26. nóvember 2013

Ritdeilur fyrr og nú

Ég hef aðeins tekið eftir því að nú hefur skorist í odda með Evu Hauksdóttur og Hannes Hólmsteini Gissurarsyni um ýmislegt. Það eina sem hefur vakið áhuga minn í þeirri deilu og umfjöllun annarra um hana eru kýtingar um læk eða ekki læk, t.d. á að telja læk eða á ekki að telja læk, má skrá niður lækara eða má það ekki, hvað felst í læki og hvað felst ekki í læki ekki o.s.fr. Mér finnst líka áhugavert hve margir tjá sig um þetta og hve ógnarhratt blogg, Fb. statusar og kommentahalar staflast upp um þetta mikilvæga atriði (svo ekki sé minnst á öll lækin við statusana og svarhalana).

 

En í kvöld hef ég unað mér við að lesa gegnum aðra ritdeilu, sem fór fram fyrir meir en 120 árum síðan. Þá fóru ritdeilur ólíkt hægar fram. Þeir tveir karlmenn sem deildu voru ósammála um ýmislegt, alveg eins og þau Eva og Hannes Hólmsteinn. Eftirtektarverðast fannst mér hvernig þeir gátu kýtt um hraða í prjónaskap. Hér að neðan er helsta rökfærslan í því hitamáli rakin og lesendur geta velt því fyrir sér hvort sé nú merkilegra að rífast um hraða prjóns eða talningu læka.

 

Þorkell Bjarnason. Fyrir 40 árum. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags. 13. árg. 1892, s. 170-258:

Undir eins og börn komu nokkuð til vits, var þeim kennt að prjóna, og það eigi síður piltbörnum en stúlkubörnum. Sátu þá flestir yngri og eldri við að vinna prjónles fram að jólum. Var börnum sett fyrir, úr því þau voru orðin 8 vetra, að skila vissu prjónlesi eptir vikuna, venjulega tvennum sjóvettlingapörum, og meira eptir því sem þau eltust, en fullorðið fólk vann eingirnis- og tvíbandssokka eða þá duggarapeysur, og var hið mesta kapp lagt á vinnu þessa, enda voru þá bæði karlar og konur mjög fljót að prjóna.  Prjónuðu tveir og tveir saman peysubolina og yfir höfuð stór föt, og þótti vel gert, ef tveir luku við peysubolinn á dag, og varð það því að eins, að lengi væri vakað. (s. 207-208 )

  

Ólafur Sigurðsson. “Fyrir 40 árum” Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags. 15. árg. 1894, s. 198-246:

Hann [Þorkell] segir, að það hafi þótt vel gjört af tveimur, að prjóna peysubolinn á dag. En vissi jeg af stúlku, sem kom honum af einsömul. Jeg vissi líka bæði af karlmönnum og konum, sem prjónuðu parið af hæðarsokkum á dag, en heldur prjónaði þetta fólk í lausara lagi; dagsverkið var mikið fyrir því. (s. 226 )

  

 Þorkell Bjarnason. “Fyrir 40 árum”. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags. 16. árg. 1895, s. 204-229.  

Eitthvert misminni hlýtur það að vera hjá höf. [Ólafi], að nokkur stúlka hafi prjónað peisubol á dag eins og hann segir á bls. 228, nema svo sje, að það hafi verið barnspeisubolur. Hinir allra fljótustu karlar og konur - þá prjónuðu margir karlmenn eins og kvennmenn - prjónuðu duggarapeisubolinn saman tveir á dag, og var orð á þeim gjört fyrir flytir, er það það gátu. Fljótastan prjónakvennmann heyrði jeg nefndan í ungdæmi mínu Guðrúnu Þorvaldsdóttur. Ætla jeg að hún hafi verið - þó jeg muni það ekki fyrir víst - systir Þorvaldar “stutta” og bræðra hans, er allir voru kunnir í Skagafirði í ungdæmi mínu. Vissi jeg til, að Guðrún þessi prjónaði á móti karlmanni peisubol á dag, og það jafnvel dag eptir dag, og þóktust þau fullhert, enda var það talið atkvæða verk. (s. 216 )

 

Ólafur Sigurðsson. “Svar til sjera Þorkels Bjarnasonar frá Ólafi Sigurðssyni”. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags. 17. árg. 1896, s. 159-165:

Höf. [Þorkell] heldur það sje misminni hjá mjer, að nokkur stúlka hafi prjónað peisubol á dag.  En jeg þekkti þó eina, sem gjörði það; hún hjet Halldóra og kom hingað vestan úr Húnavatnssýslu; en hún hafði líka gott lag á að tefja sig ekki að óþörfu, því, þegar hún var búin að fitja upp, dró hún fitina saman með tygli, til þess ekki færi fram að prjónunum, en þeir voru býsna fullir, því hún prjónaði bolinn að eins á 4 prjóna, svo hún þurfti ekki að tefja sig á, að hafa opt prjónaskipti. Jeg tók það fram í ritgjörð minni, að þetta fólk hefði prjónað heldur laust, en um það var ekki fengizt, þegar prjónlesið gekk viðstöðulaust í kaupstaðinn. (s. 163 )

 

 

Ég efast um að nokkurn tíma fáist skorið úr deilumálunum hversu hratt konur í Skagafirði gátu prjónað um miðja nítjándu öld eða hversu mikilvæg lækin eru seint á árinu 2013. Maður verður bara að njóta deilanna án niðurstöðu.

 

 

 

Ein ummæli við “Ritdeilur fyrr og nú”

  1. Harpa Jónsdóttir ritar:

    Mikið rétt nafna. En ólíkt eru eldri deilurnar nú skemmtilegri aflestrar.