Færslur marsmánaðar 2013

24. mars 2013

Hver er dýrlingur prjóns?

Þótt prjónaskapur sé með göfugustu iðju er vafamál hvort nokkur dýrlingur hefur alfarið á sinni könnu að veita himneska hjálp við lykkjufalli eða redda prjónlesi með kraftaverki, það er ekki einu sinni á hreinu hvern best er að ákalla í þessum efnum. Þetta kemur óneitanlega á óvart því flest handverk/handverksmenn eiga sér sinn eigin dýrling - af hverju ekki prjónakonur (af báðum kynjum)?

Nokkrir eru þeir þó heilögu mennirnir (af báðum kynjum) sem sérstaklega eru tengdir prjóni en því miður hafa þeir ýmislegt annað á sinni könnu sem þeir eru þekktari fyrir, sumt ansi langt frá prjóni.

Í ritinu Dictionnaire Universel de Commerce, útg. 1723, eftir Savary des Bruslons, segir af gildi (iðnaðarmannasamtökum) prjónara í París, Gildi heilags Fiacra, sem stofnað var 1527. Dýrlingur prjónaranna var heilagur Fiacra, líklega valinn vegna þess að hann var talinn skoskur konungssonur og Frakkarnir höfðu það fyrir satt að prjónakunnátta hefði borist frá Skotlandi. Önnur yngri heimild segir að heilagur Fiacra hafi verið orðinn dýrlingur franskra húfugerðarmanna meir en 150 árum áður en prjónagildið valdi hann sem sinn dýrling.

Heilagur Fiacra var írskur munkur á sjöundu öld, sem þvældist um og endaði í Frakklandi. Hann undi sér við dæmigerða helgimannaiðju í lifanda lífi: Baðst fyrir, fastaði, sinnti sjúkum, ræktaði garðinn sinn o.s.fr. Honum var meinilla við konur og kvenfólki var alfarið bannaður aðgangur að klaustrinu sem hann stofnaði.

Fiacra dýrlingur prjónsSem dýrlingur er heilagur Fiacra þekktastur fyrir að vera verndari garðyrkju og lækningarjurta. En jafnframt er hann dýrlingur þeirra sem þjást af kynsjúkdómum (þetta hlutverk er tengt andúð hans á konum); dýrlingur þeirra sem þjást af gyllinæð (sem var kölluð veiki heilags Fiacra á miðöldum) og svo er hann dýrlingur leigubílstjóra! Miðað við þessi hlutverk heilags Fiacra finnst mér ekki sérlega gæfulegt að fela honum einnegin guðlega umsjá með prjónaskap þótt franskir prjónarar í iðnaðarsamtökum hafi kosið svo endur fyrir löngu.

Á myndinni sést stytta af heilögum Fiacra sem aðaldýrlingi írskra garðyrkjumanna. Fiacra starir á akarn sem hann heldur á.
 

Austurkirkjan býður upp á meira aðlaðandi dýrling fyrir trúaðar prjónakonur en sú rómversk-kaþólska, heilaga Paraskevu. Paraskeva er líka kölluð Petka, hugsanlega vegna þess að slavneskar goðsagnir af heiðinni gyðju með því nafni (nafnið þýðir föstudagur og paraskevi er gríska orðið yfir föstudag) hafi blandast við helgisögur af Paraskevu. Heilög Paraskeva er svo kennd við ýmis slavnesk lönd eftir smekk enda vinsæll dýrlingur þar eystra.

Petka dýrlingur prjónakvennaParaskeva fæddist í nágrenni Konstantínópel í Tyrklandi einhvern tíma á 11. öld og var dóttir velstæðra landeigenda. En þegar hún var tíu ára gömul boðaði raust guðs henni að fylgja sér og afneita öðru. Svo Petka litla gaf fátækum öll sín föt og allt sitt dót og hélt til Konstantínópel, foreldrum hennar til mikillar armæðu. Petka flæktist um (enda leituðu foreldrarnir hennar ákaft), gekk í klaustur, heimsótti Jerúsalem og lifði fábrotnu trúarlífi. Engill birtist henni í draumi þegar hún var 25 ára gömul og sagði henni að snúa heim, sem hún og gerði en tveimur árum síðar lést hún. Helgum dómum hennar (gripum og líkamsleifum) var dreift á kirkjur í nágrenninu, seinna meir voru þær fluttar til Belgrad, svo til Konstantínópel en á endanum var þeim safnað saman í kirkju í Rúmeníu.

Kannski er það vegna þess að Paraskeva gaf fátækum klæði sín að hún er höfuðdýrlingur spunakvenna, saumakvenna, vefara og prjónakvenna.
 

Í grísk-orþódoxu kirkjunni er 14. október helgidagur Petku/Parachevu.  Á síðunni sem krækt er í kemur fram að þennan dag, í Búlgaríu, megi konur helst ekki lyfta litla fingri og stranglega er bannað að spinna eða prjóna. (Í sumum búlgörskum þorpum ríkir algert bann við að snerta á ull næstu tólf dagana á eftir.) Samkvæmt þjóðtrúnni birtist heilög Petka í snákslíki þeim konum sem vinna með ull á helgidegi hennar. 

Litlum sögum fer af áhuga grísk-kaþólskra á að dubba upp nýjan prjónadýrling, enda Petka svo sem ágæt til starfans, en rómversk-kaþólskar prjónakonur eru sumar ekki hrifnar af honum Fiacra og vilja fá almennilegan einkadýrling prjóns. Eru þar helst nefndar sem kandídatar heilög Gemma Galgani (d. 1903 og tekin í heilagra manna tölu árið 1940) og heilög Rafqa (d. 1914 og tekin í heilagra manna tölu árið 2001). Báðar voru iðnar prjónakonur í lifanda lífi.

Vér lúterstrúar eða jafnvel vantrúar prjónakonur getum látið okkur fátt um finnast og haldið áfram að passa okkar lykkjur sjálfar. En það væri samt óneitanlega gaman að ótvíræður dýrlingur prjóns væri til …
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga prjóns

17. mars 2013

Þjóðsagnir um þunglyndi og konur

Nútíma þjóðsögur eru oft skemmtilegar, t.d. sú um að Hagkaup selji öðru hvoru G-strengi fyrir fimm ára stúlkubörn eða sú um að í máli eskimóa séu óteljandi orð yfir snjó. Eftir lestur greinar eftir geðlækninn Lauru D. Hirschbein velti ég því fyrir mér hvort staðhæfingin um að þunglyndi sé miklu algengara meðal kvenna en karla sé ein af þessum nútíma þjóðsögum sem næstum ómögulegt er að kveða niður. Greinin heitir Science, Gender, and the Emergence of Depression in American Psychiatry 1952-1980 og birtist í Journal of the History of Medicine and Allied Sciences, 2006, 61 hefti:2, s.187. Hér á eftir verður stiklað á stóru um efni greinarinnar.

Post hoc ergo propter hocÞótt aðalumfjöllunarefnið sé að rekja hugmyndir um að þunglyndi sé miklu algengara meðal kvenna en karla er talvert fjallað það hvernig skilgreining á þunglyndi og margauglýstar orsakir þunglyndis eru fengnar með „bakleiðslu“ (Facebook-vinur minn einn stakk upp á þessu orði sem mér finnst lýsa fyrirbærinu vel), þ.e.a.s. með alkunnri rökvillu sem heitir Post hoc ergo propter hoc. Rökleiðsla af þessu tagi ætti erfitt uppdráttar í hugvísindum, a.m.k. get ég ekki ímyndað mér að hún teldist  tæk í mínu fagi,  en virðist prýðilega gjaldgeng í vísindalegri geðlæknisfræði. Í stuttu máli sagt felst röksemdarfærsla geðlæknisfræða í því að fyrir slembilukku uppgötvuðu menn að sum lyf virtust létta lund sjúklinga (sem voru með allt aðra sjúkdóma en þunglyndi), með dýratilraunum tókst að greina áhrif lyfjanna til þess að breyta boðefnaframleiðslu í heila (einkum serótónín og noradrenalínframleiðslu) og því var dregin sú ályktun að þunglyndi stafaði af ruglingi í þessari boðaefnaframleiðlu … sem urðu svo rök fyrir því að ávísa lyfjum sem breyttu boðefnaframleiðslunni gegn þunglyndi. Sá fróðleikur sem læknar hampa við þunglyndissjúklinga er fenginn svona:
 

Þunglyndislyf breyta boðefnaframleiðslu í heila => þunglyndi stafar af rugli á boðefnaframleiðslu í heila => til að lækna þunglyndi þarf að taka þunglyndislyf sem breyta boðefnaframleiðslu í heila.

Mætti ímynda sér sambærilega rökleiðslu um krabbameinslyf og krabbamein:
 

Krabbameinslyf valda hárlosi => krabbamein stafar af of miklu hári => til að lækna krabbamein þarf að taka lyf sem veldur hárlosi.  

Það sjá náttúrlega allir í hendi sér að þetta er hundalógík og rugl. Samt er fullt af fólki sem trúir þessari speki nútímageðlækninga um orsakir þunglyndis.
 

Í prófunum á þessum lyfjum sem breyttu boðefnaframleiðslu heilans var fylgst með hvað breyttist einkum í líðan þeirra sem lyfin voru prófuð á, þau einkenni grúppuð saman og kölluð þunglyndi, lyfin síðan markaðssett sem and-þunglyndislyf (antidepressant), þ.e.a.s. þau drægju úr því sem nú voru orðin viðurkennd einkenni þunglyndis.
 

Fyrstu geðlyfjatilraunir sem tengdust lyfjafyrirtækjum, um og uppúr 1950, voru þannig að geðlæknar prófuðu lyf á alls konar sjúklingum, oft inniliggjandi á spítölum. Lyfin voru ekki prófuð við einum geðsjúkdómi öðrum fremur enda sortéring geðsjúkdóma fremur frumstæð og engin sérstök mælitæki voru til að meta árangurinn. Í þessum fyrstu lyfjatilraunum voru miklu fleiri kvenkyns sjúklingar en karlkyns, sem endurspeglaði einfaldlega kynjaskiptingu sjúklingahóps á geðspítölum. (Um ástæður þess að innlögðum körlum  fækkaði á amerískum geðspítölum eftir stríð hefur verið talsvert bollalagt en það er ekki efni þessarar færslu.) Að þessu leyti voru geðlyfjaprófanir andstæðar öðrum lyfjaprófunum á sama tíma því oft voru lyf eingöngu prófuð á körlum.

Aðferðarfræði í lyfjatilraunum batnaði smám saman og á sjötta áratug síðustu aldar var farið að velja sjúklingahópa í þunglyndislyfjatilraunir. Sjúklingar máttu bara taka þátt í svoleiðis tilraunum ef þeir sýndu einhver einkenni þunglyndis en þeir sem stríddu við önnur vandamál, t.d. alkóhólisma, voru útilokaðir. Um leið var skilgreiningin á þunglyndi þrengd mjög: Þunglyndir voru þeir einir sem sýna mátti fram á að gætu hlotið bata af þunglyndislyfjum. Þessi strangari sortéring jók enn vægi kvenkyns prófenda í hópi þeirra sem þunglyndislyf voru prófuð á. Rannsakendur höfðu litlar sem engar áhyggjur af kynjahallanum en þó má finna dæmi af einum rannsakanda sem bendi á að kynjahalli í þunglyndi hyrfi ef alkóhólismi væri talinn með.

þunglynd konaUpp úr 1970 lýstu þunglyndislyfjarannsakendur því almennt yfir að þunglyndi væri algengara meðal kvenna en karla. Á áttunda áratugnum óx kvenréttindahreyfingum fiskur um hrygg og félagsvísindamenn hoppuðu á yfirlýsingar lyfjarannsakenda og fóru að reyna að greina hvaða þættir í félagslegu umhverfi kvenna gætu gert illt verra þegar litið væri til þess að þeim væri hættara til að veikjast af þunglyndi en körlum. Smám saman varð hugmyndin um að þunglyndi væri fyrst og fremst kvennasjúkdómur að kennisetningu sem fáir urðu til að gagnrýna. Má segja að þessi nýja kennisetning hafi náð hæstu hæðum í viðamikilli rannsókn á þunglyndi þar sem eingöngu voru rannsakaðar konur. Af niðurstöðunum voru hins vegar dregnar ályktanir um þunglyndi almennt og í greinaskrifum um þessa rannsókn var upp og ofan hvort þess var getið í titlum eða útdráttum að viðföng rannsóknarinnar hefðu verið konur einar.

Þunglyndislyfjarannsóknir voru sem sagt frá upphafi gerðar á óflokkuðum hópum með geðræna sjúkdóma þar sem hallaði mjög á karla í þátttöku, þunglyndi skilgreint út frá því hvaða einkenni þunglyndislyfin virtust slá á, virkni lyfjanna við akkúrat þessum einkennum var síðan notuð til auglýsa lyfin sem and-þunglyndislyf (anti-depressant). Þarf varla að taka fram að konur voru í meirihluta þeirra sem höfðu þessi einkenni, voru þ.a.l. greindar þunglyndar af vel upplýstum og velauglýsingalesnum læknum og urðu mikill meirihluti hraðvaxandi þunglyndissjúklingahóps.

Mar�a meyÞað vakti sérstaka athygli mína að Hirschbein segir frá því í fyrstu almennt samþykktu skilgreiningunni á þunglyndi, þ.e.a.s. upptalningu sjúkdómseinkenna í DSM-III (sem kom út árið 1980), var pirringur (lýsing á „irritability“) sem sagt var geta einkennt þunglyndi barna og unglinga. Þegar næsta útgáfa af greiningarlyklinum kom út, DSM-IIIR árið 1987, var búið að fella þetta einkenni út og það hefur ekki birst aftur. Hirschbein nefnir þetta bara í neðanmálsgrein en af því ég er örugglega ekki eini þunglyndissjúklingurinn sem verð óstjórnlega pirruð út af smámunum þegar sjúkdómurinn blossar upp velti ég því fyrir mér af hverju pirringur er ekki lengur talinn með í einkennum þunglyndis (hann er heldur ekki talinn í ICD-10, þeim greiningarlykli sem íslenskt heilbrigðiskerfi á að nota). Í ljósi þess sem ég fjallaði um í síðustu færslu hvarflar að mér að pirringur sé ekki talinn sjúkdómseinkenni þunglyndis af því hann samrýmist ekki hugmyndum (geðlækna?) um það hvernig konur séu í innsta eðli sínu; „hin góða kona“ er vissulega veiklynd og grátgjörn … en skilur allt og umber allt. Og af því erkitýpa þunglyndissjúklings er einmitt sú sama og erkitýpa kvenna að mati nútímakarlremba (áður var þessi týpa kannski þekktust sem mynd rómantískra skálda af mæðrum sínum …  ætli megi ekki rekja hana aftur til Maríu meyjar) er eðlilegt að fella út sjúkdómseinkenni sem ekki falla að þeirri dýrlegu kvenmynd. Ég reikna með að einhverjar svona undirliggjandi hugmyndir hafi valdið því að pirringur úr hófi fram telst ekki lengur einkenni á þunglyndi.

Og svo fóru menn að spá í af hverju konur yrðu miklu frekar þunglyndar en karlar. Í greininni segir af rannsókn Klaiber o.fl. en Klaiber þessi var sannfærður um að estrógen-hormónið virkaði eitthvað samfara  boðefnarugli í heila. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir tókst honum ekki að færa sönnur á að estrógen hefði neitt með með þunglyndi kvenna að gera. Samt sem áður lýsti hann þessu yfir:
 

Þunglyndi er fylgifiskur fyrirtíðarspennu. Þess vegna er freistandi að velta því fyrir sér hvort fyrirtíðarspenna og þunglyndi séu hvort tveggju hluti af sömu samfellu þar sem styrkur MAO (mónóamíðs) greini þetta tvennt að.

Áhuginn á meintu mikilvægi kvenhormóna í þunglyndi var svo mikill að einn rannsóknarhópur ákvað að nýta þessar hugmyndir fyrir þunglynda karla og rökstuddi tilraun sína þannig:
 

[…] ef ofurkvenleiki (being ‘more female’) tálmar svörun sjúklings við imipramíni (gömlu þríhringlaga þunglyndislyfi) og ef karlmennska (being male) bætir svörun (ásamt því að minnka líkur á þunglyndi) þá gæti aukin karlmanneska (being ‘more male’) bætt svörun við imipramín enn frekar.

Svo rannsakendur reyndu að gefa fimm þunglyndum karlmönnum testósterón. Því miður fengu fjórir af þessum fimm körlum sjúklega ofsóknarkennd af testósteróninu. Rannsóknarhópurinn játaði sig þó engan veginn sigraðan heldur lýsti yfir: „Það er freistandi að segja að með því að nota karlhormón höfum við snúið þeim sjúkdómi þessara fjögurra karla frá því að vera dæmigerður sjúkdómur kvenna til þess að vera dæmigerður sjúkdómur karla.“

Hirschbein rekur síðan hvernig mælitæki til að mæla þunglyndi hafi verið afar kynjamiðuð, annars vegar Hamilton-skalinn sem var upphaflega þróaður eingöngu með hliðsjón af karlkyns þunglyndissjúklingum og hins vegar geðlægðarkvarða Becks, sem var hannaður með hliðsjón af sjúklingahópi þar sem konur voru í meirihluta. Hönnun beggja mælitækjanna hafði það að leiðarljósi að mæla árangur meðferða sem verið var að prófa (Hamilton-kvarðinn til að mæla árangur í þunglyndislyfjatilraunum, Becks-kvarðinn til að mæla árangur af hugrænni atferlismeðferð) en ekki að mæla/kvarða tiltekinn sjúkdóm, þ.e. þunglyndi. Seinna meir var farið að nota Becks kvarðann til að skima fyrir þunglyndi meðal almennings en menn hafa aldrei velt því fyrir sér hvort svona spurningalisti um tilfinningar, hannaður til að mæla lækningarmátt ákveðinnar sálfræðimeðferðar með hliðsjón af hópum sem konur skipuðu að meirihluta, henti körlum eða virki yfirhöfuð sem gott greiningartæki á þunglyndi karla.

Skv. grein Hirschbein hefur aldrei verið rannsakað almennilega hvort konum hætti meir til þunglyndis en körlum. Rannsakendur gáfu sér í upphafi þunglyndislyfjarannsókna að fleiri konur væru þunglyndar en karlmenn (sem stafar af kynjahlutfalli sjúklinga á amerískum geðspítölum eftir stríð); þ.a.l. hefur áherslan verið lögð á að greina konur, veita konum læknishjálp (aðallega ávísa þeim lyfjum) og setja fram kenningar byggðar á konum sem hefur svo leitt til þeirrar niðurstöðu að þunglyndi sé algengara meðal kvenna en karla. Eftir lestur greinarinnar liggur í augum uppi að meginvandinn er sá að þunglyndi hefur aldrei verið skilgreint sem sjúkdómur heldur skilgreint sem listi einkenna sem ákveðin lyf kunna að ráða bót á stundum. Að mínu mati hefur læknavísindunum þokað nákvæmlega ekkert frá tímum Hippókratesar í skilningi á þunglyndi.

Kenningin um að þunglyndi sé algengara meðal kvenna en karla virðist því studd af svipaðri “bakleiðslu“ (Post hoc ergo propter hoc) og kenningin um að boðefnarugl í heila sé orsök þunglyndis: Hvort tveggja á lítið skylt við vísindi heldur eru nútíma goðsögur.
 
 
 

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa

14. mars 2013

Hafa þunglyndislækningar villst af leið?

Það var fyrir réttu ári síðan að augu mín opnuðust; Ég áttaði mig á því að ég myndi aldrei ná bata með hefðbundnum aðferðum geðlækna við þunglyndi. Svo merkilegt sem það nú er var það bókmenntafræði sem opnaði mér leið. Af rælni hafði ég fengið lánaða bókina Sykdom som litteratur á bókasafni, ætlaði raunar bara að glugga í kaflana um berkla og holdsveiki en kíkti svo líka í kaflann um þunglyndi. Allt í einu rann upp fyrir mér að ég var farin að gegna hlutverki bókmenntapersónu, klisju eða erkitýpu, en ekki persónu af holdi og blóði. Eitt er að lesa nýrómantískan harmagrát - allt annað að þurfa að leika nýrómantíska harmræna kvenpersónu upp á hvern dag og finna sig engan veginn í hlutverkinu.

Stytta af þunglyndri konuMeðan ég var að átta mig á hvernig viðhorf geðheilbrigðisstarfsmanna til sjúklinga má að einhverju leyti skilja út frá bókmenntafræðikenningum bloggaði ég færslurnar Geð, sál, líkami, staðalímynd og  Haltu kjafti og vertu … þunglynd?, sem reyndust fara sérstaklega fyrir brjóstið á þáverandi geðlækninum mínum. Í færslunum er tekið nokkuð djúpt í árinni og eftir að hafa kynnt mér hefðbundnar þunglyndislækningar í ár sé ég að málin eru flóknari en í þeim kemur fram. En þetta var góður byrjunarreitur fyrir mig og raunar er ég enn sammála megninu af færslunum. Ég rakst núna áðan á klausu eftir sálfræðinginn og geðhvarfajúklinginn Kay Redfield Jamison um tengsl þunglyndis og erktýpu kvenleikans:

Þunglyndið samræmist betur hugmyndum þjóðfélagsins um það hvernig konur séu í innsta eðli sínu, þ.e.a.s. hlédrægar, viðkvæmar, veiklyndar, bjargarlausar, grátgjarnar, ósjálfstæðar, ringlaðar, fremur leiðinlegar og ekki mjög metnaðarfullar. (S. 90 í Í róti hugans.)

Margt af ofantöldu voru sjúkdómseinkenni mín en eru hreint ekki hluti af mínu skapferli og sumu hef ég megnustu skömm á. Það má vel spyrja sig hvort viðmót einhverra þeirra sem sjúklingar á borð við mig mæta í geðheilbrigðiskerfinu mótist af trú þeirra á að þessi einkenni séu eftirsóknarverð fyrir konur.

Í Morgunblaði (mannsins) í dag er aðsend grein eftir þær Svövu Arnardóttur og Tinnu Ragnarsdóttur, Leiðir til lausna heitir greinin og fjallar um leiðir til bata í geðrænum veikindum. Ég er löngu búin að átta mig á því að það er ekki ég sem hef verið svona sérstaklega óheppin í viðskiptum við geðlækningakerfið heldur er saga mín saga margra. Í grein Svövu og Tinnu er lýst því sem fjölmörgum geðsjúkum er talin trú um:

Áður en ég kynntist Hugarafli hafði ég ekki hugmynd um að hægt væri að ná sér eftir geðræn veikindi. Þó hafði ég stundað sjálfsvinnu og glímt við þunglyndi og kvíða í áraraðir. Hafði sótt þjónustu til ýmissa sálfræðinga og geðlækna og hvergi fengið þau skilaboð að ég gæti náð mér og orðið heilbrigður einstaklingur á nýjan leik. Ég fékk hins vegar að heyra það að ég væri þunglynd að eðlisfari og ef ég væri dugleg að taka lyfin mín og tæki þau um ókomna framtíð gæti ég vonast til að halda þessum einkennum í skefjum. Slík skilaboð draga úr vonum og væntingum einstaklings …

Síðan lýsir mælandi hvernig hann lærði af samtölum við aðra, þ.e. heyrði „lífssögur einstaklinga sem voru komnir langt í bata en höfðu verið á sama stað og ég“, öðlaðist fyrirmyndir og mætti jákvæðu viðmóti „í viðtölum við fagaðila sem lýsti yfir trú á mér. Það þekkti ég ekki áður.“

Þessa hjálp sem skilaði árangri fékk höfundur greinarinnar hjá Hugarafli. Ég hef ekki leitað til Hugarafls, aðallega af því ég bý ekki í Reykjavík og hef oft á tíðum verið nánast ófær um að bregða mér af bæ. Ég hef hins vegar fengið svipaðan stuðning annars staðar, eftir að ég ákvað að taka mín mál og minn sjúkdóm í eigin hendur, hafandi treyst hefðbundnum geðlæknisaðferðum í blindni í meir en áratug þótt þær skiluðu engum árangri til bóta og yllu mér skaða í mörgum tilvikum. Með hjálp skynsamra og góðra manna hef ég náð miklu betri árangri á því ári sem liðið er en nokkru sinni gafst af pilludótinu og stuðunum. Ég hef fulla trú á að þessi aðferð skili árangri áfram og er voðalega fegin að vera hætt í pilluprófunum og hafa ákveðið að ekki verði flogað meir með rafmagni í heilanum á mér. 
 
Pillusortum við þunglyndi fjölgar æ meir og heilaþvotturinn um að orsakir þunglyndis liggi í tiltölulega einföldu efnaójafnvægi í heila verður æ öflugri … en á sama tíma verður þunglyndi æ algengara og æ þyngri vá og æ meir ólæknandi í þeim skilningi að flestum þunglyndissjúklingum er sagt að þeir þurfi að eta þunglyndislyf til frambúðar. Má þá ekki draga þá ályktun að árangurinn af læknisaðferðunum sé sorglega lítill? Hvað klikkar? Er mögulegt að þunglyndislækningar nútímans séu, þegar allt kemur til alls, skelfilegt kukl en ekki vísindi?

Ein leið til að leita að svörum við þessu er að skoða söguna, hugmyndir fyrri tíðar manna og eldri lækningaðaferðir. Ég er þessa dagana að glugga í efni eftir aðra en geðlækna af því mér þykir, af minni fátæklegu reynslu af geðlæknum, að sýn geðlækna sé þröng, eiginlega má segja að vísindaleg læknisfræðileg sýn á þunglyndi sé gott dæmi um að sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Ég er satt best að segja eiginlega búin að fá mig fullsadda af greinum um þunglyndi eftir geðlækna. Svo ég skoða núna efni um þunglyndi eftir heimspekinga (sem gleður eflaust eiginmanninn mjög) og efni tengt hugmyndasögu og bókmenntum. Fyrir mörgum árum byrjaði ég að lesa The Anatomy of Melancholy (útg. 1621) eftir Robert Burton en gafst upp á að lesa gotneska letrið í útgáfunni sem bauðst þá á Vefnum - nú er ég búin að finna hana á Vefnum með nýmóðins latínuletri og ekkert því til fyrirstöðu að hraðfletta gegnum bókina. Og ég er niðursokkin í grein um tengsl hugmynda sautjándu og átjándu aldar manna um melankólíu við hugmyndir sömu manna um konur … sé ekki betur en kona sem erkitýpa þunglyndissjúklings sé ansi gömul hugmynd ;)

Og heilsan? Tja, leiðin virðist liggja upp á við ef marka má árangur í sunndagskrossgátu moggans og almennt geðslag. En ég glími við draugatilfinningar á hverjum degi. Og minnistruflanirnar geta gert mig geðveika! Ég er svo helvíti metnaðargjörn, sjálfstæð o.s.fr. skiljiðið …
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa

13. mars 2013

Geðlæknar mega dömpa sjúklingum að vild

Eins og ég rakti í bloggfærslunni Geðlæknir dömpar sjúklingi lenti ég í því að geðlæknirinn minn til 12 ára, Engilbert Sigurðsson, sendi mér langt bréf og „sagði mér upp“ sem sjúklingi, að því er virtist vegna þess að honum hugnaðist ekki hvernig ég bloggaði um eigin sjúkrasögu. Ég hafði þó lagt mig í líma við að taka jafnóðum fram að þessar bloggfærslur væru um mig og að ég væri ekki að leita sökudólgi fyrir sjúkrasögu minni, allt frá því hann hringdi í mig í vor, þá sármóðgaður yfir nokkrum færslum sem fjölluðu um erkitýpu þunglyndissjúklinga, óhóflega lyfjagjöf og afleiðingar hennar o.fl. Eftir að ég kvartaði við yfirmann Engilberts fékk ég tölvupóst frá honum þar sem taldar voru upp fleiri ástæður, t.a.m. sú að ég hefði talað við sálfræðing án þess að biðja hann leyfis/spyrja hann áður.

Ég vísaði málinu til Embættis landlæknis af því það vakti furðu mína að starfandi geðlæknir á ríkisspítala gæti upp á sitt eindæmi grisjað í sínum sjúklingahópi ef honum hugnaðist ekki hvernig sjúklingurinn hugsaði og tjáði sig um eigin sjúkdóm. Nú hefur niðurstaða landlæknis borist og ber þess eins og fleiri mál vitni um að landlæknir álíti sitt meginhlutverk vera að standa með sinni stétt, læknum. Niðurstaðan er „að hvorki vanræksla, mistök né ótilhlýðileg framkoma hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu í tilviki Hörpu Hreinsdóttur þann 27. september 2012.“  Nánar tiltekið segir í niðurstöðu Embættis landlæknis:

Þegar ekki ríkir lengur traust og trúnaðarsamband í meðferð, að mati annað hvort sjúklings eða heilbrigðisstarfsmanns, verður að telja þeim báðum heimilt að slíta meðferðarsambandi. Læknirinn í þessu tilviki lét sjúkling sinn vita um það skriflega og með rökstuðningi að það væri hans mat að traust ríkti ekki lengur milli hans og sjúklings og hann sæi sér ekki fært að vera læknir hennar lengur. Þá er það tekið fram að sjúklingur sé áfram velkominn á þá deild Landspítala sem hann hafði dvalið á. Að mati landlæknis verður ekki talið að framkoma heilbrigðisstarfsmanns hafi í þessu tilviki verið ótilhlýðileg. Þá liggur það fyrir að sjúklingur hafði leitað meðferðar hjá öðrum heilbrigðisstarfsmanni um tíma, þ.e. sálfræðingi og hafði lagt drög að því að leita til annars geðlæknis, en ekki óskað ráða eða atbeina umrædds læknis við það. Verður því ekki fundið að því að læknirinn hafi ekki komið sjúklingi til meðferðar hjá öðrum geðlækni.

Það er niðurstaða landlæknis að læknir hafi ekki sýnt af sér ótilhlýðilega framkomu er hann tilkynnti kvartanda bréflega að honum væri ekki fært að vera læknir hans lengur.

Engilbert Sigurðsson er yfirlæknir á deild 32 A á Landspítalanum. Það vekur furðu mína að landlæknir skuli telja honum það til tekna að hann taki fram að ég megi áfram leggjast inn á þá geðdeild þurfi ég á sjúkrahúsvist að halda. Er það sérstakt tillit? Eru þá dæmi þess að yfirlæknar á geðdeildum Landspítala meini sjúklingi sjúkrahúsvist að geðþótta?

Hvað varðar annan geðlækni þá hafði Engilbert sjálfur nefnt að e.t.v. farnaðist mér betur hjá öðrum lækni en honum, í því langa símtali í apríl sl., sem af minni hálfu fór í það að útskýra fyrir honum hvernig bloggfærslur væru skrifaðar (að þær hverfðust oftast um eitt eða fá viðfangsefni) og hvað bókmenntafræðihugtök í færslununum sem hann móðgaðist yfir þýddu. Ég tók ábendingu hans til greina og kannaði öðru hvoru sl. sumar hvort ég kæmist að hjá öðrum lækni, án árangurs. Þetta sagði ég honum í viðtalstíma átta dögum áður en hann ákvað að segja mér upp og bætti við að ég vildi gjarna vera áfram hjá honum. Hann sýndi aldrei vott af áhuga á því að aðstoða mig við að komast að hjá öðrum lækni og satt best að segja hélt ég að honum þætti það ekki í sínum verkahring miðað við viðbrögð.

Af álitsgerð Embættis landlæknis má því ráða að stingi læknir upp á því við sjúkling að hann leiti annars læknis geti læknirinn fljótlega í kjölfarið losað sig við sjúklinginn án þess að teljast hafa brotið gegn því sem segir í leiðbeiningum landlæknisembættisins til lækna, Góðir starfshættir lækna (s. 9):

Að slíta sambandi læknis við sjúkling

24. Í undantekningartilfellum kunna að koma upp þær aðstæður, til dæmis ef sjúklingur hefur beitt lækni eða samstarfsfólk ofbeldi eða ítrekað hegðað sér af tillitsleysi eða ósanngirni, að trúnaðartraust milli læknis og sjúklings rofnar og læknirinn telur nauðsynlegt að slíta sambandi við sjúkling sinn. Við þannig aðstæður verður læknir að tryggja að ákvörðun hans sé sanngjörn og brjóti ekki í bága við ákvæði 5. greinar í þessum leiðbeiningum. Læknirinn verður að vera reiðubúinn til að réttlæta ákvörðunina, verði eftir því leitað. Læknir ætti ekki að slíta sambandi við sjúkling sinn af þeirri ástæðu einni að sjúklingurinn hafi kvartað undan honum eða samstarfsfólki hans nema að læknirinn meti það svo að trúnaður milli hans og sjúklingsins sé rofinn með öllu og læknirinn treysti sér ekki til að veita sjúklingi óvilhalla þjónustu.

25. Lækni ber að tilkynna sjúklingi munnlega eða skriflega um ástæður þess að hann hefur ákveðið að slíta sambandinu við sjúklinginn. Einnig ber honum að gera ráðstafanir til þess að tryggja að sjúklingurinn fái fljótlega áframhaldandi meðferð og afhenda sjúkraskýrslur hans nýjum lækni eins fljótt og auðið er.

Engilbert Sigurðsson telur að ég hafi rofið trúnaðarsamband læknis og sjúklings með því að hafa talað einu sinni við sálfræðing án hans vitundar. Það er auðvitað gráthlægilegt í þessu samhengi að lesa lofgrein um gagnsemi sálfræðimeðferðar við þunglyndi sem hann er meðhöfundur að. Nú er þessi sálfræðingur prýðilega menntaður, betur menntaður en Engilbert, og starfar m.a. á geðsviði Landspítala svo það er ekki eins og ég hafi verið að leita á náðir þeirra illu kuklara sem læknum er uppsigað við. Formaður Geðlæknafélagsins hefur líkt sálfræðingum við sjúkraþjálfara. Ætli það sé algengt að gigtarlæknar, skurðlæknar eða aðrir sérfræðilæknar telji það sjúklingum sínum til vansa að leita til sjúkraþjálfara án leyfis frá þeim? Eða er viðhorf geðlækna til sálfræðinga allt annað en viðhorf annarra sérfræðinga til sjúkraþjálfara og sálfræðinga?

Þótt Embætti landlæknis kjósi að telja sálfræðing jafngildan geðlækni í sínum úrskurði er alls ekki svo í raunveruleikanum. Ég þarf reglulega að skila vottorðum um krankleik minn til ýmissa lífeyrissjóða. Sálfræðingar geta ekki gefið út vottorð. Þótt Embætti landlæknis kjósi að kalla það að leita til sálfræðings „meðferð hjá öðrum heilbrigðisstarfsmanni“ eru sálfræðingar ekki innan heilbrigðiskerfisins að því leyti að þjónusta þeirra sé greidd af sjúkratryggingum. Þeir hafa í rauninni ósköp svipaða stöðu innan heilbrigðiskerfisins og nuddarar eða aðrir græðarar.

Nú velti ég því fyrir mér hvort ég eigi að nenna að kæra málsmeðferð Embættis landlæknis til Velferðarráðuneytisins. Ef landlæknir telur það meginhlutverk sitt að verja lækna sé ég ekki ástæðu til að ætla að Velferðarráðuneytið sé ekki sama sinnis. Ég hef þrjá mánuði til að íhuga þetta. Í rauninni skiptir ákvörðun Engilberts Sigurðssonar um að dömpa mér sem sjúklingi af því hann var móðgaður yfir því hvernig ég blogga um sjúkrasögu mína mig engu máli. Í langri og ruglingslegri greinargerð Engilberts til Embættis landlæknis gat hann ekki sýnt fram á neitt sem benti til þess að ég bæri ekki traust til hans lengur en eins og í bréfi hans til mín var þar mikið um staðreyndavillur, sem ég sá ekki ástæðu til að leiðrétta því kvörtun mín beindist ekki að læknismeðferð Engilberts undanfarin tólf árin. Það virðist duga landlækni að það sé „hans [Engilberts] mat að traust ríkti ekki lengur milli hans og sjúklings“ og það án þess að Engilbert hafi getað rökstutt það mat sitt með gildum rökum. Ég á ekki von á að aðrir geðlæknar séu jafn hörundsárir og hann og hef raunar ekki gert tiltekinn geðlækni að sérstöku umfjöllunarefni á mínu bloggi nema Engilbert Sigurðsson eftir hið dramatíska uppsagnarbréf frá honum.

Meginástæða þess að ég fylgdi þessu máli eftir og fjalla um það opinberlega er að ég hef haft nokkrar spurnir af einmitt þessu háttalagi einstakra geðlækna; að ef sjúklingur tjái sig opinberlega um sjúkrasögu sína og læknismeðferð tilkynni geðlæknir að hann sé hættur að vera læknir sjúklingsins. Í einu tilviki hafði þetta geigvænlegar afleiðingar fyrir sjúkling. Svoleiðis að ég vildi fá álit Embættis landlæknis á akkúrat þessu háttalagi. Virðist að af áliti embættis Landlæknis megi skilja að hvaða læknir sem er geti losað sig við hvaða sjúkling sem er að því tilskildu að læknirinn hafi áður stungið upp á að sjúklingurinn leitaði til annarra lækna og að sjúklingurinn hafi leitað sér hjálpar án leyfis læknisins, þess vegna hjá aðila utan ríkisrekins heilbrigðiskerfis.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa

12. mars 2013

Hringur Aðalsteins konungs, skalli Skalla-Gríms o.fl.

Við í íslenskumafíunni í FVA höfum dálítið rætt um þáttinn Ferðalok - Silfur Egils Skallagrímssonar sem sýndur var á sunnudagskvöld á RÚV. Þetta var skemmtilegur og fróðlegur þáttur og ég hlakka til að sjá næstu þætti. En eins og fleiri kollegar mínir hér á Skaga kann ég Egils sögu næstum utanbókar. Og mér kom sumt í þessum þætti spánskt fyrir sjónir.

Það sem kom kannski mest á óvart var senan þegar Aðalsteinn Englakonungur réttir Agli hring á sverðsoddi sem í Egils sögu er lýst þannig:

Aðalsteinn konungur sat í hásæti; hann lagði og sverð um kné sér, og er þeir sátu svo um hríð, þá dró konungur sverðið úr slíðrum og tók gullhring af hendi sér, mikinn og góðan, og dró á blóðrefilinn, stóð upp og gekk á gólfið og rétti yfir eldinn til Egils. Egill stóð upp og brá sverðinu og gekk á gólfið; hann stakk sverðinu í bug hringinum og dró að sér, gekk aftur til rúms síns; konungur settist í hásæti. En er Egill settist niður, dró hann hringinn á hönd sér, og þá fóru brýn hans í lag; lagði hann þá niður sverðið og hjálminn og tók við dýrshorni, er honum var borið, og drakk af.

giftingarhringur Aðalsteins konungs?Yfirleitt hefur þessi lýsing verið skilin sem svo að Aðalsteinn konungur hafi rétt digran armhring yfir eldinn. Skömmu áður hafði Egill greftrað bróður sinn og spennt gullhring á hvora hönd honum. Vilji menn leggja lýsingu á karakter Egils út á versta veg má skilja háttalag hans í veislu Aðalsteins sem merki um eftirsjá Egils eftir að hafa splæst þessum gullhringjum á lík Þórólfs, í augnabliks geðshræringu, því Agli var einkar sárt um fé og dýrgripi. Orðalagið „að spenna hring á hönd“ eða „draga hring á hönd“ bendir óneitanlega til armbands fremur en fingurgulls, hefði Egill ekki öðrum kosti „dregið hring á fingur sér”? Og verðmæti gjafar Aðalsteins minnkar auðvitað gífurlega ef hann splæsti bara baug á borð nútíma giftingarhring. (Í svari Guðrúnar Kvaran við spurningunni Hvers vegna breyttist orðið hringur í armband, og fingurgull í hring?“, á Vísindavefnum, má fræðast um rugling milli orðanna hringur og baugur í tímans rás, sem er raunar ekki sérlega upplýsandi varðandi þetta atriði nema til að staðfesta að orðið hringur þýddi mjög oft armband.)

Annað sem einnig kom okkur stórneytendum Egils sögu á óvart var hve Skalla-Grímur var vel hærður fram á sinn síðasta dag. Þegar hann krefur Egil um silfur Aðalsteins konungs blasa við hrokknir lokkar. Fer lítið fyrir „skalla þeim hinum mikla“ sem var „fullur upp úlfúðar“ mörgum áratugum áður. Raunar er gersamlega óskiljanlegt af hverju Grímur fékk þetta viðurnefni sé miðað við það sem sást í þættinum.

Þeir feðgar eru báðir miklir myndarmenn í þættinum, eiginlega talsvert sjarmerandi, sem er ekki í samræmi við lýsingar Egils sögu. Egill lítur meira að segja út eins og velhært og sprækt unglamb þegar hann fer að husla silfrið sitt, þá áttræður, skv. Egils sögu búinn að missa sjón, heyrn að hluta og sídettandi, karlanginn …

armhringur frá v�kingaöldNú kann einhverjum að finnast að ég sé að agnúast út í smáatriði í annars góðum þætti. En mér finnst að vilji menn fjalla um Íslendingasögur á annað borð sé lágmarkskrafa að þeir hafi lesið þessar sögur og viti skil á frægustu lýsingum í þeim. Ef menn nenna því ekki er best að sleppa því að sýna atburði úr þeim og gera annars konar heimildaþætti, t.d. um fornleifar.

Myndir eru skjámynd úr þættinum sem um er rætt í færslunni og mynd af  þremur armbaugum úr silfri frá víkingaöld sem fundust á Englandi. Ljómandi fallegan víkingaaldar-armhring úr gulli má sjá hér.
 
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Bækur