28. maí 2013

Lóbótómía á Íslandi

Það er ekki líklegt að íslenskir geðlæknar snemma á fimmta áratug síðustu aldar hafi séð lóbótómíusjúkling með eigin augum áður en þeir hófu að láta framkvæma svoleiðis aðgerðir á sínum sjúklingum (nema kannski Gunnar Þ. Benjamínsson sem starfaði á geðsjúkdómadeild Rigshospitalets fram á árið 1945). En þeir Alfreð Gíslason og Kristján Þorvarðsson fylgdust vel með í sínu fagi og nýttu sér hæfni Bjarna Oddssonar til lóbótómíuaðgerða. Bjarni gerði fyrstu lóbótómíuna fyrir þá í febrúar 1948 en ekki fleiri slíkar aðgerðir það árið. En strax um haustið fóru að birtast fréttir í dagblöðum af þessari ágætu læknisaðgerð við geðveiki, sjá t.d. 10,000 heilaskurðir til lækningar sálsjúkum, í Morgunblaðinu 5. september 1948 og  Hugarvíl læknast, í sama blaði í nóvemberbyrjun 1948. 

Bjarni Oddsson lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1934, sigldi síðan til Danmerkur og lauk doktorsprófi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1946. Doktorsritgerð hans fjallaði um taugaæxli í mænu. Bjarni vann á ýmsum spítölum í Danmörku meðan á námsdvöl hans þar stóð, áratuginn 1934-44, bæði á fæðingar- og kvensjúkdómadeildum og taugahandlækningadeildum. Meðal annars starfaði hann á deild þeirri sem Eduard Busch veitti forstöðu, á Rigshospitalet. Þegar hann kom til Íslands fékk hann sérfræðingsleyfi í handlækningum, kvensjúkdómum og fæðingarhjálp, árið 1946. Hann starfaði þó einkum sem skurðlæknir á Landakotsspítala, þar á meðal að heila-og taugaskurðlækningum. Bjarni Oddsson lést í bílslysi í septemberbyrjun 1953.

Um lóbótómíur Bjarna Oddssonar segir Bjarni Jónsson læknir, samstarfsmaður hans, í bókinni Á Landakoti, útg.1988, s. 128:
 

    Smám saman opnuðust augu lækna fyrir því, að dr. Bjarni vissi meira um miðtaugakerfi en þeir og fóru í stöku tilvikum að leita ráða hjá honum, og voru það geðlæknar, sem riðu á vaðið. Þá var farið að gera aðgerð á framheila geðveikra - prefrontal lobotomia - og hafði Egas Moniz sem fyrr var nefndur, verið upphafsmaður hennar. Þessa aðgerð var hægt að gera í staðdeyfingu og verkfæralaust að kalla.
    Þá var enginn svæfingalæknir til á landinu, og læknar Landakotsspítala þurftu sjálfir að leggja sér til verkfæri. Úr því svona hagaði til með aðgerðina lagði dr. Bjarni til atlögu og gerði þá fyrstu 1948, árið eftir gerðir hann fjórar, og alls urðu þær fjörtíu og tvær, þær síðustu gerðar 1953.

Hversu margar lóbótómíur voru gerðar á Íslandi?

Lóbótóm�a á ÍslandiÍ bók sinni Kleppur í 100 ár (útg. 2007) segir Óttar Guðmundsson að Bjarni Oddsson hafi gert 28 lóbótómíur, að Bjarni Jónsson hafi tekið við af Bjarna Oddssyni í lóbótómíum á Landakotsspítala og: „Alls er talið að um 140-180 Íslendingar hafi farið í þessa aðgerð.“ (s. 90). Óttar vísar ekki í heimildir fyrir þessu.

Mér þykja staðhæfingar Óttars heldur ótrúlegar. Í fyrsta lagi telur hann einungis þann fjölda lóbótómíuaðgerða sem Bjarni Oddsson gerir grein fyrir í Læknablaðinu 1952 en í þeirri grein er lýst aðgerðum hans á árunum frá 1948 fram í júnílok 1951. Af greinaskrifum Alfreðs Gíslasonar gegn Helga Tómassyni á árunum 1953-55 og fregnum af blaðamannafundinum sem Kristján Þorvarðsson hélt í desember 1953 (sem Óttar Guðmundsson segir ranglega að hafi verið haldinn í janúar 1954) má ráða að eftir lát Bjarna Oddssonar hafi geðlæknar ekki getað sent sína sjúklinga í lóbótómíu, hvorki á Landakot né annað hérlendis. Má raunar ætla að kveikjan að blaðamannafundinum hafi einmitt verið ergelsi sjálfstætt starfandi geðlækna í Reykjavík yfir að missa lóbótómíu-möguleikann og áframhaldandi árásir á Helga sprottnar af sömu rót. (Um þessar opinberu árásir sjálfstætt starfandi geðlæknanna gegn Helga Tómassyni má lesa í færslunni Raflost við geðveiki hérlendis.)

Séu tölur Óttars yfir áætlaðar aðgerðir bornar saman við mannfjöldatölur árin 1950 og 1960 gerir það 80-127 lóbótómíuaðgerðir á hverja 100.000 íbúa. Sambærilegar tölur yfir lóbótómíur í Noregi og Danmörku eru 81 og 85 á 100.000 íbúa en þar er lagt saman 15 ára tímabil, 1945-60, þar sem íslensku tölurnar gætu aldrei átt við meir en 12 ára tímabil, frá 1948-60. Deilt eftir árum væri danska talan tæplega 5,7 lóbótómíur á 100.000 íbúa að meðaltali á ári en sú íslenska 6,6 - 10,6 lóbótómíur á 100.000 íbúa að meðaltali á ári. Þessar tölur, 140-180 lóbótómíur á Íslendingum, virðast því út í hött.

Séu einungis taldar þær 42 lóbótómíur sem Bjarni Oddsson gerði á fimm ára tímabili, duga þær til að skjóta Íslandi í efsta sæti á lista yfir tölur lóbótómíuaðgerða miðað við mannfjölda, því umreiknað eru þetta 6 lóbótómíur á hverja 100.000 íbúa að meðaltali á ári. Vitað er að Íslendingar voru sendir til Danmerkur í lóbótómíu (Jesper Vaczy Kragh segist hafa fundið gögn um sjö Íslendinga sem aðgerðin var gerð á og lágu á Vordingborg geðsjúkrahúsinu) en varla hefur það verið í tugatali, hvað þá að þeir hafi losað hundraðið.

Myndin sýnir hvernig rist er í heilann/hrært í heilanum með leucotom í standard-lóbótómíu en sú aðferð var eingöngu notuð hér á landi.
 
 

Hvernig fór lóbótómía fram hérlendis?

Alfreð Gíslason, Bjarni Oddsson og Kristján Þorvarðsson skrifuðu greinina Lobotomia, sem birtist í  Læknablaðinu sumarið 1952.

Bjarni skrifar fyrsta hluta greinarinnar. Hann segist hafa framkvæmt 28 lóbótómíur síðan 1948 og að mestu leyti fylgt aðferð Freeman og Watts, frontal lobotomi [þ.e. Freeman-Watts standard prefrontal lobotomy]. Hann geri einungis lóbótómíu eftir skriflegri beiðni sjúklingsins sjálfs eða nánustu ættingja hans og lætur geðlækni, jafnvel tvo geðlækna, samþykkja hana. Aðgerðinni og undirbúningi hennar lýsir Bjarni þannig:
 

Kvöldið fyrir aðgerðina fær sjúklingurinn 30 cg luminal [róandi barbítúrlyf] og 1 klst. fyrir aðgerðina 20 cg. luminal. Ég hef framkvæmt 21 af aðgerðunum í staðdeyfingu einni saman, og 7 með staðdeyfingu ásamt evipan [róandi barbítúrlyfi].

