Færslur frá 21. janúar 2013

21. janúar 2013

Netbúrkur, hótanir, mannorðsmorð …

Mér hefur af og til runnið kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég les athugasemdadálka við fréttir á netmiðlum, einkum dv.is og eyjan.is. Blessunarlega þaggaði úttekt áramótaskaupsins aðeins niður í verstu netböðlunum en bara í nokkra daga … svo tóku þeir á ný við að rótast eins og naut í flagi.

Fyrir tilviljun eða öllu heldur misskilning fékk ég lánaða glænýja rafbók sem heitir Skrivbordskrigarna, eftir sænska blaðamanninn Lisu Bjurwald (í því ágæta sænska rafbókasafni sem bókasafn Norræna hússins veitir aðgang að). Misskilningurinn var að ég hélt að bókin fjallaði um netsóða almennt en hún fjallar um öfgahópa á netinu, frá öfga-múslimum til nýnasista og öfgahægrimanna. En vissulega kemur Lisa Bjurwald inn á netsóðaskap almennt, fyrsti kaflinn heitir Nätets mörka sida. Í upphafi hans tínir Lisa til nokkur dæmi um óðgeðsleg nafnlaus komment sem hafa verið skrifuð um hana sjálfa og hið fyrsta stakk í augu því það hefði svo vel getað birst um Hildi Lilliendahl! Eins og allir vita hefur Hildur Lilliendahl Viggósdóttir orðið einna verst fyrir barðinu á úrhrökum netsins, sem eru því miður of mörg þótt þau séu fá. Þetta er fyrsta dæmið um komment í garð Lisu Bjurwald:

Skulle knappast tacka nej till at straffknulla den här korsade horan och lägga min ariska såd i munnen på henne.

(Af umræðuþræðinum “SKVALLER om journalisten Lisa Bjurwald?” á Flashback.org 7. júní 2011.)

Íslensk ógeðskomment í líkum dúr beinast yfirleitt gegn femínistum. En Lisa Bjurwald er ekki talskona femínista heldur hefur hún fjallað um nýnasisma í mörg ár, rasisma, pólitíska öfgahópa o.s.fr. Svo ég fór að velta fyrir mér hvort einföldum aumum körlum á netinu dytti ævinlega í hug þetta sama gamla til að ná sér niðri á konum sem þeir eru ósammála eða þeirra ættmennum, sumsé að fífla konuna. Í Íslendingasögunum eru fíflingar af sama meiði og víg, munurinn er sá að aumingjarnir sem þora ekki í manninn brúka það ráð að fífla frænku hans eða systur eða einhverja þá konu sem hetjan telur sig vandabundna. Fáum sögum fer af því hvernig þessum kvenkyns aukapersónum þótti að láta fífla sig en yfirleitt náðu aumingjarnir takmarki sínu, sem var að æsa upp hin sönnu karlmenni. Í þessu kommenti hér að ofan dettur þessum sænska netminnipokamanni það helst í hug að fífla hana Lísu. Er mögulegt að íslenskir netminnipokamenn hóti femínistum nauðgun af því þeir eru of miklir aumingjar til að beita öðru en aumingjahótun?

Nú, af algerum áhugaskorti á þeim banala fulltrúa lágkúrunnar Breivik og liði af hans tagi (bókin fjallar að stórum hluta um þetta) hraðrenndi ég í gegnum hina kaflana. En tók þó eftir talsverðri umfjöllun um fyrirbærið dold.se og fór að skoða það á netinu.

Í Svíþjóð virðist einkar blómlegur markaður fyrir þá þjónustu að fela netspor manna. A.m.k. benda ábendingar í færslunni Surfa anonymt: Här är bästa tjänsterna! á TkJ Sveriges största IT-blogg til þess, þar sem talin eru upp sjö fyrirtæki sem selja mönnum “órekjanleika” á netinu. Á vefsíðu dold.se segir: Vafraðu nafnlaust - það er fylst með þér! Og síðan:

Visste du at din internetoperatör lagrar varje länk du följer på internet, varje sökning du gör på Google (inklusive de ord du söker på!) och subjectraden i varje mail du skickar? Din IP-adress avslöjar vart du bor och vad du gör på nätet.

