Færslur frá 13. mars 2013

13. mars 2013

Geðlæknar mega dömpa sjúklingum að vild

Eins og ég rakti í bloggfærslunni Geðlæknir dömpar sjúklingi lenti ég í því að geðlæknirinn minn til 12 ára, Engilbert Sigurðsson, sendi mér langt bréf og „sagði mér upp“ sem sjúklingi, að því er virtist vegna þess að honum hugnaðist ekki hvernig ég bloggaði um eigin sjúkrasögu. Ég hafði þó lagt mig í líma við að taka jafnóðum fram að þessar bloggfærslur væru um mig og að ég væri ekki að leita sökudólgi fyrir sjúkrasögu minni, allt frá því hann hringdi í mig í vor, þá sármóðgaður yfir nokkrum færslum sem fjölluðu um erkitýpu þunglyndissjúklinga, óhóflega lyfjagjöf og afleiðingar hennar o.fl. Eftir að ég kvartaði við yfirmann Engilberts fékk ég tölvupóst frá honum þar sem taldar voru upp fleiri ástæður, t.a.m. sú að ég hefði talað við sálfræðing án þess að biðja hann leyfis/spyrja hann áður.

Ég vísaði málinu til Embættis landlæknis af því það vakti furðu mína að starfandi geðlæknir á ríkisspítala gæti upp á sitt eindæmi grisjað í sínum sjúklingahópi ef honum hugnaðist ekki hvernig sjúklingurinn hugsaði og tjáði sig um eigin sjúkdóm. Nú hefur niðurstaða landlæknis borist og ber þess eins og fleiri mál vitni um að landlæknir álíti sitt meginhlutverk vera að standa með sinni stétt, læknum. Niðurstaðan er „að hvorki vanræksla, mistök né ótilhlýðileg framkoma hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu í tilviki Hörpu Hreinsdóttur þann 27. september 2012.“  Nánar tiltekið segir í niðurstöðu Embættis landlæknis:

Þegar ekki ríkir lengur traust og trúnaðarsamband í meðferð, að mati annað hvort sjúklings eða heilbrigðisstarfsmanns, verður að telja þeim báðum heimilt að slíta meðferðarsambandi. Læknirinn í þessu tilviki lét sjúkling sinn vita um það skriflega og með rökstuðningi að það væri hans mat að traust ríkti ekki lengur milli hans og sjúklings og hann sæi sér ekki fært að vera læknir hennar lengur. Þá er það tekið fram að sjúklingur sé áfram velkominn á þá deild Landspítala sem hann hafði dvalið á. Að mati landlæknis verður ekki talið að framkoma heilbrigðisstarfsmanns hafi í þessu tilviki verið ótilhlýðileg. Þá liggur það fyrir að sjúklingur hafði leitað meðferðar hjá öðrum heilbrigðisstarfsmanni um tíma, þ.e. sálfræðingi og hafði lagt drög að því að leita til annars geðlæknis, en ekki óskað ráða eða atbeina umrædds læknis við það. Verður því ekki fundið að því að læknirinn hafi ekki komið sjúklingi til meðferðar hjá öðrum geðlækni.

Það er niðurstaða landlæknis að læknir hafi ekki sýnt af sér ótilhlýðilega framkomu er hann tilkynnti kvartanda bréflega að honum væri ekki fært að vera læknir hans lengur.

Engilbert Sigurðsson er yfirlæknir á deild 32 A á Landspítalanum. Það vekur furðu mína að landlæknir skuli telja honum það til tekna að hann taki fram að ég megi áfram leggjast inn á þá geðdeild þurfi ég á sjúkrahúsvist að halda. Er það sérstakt tillit? Eru þá dæmi þess að yfirlæknar á geðdeildum Landspítala meini sjúklingi sjúkrahúsvist að geðþótta?

Hvað varðar annan geðlækni þá hafði Engilbert sjálfur nefnt að e.t.v. farnaðist mér betur hjá öðrum lækni en honum, í því langa símtali í apríl sl., sem af minni hálfu fór í það að útskýra fyrir honum hvernig bloggfærslur væru skrifaðar (að þær hverfðust oftast um eitt eða fá viðfangsefni) og hvað bókmenntafræðihugtök í færslununum sem hann móðgaðist yfir þýddu. Ég tók ábendingu hans til greina og kannaði öðru hvoru sl. sumar hvort ég kæmist að hjá öðrum lækni, án árangurs. Þetta sagði ég honum í viðtalstíma átta dögum áður en hann ákvað að segja mér upp og bætti við að ég vildi gjarna vera áfram hjá honum. Hann sýndi aldrei vott af áhuga á því að aðstoða mig við að komast að hjá öðrum lækni og satt best að segja hélt ég að honum þætti það ekki í sínum verkahring miðað við viðbrögð.

Af álitsgerð Embættis landlæknis má því ráða að stingi læknir upp á því við sjúkling að hann leiti annars læknis geti læknirinn fljótlega í kjölfarið losað sig við sjúklinginn án þess að teljast hafa brotið gegn því sem segir í leiðbeiningum landlæknisembættisins til lækna, