Færslur frá 11. júní 2013

11. júní 2013

Hvílíkur munur

Fyrir rúmum fjórtán mánuðum ákvað ég að hætta á lyfjum. Þetta potast svona hægt og bítandi, enn er et ég síðasta lyfið á listanum, Míron, en er komin ofan í rétt rúmlega fjórðung af dagskammti. Miðað við áætlun (sem byggist á mínus 3,75 mg á sex vikna fresti) klára ég að trappa Míronið niður einhvern tíma í september. Ég finn fyrir hverri tröppu þótt lág sé, fyrst í erfiðleikum að sofna og tveimur-þremur vikum eftir að trappa er tekin fæ ég hitasteypur og kölduhroll öðru hvoru í svona viku. Svo er það búið og ég sigli lygnan sjó næstu þrjár vikurnar, þá er næsta trappa. Þrátt fyrir áhuga geðlækna á breytingaskeiði kvenna hef ég aldrei fundið nokkurn skapaðan hlut fyrir sama breytingaskeiði en fæ þessi „dýrmætu“ kynni af hitasteypum af Míron-tröppun alltaf öðru hvoru ;)   Verandi orðin svona skínandi „clean and sober“ af lyfjum hugsa ég til þess með hryllingi þegar ég var látin trappa þrefaldan dagskammt af Míron út á tveimur vikum … sumir geðlæknar halda nefnilega (ranglega) að það sé ekkert mál að hætta á þunglyndislyfjum, líklega hafa þeir lesið það í greinum eftir aðra geðlækna.

Kjálkaverkur vinstra megin gerir mér enn lífið leitt, einkum á kvöldin. Stundum er erfitt að sofna af því mig verkjar svo í andlitið. Þessi verkur upphófst þegar ég byrjaði að trappa niður Rivotril og seinna Imovane. Röngtenmyndir hjá tannlækni og af öllum mínum skútum og kinnholum leiða ekkert misjafnt í ljós. Eftir hringferð um heilbrigðiskerfið hef ég fengið ýmsar skýringar á verknum og eru þessar helstar: Slit í hálsliðum (sjúkraþjálfarinn); skútabólga (heimilislæknir); sinaskeiðabólga í sin inni í munninum (sérfræðingur í kjálkaverkjum); bólgur í sina-og vöðvafestingum í hnakkagróf (kínverski læknirinn). Mesta gagnið hefur verið að nuddaranum sem hefur enga sérstaka skýringu á verknum en segist hafa haft kynni af fleirum með svipaða kvilla. Núna er ég komin í kuklið, gef höfuðbeina-og spjaldhryggsjöfnun, með dashi af iljanuddi, séns.

Munurinn á því að vera á lyfjum og að vera að mestu lyfjalaus er ótrúlegur! Lamandi þreytan er að mestu horfin og mér finnst ég hafa breyst aftur í mig sjálfa, er sem sagt orðin ég en ekki þunglyndissjúklingur. Vissulega finn ég alltaf fyrir þunglyndinu en það er allt annað að díla við það með sæmilegri orku og hausinn í lagi. Kvíðinn, jafnt  „almenn kvíðaröskun“ sem ofsakvíðaköst, hvarf gersamlega þegar ég hætti á kvíðastillandi lyfinu.

Ég er útskrifuð frá VIRK og sálfræðingnum. Þessir aðilar voru frábærir og veittu mér mikla aðstoð þegar á þurfti að halda. Það er undarlegt að mér skuli aldrei hafa verið bent á VIRK, hafandi verið dyggur kúnni geðsviðs Landspítala árum saman. Ætli menn hafi ekki frétt af VIRK þar á bæ? Fyrir tilviljun (af því að hlusta á útvarpsviðtal) komst ég að því að þetta batterí er til, starfar í mínum heimabæ og hefur á að skipa góðu og skynsömu fólki.

Næsti vetur lofar góðu. Ég held áfram í 25% starfi á haustönninni og er að fara að kenna nýjan áfanga, PRJÓN 103. Nú æfi ég mig að prjóna, sá að það gengur ekki annað en að kunna a.m.k. þrjár uppfitjunaðaðferðir og fjölbreytt prjónatækniatriði úr því ég ætla að kenna öðrum listina að prjóna. Og les uppskriftir … og ræði við reyndar prjónakonur og hannyrðakennara í grunnskóla. Það er raunar mun skemmtilegra að búa til kennsluefni í svona áfanga en búa til kennsluefni fyrir íslenskuáfanga, þótt það taki mun lengri tíma að prjóna sýnishorn en að hræra í gagnvirk krossapróf eða búa til hefðbundin verkefni. Svo krossa ég fingur upp á að kennslan gangi þokkalega, þetta verður a.m.k. spennandi tilraun. Á vorönninni næstu stefni ég á að kenna verklegan nýsköpunaráfanga með öðrum kennara, það þarf ýmislegt að ganga upp svo það verði að veruleika en ég reikna með að þetta gangi allt saman.