Hm … líklega er allt svona um mig skráð sjálfkrafa hjá Vodafone en hverjum er ekki sama? Og hver ætti sosum að kíkja á þetta? Svo fremi sem maður er ekki á kafi í glæpsamlegu athæfi held ég að þetta skipti frekar litlu máli (og á kafi í glæpsamlegu athæfi eru örugglega meir aðkallandi vandamál en möguleg skráning Gúguls-athæfis á IP-tölu). Eini maðurinn sem ég hef kynnst (og það einungis í netkynnum) sem hefur sýnt sérstakan áhuga á IP-tölum er Matthías Ásgeirsson vantrúarfélagi ;)

En Svíum þykir greinilega vænt um sitt anonymitet, annars þrifust ekki auðkenningarafskrúbbunarfyrirtækin. Haustið 2011 reyndi dagblaðið Dagens Nyheter að loka nafnlausum athugasemdavettvangi við sínar fréttir en neyddist til að bakka með þá ákvörðun. Akkúrat núna geta menn skrifað undir dulnefni en þurfa að vísu að skrá sig inn á svoleiðis dulnefnisvettvang svo blaðið getur væntanlega alltaf rakið hver stendur að baki hverri athugasemd. Auk þess er gefinn kostur á að skrifa athugasemdir gegnum Facebook.

Ég sleppi því að fjalla um sjóræningjabanka, gósenland barnaníðinga sem svona auðkenningarafskrúbbun færir þeim, áskorun dönsku löggunnar um að banna svoleiðis skrúbbun í Danmörku o.s.fr. Skrúbbunina hefur ekki borið á góma á Íslandi svo ég viti.

Hér uppi á því kalda Íslandi bera menn yfirleitt ekki netbúrkur. Yfirleitt ekki … en frá því eru of margar undantekningar. Í athugasemdamöguleikum við fréttir netmiðla er núorðið krafist að menn noti Facebook-aðgang sinn. Það kostar því það vesen og fyrirhöfn að falsa Facebook (og raunar þarf að byrja á að stofna netfang undir fölsku flaggi, því Facebook krefst virks netfangs) vilji menn íklæðast netbúrku. Ég er samt viss um að hver einasti sæmilega virkur notandi á Facebook kannast við feik-Feisbúkk-síður. Það er enginn vandi að verða svoleiðis netbúrka, stofna t.d. Facebook síðu undir nafninu Karlmenni að vestan og bauna síðan naugðunarhótunum og hótunum um limlestingar, illgjörnu slúðri, hvatningum til að kasta grjóti í heimili manna og rústa bílunum þeirra o.s.fr. á athugasemdadálka netmiðla. Þeir sem eiga að vakta athugasemdadálka Eyjunnar og DV eru líklega sofandi sauðir hefur mér sýnst.

Á mínu eigin bloggi er upp og ofan hvort fólk skrifar undir fullu nafni, fornafni eða dulnefni. Stundum er vel skiljanlegt að fólk noti ekki fullt nafn/nafn, t.d. í kommentum við færslur sem fjalla um persónulegan vanda eða sjúkdóma. Stundum skýrist þetta eingöngu af því að umfjöllunarefnið höfðar sérstaklega til netbúrkuhópa, t.d. færslur um Vantrú eða femínísta. Ég fullvissa netbúrkurnar um að ég nenni alls ekki að fletta upp IP-tölunum þeirra svo það er óþarfi að logga sig inn á eitthvert millistykki/þjón í útlöndum til að fela hana, bara vesen …

Nafnlaus blogg eru orðin svo fáséð hérlendis að það tekur því ekki að minnast á svoleiðis. 

Eftir stendur að vissulega er áhugavert að lesa um netósóma í Svíþjóð, öflugt starf öfgahópa á Norðurlöndum á netinu og fá nasasjón af þrá Svía til að vera órekjanlegir á internetinu. En miklu miklu merklegra er að sjá ósómann og ógeðið sem vellur upp úr dálitlum hópi Íslendinga (ég giska á sá hópur sé langt innan við hundraðið, við dyggan lestur fer maður að þekkja sömu nöfnin æ ofan í æ) á athugasemdadálkum netmiðla, undir fullu nafni og mynd af viðkomandi! Þetta eru líklega svo miklir aumingjar að þeir megna ekki einu sinni að íklæðast netbúrku …

  

Ummæli (5) | Óflokkað, Daglegt líf