. Í bókinni hélt hann því fram að árangurinn væri undraverður: Yfir 70% geðklofasjúklinga hefðu náð fullum bata og allt í allt hafði 88% af sjúklingunum batnað eitthvað. Þetta spurðist um heim allan enda geðklofi sérlega erfiður viðureignar og á geðveikrahælum beggja vegna Atlandshafsins var insúlín-lost-meðferðin umsvifalaust tekin upp.

Danski geðlæknirinn Otto Jul Nielsen sótti Sakel heim í Vínarborg, sá með eigin augum árangurinn og byrjaði að prófa á sínum sjúklingum á Frederiksberg Hospital 1936. Fljótlega fylgdu ríkisreknu geðsjúkrahúsin í kjölfarið, fyrst Sindssygehospitalet í Árósum, síðan Vordingborg og svo koll af kolli.

Vagn Askgaard, yfirlæknir á Vordingborg, skrifaði grein í Månedsskrift for Praktisk Lægegerning þar sem hann lýsti reynslunni á Vordingborg og framkvæmd insúlínlosta þar. Eins og í Vínarborg byrjum við snemma á morgnana og sjúklingarnir eru sprautaðir klukkan 7, sagði Askgaard. Stuttu eftir sprautuna byrjuðu sjúklingarnir að svitna gífurlega og slefan rann í stríðum straumum. Áður en meðvitundarleysið tók við fengu sjúklingarnir kippi og krampa og stundum flog sem líktist flogaveiki. Svo féllu þeir í dá og engin viðbrögð við áreiti voru merkjanleg. Í dáinu lágu þeir með opin augun. Til að vekja sjúkling úr dái var leidd sonda gegnum nös ofan í maga og hellt í sykurvatni um trekt. Venjulega gefum við sykurinn um 11-11.30 leytið og svo verður að bíða í 8-10 mínútur uns sjúklingurinn rankar úr rotinu. Vaninn er að gefa hverjum sjúklingi lost 6 sinnum í viku í allt að þrjá mánuði.

Árið 1937 ákváðu danskir geðlæknar á fundi Danska geðlæknafélagsins að taka saman yfirlit yfir árangurinn af insúlín-lostunum (og raunar cardiazol-lostunum líka). Sú vinna tók tímann sinn því um leið þurfti að ná samkomulagi um greiningu geðsjúkdóma, þ.e.a.s. hanna samræmda greiningu. Niðurstöðurnar litu ekki dagsins ljós fyrr en á fundi í janúar 1941 og voru birtar opinberlega í tímaritinu Acta Psychiatrica et Neurologica árið 1942. Í hópi 162 ótvíræðra geðklofasjúklinga hafði einungis 4 batnað við insúlín-lostin. „Þetta var eins og ísköld vatnsgusa“, sagði geðlæknirinn Villars Lunn seinna um fundinn, „en kom okkur þó ekki að óvörum. Því við vissum hver skýringin var - nefnilega þær stífu og ófrávíkjanlegu kröfur sem við hérlendis gerum skylt að uppfylla til að sjúkdómsgreina geðklofa.“ Í þessari úttekt kom einnig í ljós að um 1% sjúklinganna hafði dáið af meðferðinni. Ýmsar aðrar óheppilegar aukaverkanir fylgdu henni, t.d. vandamál tengd hjarta og lungum og beinbrot af ýmsum toga. En fundarmenn samþykktu einróma að „þrátt fyrir ýmsa erfiðleika“ væru bæði insúlín-lost og cardiazol-lost „óvenju stórt framfaraspor innan geðlækninganna.“  Danskir geðlæknar héldu áfram að nota bæði insúlín-lost og cardizol-lost eftir þetta þótt raflost og lóbótómía leystu þau fljótlega að hluta til af hólmi. Þeir héldu einnig áfram að skrifa lofsamlega um bæði insúlín-lost og cardiazol-lostin, þrátt fyrir niðurstöðurnar sem fengust 1941.

