Færslur febrúarmánaðar 2013

27. febrúar 2013

Einn dag í senn …

Það er nokkuð um liðið síðan ég bloggaði stöðufærslu. Svoleiðis færslur eru ómetanlegar til lengra tíma litið svo ég bæti úr því núna.

Ég lenti í djúpri þunglyndisdýfu milli jóla og nýjárs og hef ekki kraflað mig almennilega upp úr henni ennþá. Hver dagur snýst því um að lifa af list, að eiga nokkurn veginn mannsæmandi líf þrátt fyrir þunglyndið. Þetta tekst misjafnlega vel en miðað við önnur svona tímabil gengur mér vel. Suma daga líður mér vissulega eins og einhver hafi dáið, er full af sorg að ástæðulausu, eða að ég hafi framið morðið, er full af sektarkennd að ástæðulausu. En ég er dugleg að segja mér að þetta séu falskar kenndir, þær líkjast sorg og sektarkennd en af því ástæðuna skortir eru þær draugatilfinningar, alveg eins og draugaverkir í útlimum sem fólk hefur misst. Reikna með að allir þunglyndissjúklingar kannist við svona draugalíðan.

Eitt einkennið á djúpri geðlægð minni er truflun á tímaskyni. Það er hreint ekkert draugalegt við þetta afar skýra einkenni; tíminn líður einfaldlega mjög óeðlilega hægt. Ég er kannski að dúlla mér eitthvað, lít á klukkuna, lít aftur á klukkuna eftir klukkutíma og þá sýnir klukkan að liðnar séu 5 mínútur. Þegar heilsan er nokkurn veginn í lagi er ég með algerlega eðlilegt tímaskyn. Núna finnst mér að það sé hátt í ár frá jólum, finnst að janúar og febrúar hafi spannað óralangan tíma. Líkamleg einkenni eins og truflun á jafnvægisskyni/stöðuskyni eru líka skýr. Þegar ég met hversu veik ég er hverju sinni horfi ég m.a. á þessi einkenni enda eru þau ekki matsatriði. Hvað matsatriði varðar hef ég fyrir löngu gefið spurningalista geðheilbrigðiskerfisins upp á bátinn, vitandi að geðheilbrigðiskerfið sjálft tekur ekki mark á þeim. Svo ég treysti betur á mælitækið sunnudagskrossgátu moggans, samkvæmt því hef ég oft verið frískari (en raunar oft verið veikari líka).

M�ronNú er ég komin nokkuð áleiðis í að trappa niður síðasta lyfið, geðlyfið Míron (mirtazapín) sem ég hef etið í tæp tvö ár, til hvers veit ég ekki því Míron hefur hvorki virkað fyrirbyggjandi né til bóta í mínu þunglyndi síðustu 12 árin, hef þó oft verið látin taka þetta lyf á þeim tíma og allt upp í þrefalda ráðlagða dagskammta. Ég hugsa að geðlækninum mínum fyrrverandi hafi þótt ákjósanlegt að hafa sinn sjúkling á einhverjum lyfjum því þá gæti hann haldið því fram að hann væri að veita læknismeðferð. Af minni löngu reynslu sem sjúklings veit ég að hans læknismeðferð er einungis fólgin í lyfjum, stundum í óhóflegu magni, eða raflostum. Líklega datt honum bara ekkert annað í hug eftir hina skelfilegur Marplan-tilraun en sömu margprófuðu pillurnar sem ekki höfðu skilað árangri.

Jæja, ég ákvað að nýta þessa mína löngu reynslu til að læra af henni og las mér líka almennilega til um þetta lyf. Reynslan sýnir að sjúklingur eins og ég verður að setja sig inn í slatta af lyfjafræði, geðlæknisfræði, tölfræði o.fl. og nýta landsaðgang að ritrýndum tímaritum á þessum sviðum.

Mirtazapín fellur mjög í skuggann af SSRI-lyfjum og yfirleitt nenna menn ekki að eyða púðri á það, í greinum um slæmar aukaverkanir eða langtíma skaðlegar verkanir af þunglyndislyfjum. Lyfið nýtur og þess vafasama heiðurs að “vísindaleg umfjöllun” um það er með skekktustu umfjöllun af raunverulegri virkni lyfs við þunglyndi (sjá mynd 3 í þessari grein). Þótt einhverjir geðlæknar haldi í alvörunni að það sé ekkert mál að snögghætta á þunglyndislyfjum vita margir sjúklingar sem reynt hafa að svo er ekki. Ég fann eina frásögn af konu sem snögghætti að taka tvöfaldan dagskammt af Míron og veiktist illa. Þó gaddaði konan í sig 0,5 mg af Rivotril meðfram Míroninu og hélt því áfram. Öllu hæpnari finnst mér frásögn af konu sem tók hálfan dagskammt af Míron í viku, hætti því og veiktist illa því hluta einkennanna mætti skrifa á þunglyndi sem hrjáði konuna og væri til staðar ennþá. Höfundar síðarnefndu greinarinnar túlka þetta þó sem fráhvörf af Míroni.

Almennt er það mín reynsla af jójó-þunglyndislyfjaáti, þ.e. þegar ég hef verið látin snögghætta á einu lyfi og snöggbyrja á öðru, að það geti valdið alvarlegum sjúkdómseinkennum, svona eftir á séð skv. skriflegum gögnum. Þótt sljóvgandi lyf sem mér voru gefin meðfram dragi úr slíkum einkennum (þau draga raunar úr öllu og stuðla að zombie-ástandi). Svoleiðis að ég ákvað að hafa allan varann á og ætla mér marga mánuði í að trappa niður Míron.

Núverandi geðlæknirinn minn benti á þau rök að minnkun Mírons gæti framkallað þunglyndiskast sem gerði mig óvinnufæra (sem yrði mér gífurlegt áfall) og að e.t.v. væri virka efninu ekki jafndreift í töflurnar. Mér þótti þetta að sumu leyti góð rök en leist ekkert á að draga Míron-tröppun fram á sumarið, vitandi það að vetrarbyrjun hefur oft reynst mér erfiður tími. Ég ræddi þetta við eiginmanninn og hans skoðun var sú að þótt ég veiktist talsvert yrði ég líklega áfram vinnufær að hluta því honum sýndist að það sem gerði mig algerlega óvinnufæra væru lyfin sem mér voru ávísuð, þ.e. þegar óæskileg áhrif þeirra bættust ofan á mjög alvarlegt þunglyndi. Þessu er ég sammála enda get ég ekki séð annað af lestri eigin gagna (bloggs). Ég er sannfærð um að hefði ég einungis þurft að glíma við svæsið þunglyndi hefði ég aldrei orðið með öllu óvinnufær, hvað þá í þrjú ár!

Næsta skref var að kanna þetta með dreifingu virka efnisins í Míron-töflum Actavis. Í mínum heimabæ er mikið ágætis apótek sem kannaði þetta fyrir mig. Í ljós kom að virka efninu er jafndreift en Actavis benti jafnframt á að til væru 15 mg töflur; heimilislæknir ávísaði þeim fyrir mig og þetta gerir tröppun talsvert auðveldari.

Ég lækkaði skammtinn um 7,5 mg, úr 30 mg (einföldum dagskammti). Eftir rúmlega tvær vikur á þessum lægri skammti komu fráhvarfseinkenni fram. Þau eru einkum hitakóf, kölduhrollur og önnur flensulík einkenni og verkir í neðri kjálka (sem ég hef ástæðu til að ætla að séu síðhvörf af Rivotril) versnuðu talsvert, andvökur jukust. Í gamla daga hefði ég getað synt gegnum þetta sljó af Rivotrili eða Serouqueli en svo er ekki nú (guði sé lof). Þunglyndið hefur hins vegar ekkert breyst, hvorki versnað né batnað. Mér sýnist af þessu að dæma að áætlunin sem ég hafði um að taka a.m.k. sex vikur í hverri tröppu sé raunsæ og líklega minnka ég skammtinn ekki nema um 3,75 mg næst. Mér er nákvæmlega sama hvaða skoðun geðlæknar hafa á því hversu auðvelt sé að hætta á Míroni, nú skrái ég eigin reynslu og bý mér til áætlun í samræmi við hana. Enda er það ég sem er að hætta á Míron.
 

Í dag hef ég reynt að setja mér skemmtileg verkefni, það er nauðsynlegt til að gera minna góða daga skárri. Ég hef aðallega verið að hanna munstur og reikna út uppskrift (og þakka enn og aftur fyrir að hafa lært þá góðu aðferð þríliðu). Til að vera góð við mig í gær keypti ég nýjustu bókina hans Jussi Adler-Olsen og hlóð inn á Kindilinn. Ég á eftir að undirbúa smávegis fyrir kennslu í fyrramálið en það gengur væntanlega smurt. Og svo fer drjúgur tími í að sansa Fr. Dietrich; Frændi hennar, málfarskötturinn Eiður, er nefnilega fluttur inn og býr hér næsta hálfa árið …
 
 
 

Ummæli (7) | Óflokkað, Geðheilsa

24. febrúar 2013

Vísindasjóður FF og FS

Í þessari færslu er reynt að gera grein fyrir illvígum deilum stjórnar Vísindasjóðs FF og FS við KÍ, dómsmáli sem stjórn Vísindasjóðs tapaði á dögunum, kostnaði af þessum deilum og spurt hvers vegna þriðjung af stjórn Vísindasjóðs skipar kona sem er í hvorugu stéttarfélaginu sem sjóðurinn tilheyrir. Eins og kemur fram í niðurstöðum í lok færslunnar tel ég að stjórn Vísindasjóðs FF og FS sé komin langt frá því hlutverki sem hún var kjörin til að gegna, með sama áframhaldi valdi hún eigendum sjóðsins, t.d. okkur framhaldsskólakennurum, æ meira fjárhagstjóni og að það leiki vafi á að þessi stjórn sé löglega skipuð. Þetta er flókið mál en ég geri mitt besta til að rekja málavexti í færslunni. 
  
 

Hvað er Vísindasjóður FF og FS?

Vísindasjóður Félags framhaldsskólakennara, FF, og Félags stjórnenda í framhaldsskólum, FS, (sem eru aðstoðarskólameistarar, áfangastjórar og aðrir aðstoðarstjórnendur), á að standa einhvern straum af endurmenntun og framhaldsmenntun félagsmanna í þessum félögum. Fé til sjóðsins kemur frá launagreiðanda, aðallega frá ríkinu, og nemur upphæðin 1,5% af föstum dagvinnulaunum félagsmanna.  Félagsmenn í FF og FS geta sótt um endurgreiðslu kostnaðar vegna endurmenntunar sinnar úr þessum sjóði og er endurgreitt eftir ákveðnum reglum. FF og FS eru aðilar að regnhlífarsamtökunum Kennarasambandi Íslands, KÍ, eins og mörg önnur stéttarfélög kennara, hafa aðstöðu í Kennarahúsinu og nýta sameiginlega skrifstofuþjónustu o.fl. sem þar er rekin.

Stjórn sjóðsins er kosin á aðalfundum FF og FS og þiggur því umboð sitt frá aðalfundi en ekki stjórnum félaganna. Núverandi stjórn var kosin á aðalfundum árið 2011. Í henni sitja Þórey Hilmarsdóttir, formaður, og Linda Rós Michaelsdóttir sem eru fulltrúar FF og Elísabet Siemsen sem er fulltrúi FS.

Það sem stingur sérstaklega í augu við þessa stjórn er að Linda Rós Michaelsdóttir hefur starfað sem skólameistari MR frá því 1. ágúst 2012 og er þ.a.l. ekki í stéttarfélögunum sem eiga þennan sjóð. Henni er óheimilt sem skólameistara að vera í stéttarfélagi og hún er því núna í Skólameistarafélagi Íslands, SMÍ. Það er afar undarlegt að kjörinn varamaður hafi ekki verið kallaður til þegar Linda Rós varð skólameistari.
 
 

Deila Vísindasjóðs við KÍ

Það er ákaflega erfitt að komast til botns í þessari deilu þó á yfirborðinu sé ljóst um hvað hún snýst. Hún hlýtur að eiga sér duldar skýringar því annars væri hún ekki svo hatrömm. Þær opinberu upplýsingar sem hafa birst segja að deilan snúist einkum um hvernig bókhald KÍ er fært og telur stjórn Vísindasjóðs að sjóðurinn hafi orðið af nokkru fé vegna þessa. Í bréfi sem stjórn Vísindasjóðs sendi félagsmönnum í FF og FS þann 20. október 2011 og sjá má í fréttinni sem krækt er í segir:
 
 

Af þeim gögnum sem hafa verið skoðuð er m.a. ljóst að tekjur sjóðsins frá ríkinu, rúmlega 8 milljónir í hverjum mánuði, eru færðar út af bankareikningi sjóðsins og inn á bankareikning KÍ. Þar liggja peningar sjóðsins í nokkrar vikur þar til þeim er skilað aftur til rétts eiganda. Vextir af þessum peningum skila sér ekki til sjóðsins né hefur sjóðurinn þessar fjárhæðir til ráðstöfunar meðan þær liggja annars staðar. Í febrúar 2011 voru febrúartekjur sjóðsins, rúmlega 8 milljónir, teknar út af reikningi sjóðsins viku áður en janúartekjum var skilað til baka. Í heila viku lágu að minnsta kosti 16 milljónir af peningum sjóðsins á reikningi KÍ. Til að koma í veg fyrir að tekjur sjóðsins væru millifærðar reglulega inn á reikning KÍ gaf sjóðstjórn formleg fyrirmæli um að engar greiðslur ættu sér stað af bankareikningi sjóðsins nema með samþykki sjóðstjórnar. Undanskildar voru styrkgreiðslur skv. listum frá ritara sjóðsins. Þessum fyrirmælum var í engu svarað né orðið við þeim.

 

Fjársýsla ríkisins greiddi (og greiðir) umsamda upphæð vegna endurmenntunar félaga í FF og FS beint inn á reikning KÍ og neitaði að breyta því fyrirkomulagi á þeim forsendum að kennitala Vísindasjóðs væri ekki á svokölluðum BIK reikningi sem greitt var inn á. BIK stendur fyrir Bókunar- og innheimtumiðstöð KÍ og er skráð á kennitölu KÍ. Fjársýsla ríksins greiddi ýmis gjöld ósundurliðuð inn á þennan reikning mánaðarlega og starfsmenn KÍ færðu svo upphæðina sem Vísindasjóði bar inn á sérstakan reikning Vísindasjóðs. Vissulega varð Vísindasjóður af vaxtatekjum af sínu fé vegna þessa fyrirkomulags. Óvíst er hversu háa upphæð var um að ræða en sé miðað við dæmin sem tekin eru í bréfi Vísindasjóðs hér að ofan má áætla að um einhver hundruð þúsund króna á ári væri að tefla. Ætla má að lítið mál væri að semja um að áætlaðar bætur upp á ekki hærri upphæð yrðu endurgreiddar Vísindasjóði eða dregnar frá þjónustugjaldi því sem KÍ krefur endurmenntunarsjóði kennarafélaganna um.

Stjórn KÍ sendi frá sér yfirlýsingu 21. október þar sem ásökunum um bókhaldssvik í bréfi Vísindasjóðs var hafnað og áréttaði með annarri yfirlýsingu þann 22. nóvember 2011.

Stjórn Vísindasjóðs kvartaði einnig yfir að KÍ rukkaði sjóðinn um þjónustugjald sem ekki hafði verið samið um. Það er alveg rétt að KÍ rukkaði endurmenntunarsjóði o.fl. aðila um talsverða upphæð árlega skv. hefð en ekki samningi. Fyrir þetta þjónustugjald fékk sjóðurinn skrifstofuþjónustu, þjónustu endurskoðenda o.fl. Í kjölfarið á óánægju með þetta fyrirkomulag voru gerðir þjónustusamningar við þá aðila sem KÍ veitir aðstöðu og þénustar. Ég finn hvergi sundurliðun á þessum þjónustusamningum KÍ við endurmenntunarsjóði innan samtakanna (ósundurliðuð upphæð í fjárhagsáætlun KÍ var samþykkt á þingi samtakanna í apríl 2011). Í Ársskýrslu Vísindasjóðs til Fulltrúafundar FF 29. mars 2012 segir að þjónustugjald KÍ sé 5% af tekjum sjóðsins:
 

KÍ hefur gert kröfu á sjóðinn í nokkrum liðum.  Meðal annars gerir KÍ tilkall til 5% tekna sjóðsins fyrir  árið 2011 í þjónustugjöld. Sú krafa nemur tæpum 6 milljónum króna og til vara 3,7 milljónir í launfyrir árið 2011. Því má draga þá ályktun að aðstöðugjald sjóðsins hjá KÍ (fyrir utan laun) sé um 2,3  milljónir fyrir 9 mánuði árið 2011. Ennfremur gerir KÍ kröfu á sjóðinn vegna útlagðs kostnaðar semnemur 4,3 milljónum.  Unnið er að því að meta réttmæti krafna KÍ.Gerður hefur verið skammtímasamningur um aðstöðuleigu og greiðir sjóðurinn nú kr. 63.750 á mánuði eða rúmlega kr. 750.000 á ári fyrir aðstöðu.  Gera má ráð fyrir að sjóðurinn þurfi starfskraft í
20 – 30% starfshlutfall (áður var greitt fyrir 50% stöðugildi).

Deilur stjórnar Vísindasjóðs við einstaka starfsmenn KÍ virðast hafa magnast úr öllu valdi. Til þess bendir m.a. bókun fundi KÍ þann 25. mars 2011, samþykkt samhljóða:

Bókun um Vísindasjóð FF/FS
„Vegna athugasemda sem fram hafa komið frá hendi stjórnar VÍS FF/FS við störf starfsmanna KÍ við bókhald og fjármálaumsýslu sjóðsins vill stjórn KÍ færa eftirfarandi til bókar.
Þessar athugasemdir eiga ekki við rök að styðjast og lýsir stjórn KÍ yfir fullu trausti á störf  þeirra starfsmanna sem hér um ræðir, þ.e. skrifstofustjóra og gjaldkera sjóða. Störf þeirra við  bókhald og fjármál sjóðsins hafa verið í fullu samræmi við  lög og reglur.

Vegna vinnu löggiltra endurskoðenda sambandsins vill stjórn KÍ einnig taka fram að hún telur vinnu þeirra vera í fullu samræmi við lög og reglur. Stjórnin harmar vinnubrögð sjóðsstjórnarinnar og furðar sig á því að hún hafi ekki reynt til þrautar að afla upplýsinga hjá KÍ í stað þess að bera athugasemdir við störf umræddra starfsmanna undir álit þriðja aðila“.

Þessi bókun var seinna dregin til baka og sér hennar nú ekki stað í fundargerð á síðu KÍ.

Harðvítugar deilur má einnig lesa úr bréfi því sem stjórn Vísindasjóðs sendi félagsmönnum í FF og FS og e.t.v. fjölmiðlum einnig, þann 20. október 2011 en þar segir: 

  
Þegar sjóðstjórn varð ljóst að óeðlileg tregða var hjá starfsmönnum KÍ að afhenda bókhaldsgögn leitaði hún til löggilts endurskoðanda KÍ um að hann hlutaðist til um að bókhald sjóðsins yrði afhent. En allt kom fyrir ekki.
[- - -]
Fyrir utan ofangreint hefur starfsfólk KÍ sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir Vísindasjóð FF og FS neitað að hafa bein samskipti við sjóðstjórn. Starfsmaður KÍ hefur hótað sjóðstjórn meiðyrðamáli.

 

Stjórn Vísindasjóðs segir skilið við KÍ og formann FF

Þann 3. október 2011 afturkallaði stjórn Vísindasjóðs prókúru gjaldkera KÍ á bankareikning sjóðsins. Inn á þann bankareikning höfðu aðrir en Fjársýsla ríkisins greitt, þ.e. einkaskólar. Einhverra hluta vegna hafði fé þaðan verið fært inn á almennan reikning KÍ og síðan fært til baka ásamt hluta af þeim hluta af stóru summunni sem Fjársýsla ríkisins greiddi mánaðarlega ósundurliðað til KÍ sem Vísindasjóði bar. Þetta taldi stjórn Vísindasjóðs vera brot á bókhaldslögum.

Stjórn Vísindasjóðs heldur því fram, skv. reifun dómsmáls, að sjóðnum hafi verið vísað úr húsi [Kennarahúsinu] í nóvember 2011. Síðan þá hefur Vísindasjóður haft aðsetur að Bitruhálsi 2. Á almennum félagsfundi í FF þann 17. janúar 2013 sagði formaður stjórnar Vísindasjóðs að stjórninni hefði verið varpað á dyr úr Kennarahúsinu en litlu síðar á sama fundi túlkar hún höfnun KÍ á að afhenda stjórnarmönnum bókhaldsgögn sem þeim hafi verið „bolað úr húsinu“. Til að flækja málin segir stjórn Vísindasjóðs í ársskýrslu sem stjórnin sendi fulltrúarfundi FF 29. mars 2012 að það að KÍ hafi ekki viljað taka áfram við umsóknum um styrki úr Vísindasjóði eftir að stjórn Vísindasjóðs bar KÍ þungum sökum í bréfi til félagsmanna FF og FS og hafði tekið prókúru af KÍ jafngildi að sjóðnum væri úthýst úr KÍ húsinu. Þannig að hin dramatíska lýsing, varpað á dyr, virðist eitthvað málum blandin.
 
 

 Í fundargerð stjórnar FF frá 7. nóvember 2011 segir í samþykktri bókun:
 

Í ljósi þeirra aðstæðna sem skapast hafa sem fela meðal annars í sér að færa eigi starfsemi Vísindasjóðs FF/FS úr Kennarahúsinu harmar stjórn FF hvernig málum er komið.

Ljóst er að stjórn Vísindasjóðs var, þegar hér var komið sögu, ekki einungis uppsigað við einstaka starfsmenn í Kennarahúsi heldur einnig formann stjórnar FF og virðist sem stjórn Vísindasjóðs hafi neitað að taka þátt í fundum væri formaðurinn viðstaddur. Um þetta er skráð í fundargerð stjórnar FF þann 14. nóvember 2011:
 

Vegna þeirrar afstöðu stjórnar Vísindasjóðs FF/FS að formaður FF taki ekki þátt í þessum fundi vill stjórn FF taka fram að formaður ákvað í samráði við stjórnina að víkja sæti í þetta sinn. Stjórn FF leggur áherslu á að formaður FF er oddviti stjórnar og hlýtur í framhaldinu að sinna störfum sínum í þessu máli sem öðrum með eðlilegum hætti.
 

og í fundargerð stjórnar FF þann 5. desember 2011 er skráð: 
   

Orðið er gefið laust um fundinn 28. nóvember sl. og um framtíðina í samskiptum stjórnar FF og sjóðsstjórnar. Eftirfarandi samþykkt:
1. Tölvupóstur verði nýttur til að vinna með formleg, „konkret“ mál, önnur mál verði rædd augliti til auglitis óformlega og verði varaformaður FF tengiliður við sjóðsstjórn.
2. Óformlegir fundir sem tengiliður stjórnar FF á með FS og sjóðsstjórn verði fyrir opnum tjöldum, fyrirhugaðir fundir verði „tilkynntir“ áður en þeir eru haldnir, efni þeirra, fundargerðir og þess háttar komi inn á borð stjórnar FF.
3. Ekki kemur til álita að stjórnir FF, FS og Vísindasjóðs FF/FS hittist án formanns FF.

 

Vísindasjóður ræður sér lögfræðing og höfðar mál

Í janúar 2011 réði stjórn Vísindasjóðs sér lögfræðing vegna óánægju með hvernig bókhald KÍ var fært og komst stjórnin fljótlega á þá skoðun að KÍ bryti með þessu bókhaldslög. Í fundargerð stjórnar KÍ 9. júní 2011 sést að Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður er farin að ganga erinda stjórnar Vísindasjóðs og krefst þess að bókhald Vísindasjóðs verði aðskilið frá öðru bókhaldi KÍ og þau frumgögn KÍ sem snerta Vísindasjóð verði afhent stjórn Vísindasjóðs.

Skömmu síðar höfðaði stjórn Vísindasjóðs mál gegn KÍ, þ.e. sendi inn svokallaða innsetningarbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur. Innsetning felst í því að einhver er knúinn til þess að veita öðrum umráð yfir lausafé eða munum, með atbeina dómsyfirvalda. Í þessu tilviki krafðist stjórn Vísindasjóðs að KÍ afhenti sér aðgang að innheimtumiðstöð sinni, BIK-kerfinu, að því er varðaði allar færslur sem snertu fjárhag Vísindasjóðs frá árinu 2008. Í reifun málsins kemur fram að þessi gögn sem Vísindasjóður krefst umráða yfir eru  t.d. gögn um fyrir hvaða tímabil hafi verið greitt fyrir hvern sjóðsfélaga og sundurliðun á greiðslum KÍ til Vísindasjóðs, væntanlega framlagi Fjársýslu ríkisins sem KÍ tekur við og færir inn á reikning Vísindasjóðs.

Vörn KÍ byggist á því að þessi innsetningarbeiðni sé krafa um gögn sem Vísindasjóður haldi ekki fram að sé sín eign heldur telji að gögnin kunni að innihalda upplýsingar sem stjórn sjóðsins eigi rétt á að fá aðgang að. KÍ hafi nú þegar afhent Vísindasjóði allt sem sjóðurinn átti rétt á að fá eftir að stjórn hans ákvað að taka yfir þann hluta af starfsemi sjóðsins sem KÍ sinnti áður, þar á meðal bókhaldsgögn og gagnagrunn sjóðsins. KÍ sé ekki skylt að halda nákvæmt sundurgreint bókhald yfir inngreiðslur Fjársýslu ríkisins  til Vísindasjóðs þar sem Vísindasjóður hafi ákveðið að taka bókhald sjóðsins í eigin hendur.

Dómur féll í málinu þann 18. febrúar sl. Kröfu Vísindasjóðs var hafnað og dæmt að sjóðurinn skyldi greiða málskostnað KÍ, 300.000 krónur.
 
 

Vangaveltur um rétt stjórnar Vísindasjóðs og umsýslu Vísindasjóðs í höndum þessarar stjórnar
 

Þær Þórey Hilmarsdóttir og Linda Rós Michaelsdóttir voru fyrst kjörnar í stjórn Vísindasjóðs á aðalfundi FF í mars árið 2008 og endurkjörnar á aðalfundi FF í mars 2011. Elísabet Siemsen var endurkjörin fulltrúi FS í júní 2011 en ég veit ekki hve lengi hún hafði setið í stjórn Vísindasjóðs þá. Í stjórnina voru jafnframt kjörnir varamenn, einn frá hvoru félagi. Hér má sjá mynd af núverandi stjórnarmönnum Vísindasjóðs og varamönnum.

Af því stjórn Vísindasjóðs er kjörin beint á aðalfundi FF heyrir hún líklega ekki undir stjórn FF. Á hinn bóginn ber henni að starfa eftir reglum um sjóðinn og lögum FF. Síðan 1. ágúst sl. hefur Linda Rós Michaelsdóttir ekki verið félagsmaður í FF og ekki heldur í KÍ. Hún er félagi í Skólameistarafélagi Íslands, sem á enga aðild að Kennarasambandi Íslands. Af hverju varamaður FF var ekki kallaður til þegar Linda Rós missti aðild sína að stéttarfélagi framhaldsskólakennara er með öllu óskiljanlegt en vekur auðvitað þá spurningu hvort málum stjórnar Vísindasjóðs sé nú þannig komið að þau þoli ekki skoðun annarra en þeirra þriggja kvenna sem stjórnina hafa skipað um árabil. Þráseta Lindu Rósar í stjórn Vísindasjóðs FF virðist hafa verið rædd á fundi KÍ í ágúst 2012 án þess að nafn hennar sé nefnt (sjá lið 4.b).

Sömuleiðis er óskiljanlegt að stjórn Vísindasjóðs FF neiti að hitta formann FF og ræða málavafstur sitt að henni viðstaddri. Stjórn Vísindasjóðs er ekki samheldinn saumaklúbbur úti í bæ sem velur sér viðmælendur (og viðhlæjendur). Ef konurnar í stjórn Vísindasjóðs geta ekki umgengist formann FF ættu þær að segja af sér enda liklega óhæfar til að gegna trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélagið FF.

Þótt stjórn Vísindasjóðs sé heitt í hamsi yfir meintum bókahaldssvikum KÍ hefur stjórninni ekki tekist að uppfylla lágmarkskröfur um bókhald Vísindasjóðs svo opinbert sé og upplýsingar um þennan sjóð liggja hreint ekki á lausu. Á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara í mars 2010 átti Vísindasjóður að leggja fram ársskýrslu en hennar sér engan stað í fundargögnum, Í ársskýrslu stað er birt upplýsingabréf til félagsmanna um upphæð sem hægt var að sækja um í A-deild og B-deild sjóðsins í mars 2010.

Engin úr stjórn Vísindasjóðs sá sér fært að mæta á fulltrúafund Félags framhaldsskólakennara í mars 2012. Fulltrúafundir eru haldnir þau ár sem ekki er aðalfundur og fara með málefni stéttarfélagsins, gera þar á meðal grein fyrir fjárhagsstöðu þess, milli aðalfunda sem eru á þriggja ára fresti. Á þennan fulltrúafund sendi stjórn Vísindasjóðs einn af lögmönnum sínum, sem lagði fram drög að ársreikningi 2011 og sagði að hann yrði sendur félagsmönnum þegar búið væri að ganga frá honum. Nokkrar umræður spunnust um þennan lið og af því sem bókað er sést að þær Þórey og Linda Rós eiga stuðningsmenn úr sínum eigin skólum (FSu og MR) en aðrir sem taka til máls eru lítt hrifnir af háttalagi þeirra eða vafstri með Vísindasjóð FF. Sem dæmi um málflutning má nefna að kennari úr MR kallar stjórnina „þessar góðu konur“ en kennari úr MH er ósáttur við að „stjórnarmenn sjóðsins séu orðnir starfsmenn hans og að sjóðurinn sé kominn á skrifstofu úti í bæ“ og telur „engar heimildir vera í lögum og reglum FF sem heimili stjórn sjóðsins að segja sig úr félagi við félagið sjálft.“ Mögulega hefur stjórn Vísindasjóðs gengið frá ársreikningi ársins 2011 og sent félagsmönnum síðar, ég var ekki í FF árið 2011 og þætti sem nú starfandi framhaldsskólakennara mun skynsamlegra að hann lægi frammi á vef.