Tækni. Borað er 1 cm. breitt gat á hauskúpuna báðum megin. [- - -] Dura [ysta himnan um heilann, kölluð bast á íslensku] er opnuð og cortex [heilabörkur] koaguleruð [?] á litlum bletti á æðalausum stað. Skorin er sundur heilahvíta beggja ennislobi [- - -] Lobotomían er framkvæmd með mjóum spaða eða hnúðkanna, eða sérstöku áhaldi, svokölluðum leucotom. Blæðing er venjulega lítil, en stundum getur blætt talsvert frá æðum í heilaberki og dura og er blæðingin þá stöðvuð með electro-koagulation [- - -]

Eftirmeðferð. Fyrstu dagana er sjúklingurinn látinn liggja í rúminu með hátt undir höfði og herðum. Blóðþrýstingur er mældur og æðaslög talin á klukkustundar fresti fyrsta sólarhringinn [- - -] nauðsynlegt er að vakað sé yfir sjúklingnum fyrstu sólarhringana eftir aðgerðina. Flestir sjúklingar gætu farið af spítalnum 1-2 vikum eftir aðgerð en þyrftu þá helzt að komast á hæli til sérfróðs læknis í geðsjúkdómum til eftirmeðferðar, en flesta sjúklingana hef ég orðið að senda heim til sín [- - -]

Lobotomia á ÍslandiBjarni telur síðan upp helstu hættur samfara þessari aðgerð sem eru blæðing (að æð sé skorin í sundur); blæðing í heilahol (jafnvel lítil blæðing getur verið hættuleg) og að skurðurinn í heilahvítuna sé of aftarlega, þá verða sjúklingarnir sljóir og sinnulausir og „getur það endað í dái (coma) og dauða.“ (Þetta eru sömu atriði og danski læknirinn Broager taldi upp í fyrirlestri sínum á þingi Samtaka norrænna geðlækna í Kaupmannahöfn 1944 og er óneitanlega freistandi að ætla að Bjarni hafi verið viðstaddur hann, þótt hann hefði svo sem vel getað hafa lesið hann.)

Dánartala við frontal lobotomi er frá 2-6%, segir Bjarni, og bætir við að af þeim 28 lóbótómíum sem hann hafði gert þegar greinin var skrifuð hafi einn sjúklingur dáið. Það var 44 ára kona, greind með geðklofa. Hún var þegar við komu á spítalann „sljó og slöpp“ og fékk strax hita eftir aðgerðina, varð sljórri með hverjum deginum og dó á áttunda degi. Bjarni segist halda að hann hafi lagt skurðinn í heilahvítuna of aftarlega.

Ég hef áður vitnað í sjúkrasögu þessarar konu (í færslunni Upphaf lost-lækninga við geðveiki). Hún hafði verið geðveik í 17 ár, árið 1936 fékk hún insúlínlost í þrjár vikur (insúlínlost voru yfirleitt gefin sex daga vikunnar og hvílt þann sjöunda), síðan cardiazol-lost í tuttugu skipti árið 1937. Hvor tveggja lostmeðferðin var veitt á Akureyri, líklega á Fjórðungssjúkrahúsinu þar (enda dvaldi konan í skjóli systur sinnar í Eyjafjarðarsveit skv. öðrum heimildum). Skráð er að cardiazol-lostin hafi gefið allgóðan árangur en bati hélst stutt. Árið 1948 var reynt að gefa henni raflost en þau skiluðu engum árangri. Lokaorðin í sjúkrasögu konunnar í grein Alfreðs, Bjarna og Kristjáns eru: „Lobotomia 17/5 1951, dó 24/5 ‘51.“

Myndin er í grein Bjarna og félaga. Myndatexti undir henni er: „Skurður í húð og galea, og borað gat á höfuðkúpu 3 cm. fyrir aftan margo orbitalis lateralis, og 6 cm. fyrir ofan os zygomaticum.“
 

Á hvers konar sjúklingum var lóbótómía gerð?

Í greininni kemur fram að þessir læknar, Kristján og Alfreð, hafi beitt lóbótómíu við ýmsum geðsjúkdómum. Tæpur helmingur sjúklinga þeirra (9 af 20) var greindur með geðklofa (schizophrenia) og fjórðungur sjúklinganna (5 af 20) var með þunglyndisgreiningu (depressio mentis (melancholia)). Hinir voru: 2 með greininguna geðhvarfasýki (psykosis maniodepressiva); 2 siðblindir (psykopathia, ath. að menn skilgreindu siðblindu/geðvillu miklu víðar en gert er nú) og 2 með þráhyggju (anankasmus). Þessar tölur er að finna í greininni sjálfri en þeim ber ekki að öllu leyti saman við enska útdráttinn sem fylgir henni. Að mati greinarhöfunda varð tæpur helmingur allra sjúklinganna miklu betri (9 sjúklingar) og 7 urðu betri. Hér eru tvö dæmi, um miklu betri og betri árangurinn.
 

S. B. var greind með geðklofa og ofsóknarhugmyndir samfara honum.
 

    S.B. er 33 ára kona, gift sjómanni. Ekki er vitað um geðveiki í skyldmennum.
    Sjúkdómurinn byrjaði fyrir 8 árum, eftir barnsburð, með ranghugmyndum, ofsóknarhugmyndum, sem beindust gegn ákveðnu fólki og þó einkum gegn nábúum. Stundum ofheyrn, heyrði fólk tala inni í sér, stöku sinnum æst og beitti þá ofbeldi, ekki greinilega þunglynd, en stundum leið. Virtist heldur daufgerð og tilfinningasljó.
    Sjúkdómur: Schizophrenia (sennilega dementia paranoides).
    Raflost reynt, en án árangurs.
    Lobotomia 11/6 1949.
    Eftirrannsókn 15/11 1951. Ástandið í heild miklu betra, ofsóknarhugmyndir horfnar, er hress í skapi og finnst henni líðanin betri. Sér að öllu um heimilið (gerði það áður), svefn góður. Er nú barnshafandi í þriðja sinn, finnst heldur miður, en tekur ekki fóstureyðingu í mál af siðferðilegum ástæðum.
    Árangur: Miklu betri.

B.J.B. var greind siðblind og í sviga er tiltekið að hún sé haldin sjúklegri lygaáráttu (mytomaniu), stelsýki (kleftomaníu) og ástsýki (erotomaniu):
 

    B. J. B. 19 ára, óg. kona.
Arfhneigð: geðveila (psychopathia) bæði í föður-og móðurætt. Sjúklingurinn hefur frá 10 ára aldri verið þjófgefin og ósannsögul. Eftir 13 ára aldur mjög vergjörn (erotoman) og lauslát. Víns hefir hún neytt nokkuð, en þolir illa og verður ölvuð af litlum skömmtum, einnig man hún mjög illa það, sem gerist, er hún er ölvuð. - Að skapgerð kát og með köflum óeðlilega kát (hypomania) með geysilegt ímyndunarafl og hugarflug. Hún hefir verið við ýmisleg störf, en alls staðar komið sér út úr húsi, vegna þjófnaðar og ósannsögli. Til stórvandræða horfir um framtíð hennar, allar lækningatilraunir reynzt árangurslausar.
    Sjúkdómur: Psychopathia (myto-klepto-erotomania).
    Lobotomia 21/6. 1951.
Eftirrannsókn 5/12. 1951. Eftir aðgerð róleg og ekki sljó. Hefir unnið við eldhússtörf í héraðsskóla í sveit, komið sér vel. Kom til Reykjavíkur (á þar heima) og dvaldi þar í viku, og bar ekki á neinu sjúklegu.
    Árangur: Betri.
 

Deilur um lóbótómíu hérlendis

Þótt geðlæknarnir (Alfreð, Kristján og e.t.v. fleiri), sem og aðrir læknar, hafi vísað sínum sjúklingum í lóbótómíu til Bjarna Oddssonar á Landakotsspítala meðan hans naut við var áhrifamesti geðlæknir landsins, Helgi Tómasson yfirlæknir á Kleppi, algerlega mótfallinn þessari aðgerð. Sjálfstætt starfandi geðlæknarnir hömuðust gegn Helga í dagblöðum eftir að Bjarni Oddsson dó, flögguðu gjarna nafni hins fræga prófessors Busch (sjá t.d. grein Alfreðs Gíslasonar, Seinheppin heilbrigðisstjórn, í Tímanum 23. júní 1955) en vitaárangurslaust. Þeir ásældust aðstöðu á Kleppi, sennilega vildu þeir fyrst og fremst fá aðstöðu til að láta gera lóbótómíur en einnig til að beita raflostum á sjúklinga sína. (Hluti blaðagreinaárásanna er rakinn í færslunni Raflost við geðveiki hérlendis.)

Þegar Helgi svaraði loks Alfreð og félögum, í greininni Rafrot við geðveiki, í Heilbrigðisskýrslum 1951 (sem komu út snemmsumars 1955) fjallar hann lítið um lóbótómíu í því svari enda taldi hann aðgerðina mun skaðminni en raflostmeðferð og taldi hana auk þess hafa „lifað sitt fegursta“ í þáverandi mynd. Hann segir þó nokkuð af lóbótómíu, þar á meðal útskýrir hann hve ónákvæm skurðaðgerðin sjálf er því:
 

[…] lega ýmissa svæða á heilayfirborðinu er breytileg frá manni til manns og að mikil óregla (asymmetri) er á því hvernig samsvarandi heilasvæði liggja í hægri og vinstri heilahelmingi í sama manni. Þegar skurðalæknar telja sig hafa skorið þetta eða hitt sérstaka svæði, getur þar því skakkað miklu. Það er m.ö.o. ógerlegt að vita með vissu, hvaða heilasvæði (area) maður hittir eða hvaða brautir maður sker í sundur [- - -]

Svo ónákvæm skurðargerð er að mati Helga Tómassonar að tefla á tæpasta vað „siðferðilega, lagalega og einnig læknislega“. Hann útlistar álit sitt nánar með þessum hætti:
 

Mér virðist aðgerðin yfirleitt ekki koma til greina, nema maður ætli sér að gera andlega „amputation“, sem þó væri frekar „mutilation“, því að slíkri „amputationsaðgerð“ svipar til þess að maður ætli sér að gera venjulega „amputation“ rétt fyrir ofan ökla, en hitti liminn einhvers staðar á milli ökla og nára, eða lenti jafnvel stundum í kviðarholi og næði þá skástum árangri með „amputationinni“.

Árangur lóbótómíu

Í grein Alfreðs, Kristjáns og Bjarna segir að skv. eftirrannsókn á þeim 20 sjúklingum (af 28 lóbótómíuþegum 1948-51) sem gerð var í okt.-des. 1951 hafi komið í ljós að 9 sjúklingum hafi batnað alveg eða mjög, 7 sjúklingar séu betri, 1 sjúklingur ofurlítið betri og 2 hafi ekki batnað. Einn sjúklingur lést af aðgerðinni. Skv. þessu hefur lóbótómía skilað yfir 80% sjúklingahópsins bata, ýmist fullum bata eða að hluta. Það er vitaskuld frábær árangur! Grein íslensku læknanna sker sig svo sem ekkert úr lofsöng erlendra lækna, t.d. danskra, laust eftir 1950. Og íslensku dagblöðin bergmáluðu erlenda umfjöllun, sjá t.d. lofgrein um sænska heilaskurðlækninn Olivecrona í Vikublaðinu í mars 1950 eða  Ungur maður læknaður af glæpahneigð með heilaskurði, í Alþýðublaðinu 17. okt. 1952. Í febrúar 1953 birti Mánudagsblaðið viðtal við átrúnaðargoð íslenskra (geð)lækna, Eduard Busch, þar sem haft er orðrétt eftir honum um lóbótómíu: „Við höfum séð gerast sannkölluð kraftaverk eftir slíkar aðgerðir, og að bandvitlaust fólk hafi fengið fullan bata.“ (Í lok viðtalsins er svo skorað á íslensk heilbrigðisyfirvöld að kynna sér þessa aðgerð og „losa okkur við það álit, að vera álitin viðundur á þessu sviði“, þarf ekki stórkostlega túlkunarhæfileika til að grilla í geðlæknana Alfreð og Kristján bak við þessa áskorun).

Eðli málsins samkvæmt er erfitt að finna heimildir um afdrif einstaklinga sem hafa undirgengist lóbótómíu. Hér skulu þó nefnd tvö dæmi:

Í bókinni Kleppur í 100 ár rekur Óttar Guðmundsson sögu frænku sinnar, sem nefnd er I.S. í grein þeirra Alfreðs, Kristjáns og Bjarna. I.S. var 22 ára fyrrverandi afgreiðslustúlka, greind með geðklofa og hafði verið veik í fjögur ár þegar Bjarni Oddsson gerði á henni lóbótómíu (áður hafði tvisvar sinnum verið reynt raflost við sjúkdómnum). Þeir telja hana betri eftir aðgerðina og lýsa ástandi hennar, eftir lóbótómíu í febrúar 1951, nánar svo:

Lagaðist fyrst mikið eftir aðgerð, var róleg, glöð og ánægð, svefn góður, ofurlítið sljó og vottaði fyrir autismus og hélzt þetta í 4 mánuði, en þá byrjaði hún að flakka um, varð sljórri og kjánaleg (fatuið) í látbragði, var ekki æst og vann lítið eitt við hússtörf.

