Færslur frá 3. janúar 2013

3. janúar 2013

Hugs

Ég hef dálítið verið að hugsa um hvernig maður hugsar, upp á síðkastið. Kveikjan að þessu hugsi um hugs var grein sem ég las eftir Keith Oatley sem fjallaði um hvernig ritun skáldverka kallaði á sérstaka tegund hugsunar og einnig um hvaða máli lestur skáldverka skipti fyrir hugsun manna. Svo er ég með fleiri greinar eftir sama mann ólesnar og vonast til að finna í þeim meira um hvernig fólk hugsar … er fjarri því komin að neinni niðurstöðu og þessi færsla því tómar vangaveltur út í bláinn en meinholl eigi að síður fyrir mína eigin hugsun.

Í baghovedet dúkkaði upp klausan fræga Decartes, cogito ergo sum! Til að stytta mér leið spurði ég heimspeking heimilisins út í þessa klausu (hefði svo sem eins getað brúkað Gúgul frænda en það fer vel á því að kona spyrji mann sinn heima eins og allir vita). Heimspekingurinn sagði að Decartes hefði verið að velta fyrir sér hvort hann væri mögulega blekktur um alla hluti og það sem honum þætti veruleiki væri einungis blekking og tál, eiginlega sýndarveruleiki. (Í rauninni er miklu merkilegra, finnst mér, að Decartes hampaði hugmynd um sýndarveruleikann heldur en þessi klisja sem höfð er eftir honum!) Og Decartes komst að þeirri niðurstöðu að þótt veruleikinn væri e.t.v. blekking og tál væri að minnsta kosti eitt sem hann gæti verið viss um að væri raunverulega til, nefnilega hugsun hans sjálfs/hann sjálfur sem hugsandi vera. Þegar þar var komið sögu var hann ekki enn viss um að líkami sinn væri til en svo verður hann viss um fleira og fleira … ég rek ekki þá sögu lengur hér.

Sem sagt: Decartes vissi að hann var til af því hann hugsaði. Ég hugsa um hugs og er enn fjarri því að véfengja eigin tilveru: Cogito cogitandi ergo sum! Samt hef ég margoft upplifað að umhverfið verður óraunverulegt, að ég sjálf sé óraunveruleg eða a.m.k. ósýnileg og alls konar aðra vitleysu sem fylgir djúpu þunglyndi. Tek fram að þessi undarlega tilfinning, eiginleg firring, á ekkert skylt við að missa raunveruleikatengsl því maður gerir sér algerlega grein fyrir því að tilfinningin er röng þótt hún sé mjög sterk; Ég veit ósköp vel að ég er í alvöru ekki inni í ísmola eða bakvið hljóðhelt spegilgler þótt mér finnist það. Þessi krókur inn í lýsingu á velþekktri þunglyndistilfinningu er annars útúrdúr …

Fólk hugsar í orðum … en fæstir hugsa í heilum setningum. Og fólk hugsar í myndum. Sumir, þ.á.m. ég, tengja liti við allt mögulegt, mér finnast nöfn og hvers lags tónlist ævinlega hafa mismunandi liti. Svo hugsar fólk í tilfinningum, skv. Oatley, sem ég held að sé alveg örugglega rétt: Tilfinningar hafa áhrif á hugsun og hugsun kveikir tilfinningar - eru einhver merkjanleg skil milli þessa?

Áhugi minn á Keith Oatley kviknaði aðallega vegna þess að hann hefur skrifað mikið um hvernig skáldbókmenntir geti beinlínis gert fólk klárara og hæfara. Þær eru ekki bara til að “auðga andann” á einhvern óljósan hátt. Ég er hins vegar ekki búin að lesa nóg eftir Oatley til að fjalla um þetta í þessari færslu, skilningur minn á málflutningi hans er enn frekar yfirborðskenndur. En það gleður mig ósegjanlega að fá staðfestar, meira að segja með vísindalegum aðferðum (!), þær hugmyndir sem við móðurmálskennarar höfum lengi haft að leiðarljósi, nefnilega að það sé nemendum hollt og mannbætandi að lesa bókmenntaverk og æfa sig að skrifa sæmilegan texta, og spillir ekki að fá sönnun þess að þetta athæfi geri nemendur væntanlega klárari.

Mér fannst merkilegt að lesa um spennubókarhöfundinn Howard Engel. Hann fékk heilablóðfall sem hafði þær afleiðingar að hann gat ekki lesið, þ.e.a.s. hann gat kveðið að og stautað sig þannig fram úr orðum á blaði og skildi merkingu þeirra þegar hann sagði þau upphátt en ekki skilið orðin eins og þau stóðu á blaðinu. Engel gat samt áfram samið texta og skrifað bækur. Hann var sem sagt með alexiu án agraphiu - lesstol án skrifstols? Mér fannst þetta aðallega merkilegt af því að í djúpu þunglyndiskasti hætti ég oft að geta lesið en þau skipti sem ég hætti að geta skrifað eru teljandi á fingrum annarrar handar. Ég hætti sem sagt að ná nokkru sambandi við texta á blaði / skjá, get vissulega lesið öll orðin en næ ekki merkingunni, næ ekki að halda athyglinni, næ ekki að muna það sem ég les: Töfrar textans hverfa. En ég get yfirleitt bloggað eða skrifað annan texta. Miðað við sögu Engels er þessi virkni þá væntanlega ekki á sama stað í heilanum.

Það var líka áhugavert að lesa um rannsókn sem rússneski sálfræðingurinn Luria gerði í Úzbekistan á fjórða áratug síðustu aldar. Hann bar saman tvo 15 manna hópa fólks, annar hópurinn var ólæs með öllu en hinn hópinn skipaði fólk sem hafði eitthvað lesið þótt lítið væri. Ein þrautin sem hann lagði fyrir hópana var: “Lengst í norðri, þar sem allt er þakið snjó, eru allir birnir hvítir. Novaya Zemlya er lengst í norðri. Hvernig eru birnirnir þar á litinn?” Af þeim 15 ólæsu sem spurðir voru gátu einungis 4 svarað spurningunni. Hinir fóru undan á flæmingi, sögðu t.d. að þeir vissu ekki svarið því þeir hefðu aldrei komið til Novaya Zemlya. Allir 15 í læsa hópnum svöruðu spurningunni rétt þótt skólaganga þeirra hefði verið örstutt og sumir væru rétt stautfærir.

Í hugsinu um hugs velti ég því líka fyrir mér hvort það geti ekki verið hamlandi, jafnvel forheimskandi, að binda hugsanir sínar á klafa þess eins sem hægt er að sannprófa. Mætti segja að hinir ólæsu Novaya Zemlya búar gerðu einmitt það. Er hægt að vera svo vísindalega þenkjandi að það leiði til einfeldni, jafnvel heimsku? Sá sem einungis sér sólarljósið sem hvítan geisla og skilur ljóðið einungis eftir orðanna hljóðan og skynjar mannlífið einungis eftir tölulegum upplýsingum lifir snauðu lífi og hans geð er lítið.

Ljóðið einfalt og tært
eins og ljós sólar
í einum lit
fyrir augum þínum
eins og ljós sólar
unz þú lýkur því upp

allt eins og dropinn
sem opnar hinn hvíta geisla

(Heimar eftir Hannes Pétursson)
 

P.s. Þessi færsla er líklega ruglingsleg en hvernig má annað vera þegar kona reynir að orða hugsanir sínar um hugs?
 
 
 

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf