Færslur frá 27. september 2013

27. september 2013

Er nýjasta trendið alltaf best?

 

Ég er nógu gömul til að muna eftir bæði sveitasíma og steinolíulömpum í mínum uppvexti. En í þessari færslu ætla ég að rifja upp aðeins nýrri tíma en bernskuna.

 

Veturinn 1985-86 stundaði ég kennsluréttindanám. (Verður að segjast eins og er að nánast ekkert úr því námi hefur nýst í starfi mínu sem framhaldsskólakennari en það er annar handleggur.) Eitt af því sem kennt var var svokölluð nýsitækni svo við gætum notað nýjustu tæki og tól til að lífga upp á kennsluna. Við lærðum að búa til flettilglærur, þ.e.a.s. föndra saman plastglærur í mismunandi litum og lögum. Mig minnir að ég hafi búið til glæru af óléttri konu (enda ólétt sjálf á þeim tíma), þar sem fletta mátti upp á henni kviðnum og sjá fóstrið undir: Gasalega sætt í myndvarpanum, fannst mér. Svo lærðum við að taka slæds-myndir af litmyndum í bókum.

Ég hef aldrei búið til flettiglæru síðan. Og aldrei tekið slæds-myndir af litmyndum í bókum, til að setja í framköllun og halda skuggamyndasýningu fyrir nemendur.

 

 

1986 kom fyrsta tölvan inn á heimili mitt. Mér þótti þetta mikil búbót enda hafði ég lært vélritun árið áður, ég fór nefnilega í landspróf og landsprófsnemendur lærðu ekki vélritun enda var búist við að við yrðum öll háskólaborgarar með ritara á okkar snærum þegar við yrðum fullorðin. Svo ég lærði að vélrita eftir að hafa lokið BA-prófi. Sambýlismaður minn (seinna eiginmaður) bjó sjálfur til ritvinnsluforrit í tölvuna, ágætis verkfæri nema það mátti alls ekki snerta einn ákveðinn takka á lyklaborðinu því þá þurrkaðist allt út. Í fyrstu tilraun minni til að nota þessa flottu nýju græju rak ég mig auðvitað í þann takkann og glataði merkri ritsmíð um uppeldis-og kennslufræði … en lét það ekki stöðva mig í að nota þessi nýju tæki áfram, tölvurnar altso.

 

 

Haustið 1986 byrjaði ég að kenna við Fjölbrautaskóla Akraness (sem nú heitir Fjölbrautaskóli Vesturlands). Í skólanum voru tölvur og mig minnir að Windows hafi ekki verið til þá. Einhvern tíma skömmu síðar stóð ég fyrir tilraunaverkefni í tölvustofunni sem hét Ritsmiðja. Það fólst í því að hjálpa nemendum að semja texta og ganga frá honum, eftir skólatíma. Obbinn af vinnunni var samt að hjálpa nemendum að brúka WordPerfect og Works ritvinnsluforritin.

 

Svo hef ég fylgst með þróun í tölvutækni allar götur síðar, byrjaði að nota internetið í janúar 1991, gegnum Imbu sálugu á Kópaskeri, Vefinn þegar hann kom til sögunnar o.s.fr. Ég hef unnið mýgrút af þróunarverkefnum tengdum þessari tækni, sem öll snérust um hvernig væri hægt að nota tæknina í kennslu og nám, í mínu tilviki íslenskukennslu.

 

Undanfarið hefur, í umræðu um skólamál, verið haldið mjög á lofti að í skólum sé ekki fylgst nógu vel með og þar sé ekki notuð ný tækni. Skólabækur séu óþarfar og allir eigi að nota Ipad eða önnur spjöld. Óþarft sé að kenna þekkingaratriði því nemendur geta alltaf og ævinlega flett upp á Vefnum. Nýafstaðið samræmt próf í íslensku þykir hallærislegt, jafnvel vont, af því á því birtust gamlir textar, spurt var út í óinteressant þekkingaratriði í stafsetningu o.fl. og prófið vakti alls ekki áhuga nútíma nemenda á móðurmáli sínu eða gekk út frá veruleik nútíma nemenda. Og þannig mætti lengi áfram halda.

 

Akkúrat núna erum við stödd í Ipad- og Iphone- og allrahandaspjaldvæðingunni miklu. En hver er þess umkominn að spá hvað verður eftir áratug, svo ég tali nú ekki um eftir nokkra áratugi? Ættu skólar að stökkva á þessar nýju græjur til að vera móðins og fylgjast með og vekja nægan áhuga? Ættu kennarar að hætta að kenna “steingeldar staðreyndaþulur” af því Gúgull frændi á svör við öllum spurningum? Eiga próf að hætta að mæla þekkingu og mæla eitthvað allt annað í staðinn eða yfirhöfuð alls ekki að mæla neitt heldur virka sem einhvers konar spennandi áhugahvöt?

 

Ég held að borgi sig að fara sér hægt. Hver veit nema spjöldin þyki jafn hallærisleg og slædsmyndir þykja nú, eftir áratug. Hver veit nema Vefurinn fyllist svo af óábyggilegu rusli að ekki einu sinni Gúgull frændi finni réttu svörin eftir nokkur ár. Hver veit nema Gúgull sjálfur deyi drottni sínum, eins og Altavista sáluga eða IRC-ið o.s.fr.

 

Ég sé sem sagt ekki ástæðu til að umbylta skólastarfi bara af því menn hafa eignast nýjar græjur. Á hinn bóginn finnst mér lofsvert hve menn eru duglegir að prófa þessar nýju græjur í kennslu og fara nýjar leiðir að markinu. Öll tilraunaverkefni kennara eru af hinu góða því hafi kennarinn áhuga á því sem hann er að gera (t.d. prófa eitthvað nýtt) þá skilar það sér í betri kennslu. Tilraunir í kennslu hafa nefnilega sams konar lyfleysuáhrif og þau frægu þunglyndislyf. Og um þetta gildir hið sama: Þegar verið er að meta árangurinn verður að hafa lyfleysuáhrifin í huga.

 

 

 

 

Ummæli (9) | Óflokkað, Skólamál