Færslur frá 13. september 2013

13. september 2013

Tilfinningaklám og staðalmyndir

Nú stendur yfir söfnun fyrir gjörgæslugeðdeild á Landspítala. Deildin er fyrir sjúklinga sem þarf að hafa sérstakt eftirlit með, s.s. sturlaða sjúklinga (þ.e. í geðrofi, alvarlegu örlyndi eða hættulega öðrum) og þá sem eru í bráðri sjálfsvígshættu. Það er auðvitað hið besta mál að safna fé svo gera megi svona deild sem best úr garði. En að mínu mati er seilst ansi langt í að snapa samúð almennings og kynda undir staðalmyndahugmyndir um aumingja geðsjúka fólkið í þessu átaki. Mér er algerlega óskiljanlegt hvernig í ósköpunum konunum sem standa (myndarlega) að Á allra vörum datt í hug að samþykkja auglýsingaherferðina sem fylgir þessu söfnunarátaki! Er þetta sú mynd sem þeim hugnast að gefa af geðsjúku fólki? Er aðalatriðið að raka inn peningum en aukaatriði að hamra á ímyndum sem eru síst til þess fallnar að slá á fordóma og ranghugmyndir um geðsjúkdóma?

Myndaserían sem Á allra vörum birtir nú ótt og títt á heilsíðum dagblaða og á Vefnum sýnir erkitýpur þunglyndissjúklinga (en þunglyndissjúklingar verða aldrei nema brotabrot af sjúklingaflóru deildarinnar sem verið er að safna fyrir). Þetta eru dökkar og napurlegar myndir, af konum með rytjulegt úfið hár og körlum sem hafa mátt muna fífil sinn fegri, meira að segja fylgir eitt heldur ótótlegt stúlkubarn.  Fyrirsæturnar eru með tárvot augu og afar þjáningarfullar á svipinn, minna kannski mest á þau mæðgin Maríu mey og Jesús á harmfyllstu rómantísku málverkum fyrri tíma eða í nútíma kraftaverkastyttum sem gráta blóði. Til að bæta enn á þjáningarfullan svip hinna hrjáðu fyrirsæta eru sprungur í andlitum þeirra og jafnvel niður á háls, annað hvort eru þetta djúpir farvegir eftir stöðugan og langvarandi táraflauminn eða tákna að þessar manneskjur eru ekki heilar, þær eru sprungnar, sem sagt bilaðar.

Ég er illa haldin af þunglyndi og stundum ansi veik af sjúkdómnum (til dæmis þessa dagana). En ég geng ekki um eins og argintæta til höfuðsins og andlitið á mér er ekki sprungið enda er ég heilsteypt persóna þótt ég hafi þennan sjúkdóm. Eins og aðrir þunglyndissjúklingar get ég oftast brosað og set (vonandi) aldrei  upp svip þeirrar eilífu þjáningar sem er meitlaður í módel Á allra vörum. Mér finnst það móðgun við mig og aðra geðsjúka að birta svona myndir í umfjöllun um geðræna sjúkdóma!

Hér að neðan eru nokkrar myndir til samanburðar auglýsingamyndunum. Með því að smella á þær koma upp flennistórar útgáfur á síðu Á allra vörum, vilji menn aðgæta þjáninguna og sprungurnar á þessum langgrátnu geðsjúku andlitum betur.

Hamilton þunglyndistýpanÞetta er hluti af mynd IV í bókinni Types of insanity, an illustrated guide in the physical diagnosis of mental disease, gefin út 1883.  Bókin er eftir  Allan McLaine Hamilton. Myndskreytingar í geðlækningabókum á nítjándu öld áttu að hjálpa læknum að greina geðsjúkdóma, þ.e.a.s. myndirnar gegndu svipuðu hlutverki og DSM-staðll nútímans (eins og sést berlega af titli bókarinnar). Þessi mynd á að sýna hvernig sjúklingur með viðvarandi þunglyndi lítur út. Í myndatexta segir: X hefur verið þunglyndur í nokkur ár og sjúkdómurinn er að þróast í vitglöp. erkitýpa á Á allra vörumHefur eitthvað breyst síðan Hamilton birti greiningarmyndir af geðsjúkum fyrir 130 árum síðan?
Mad womanBrjálaða konan, málverk eftir Eugene Delacroix, dáinn 1863. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu. Hafa hugmyndir um erkitýpu brjáluðu konunnar breyst frá tímum rómantíkur? Erkitýpa brjáluðu konunnar
Mar�a grætur blóðiMaría mey er “móðir mædd af sorgum” (mater dolorosa). Kemur því ekki á óvart að sumar styttur af Maríu gráti reglulega. Þessi er í Kaliforníu og grætur blóði. Myndin krækir í umfjöllun um þetta merkilega fyrirbæri. Ég sé ekki betur en erkitýpa þunglyndu konunnar á Á allra vörum gráti líka blóði enda er erkitýpa þunglyndu konunnar einhvers konar konar femina dolorosa. Mar�uerkitýpa þunglyndu konunnar

P.s. Ég fetti ekki fingur út í ofurvæmna myndbandið sem er auglýsing átaksins nema bendi á að litla skólastúlkan í skólapilsinu getur varla verið uppi á okkar tímum því í skólanum hennar er gamaldags krítartafla. Sömuleiðis mætti benda á að mamman virðist liggja árið um kring grátandi í rúminu (hún líkist að vísu ekki nokkrum þunglyndissjúklingi sem ég hef séð en fellur væntanlega ágætlega að þeirri staðalímynd og brennimerkingu sem forsvarmenn þessarar söfnunar eru að gera sitt besta til að festa í sessi).

Ummæli (30) | Óflokkað, Geðheilsa