Færslur frá 24. febrúar 2013

24. febrúar 2013

Vísindasjóður FF og FS

Í þessari færslu er reynt að gera grein fyrir illvígum deilum stjórnar Vísindasjóðs FF og FS við KÍ, dómsmáli sem stjórn Vísindasjóðs tapaði á dögunum, kostnaði af þessum deilum og spurt hvers vegna þriðjung af stjórn Vísindasjóðs skipar kona sem er í hvorugu stéttarfélaginu sem sjóðurinn tilheyrir. Eins og kemur fram í niðurstöðum í lok færslunnar tel ég að stjórn Vísindasjóðs FF og FS sé komin langt frá því hlutverki sem hún var kjörin til að gegna, með sama áframhaldi valdi hún eigendum sjóðsins, t.d. okkur framhaldsskólakennurum, æ meira fjárhagstjóni og að það leiki vafi á að þessi stjórn sé löglega skipuð. Þetta er flókið mál en ég geri mitt besta til að rekja málavexti í færslunni. 
  
 

Hvað er Vísindasjóður FF og FS?

Vísindasjóður Félags framhaldsskólakennara, FF, og Félags stjórnenda í framhaldsskólum, FS, (sem eru aðstoðarskólameistarar, áfangastjórar og aðrir aðstoðarstjórnendur), á að standa einhvern straum af endurmenntun og framhaldsmenntun félagsmanna í þessum félögum. Fé til sjóðsins kemur frá launagreiðanda, aðallega frá ríkinu, og nemur upphæðin 1,5% af föstum dagvinnulaunum félagsmanna.  Félagsmenn í FF og FS geta sótt um endurgreiðslu kostnaðar vegna endurmenntunar sinnar úr þessum sjóði og er endurgreitt eftir ákveðnum reglum. FF og FS eru aðilar að regnhlífarsamtökunum Kennarasambandi Íslands, KÍ, eins og mörg önnur stéttarfélög kennara, hafa aðstöðu í Kennarahúsinu og nýta sameiginlega skrifstofuþjónustu o.fl. sem þar er rekin.

Stjórn sjóðsins er kosin á aðalfundum FF og FS og þiggur því umboð sitt frá aðalfundi en ekki stjórnum félaganna. Núverandi stjórn var kosin á aðalfundum árið 2011. Í henni sitja Þórey Hilmarsdóttir, formaður, og Linda Rós Michaelsdóttir sem eru fulltrúar FF og Elísabet Siemsen sem er fulltrúi FS.

Það sem stingur sérstaklega í augu við þessa stjórn er að Linda Rós Michaelsdóttir hefur starfað sem skólameistari MR frá því 1. ágúst 2012 og er þ.a.l. ekki í stéttarfélögunum sem eiga þennan sjóð. Henni er óheimilt sem skólameistara að vera í stéttarfélagi og hún er því núna í Skólameistarafélagi Íslands, SMÍ. Það er afar undarlegt að kjörinn varamaður hafi ekki verið kallaður til þegar Linda Rós varð skólameistari.
 
 

Deila Vísindasjóðs við KÍ

Það er ákaflega erfitt að komast til botns í þessari deilu þó á yfirborðinu sé ljóst um hvað hún snýst. Hún hlýtur að eiga sér duldar skýringar því annars væri hún ekki svo hatrömm. Þær opinberu upplýsingar sem hafa birst segja að deilan snúist einkum um hvernig bókhald KÍ er fært og telur stjórn Vísindasjóðs að sjóðurinn hafi orðið af nokkru fé vegna þessa. Í bréfi sem stjórn Vísindasjóðs sendi félagsmönnum í FF og FS þann 20. október 2011 og sjá má í fréttinni sem krækt er í segir:
 
 

Af þeim gögnum sem hafa verið skoðuð er m.a. ljóst að tekjur sjóðsins frá ríkinu, rúmlega 8 milljónir í hverjum mánuði, eru færðar út af bankareikningi sjóðsins og inn á bankareikning KÍ. Þar liggja peningar sjóðsins í nokkrar vikur þar til þeim er skilað aftur til rétts eiganda. Vextir af þessum peningum skila sér ekki til sjóðsins né hefur sjóðurinn þessar fjárhæðir til ráðstöfunar meðan þær liggja annars staðar. Í febrúar 2011 voru febrúartekjur sjóðsins, rúmlega 8 milljónir, teknar út af reikningi sjóðsins viku áður en janúartekjum var skilað til baka. Í heila viku lágu að minnsta kosti 16 milljónir af peningum sjóðsins á reikningi KÍ. Til að koma í veg fyrir að tekjur sjóðsins væru millifærðar reglulega inn á reikning KÍ gaf sjóðstjórn formleg fyrirmæli um að engar greiðslur ættu sér stað af bankareikningi sjóðsins nema með samþykki sjóðstjórnar. Undanskildar voru styrkgreiðslur skv. listum frá ritara sjóðsins. Þessum fyrirmælum var í engu svarað né orðið við þeim.

 

Fjársýsla ríkisins greiddi (og greiðir) umsamda upphæð vegna endurmenntunar félaga í FF og FS beint inn á reikning KÍ og neitaði að breyta því fyrirkomulagi á þeim forsendum að kennitala Vísindasjóðs væri ekki á svokölluðum BIK reikningi sem greitt var inn á. BIK stendur fyrir Bókunar- og innheimtumiðstöð KÍ og er skráð á kennitölu KÍ. Fjársýsla ríksins greiddi ýmis gjöld ósundurliðuð inn á þennan reikning mánaðarlega og starfsmenn KÍ færðu svo upphæðina sem Vísindasjóði bar inn á sérstakan reikning Vísindasjóðs. Vissulega varð Vísindasjóður af vaxtatekjum af sínu fé vegna þessa fyrirkomulags. Óvíst er hversu háa upphæð var um að ræða en sé miðað við dæmin sem tekin eru í bréfi Vísindasjóðs hér að ofan má áætla að um einhver hundruð þúsund króna á ári væri að tefla. Ætla má að lítið mál væri að semja um að áætlaðar bætur upp á ekki hærri upphæð yrðu endurgreiddar Vísindasjóði eða dregnar frá þjónustugjaldi því sem KÍ krefur endurmenntunarsjóði kennarafélaganna um.

Stjórn KÍ sendi frá sér yfirlýsingu 21. október þar sem ásökunum um bókhaldssvik í bréfi Vísindasjóðs var hafnað og áréttaði með annarri yfirlýsingu þann 22. nóvember 2011.

Stjórn Vísindasjóðs kvartaði einnig yfir að KÍ rukkaði sjóðinn um þjónustugjald sem ekki hafði verið samið um. Það er alveg rétt að KÍ rukkaði endurmenntunarsjóði o.fl. aðila um talsverða upphæð árlega skv. hefð en ekki samningi. Fyrir þetta þjónustugjald fékk sjóðurinn skrifstofuþjónustu, þjónustu endurskoðenda o.fl. Í kjölfarið á óánægju með þetta fyrirkomulag voru gerðir þjónustusamningar við þá aðila sem KÍ veitir aðstöðu og þénustar. Ég finn hvergi sundurliðun á þessum þjónustusamningum KÍ við endurmenntunarsjóði innan samtakanna (ósundurliðuð upphæð í fjárhagsáætlun KÍ var samþykkt á þingi samtakanna í apríl 2011). Í Ársskýrslu Vísindasjóðs til Fulltrúafundar FF 29. mars 2012 segir að þjónustugjald KÍ sé 5% af tekjum sjóðsins:
 

KÍ hefur gert kröfu á sjóðinn í nokkrum liðum.  Meðal annars gerir KÍ tilkall til 5% tekna sjóðsins fyrir  árið 2011 í þjónustugjöld. Sú krafa nemur tæpum 6 milljónum króna og til vara 3,7 milljónir í launfyrir árið 2011. Því má draga þá ályktun að aðstöðugjald sjóðsins hjá KÍ (fyrir utan laun) sé um 2,3  milljónir fyrir 9 mánuði árið 2011. Ennfremur gerir KÍ kröfu á sjóðinn vegna útlagðs kostnaðar semnemur 4,3 milljónum.  Unnið er að því að meta réttmæti krafna KÍ.Gerður hefur verið skammtímasamningur um aðstöðuleigu og greiðir sjóðurinn nú kr. 63.750 á mánuði eða rúmlega kr. 750.000 á ári fyrir aðstöðu.  Gera má ráð fyrir að sjóðurinn þurfi starfskraft í
20 – 30% starfshlutfall (áður var greitt fyrir 50% stöðugildi).

Deilur stjórnar Vísindasjóðs við einstaka starfsmenn KÍ virðast hafa magnast úr öllu valdi. Til þess bendir m.a. bókun fundi KÍ þann 25. mars 2011, samþykkt samhljóða:

Bókun um Vísindasjóð FF/FS
„Vegna athugasemda sem fram hafa komið frá hendi stjórnar VÍS FF/FS við störf starfsmanna KÍ við bókhald og fjármálaumsýslu sjóðsins vill stjórn KÍ færa eftirfarandi til bókar.
Þessar athugasemdir eiga ekki við rök að styðjast og lýsir stjórn KÍ yfir fullu trausti á störf  þeirra starfsmanna sem hér um ræðir, þ.e. skrifstofustjóra og gjaldkera sjóða. Störf þeirra við  bókhald og fjármál sjóðsins hafa verið í fullu samræmi við  lög og reglur.

Vegna vinnu löggiltra endurskoðenda sambandsins vill stjórn KÍ einnig taka fram að hún telur vinnu þeirra vera í fullu samræmi við lög og reglur. Stjórnin harmar vinnubrögð sjóðsstjórnarinnar og furðar sig á því að hún hafi ekki reynt til þrautar að afla upplýsinga hjá KÍ í stað þess að bera athugasemdir við störf umræddra starfsmanna undir álit þriðja aðila“.

Þessi bókun var seinna dregin til baka og sér hennar nú ekki stað í fundargerð á síðu KÍ.

Harðvítugar deilur má einnig lesa úr bréfi því sem stjórn Vísindasjóðs sendi félagsmönnum í FF og FS og e.t.v. fjölmiðlum einnig, þann 20. október 2011 en þar segir: 

  
Þegar sjóðstjórn varð ljóst að óeðlileg tregða var hjá starfsmönnum KÍ að afhenda bókhaldsgögn leitaði hún til löggilts endurskoðanda KÍ um að hann hlutaðist til um að bókhald sjóðsins yrði afhent. En allt kom fyrir ekki.
[- - -]
Fyrir utan ofangreint hefur starfsfólk KÍ sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir Vísindasjóð FF og FS neitað að hafa bein samskipti við sjóðstjórn. Starfsmaður KÍ hefur hótað sjóðstjórn meiðyrðamáli.

 

Stjórn Vísindasjóðs segir skilið við KÍ og formann FF

Þann 3. október 2011 afturkallaði stjórn Vísindasjóðs prókúru gjaldkera KÍ á bankareikning sjóðsins. Inn á þann bankareikning höfðu aðrir en Fjársýsla ríkisins greitt, þ.e. einkaskólar. Einhverra hluta vegna hafði fé þaðan verið fært inn á almennan reikning KÍ og síðan fært til baka ásamt hluta af þeim hluta af stóru summunni sem Fjársýsla ríkisins greiddi mánaðarlega ósundurliðað til KÍ sem Vísindasjóði bar. Þetta taldi stjórn Vísindasjóðs vera brot á bókhaldslögum.

Stjórn Vísindasjóðs heldur því fram, skv. reifun dómsmáls, að sjóðnum hafi verið vísað úr húsi [Kennarahúsinu] í nóvember 2011. Síðan þá hefur Vísindasjóður haft aðsetur að Bitruhálsi 2. Á almennum félagsfundi í FF þann 17. janúar 2013 sagði formaður stjórnar Vísindasjóðs að stjórninni hefði verið varpað á dyr úr Kennarahúsinu en litlu síðar á sama fundi túlkar hún höfnun KÍ á að afhenda stjórnarmönnum bókhaldsgögn sem þeim hafi verið „bolað úr húsinu“. Til að flækja málin segir stjórn Vísindasjóðs í ársskýrslu sem stjórnin sendi fulltrúarfundi FF 29. mars 2012 að það að KÍ hafi ekki viljað taka áfram við umsóknum um styrki úr Vísindasjóði eftir að stjórn Vísindasjóðs bar KÍ þungum sökum í bréfi til félagsmanna FF og FS og hafði tekið prókúru af KÍ jafngildi að sjóðnum væri úthýst úr KÍ húsinu. Þannig að hin dramatíska lýsing, varpað á dyr, virðist eitthvað málum blandin.
 
 

 Í fundargerð stjórnar FF frá 7. nóvember 2011 segir í samþykktri bókun:
 

Í ljósi þeirra aðstæðna sem skapast hafa sem fela meðal annars í sér að færa eigi starfsemi Vísindasjóðs FF/FS úr Kennarahúsinu harmar stjórn FF hvernig málum er komið.

Ljóst er að stjórn Vísindasjóðs var, þegar hér var komið sögu, ekki einungis uppsigað við einstaka starfsmenn í Kennarahúsi heldur einnig formann stjórnar FF og virðist sem stjórn Vísindasjóðs hafi neitað að taka þátt í fundum væri formaðurinn viðstaddur. Um þetta er skráð í fundargerð stjórnar FF þann 14. nóvember 2011:
 

Vegna þeirrar afstöðu stjórnar Vísindasjóðs FF/FS að formaður FF taki ekki þátt í þessum fundi vill stjórn FF taka fram að formaður ákvað í samráði við stjórnina að víkja sæti í þetta sinn. Stjórn FF leggur áherslu á að formaður FF er oddviti stjórnar og hlýtur í framhaldinu að sinna störfum sínum í þessu máli sem öðrum með eðlilegum hætti.
 

og í fundargerð stjórnar FF þann 5. desember 2011 er skráð: 
   

Orðið er gefið laust um fundinn 28. nóvember sl. og um framtíðina í samskiptum stjórnar FF og sjóðsstjórnar. Eftirfarandi samþykkt:
1. Tölvupóstur verði nýttur til að vinna með formleg, „konkret“ mál, önnur mál verði rædd augliti til auglitis óformlega og verði varaformaður FF tengiliður við sjóðsstjórn.
2. Óformlegir fundir sem tengiliður stjórnar FF á með FS og sjóðsstjórn verði fyrir opnum tjöldum, fyrirhugaðir fundir verði „tilkynntir“ áður en þeir eru haldnir, efni þeirra, fundargerðir og þess háttar komi inn á borð stjórnar FF.
3. Ekki kemur til álita að stjórnir FF, FS og Vísindasjóðs FF/FS hittist án formanns FF.

 

Vísindasjóður ræður sér lögfræðing og höfðar mál

Í janúar 2011 réði stjórn Vísindasjóðs sér lögfræðing vegna óánægju með hvernig bókhald KÍ var fært og komst stjórnin fljótlega á þá skoðun að KÍ bryti með þessu bókhaldslög. Í fundargerð stjórnar KÍ 9. júní 2011 sést að Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður er farin að ganga erinda stjórnar Vísindasjóðs og krefst þess að bókhald Vísindasjóðs verði aðskilið frá öðru bókhaldi KÍ og þau frumgögn KÍ sem snerta Vísindasjóð verði afhent stjórn Vísindasjóðs.

Skömmu síðar höfðaði stjórn Vísindasjóðs mál gegn KÍ, þ.e. sendi inn svokallaða innsetningarbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur. Innsetning felst í því að einhver er knúinn til þess að veita öðrum umráð yfir lausafé eða munum, með atbeina dómsyfirvalda. Í þessu tilviki krafðist stjórn Vísindasjóðs að KÍ afhenti sér aðgang að innheimtumiðstöð sinni, BIK-kerfinu, að því er varðaði allar færslur sem snertu fjárhag Vísindasjóðs frá árinu 2008. Í reifun málsins kemur fram að þessi gögn sem Vísindasjóður krefst umráða yfir eru  t.d. gögn um fyrir hvaða tímabil hafi verið greitt fyrir hvern sjóðsfélaga og sundurliðun á greiðslum KÍ til Vísindasjóðs, væntanlega framlagi Fjársýslu ríkisins sem KÍ tekur við og færir inn á reikning Vísindasjóðs.

Vörn KÍ byggist á því að þessi innsetningarbeiðni sé krafa um gögn sem Vísindasjóður haldi ekki fram að sé sín eign heldur telji að gögnin kunni að innihalda upplýsingar sem stjórn sjóðsins eigi rétt á að fá aðgang að. KÍ hafi nú þegar afhent Vísindasjóði allt sem sjóðurinn átti rétt á að fá eftir að stjórn hans ákvað að taka yfir þann hluta af starfsemi sjóðsins sem KÍ sinnti áður, þar á meðal bókhaldsgögn og gagnagrunn sjóðsins. KÍ sé ekki skylt að halda nákvæmt sundurgreint bókhald yfir inngreiðslur Fjársýslu ríkisins  til Vísindasjóðs þar sem Vísindasjóður hafi ákveðið að taka bókhald sjóðsins í eigin hendur.

Dómur féll í málinu þann 18. febrúar sl. Kröfu Vísindasjóðs var hafnað og dæmt að sjóðurinn skyldi greiða málskostnað KÍ, 300.000 krónur.
 
 

Vangaveltur um rétt stjórnar Vísindasjóðs og umsýslu Vísindasjóðs í höndum þessarar stjórnar
 

Þær Þórey Hilmarsdóttir og Linda Rós Michaelsdóttir voru fyrst kjörnar í stjórn Vísindasjóðs á aðalfundi FF í mars árið 2008 og endurkjörnar á aðalfundi FF í mars 2011. Elísabet Siemsen var endurkjörin fulltrúi FS í júní 2011 en ég veit ekki hve lengi hún hafði setið í stjórn Vísindasjóðs þá. Í stjórnina voru jafnframt kjörnir varamenn, einn frá hvoru félagi. Hér má sjá mynd af núverandi stjórnarmönnum Vísindasjóðs og varamönnum.

Af því stjórn Vísindasjóðs er kjörin beint á aðalfundi FF heyrir hún líklega ekki undir stjórn FF. Á hinn bóginn ber henni að starfa eftir reglum um sjóðinn og lögum FF. Síðan 1. ágúst sl. hefur Linda Rós Michaelsdóttir ekki verið félagsmaður í FF og ekki heldur í KÍ. Hún er félagi í Skólameistarafélagi Íslands, sem á enga aðild að Kennarasambandi Íslands. Af hverju varamaður FF var ekki kallaður til þegar Linda Rós missti aðild sína að stéttarfélagi framhaldsskólakennara er með öllu óskiljanlegt en vekur auðvitað þá spurningu hvort málum stjórnar Vísindasjóðs sé nú þannig komið að þau þoli ekki skoðun annarra en þeirra þriggja kvenna sem stjórnina hafa skipað um árabil. Þráseta Lindu Rósar í stjórn Vísindasjóðs FF virðist hafa verið rædd á fundi KÍ í ágúst 2012 án þess að nafn hennar sé nefnt (sjá lið 4.b).

Sömuleiðis er óskiljanlegt að stjórn Vísindasjóðs FF neiti að hitta formann FF og ræða málavafstur sitt að henni viðstaddri. Stjórn Vísindasjóðs er ekki samheldinn saumaklúbbur úti í bæ sem velur sér viðmælendur (og viðhlæjendur). Ef konurnar í stjórn Vísindasjóðs geta ekki umgengist formann FF ættu þær að segja af sér enda liklega óhæfar til að gegna trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélagið FF.

Þótt stjórn Vísindasjóðs sé heitt í hamsi yfir meintum bókahaldssvikum KÍ hefur stjórninni ekki tekist að uppfylla lágmarkskröfur um bókhald Vísindasjóðs svo opinbert sé og upplýsingar um þennan sjóð liggja hreint ekki á lausu. Á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara í mars 2010 átti Vísindasjóður að leggja fram ársskýrslu en hennar sér engan stað í fundargögnum, Í ársskýrslu stað er birt upplýsingabréf til félagsmanna um upphæð sem hægt var að sækja um í A-deild og B-deild sjóðsins í mars 2010.

Engin úr stjórn Vísindasjóðs sá sér fært að mæta á fulltrúafund Félags framhaldsskólakennara í mars 2012. Fulltrúafundir eru haldnir þau ár sem ekki er aðalfundur og fara með málefni stéttarfélagsins, gera þar á meðal grein fyrir fjárhagsstöðu þess, milli aðalfunda sem eru á þriggja ára fresti. Á þennan fulltrúafund sendi stjórn Vísindasjóðs einn af lögmönnum sínum, sem lagði fram drög að ársreikningi 2011 og sagði að hann yrði sendur félagsmönnum þegar búið væri að ganga frá honum. Nokkrar umræður spunnust um þennan lið og af því sem bókað er sést að þær Þórey og Linda Rós eiga stuðningsmenn úr sínum eigin skólum (FSu og MR) en aðrir sem taka til máls eru lítt hrifnir af háttalagi þeirra eða vafstri með Vísindasjóð FF. Sem dæmi um málflutning má nefna að kennari úr MR kallar stjórnina „þessar góðu konur“ en kennari úr MH er ósáttur við að „stjórnarmenn sjóðsins séu orðnir starfsmenn hans og að sjóðurinn sé kominn á skrifstofu úti í bæ“ og telur „engar heimildir vera í lögum og reglum FF sem heimili stjórn sjóðsins að segja sig úr félagi við félagið sjálft.“ Mögulega hefur stjórn Vísindasjóðs gengið frá ársreikningi ársins 2011 og sent félagsmönnum síðar, ég var ekki í FF árið 2011 og þætti sem nú starfandi framhaldsskólakennara mun skynsamlegra að hann lægi frammi á vef.

Það er erfitt að meta hvort kostnaður við rekstur og umsjá Vísindasjóðs hafi lækkað við að stjórn sjóðsins færði hann úr Kennarahúsinu í leiguhúsnæði því ársreikningar liggja ekki frammi og einungis eru orð stjórnarinnar fyrir þessu. Í fundargerð almenns félagsfundar í FF í janúar sl. er haft eftir Þóreyju Hilmarsdóttir formanni stjórnar sjóðsins: „[…] kostnaður og útgjöld er kr. 7,1 milljón. Kostnaður í KÍ húsi hefði verið 7,5 milljónir.“ Líklega er hún að tiltaka kostnað ársins 2012 en það kemur ekki fram í fundargerð. Þótt kostnaðurinn virðist hafa lækkað um 400.000 kr. við flutning sjóðsins er spurning hvort stjórn sjóðsins vinni við hann sem starfsmenn í sjálfboðavinnu (sem ekki er í samræmi við lög og reglur um þennan sjóð) og einnig vaknar sú spurning hvort löggiltum endurskoðendum hafi verið greitt fyrir að yfirfara ársreikninga Vísindasjóðs fyrir árið 2012, svo ekki sé talað um spurninguna um hvort samþykktir ársreikningar fyrir árin 2011 og 2012 séu til. Önnur gögn um kostnað af málavafstri stjórnar Vísindasjóðs er að finna í ársskýrslu sjóðsins sendri fulltrúafundi FF í  mars 2012:
 

Vinna sjóðstjórnar við að fá aðgang að gögnum sjóðsins  og yfirtaka rekstur hans  hefur kostað töluverð  fjárútlát meðal annars vegna mótþróa KÍ. Kostnaður við stjórnarfundi hefur  rúmlega fjórfaldast milli áranna 2010 og 2011.  Rúmlega helming þess kostnaðar má rekja til fundahalda sem  tengjast beint gagnaöflun og fundum með lögmönnum og öðrum sérfræðingum.  Tæpur helmingur kostnaðar er vegna reglulegra stjórnarfunda og úthlutunarfunda, sem voru  margir í október og nóvember. Útlagður kostnaður við aðstoð lögmanns hefur verið all nokkur.

Á fyrrnefndum almenna félagsfundi FF í janúar sl. var Þórey Hilmarsdóttir, formaður stjórnar Vísindasjóðs, spurð um lögfræðikostnað Vísindasjóðs. Hún svaraði því til að á árinu 2012 hefði verið eytt 1,5 milljón í lögfræðikostnað. Þetta er ekki bókað í fundargerð og ég finn hvergi upptöku af þessum fundi, byggi því á eigin minni en ég fylgdist með beinni útsendingu frá fundinum.

Í ársskýrslu Vísindasjóðs til fulltrúafundar FF í mars 2012 segir að Vísindasjóður muni endurkrefja KÍ um allan kostnað sem til hefur fallið við öflun upplýsinga og gagna og má því ætla að stefni í langvinnar lagaþrætur af hálfu stjórnar Vísindasjóðs. Í því máli sem stjórn Vísindasjóðs tapaði  í síðustu viku var sjóðurinn dæmdur til að greiða málskostnað KÍ.
 
 
 
 
 

Niðurstaðan

Þegar allt er saman dregið má ætla að umsýslu  KÍ hafi verið að því leytinu ábótavant að Vísindasjóður varð af nokkrum hundruðum þúsunda króna vaxtatekjum á ári hverju. Líklega hefði með lagni verið hægt að ganga frá því máli þannig að KÍ bætti Vísindasjóði þann skaða. En þetta mál og möguleg stirfni bæði starfsmanna KÍ og stjórnar Vísindasjóðs varð til þess að stjórn Vísindasjóðs réð sér lögfræðing, deilurnar mögnuðust, stjórnin flutti sjóðinn úr húsakynnum KÍ, höfðaði mál gegn KÍ og tapaði því máli á dögunum.

Þótt ekki hafi verið upplýst til hve hárrar upphæðar stjórn Vísindasjóðar hefur stofnað í lögfræðikostnað og greiðslu málskostnaðar er sú upphæð veruleg, a.m.k. samanborið við meintan hýrudrátt KÍ af þessum sjóði. Miðað við framgang kvennanna sem stýra sjóðnum er óvíst að bitið sé úr nálinni með þetta, þær gætu allt eins áfrýjað málinu til Hæstaréttar sem þýðir meiri lögfræðikostnað, sem við, framhaldsskólakennarar, greiðum. Sem félagsmaður í FF mótmæli ég þessum fjáraustri enda get ég ekki séð að hann komi okkur sem eigum að njóta góðs af þessum sjóði á nokkurn hátt til góða.

Upplýsingagjöf frá stjórn Vísindasjóðs til þeirra sem eiga sjóðinn, þ.e.a.s. félagsmanna í FF og FS, er mjög skorin við nögl enda virðist stjórnin ekki geta mætt á formlega fundi FF sem eru bókaðir og fundargerðir þeirra birtar, hvorki notað vef KÍ né haldið úti eigin heimasíðu. Fram kemur að stjórn Vísindasjóðs getur ekki átt samskipti við formann FF. Sem félagsmaður í FF lýsi ég því yfir að svo viðkvæmir stjórnarmenn í Vísindasjóði FF og FS eru óhæfir og ættu að segja af sér. Ég veit ekki hvort þetta á við allar konurnar í stjórn sjóðsins.

Annar fulltrúi okkar framhaldsskólakennara í stjórn Vísindasjóðs er alls ekki í stéttarfélaginu okkar heldur gegnir nú starfi skólameistara. Stjórn Vísindasjóðs virðist ekki hafa til hugar komið að kalla inn kjörinn varamann þetta ár sem hún leysir skólameistara MR af. Sem félagsmaður í FF mótmæli ég þessari háttalagi, mér finnst það í meira lagi vafasamt þótt ég geti ekki fullyrt um að það sé ólöglegt.

Svo virðist sem eina leiðin til að losna við stjórn Vísindasjóðs sé að kjósa nýja fulltrúa á aðalfundum FF og FS. Eins og ég hef rakið lýtur núverandi stjórn einungis eigin vilja og virðist ekki starfa í þágu okkar félagsmanna. Ég legg því til að félagsmenn í FF ræði þessi mál í sínum hópi og krefjist auka-aðalfundar svo kjósa megi ábyrga og minna-móðgunargjarna fulltrúa í stjórn Vísindasjóðs FF og FS.
 
 
 

Ummæli (1) | Óflokkað, Skólamál