Það er erfitt að meta hvort kostnaður við rekstur og umsjá Vísindasjóðs hafi lækkað við að stjórn sjóðsins færði hann úr Kennarahúsinu í leiguhúsnæði því ársreikningar liggja ekki frammi og einungis eru orð stjórnarinnar fyrir þessu. Í fundargerð almenns félagsfundar í FF í janúar sl. er haft eftir Þóreyju Hilmarsdóttir formanni stjórnar sjóðsins: „[…] kostnaður og útgjöld er kr. 7,1 milljón. Kostnaður í KÍ húsi hefði verið 7,5 milljónir.“ Líklega er hún að tiltaka kostnað ársins 2012 en það kemur ekki fram í fundargerð. Þótt kostnaðurinn virðist hafa lækkað um 400.000 kr. við flutning sjóðsins er spurning hvort stjórn sjóðsins vinni við hann sem starfsmenn í sjálfboðavinnu (sem ekki er í samræmi við lög og reglur um þennan sjóð) og einnig vaknar sú spurning hvort löggiltum endurskoðendum hafi verið greitt fyrir að yfirfara ársreikninga Vísindasjóðs fyrir árið 2012, svo ekki sé talað um spurninguna um hvort samþykktir ársreikningar fyrir árin 2011 og 2012 séu til. Önnur gögn um kostnað af málavafstri stjórnar Vísindasjóðs er að finna í ársskýrslu sjóðsins sendri fulltrúafundi FF í  mars 2012:
 

Vinna sjóðstjórnar við að fá aðgang að gögnum sjóðsins  og yfirtaka rekstur hans  hefur kostað töluverð  fjárútlát meðal annars vegna mótþróa KÍ. Kostnaður við stjórnarfundi hefur  rúmlega fjórfaldast milli áranna 2010 og 2011.  Rúmlega helming þess kostnaðar má rekja til fundahalda sem  tengjast beint gagnaöflun og fundum með lögmönnum og öðrum sérfræðingum.  Tæpur helmingur kostnaðar er vegna reglulegra stjórnarfunda og úthlutunarfunda, sem voru  margir í október og nóvember. Útlagður kostnaður við aðstoð lögmanns hefur verið all nokkur.

Á fyrrnefndum almenna félagsfundi FF í janúar sl. var Þórey Hilmarsdóttir, formaður stjórnar Vísindasjóðs, spurð um lögfræðikostnað Vísindasjóðs. Hún svaraði því til að á árinu 2012 hefði verið eytt 1,5 milljón í lögfræðikostnað. Þetta er ekki bókað í fundargerð og ég finn hvergi upptöku af þessum fundi, byggi því á eigin minni en ég fylgdist með beinni útsendingu frá fundinum.

Í ársskýrslu Vísindasjóðs til fulltrúafundar FF í mars 2012 segir að Vísindasjóður muni endurkrefja KÍ um allan kostnað sem til hefur fallið við öflun upplýsinga og gagna og má því ætla að stefni í langvinnar lagaþrætur af hálfu stjórnar Vísindasjóðs. Í því máli sem stjórn Vísindasjóðs tapaði  í síðustu viku var sjóðurinn dæmdur til að greiða málskostnað KÍ.
 
 
 
 
 

Niðurstaðan

Þegar allt er saman dregið má ætla að umsýslu  KÍ hafi verið að því leytinu ábótavant að Vísindasjóður varð af nokkrum hundruðum þúsunda króna vaxtatekjum á ári hverju. Líklega hefði með lagni verið hægt að ganga frá því máli þannig að KÍ bætti Vísindasjóði þann skaða. En þetta mál og möguleg stirfni bæði starfsmanna KÍ og stjórnar Vísindasjóðs varð til þess að stjórn Vísindasjóðs réð sér lögfræðing, deilurnar mögnuðust, stjórnin flutti sjóðinn úr húsakynnum KÍ, höfðaði mál gegn KÍ og tapaði því máli á dögunum.

Þótt ekki hafi verið upplýst til hve hárrar upphæðar stjórn Vísindasjóðar hefur stofnað í lögfræðikostnað og greiðslu málskostnaðar er sú upphæð veruleg, a.m.k. samanborið við meintan hýrudrátt KÍ af þessum sjóði. Miðað við framgang kvennanna sem stýra sjóðnum er óvíst að bitið sé úr nálinni með þetta, þær gætu allt eins áfrýjað málinu til Hæstaréttar sem þýðir meiri lögfræðikostnað, sem við, framhaldsskólakennarar, greiðum. Sem félagsmaður í FF mótmæli ég þessum fjáraustri enda get ég ekki séð að hann komi okkur sem eigum að njóta góðs af þessum sjóði á nokkurn hátt til góða.

Upplýsingagjöf frá stjórn Vísindasjóðs til þeirra sem eiga sjóðinn, þ.e.a.s. félagsmanna í FF og FS, er mjög skorin við nögl enda virðist stjórnin ekki geta mætt á formlega fundi FF sem eru bókaðir og fundargerðir þeirra birtar, hvorki notað vef KÍ né haldið úti eigin heimasíðu. Fram kemur að stjórn Vísindasjóðs getur ekki átt samskipti við formann FF. Sem félagsmaður í FF lýsi ég því yfir að svo viðkvæmir stjórnarmenn í Vísindasjóði FF og FS eru óhæfir og ættu að segja af sér. Ég veit ekki hvort þetta á við allar konurnar í stjórn sjóðsins.

Annar fulltrúi okkar framhaldsskólakennara í stjórn Vísindasjóðs er alls ekki í stéttarfélaginu okkar heldur gegnir nú starfi skólameistara. Stjórn Vísindasjóðs virðist ekki hafa til hugar komið að kalla inn kjörinn varamann þetta ár sem hún leysir skólameistara MR af. Sem félagsmaður í FF mótmæli ég þessari háttalagi, mér finnst það í meira lagi vafasamt þótt ég geti ekki fullyrt um að það sé ólöglegt.

Svo virðist sem eina leiðin til að losna við stjórn Vísindasjóðs sé að kjósa nýja fulltrúa á aðalfundum FF og FS. Eins og ég hef rakið lýtur núverandi stjórn einungis eigin vilja og virðist ekki starfa í þágu okkar félagsmanna. Ég legg því til að félagsmenn í FF ræði þessi mál í sínum hópi og krefjist auka-aðalfundar svo kjósa megi ábyrga og minna-móðgunargjarna fulltrúa í stjórn Vísindasjóðs FF og FS.
 
 
 

Ummæli (1) | Óflokkað, Skólamál

20. febrúar 2013

Viðhorf Landlæknis og HVE til eftirá-hagræddrar sjúkraskrá og vanrækslu

Í dag sendu bæði Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) og Geir Gunnlaugsson landlæknir frá sér yfirlýsingar vegna umfjöllunar Kastljóss um fæðingu Sveindísar Helgu, dóttur Hlédísar Sveinsdóttur. Hluti umfjöllunar Kastljóss snérist um hrópandi misræmi milli þeirra gagna sem HVE sendi Landlækni og sömu gagna sem HVE afhenti Hlédísi.

Eitt af hlutverkum Landlæknis er að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsfólki. Það vekur því furðu að landlæknir skuli ekki sjá ástæðu til þess að kanna eða hafa eftirlit með vægast sagt einkennilega færðri sjúkraskrá og öðrum gögnum frá HVE. Fjöldi rangfærslna lýtur allur í sömu átt, nefnilega að gera hlut spítalans skárri en hann var. Raunar kemur skýrt fram hjá lögfræðingi Hlédísar í viðtali i Kastljósi að hefði Landlæknir ekki haft myndband af fæðingunni undir höndum hefði hann (eða sérfræðingur sá sem Landlæknir kallaði til) ekki getað komist að þeirri niðurstöðu að vanræksla starfsfólks HVE hefði valdið þeim hræðilega skaða sem barnið beið í fæðingunni. Ekki sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu sé byggt á gögnum þeim sem HVE sendi Landlækni.

Í 5. grein Laga um sjúkraskrár 55/2009 segir:

  • Við sérhverja færslu sjúkraskrárupplýsinga í sjúkraskrá skal koma fram nafn þess sem skráir, starfsheiti hans og tímasetning færslu. Viðbót, leiðrétting, breyting eða eyðing sem gerð er á færslu sjúkraskrárupplýsinga skal ætíð vera rekjanleg.
  • Sjúkraskrárupplýsingar skulu færðar jafnóðum eða að jafnaði innan tuttugu og fjögurra stunda frá þeim tíma er þeirra var aflað.

Eytt úr sjúkraskráÞað er því ótrúlegt að sjá í sjónvarpi að mikilvægum hluta er eytt úr sjúkraskrá áður en hún er send til Landlæknis og það löngu eftir að skráin var færð.  Þetta sást mætavel í fyrrnefndum Kastljósþætti og birt var skjámynd sem sýndi muninn við síðustu færslu mína. Hlutinn sem þurrkaður var út segir frá ástandi barnsins rétt eftir fæðingu og krampaköstum sem komu síðar. Til hægri sést lítil mynd af stykkinu sem einhver hjá HVE þurrkaði út úr sjúkraskránni, sé smellt á myndina birtist hún stærri (hvort tveggja er skjámynd úr Kastljósi). Hver voru rök HVE fyrir að eyða þessum upplýsingum áður en skjalið var sent til Landlæknis? Og finnast Landlækni þessi vinnubrögð í góðu lagi?

Edward Kiernan yfirlæknir, Birna Gunnarsdóttir ljósmóðirÍ einnar síðu bréfi yfirlæknis fæðingardeildar (kvennadeildar) HVE úir og grúir af villum. Hluta þeirra er hægt að sanna með myndbandsupptökunni af fæðingunni. Svoleiðis villa er lituð á myndinni af bréfi yfirlæknisins (sé smellt á myndina kemur upp stærri útgáfa, þetta er skjámynd úr Kastljósþætti um málið.) Þar er ekki minnst á mónítor-ritið sem sýnir svo ekki verður um villst að barnið leið mikinn súrefnisskort í talsverðan tíma en það fæddist.

Ýmsar fleiri rangfærslur eru í gögnum frá HVE til Landlæknis. Má nefna að alls staðar er því haldið fram í gögnunum að legvatn hafi verið tært sem það var ekki, ýmist er aðstoðarlæknirinn (nýútskrifaður læknakandídat) viðstaddur fæðinguna eða ekki, yfirlæknirinn segist ekki hafa komið að fæðingunni en gerði það o.fl. Einna alvarlegustu “breytingarnar” sem starfsfólk HVE gerir eftir á og sendir Landlækni eru nýjar útgáfur af svokölluð APGAR-skori litlu stúlkunnar sem fæddist mjög sködduð af súrefnisskorti. Steinbergur Finnbogason lögfræðingur segir um þetta atriði, í Kastljósi 19. febrúar:

Skv. gögnunum þá erum við með þrjú mismunandi APGAR skor eftir eina mínútu. Það er í einni skýrslu ekkert merkt inn og gæti þá verið hvað sem er, í annarri skýrslu sem virðist koma seinna fram að þá er búið að færa inn töluna þrír í APGAR og í enn öðru bréfi sem er sent til Landlæknis er því haldið fram að APGAR skor hafi verið fimm. Og í sjálfu sér ef APGAR skor er fimm þá er ekkert að, ef það er þrír þá er eitthvað að en kannski ekkert eitthvað svakalegt en samkvæmt vídeóinu og seinna framkomnu áliti þá hefði barnið í mesta lagi átt að fá einn í APGAR skor.

Og niðurstaða hans um rangfærslur í gögnum HVE sem send voru Landlækni er:
 

Þær breytingar sem við sjáum þar þær miða að því … hugsanlega miða þær að því að fegra myndina.

Í yfirlýsingu Landlæknis í dag segir að málið hafi verið rannsakað ítarlega sem hafi leitt til faglegrar niðurstöðu. Landlæknir hafi beint þeim tilmælum til HVE að halda fund með Hlédísi Sveinsdóttur og biðja hana formlega afsökunar á þeim mistökum og þeirri vanrækslu sem hún og nýfætt barn hennar urðu fyrir. - Þess ber að geta að framkvæmdastjóri lækninga á HVE hélt þennan fund með Hlédísi einu og hálfu ári eftir hina afdrifaríku fæðingu og var það í fyrsta sinn sem henni var gefið tækifæri til að funda með aðilum málsins.- Um hinar einkennilegu breytingar sem HVE gerði á sjúkraskrá eftir á og um rangfærslur í gögnum frá stofnuninni segir Landlæknir í þessari yfirlýsingu:

[…] skal tekið fram að Heilbrigðisstofnun Vesturlands er ábyrgðar- og umsjónaraðili þeirrar sjúkraskrár sem um ræðir og getur gert á henni leiðréttingar skv. lögum um sjúkraskrár, sé sýnt fram á að upplýsingar í henni séu bersýnilega rangar eða villandi.

Nú væri áhugavert að Landlæknir upplýsti hvort eyða fyrir APGAR-skor sé svo “bersýnilega röng og villandi” að hún gefi umsjónarmanni sjúkraskrár, HVE, sjálfkrafa tilefni til að skálda þar inn ótrúlegar tölu talsvert löngu eftir fæðinguna. Sömuleiðis er áhugavert að vita skoðun Landlæknis á öðrum röngum upplýsingum sem HVE lét embætti hans í té, voru þær að hans mati upplýsandi fyrir málið?

Landlæknir lýkur yfirlýsingu sinni á skýrri niðurstöðu málsins, að mati embættisins, og viðurlögum:

Heilbrigðisstarfsmönnum urðu á mistök og vanræksla við fæðingu barns Hlédísar. Þessari niðurstöðu hefur verið fylgt eftir af festu gagnvart stjórnendum sjúkrahússins og einstökum starfsmönnum.

Starfsmennirnir sem í hlut eiga starfa allir áfram við HVE nema aðstoðarlæknirinn (að ég held). Ljósmóðirin sinnir enn fæðandi konum, yfirlæknirinn er kjur á sínum sessi sem og framkvæmdastjóri lækninga. Bæði Landlæknir og HVE neita að upplýsa hvernig niðurstöðunni um mistök og vanrækslu starfsmanna HVE hafi verið fylgt eftir “af festu”. Hlédísi Sveinsdóttur hefur ekki verið formlega tilkynnt um þau viðbrögð. Það má svo sem giska á að einhverjir sem í hlut áttu hafi fengið formlega áminningu, sem skiptir engu einasta máli fyrir ríkisstarfsmann (nema standi til að reka hann hvort sem er og þarf þá að safna tveimur formlegum áminningum fyrst).
 

HVE harmar vitaskuld eigin mistök í sinni yfirlýsingu í dag en minnist í henni ekki á vanrækslu starfsmanna sinna. Stofnunin segist hafa endurskoðað “allar verklagsreglur tengdar þjónustu við fæðandi konur […] og [að] eftirlit með að þeim sé framfylgt skerpt. Þá voru settar reglur sem takmarka mjög  fjölda aðstandenda við fæðingar.”

Síðari málsgreinin stingur í augu því erfitt er að sjá hvernig fjöldi aðstandenda við fæðingu hefur haft áhrif í þeim mistökum og vanrækslu sem hér var um að ræða. Skýringin er væntanlega sú að í sinni greinargerð til Landlæknis kvartaði ljósmóðirin undan skvaldri í móður og vinkonum Hlédísar sem voru viðstaddar fæðinguna og tengir síðan vinkonuna sem hélt á myndbandsupptökutækinu við vinnustað hennar en hún vinnur hjá fjölmiðlafyrirtæki. Nú veit ég ekki hversu viðkvæmar ljósmæður eru fyrir skvaldri en ef þetta á að vera afsökun fyrir því að hún fylgdist ekki með síritanum sem sýndi súrefnisskort ófædds barnsins eða að ástand barnsins þegar það fæddist fór framhjá henni held ég að önnur störf myndu líklega henta þessari konu betur. HVE hefur sem sagt komið auga á það ráð að takmarka fjölda leikmanna við fæðingu sem úrræði til að koma í veg fyrir mistök og vanrækslu starfsmanna sinna á fæðingardeild, skv. yfirlýsingu HVE í dag.

HVE telur staðhæfingar um að sjúkraskrá hefði verið hagrætt, atriðum eytt og með því brotin lög vera órökstudda og villandi framsetningu og færir sem rök fyrir því að Landlæknir hafi ekki skipt sér neitt af þeirri hagræðingu staðreynda.  Í yfirlýsingu HVE er ekki vikið orði að því stofnunin hyggist bæta skráningu upplýsinga í sjúkraskrá eða skerpa eftirlit með því að þeim sé ekki breytt löngu seinna. Forstjóri HVE sem skrifaður er fyrir yfirlýsingu stofnunarinnar í dag segist, í lokin, fagna opinberri rannsókn sem skeri úr um hvort rangfærslur í sjúkraskrá og öðrum gögnum frá HVE til landlæknis varði við lög.

Sem viðskiptavinur HVE er ég Guðjóni Brjánssyni hjartanlega sammála og finnst mikilvægt að lögregla skeri úr um hversu mikið megi edítera sjúkraskrá og hversu mikið halla réttu máli í öðrum gögnum frá heilbrigðisstofnun sem send eru Landlækni þegar kvartað er til hans; Hvað teljast eðlilegar leiðréttingar eftir á og hvað fellur undir skjalafals?

Og satt best að segja myndi ég ráðleggja hverri þeirri konu sem ætlar að fæða barn á fæðingardeild Sjúkrahúss Akraness að sjá til þess að fæðingin sé tekin upp myndband, af þöglum myndatökumanni auðvitað …  

Viðbót 28. febrúar: Í dag birtist önnur yfirlýsing frá HVE þar sem mismunur í sjúkraskrá er skýrður og fjallað um fleira þessu máli tengt.