Færslur frá 18. júní 2013

18. júní 2013

Spinalonga og morð

Svo ég vendi kvæði mínu strax í kross frá fyrirsögninni þá fór ég á bókasafnið áðan til að vita hvort þangað hefði borist bókin Hælið eftir Hermann Stefánsson. Enginn hafði heyrt á hana minnst og bókaverðir fengu upp það sama og ég í Gegni, nefnilega að ekkert bókasafn á þessa bók. (Og heldur ekki þessa eftir okkar nýja ágæta bæjarlistamann sem er með í 1005 hollinu, a.m.k. minnir mig að þetta sé talan 1005 sem heiti tímarits hefst á …)  Af prinsippástæðum kaupi ég bókina ekki sem rafbók, ég kaupi nefnilega ekki íslenska rafbók á höfundaréttarvörðu epub-formi fyrir 2.500 kr. til þess að þurfa svo að brjóta hana upp og konvertera til að geta lesið hana á mínum Kindli

En prinsipp eru náttúrlega til að brjóta þau svo ég upplýsi að ég var í þessu að fjárfesta í Polis eftir Nesbø, á sænsku reyndar. Hún var að vísu ólæst en auðvitað epub-skrá. Ég þarf nefnilega að vita hvort Harry Hole hjarir enn eftir að hafa verið skotinn í tætlur og rotta byrjuð að gæða sé á honum (líkinu) í lok síðustu bókar … það þarf væntanlega sterk bein til að vakna aftur til lífsins eftir svoleiðis trakteringar. 

Er nýbúin að lesa nýjustu bók Kristinar Ohlsson, Davidsstjärnor. Hún er helv. góð eins og hinar bækurnar hennar. Yfirleitt er ég svona tveimur þremur bókum á undan íslensku þýðingunum á skandinavískum reyfurum … get upplýst að Marco effekten hans Jussi Adler-Olsen er fantagóð en hef gefist upp á Mons Kallentoft, alkóhólískir órar hinnar skyggnu lögreglukonu eru orðnir of fyrirferðarmiklir.

Svo potast ég hægt og bítandi gegnum The Island eftir Victoriu Hislop. Þetta var metsölubók fyrir nokkrum árum, hefur verið þýdd á Norðurlandamálin nema íslensku. Eiginlega nenni ég alls ekki að klára hana en af því ég hef ákveðið að heimsækja Spinalonga (gríska nafnið er Kalydon), pínupons-eyju fast við Krít, í sumar verð ég náttúrlega að klára söguna frægu sem gerist akkúrat þarna. Á Spinalonga voru holdsveikir geymdir fram til 1957 en eyjan er nú óbyggð.

Til mótvægis við morðin og holdsveikrarómantíkina hef ég Ritið og TMM og Skírni og Sögu. Er búin að lesa nýjustu heftin af þeim þremur síðasttöldu og langt komin með að lesa um ýmsar tegundir af minni í Ritinu. Og svo les ég prjónauppskriftir lon og don af stakri ánægju. Verst að ég er of fljót að lesa, annars gæti ég lesið prjónandi. (Þarf að fletta svo hratt að það er ekki vinnandi vegur að prjóna á meðan.) Er á útkikki eftir prjónastykkjum sem eru einföld, helst fljótleg og ekki ljót. Þetta fer ekki vel saman svo það þarf að leita vel. Veðrið er mér einkar hliðhollt í þessu bardúsi.

Náttúrlega skanna ég helstu vefmiðla og blogg daglega en yfirleitt ristir þetta svo grunnt að tíu mínútur með morgunkaffinu duga prýðilega í svoleiðis lestur. Ég hef samt gaman af því að sjá hvernig fólk getur trompast yfir fegurðarsamkeppni einn daginn, lögheimilisflutningi Dorritar næsta dag … og fylgist grannt með rómantíseríngu tossanna, mikil ósköp ;)

Ummæli (8) | Óflokkað, Bækur