Svoleiðis að ég er aftur komin í þá stöðu að gera eitthvað nýtt, búa til áfanga og kennsluefni, sem ég gerði mikið af áður en ég veiktist illa eða öllu heldur lenti í lækningunum . Þetta er ótrúlega gaman! Markmiðið er að ná nógu góðri heilsu til að starfa í 50% kennslu. Það kann að vera fjarlægt í bili en ég mun ná því.

Þetta rúma ár hefur verið einkar lærdómsríkt. Að finna eigin styrkleika en vera um leið á varðbergi fyrir skekktri lífssýn og öðrum þunglyndiseinkennum, að sætta sig við þunglyndið en sætta sig ekki við að vera þunglyndissjúklingur, virðist vera lausnin, a.m.k. skilar þetta miklu betri árangri en meðhöndlun þess geðlæknis sem ég hef lengstum skipt við. Ég er líka önnum kafin við að æfa mig í að losna við reiði og biturð út af eigin lækningasögu. Að vera bitur er eins og að drekka fullt glas af eitri og vonast til að einhver annar drepist, las ég í vetur. Svoleiðis að ég reyni að nota þær ágætu aðferðir sem ég hef lært annars staðar en í geðlækningabatteríinu til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt. Mér finnst það ganga prýðilega. Ég gæti trúað að mínum nánustu, sem urðu ódeyfðir vitni að áhrifum „lækninganna“ árum saman, gangi kannski ekki alveg eins vel að losna við óþægilegar tilfinningar en hef sosum ekki rætt þetta sérstaklega við þá.

Sá um daginn einhverjar meldingar hjá einum netverjanum um að ég hataðist við geðlækna eftir að hafa verið dömpað af einum slíkum. Það er auðvitað algert rugl. Ég kann prýðilega við geðlækninn sem ég hitti reglulega núna. Ef það að skrifa gagnrýnið um sögu geðlækninga, virkni, eða öllu heldur skort á virkni, þunglyndislyfja o.þ.h. telst vera hatur á geðlæknum má með sömu rökum segja að allir bókmenntafræðingar hati skáld ;) Það eina gagnrýniverða við bloggið mitt undanfarið er að ég hef vanrækt sögu handprjónaðra silkijakka á 17. og 18 öld algerlega svakalega …

Það hefur gert mér gott að blogga jafnóðum um það sem ég hef kynnt mér varðandi geðlyf, einkum þunglyndislyf, og geðlækningar. Minni mitt er talsvert skemmt eftir geðlækningaðferðir í rúman áratug og ég man betur ef ég skrifa. Svo fletti ég talsvert upp í eigin bloggi - raunar er mitt eigið blogg ómetanleg heimild um árin sem þurrkuðust út. Eina leiðin til að botna í því af hverju pundað er meiri og meiri lyfjum í þunglyndissjúkling eins og mig, þótt augljóst mætti vera hverjum manni að ég varð veikari og veikari af lyfjunum, er að nálgast hugmyndafræði geðlækninga gegnum sögu þessara lækninga. Eina leiðin til að botna í því af hverju lyfin skiluðu aldrei árangri til bóta er að skoða hvað klínískar rannsóknir á virkni þunglyndislyfja hafa leitt í ljós, hvernig þeim niðurstöðum hefur verið haganlega hagrætt í vísindatímaritum og hvernig geðlæknar hagræða þeim enn meir í samtölum við sína sjúklinga. Svo ekki sé minnst á vinnuna við að skilja vitleysisganginn sem einkennir fjöllyfjagjöf við þunglyndi. Í mínu tilviki var eina leiðin til að ná raunverulegri bót á þunglyndinu sú að setja mig inn í geðlækningar og geðlyfjafræði. Ég held að það sé einsdæmi að sjúklingur skuli þurfa að afla sér svona þekkingar til að eygja von um bata en af reynslunni mæli ég með því að þunglyndissjúklingar geri það.
 

Lífið er ljúft þessa dagana. Nú hef ég orku til að gera hitt og þetta og heilbrigða skynsemi til að meta hvað ég get gert og hvað ekki.
 
 

Ummæli (13) | Óflokkað, Geðheilsa