Óttar rekur söguna áfram og segir að ný lóbótómía hafi verið gerð hinum megin í framheilanum sama ár og „varð hún sæmilega róleg í tæpt ár. Þá lagðist hún aftur í flakk, varð mjög masgefin, hortug og alveg óviðráðanleg. Svefninn mjög lélegur.“ (s. 106). Í grein Alfreðs o.fl. um lóbótómíu er ekki minnst á að aðgerðin hafi verið gerð aftur sem er einkennilegt. Þeir mátu sjúklinginn I.S. í október 1951 og í greininni er lýst eftirrannsóknum á sjúklingum sem þeir gerðu fram í desember 1951. E.t.v. hafa þeir endurtekið aðgerðina seint í desember það ár og þá verið búnir að skila af sér greininni.

I.S. var lögð inn á Kleppsspítala í janúar 1953 og var viðloðandi spítalann til æviloka. Um áhrif lóbótómíunnar segir Óttar:
 

Hún bar greinilega öll merki lóbótómíu, var mjög flöt og sljó í öllum tilsvörum og framgöngu. Ekki sýndi hún nein geðbrigði eða skilning þegar ég ræddi við hana um ættingja sem þekktum bæði eða æskustöðvar hennar í Vestmannaeyjum og Langholtshverfinu. Lóbótómían virðist hafa klippt á allar tilfinningalegar tengingar hennar við það líf sem hún eitt sinn lifði.

Í minningargrein um Ólaf Geirsson, árið 1965, skrifar fyrrverandi sjúklingur hans af Berklahælinu á Vífilsstöðum athyglisverða lýsingu á því hvernig læknirinn, sem sjúklingurinn treystir, talar hann með lagni til að fara í aðgerð sem sjúklingurinn hafði illan bifur á. Virðist lóbótómían hafa lítinn sem engan árangur hafa borið til bóta sjúklingnum en því fer fjarri að hann beri kala til læknisins á eftir.
 

Þegar ég kom að Vífilsstöðum árið 1951, var ég sjúk bæði á sál og líkama. Truflun á efnaskiptum líkamans hafði þrúgað svo taugakerfi mitt að í algert óefni var komið. Þá tóku þessir mætu mannvinir, Ólafur heitinn og Helgi Ingvarsson, höndum saman og slógu um mig varðlokur [- - -] Og kom nú Ólafi Geirssyni í hug heilagerð [svo] sú, er lobotomi nefnist og oft hefur reynst rík til árangurs. Íslenzkur læknir var þá á lífi, sem fékkst við þessar aðgerðir, Bjarni heitinn Oddsson. Blessuð sé minning hans. Réði nú Ólafur mér að leita þessa ráðs, en ég var lengi treg. Mun þar hafa ráðið nokkru að ég hef aldrei verið kjarkkona og treg orðin að trúa á árangur. En þó mun þar mestu hafa ráðið, að tilhugsunin við að láta hrófla við þessu viðkvæma líffæri, heilanum, skóp mér beyg við einhverja breytingu, er verða kynni á sjálfri mér til hins lakara. Ég þæfði því lengi á móti. Ólafur heitinn skildi mig út í æsar og sótti mál sitt ekki fast. Hann hvorki skipaði né bað. En hann setti sig ekki úr færi að bera þær aðgerðir af þessu tagi í tal, sem hann kunni sögur af. Segja mér frá þeim og árangri þeirra, einnig að útlista fyrir mér, í hverju þær væru fólgnar og árangur þeirra, rétt eins og hann væri að ræða við jafningi við jafningja sinn. Þessum hæverska áróðri hélt hann áfram uns ég fór að linast. Hugsaði loks sem svo, að það mikið hefði Ólafur fyrir mig gert, að skylt væri að sýna honum það traust að hlíta ráðum hans. Var svo aðgerðin gerð. En með þvi að sjúkdómurinn var búinn að leika mig grátt, var ég nokkuð lengi að ná mér á eftir. Gekk svo fyrsta árið, að á mig sóttu geðtruflanir, sem lýstu sér í þunglyndi og ýmis konar firrum. Dvaldi ég í skjóli þeirra Vífilsstaðalækna — og hef ég oft hugsað til þess með kinnroða, hve þreytandi sjúklingur ég hlýt að hafa verið þennan tíma.

Helgi Tómasson segir að það hafi komið til greina af sinni hálfu að beita lóbótómíu á þrjá sjúklinga á Kleppi en af því hafi ekki orðið því ekki náðist samkomulag um hvernig aðgerðinni skyldi hagað. (S.s. nefnt var hér að ofan blöskraði Helga hversu ónákvæm prefrontal lóbótómían var.) Tveimur af þessum þremur sjúklingum hafi svo batnað talsvert af sjálfu sér.

Um reynsluna af lóbótómíusjúklingum segir Helgi Tómasson:
 

… við höfum nú á seinustu 4 árum fengið á spítalann 8 sjúklinga, sem aðgerð þessi hefur verið gerð á. Eru þeir allir óbætanlegir og slík hryggðarmynd andlegs tómleika, að mjög forhertan mann þyrfti til þess að tefla sínum nánustu eða skjólstæðingi sínum í þá tvísýnu að geta orðið þannig fyrir aðgerð, sem aldrei getur talizt lífsnauðsynleg.

  

Niðurlag

Það er skelfilegt til þess að hugsa að Ísland hefði getað skarað rækilega fram úr í lóbótómíu-aðgerðum heimsins á sjötta áratug síðustu aldar, nógu vel stóðu Íslendingar sig í þau fimm ár sem svona aðgerðir voru gerðar hérlendis. Í rauninni var bara tvennt sem kom í veg fyrir að svo yrði: Annars vegar sterk og óbifanleg andstaða Helga Tómssonar, yfirlæknis á Kleppi, og hins vegar að skurðlæknirinn sem gerði þessar aðgerðir lést í bílslysi í september 1953. Hefðu sjálfstætt starfandi geðlæknar í Reykjavík haft næga burði til að koma sér upp annarri aðstöðu til að gera lóbótómíur ættum við örugglega þetta óhugnalega heimsmet.
 
 
 
 

Heimildir aðrar en þær sem krækt er í úr færslunni:
 

Alfreð Gíslason, Bjarni Oddsson og Kristján Þorvarðsson. Lobotomia. Læknablaðið 36. árg., 7. tbl. 1952.

Bjarni Jónsson. Á Landakoti. Setberg 1988.

Helgi Tómasson. Rafrot við geðveiki. Heilbrigðistíðindi 1951. Útg. af landlækni 1955.

Kragh, Jesper Vaczy. Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983. Syddansk Universitetsforlag. 2010.

Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JVP útgáfa, 2007.
 

2 ummæli við “Lóbótómía á Íslandi”

 1. Guðný Hildur Magnúsdóttir ritar:

  Sæl Harpa,
  Ég hef annað slagið dottið inná bloggið þitt þegar ég hef verið að leita að einhverju sem ég hef áhuga á á internetinu. Og þó að þú þekkir mig ekki neitt þá fannst mér ég verða að láta þig vita hvað mér finnst bloggið þitt er skemmtilegt, fræðandi og vel skrifað. Ég las t.d. færslurnar þínar (eða ritröðina) um siðblindu alveg upp til agna. Og nú er ég að lesa færslurnar þínar um sögu geðlækninga og finnst þær mjög áhugaverðar. Á sínum tíma skrifaði ég BA ritgerð (í félagsfræði) um “sögulega þróun skilgreininga á geðrænum frávikum”, sem fjallaði m.a. um það hvernig læknisfræðin náði eignarhaldi á þessu fyrirbæri.
  Takk fyrir frábært blogg :)
  Kær kveðja,
  Guðný Hildur

 2. Unnur Hrefna Jóhannsdóttir ritar:

  Frábær grein og mjög upplýsandi!