Hér má sjá myndband af sjúklingi sem fær insúlínlost. Menn ættu ekkert að horfa á það nema þeir séu sterkir á taugum … Og í upphafi norska sjónvarspþáttarins/fréttarinnar Sjokkbehandling i norsk psykiatrihistorie sést sjúklingur fá insúlínlost, um miðbikið sést meir af sama atburði.
 

Að sögn Óttars Guðmundssonar (2007, s. 73) hafði Helgi Tómasson, yfirlæknir á Nýja-Kleppi, áhuga á insúlínlost-meðferðinni og vildi senda hjúkrunarfræðing til útlanda til að kynna sér aðferðina en „hún virðist aldrei hafa komist í almenna notkun.“ Kristján Þorvarðsson geðlæknir skrifar í greininni Rotlækningar geðveikra (Shock therapia) í Læknablaðinu 1947 mjög lofsamlega um insúlínlost-aðferðina, segir: „Árangurinn hefir orðið misjafn, en flestir eru þó sammála um, að insúlin-lækningin gefi betri árangur við schizophrenia en nokkur önnur lækningaðaðferð sem enn hefir verið reynd við sjúkdómi þessum.“ Máli sínu til sönnunar vitnar Kristján í bandaríska könnun. Hann segir að batinn haldist misjafnlega lengi, fáar vikur til eins árs hafi sjúkómurinn staðið lengi en „hafi veikin aðeins varað stutt, getur batinn haldizt árum saman.“ Kristján nefnir að insúlínlost gefist og afar vel við „confusio mentis psychogenia, paranoid psychogen psychosum og neurosum“. Það er engin leið að meta af grein hans hvort hann hefur prófað þetta sjálfur á sínum sjúklingum eða byggir einungis á því sem hann hefur lesið. Kristján nam geðlækningar í Danmörku, starfaði á ýmsum geðveikraspítölum þar á árunum 1937-44, og var búinn að lesa niðurstöður Danska geðlæknafélagsins sem birtust 1942 en vitnar ekki í þær þegar hann fjallar um árangur insúlínlostanna.

Í grein Alfreðs Gíslasonar, Bjarna Oddssonar og Kristjáns Þorvarðssonar, Lobotomia, sem birtist í Læknablaðinu 1952, eru raktar margar sjúkrasögur. Ein þeirra er saga 44 ára gamallar ógiftrar konu:
 

[Hún hefur verið] geðveik í 17 ár, byrjaði með exaltio, breyttist brátt í schizophren mynd (katakonia).  Fékk insulinlost 1936 (Jón heitinn Geirsson læknir) í 3 vikur, án árangurs. 1937 cardiazol-lost, 20 aðgerðir (J. G.) með allgóðum árangri. Bati hélzt stutt.

Jón Geirsson var fæddur 1905 og starfaði sem heimilislæknir á Akureyri frá 1934 til æviloka árið 1950. Hann hlýtur að hafa beitt þessum meðferðum á sjúkrahúsinu þar.

Af ofansögðu er ómögulegt að ráða í hve miklum mæli insúlín-losti var beitt á geðklofa sjúklinga á Íslandi. Sjálfsagt hefur það ekki verið ýkja mikið því það þurfti að gera þetta á sjúkrahúsi, með aðstoðarfólk við höndina og helst að hafa tiltækt adrenalín ef sjúklingurinn vaknaði ekki úr dáinu.
 
 

Cardiazol-lost Ladislas Meduna

Um svipað leyti og Manfred Sakel fann upp insúlín-lost fann Ladislas J. Meduna upp cardiazol-lostin. Meduna þessi var ungverskur geðlæknir sem hafði, af klínískri reynslu sinni, tekið eftir að geðklofasjúklingar voru nánast aldrei flogaveikir. Hann fór að velta fyrir sér af hverju þetta gæti stafað. Hann rannsakaði heila bæði flogaveikra og geðklofasjúklinga og taldi sig sjá að í heilum hinna fyrrnefndu var meira taugatróð (vefur til styrktar taugafrumum, heitir glia á ensku) en eðlilegt gat talist og að sama skapi minna taugatróð en eðlilegt gat talist í heilum geðklofasjúklinganna. Af því dró hann þá ályktun að flog/krampar gætu aukið taugatróðið í geðklofasjúklingum sem myndi þá lækna sjúkdóminn.

Meduna hóf strax leitina að efni sem framkallaði krampa Hann byrjaði á því að gera tilraunir á dýrum og var loks á því að kamfóra virkaði skást í þessum tilgangi (eftir að hafa prófað koffein, stryknín, o.fl.) Svo fór hann að gera kamfóru-tilraunir á geðklofa sjúklingum sínum í Lipotmez, rétt fyrir utan Búdapest. Þótt Meduna þættist merkja að sjúklingunum batnaði talsvert við að vera sprautaðir með kamfóru var hann ekki nógu ánægður með áhrif hennar og skipti yfir í cardiazol (efnið pentylenetetrazol, einnig kallað metrazol). Áður hafði cardiazol verið notað sem hjartalyf en væri því sprautað í stórum skömmtum olli það nánast umsvifalaust krampa, virkaði miklu hraðar en kamfóran. Medina birti fyrstu niðurstöður sínar á tilraunum til að sprauta cardiazoli í 26 geðklofasjúklinga (þar sem hann hélt því fram að tíu hefði alveg batnað og þremur batnað að hluta) árið 1935 og aðalritverk hans, Die Konvulsionstherapie der Schizophrenie,  kom út 1937. Í því segir hann frá árangri meðferðarinnar á 110 sjúklingum og staðhæfir að helmingi þeirra hafi batnað. (Þegar seinni tíma menn fóru ofan í saumana á rannsóknum Medina kom í ljós að hann hafði hagrætt niðurstöðunum töluvert.) Geðlæknar um alla Evrópu tóku aðferð Medina fagnandi, geðlæknar í Ameríku fögnuðu henni enn meir, og cardiazol-lostin voru hvarvetna notuð á geðklofasjúklinga.

cardiazol lostÍ Danmörku voru geðlæknar við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn fyrstir til að nota cardiazol-lost, svo Vordingborg og svo hver spítalinn á fætur öðrum. Í Vordingborg tóku menn daginn snemma: Sjúklingurinn sem átti að meðhöndla var látinn liggja á bakinu í rúmi sínu með útlimi teygða frá sér. Koddi var settur undir höfuðið og samanbrotinn koddi undir axlir til að draga úr slysahættu af ofsafengnum krömpunum. Sjúklingurinn var svo sprautaður með 500-700 milligrömmum af uppleystu cardizoli. Tíu sekúndum eftir sprautuna þurfti læknirinn að grípa um úlnliði sjúklings og halda föstum, jafnframt að ýta niður öxlum hans. Næstu 50 sekúndurnar fékk sjúklingurinn slæmt flog, húðin blánaði, hendur og fætur kipptust til ótt og títt og loks missti sjúklingurinn meðvitund.

Á YouTube er örstutt myndband af sjúklingi sem er sprautaður með cardizol. Ég vara viðkvæma við að horfa á það.

Til er lýsing sjúklings á þessari meðferð, tæplega fertugs karlmanns sem var lagður inn á Vordingborg og greindur manio-depressívur. Yfirlæknar lásu yfir öll bréf til og frá sjúklingum og héldu eftir bréfum ef þeim sýndist, bréfin hafa svo varðveist með sjúkraskrám. Sama skikk var á Kleppi og þess vegna hefur fjöldi bréfa sjúklinga varðveist, að sögn Óttars Guðmundssonar (2007). Maðurinn á Vordingborg skrifaði fjölskyldu sinni og sagði frá cardiazol-lostmeðferðinni sem hann var beittur árið 1938:
 

Undanfarið hef ég fengið ca. 5-7 sprautur með einhverju sem heitir cardiazol. Sprautað er í venu (æð sem liggur til hjartans) í hægri olnbogabót. Þetta er eitthvað nýtt segir Dr. Hahnemann. Það hefur mjög sterka verkun, allt öðru vísi en allt annað, sem ég hef hingað til verið sprautaður með. Ca. 10 sekúndum eftir að maður hefur verið sprautaður er eins og manni sé kippt út úr sjálfum sér inn í annan heim, en samt sér maður þá sem standa hjá eins og í gagnsærri þoku. Þetta er algerlega óþolandi og fullkomlega ómögulegt að komast út úr þessu. Stundum er verkunin sterkari, stundum veikari; þegar hún er sterk sér maður sýnir. Stofan sem maður liggur í fer að líkjast helvíti og það er eins og maður brenni í ósýnilegum eldi. Þetta er mjög óhugnalegt. En nú er þessu sem betur fer lokið.

Verkunin af cardiazol var svo óhugnaleg að margir sjúklingar voru skelfingu lostnir af tilhugsuninni um sprauturnar. „Það kom fyrir að við, oft fjórir karlmenn, þurftum bókstaflega að brjóta mótspyrnu sjúklinganna á bak aftur“ sagði Villars Lunn, sem starfaði á Vordingborg (og varð seinna yfirlæknir á Rigshospitalet). Í sjúkraskrám Vordingborg er víða nóterað eitthvað um sjúklinga sem voru dauðhræddir við cardiazolmeðferðina. Ein kona var „svo hrædd við líkurnar á að henni yrði gefið annað lost, að hún hefur æpt hástöfum frá því snemma í morgun“ og „hótað að hárreyta deildarlækninn“.Yfirlæknirinn á Vordinborg, Victor Hahnemann, skrifaði grein um frábæran árangur af cardiazol-meðferðinni þar á árunum 1937-38 og birti í Ugeskrift for Læger í júní 1939. Þar segir hann að af 207 sjúklingum með geðklofa hafi 19% náð fullum bata, 33% náð nokkrum bata en enginn bati sjáist hjá 48% þeirra. Auk þeirra hafi hann meðhöndlað 24 þunglyndissjúklinga og 15 maníusjúklinga: Öllum batnaði. Niðurstaða hans var að cardiazol-lost væru ekki bara dýrmætt verkfæri til að fást við geðklofa heldur einnig lundarfars-geðveiki (stemnings-psykoser).

En … þegar Danska geðlæknafélagið fór að athuga kerfisbundið hverju cardiazol-lostin (og insúlin-lostin) hefðu skilað (sjá um þessa ákvörðun ofar í færslunni) og birti niðurstöðurnar fyrst á fundi 1941, síðar í fagriti 1942, varð ljóst að draumalækningin sem Hahnemann taldi sig hafa séð var tálsýn. Einungis 9 geðklofasjúklingum af 782 hafði batnað að fullu! Í hópi annrra geðsjúklinga (manio-depressivra, þeirra sem ekki var öruggt að væri geðklofa o.fl.) var árangurinn miklu betri, eða fullur bati hjá tæplega 40% þeirra. Cardiazol-lostin reyndust ekki eins hættuleg og insúlín-lostin en samt dóu 0,5% þeirra sem meðferðinni voru beittir. Talsvert var um skaða í lungum, hjartakvilla, sprungur á hrygg, upphandlegg og í hálsi.

Þótt menn kæmust upp á lag með að nota curare sem vöðvaslakandi lyf í lost-meðferðum fljótlega upp úr 1940 byrjuðu Danir ekki að nota það fyrr en 1948. Upp úr 1950 var hætt að nota cardiazol og insúlín til að framkalla krampa í geðsjúklingum, raflostin urðu þá allsráðandi.

Það er athyglisvert að þegar Kristján Þorvarðsson, danskmenntaður geðlæknir hér á landi, lýsir niðurstöðum Danska geðlæknafélagsins (í greininni Rotlækningar geðveikra í Læknablaðinu 1947) orðar hann þetta svona:
 

Árið 1942 lét Dansk psykiatrisk Selskab safna skýrslum um árangurinn af cardiazolaðgerðinni á schizophrenum sjúklingum. 11,3% urðu albata, þeirra, sem ekki höfðu verið veikir lengur en 1 ár.

Þarf varla að taka fram að Kristjáni þótti þetta mikil ágætis-lækningaraðferð og hann bætir við, með tilvísun í dönsku niðurstöðugreinina:
 

Cardiazol-meðferðin hefir verið reynd við psychogen psychosur, depressio mentis (bæði endogen og psychogen depressio), einnig við depressionir í klimakteríum, mani og psychoneurosum. Árangurinn er oftast góður og batinn fæst venjulega eftir fáar aðgerðir, fullur bati eða allgóður í yfir 75% tilfella. (Acta psych. 1942).

Því miður hef ég ekki aðgang að greininni í Acta Psychiatrica et Neurologica árið 1942 og get því ekki rakið nákvæmlega hvernig Kristján fegrar mynd sína af árangri cardiazol-losta. Hann telur raunar að raflost séu mun heppilegri því árangurinn sé ekki síðri af þeim og sjúklingarnir ekki nærri eins hræddir við raflostin.
 
 

Ómögulegt er að segja til um í hve miklum mæli cardiazol-lost voru notuð á Íslandi. Í sjúkrasögunni sem vitnað var í fyrr í færslunni kemur fram að sjúklingurinn (44 ára gömul kona) hafði árið 1937 verið sprautuð með cardiazol tuttugu sinnum, á Akureyri. Nær öruggt er að þessa meðferð hefur ekki verið hægt að veita nema á sjúkrahúsi. Á eina geðsjúkrahúsi landsins, Kleppi, var hún ekki notuð því Helgi Tómasson hafði illan bifur á cardiazol-lostum. Í greininni Rafrot við geðveiki, sem birtist árið 1955 segir Helgi:
 

    Tortryggni mín kom þegar upp við lestur fyrstu greinar v. Meduna um krampaaðgerðirnar, þar sem hann ályktar út frá því, sem vitanlega var rangt, þ. e. andstæðu geðklofa og flogaveiki.
    Það jók tortryggni mína, þegar ég sá sjúkling, sem telja varð lítið veikan, með cardíazolkrampa, sams konar krampa og maður árum saman hafði verið að berjast á móti, hafði jafnvel séð sjúkling deyja af, og manni gat aldrei skilizt, að nokkur sjúklingur hefði nema illt af krömpunum. Það bætti ekki um, þegar maður fékk nokkra sjúklinga til meðferðar á spítala eða utan spítala með sjúkdóm, sem manni virtist hefði átt að albatna, en sjúklingarnir höfðu í þess stað fengið „vefræn“ einkenni í viðbót, að því er bezt varð séð, vegna þeirrar rotmeðferðar sem þeir höfðu sætt hjá öðrum lækni.

Helgi fór nær árlega utan til að fylgjast með nýjustu stefnum og straumum í geðlækningum. Það kann vel að vera að suma sjúklingana sem hann lýsir í þessu broti hafi hann séð ytra en kann líka að hafa verið hérlendis.
 
 
 
 
 

Heimildir aðrar en krækt er í úr  færslunni:
 

Alfreð Gíslason, Bjarni Oddsson og Kristján Þorvarðsson. Lobotomia. Læknablaðið 36. árg., 7. tbl., s. 97-112. 1952.

Helgi Tómasson. Rafrot við geðveiki. Heilbrigðisskýrslur 1951. 1955.

Kragh, Jesper Vaczy. Psykiatriske chokbehandlinger. Magasinet Humaniora nr. 4, s. 4-7. 2005.

Kragh, Jesper Vaczy. Shock Therapy in Danish Psychiatry. Medical History, 54. árg., s. 341-364. 2010.

Kragh, Jesper Vaczy. Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983. Syddansk Universitetsforlag. 2010.

Kristján Þorvarðsson. Rotlækningar geðveikra (Shock therapia). Læknablaðið 32. árg., 2. tbl., s. 17-22. 1947.

Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JVP útgáfa, 2007.

Psykiatriens Historie i Danmark. Hans Reitzels Forlag, Kaupmannahöfn. 2008, ritstjóri Jesper Vaczy Kragh.

Shorter, Edward. A History of Psychiatry from the Era of the Asylum to the Age of Prozac. John Wiley & Sons, Inc. Bandaríkjunum. 1997.
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa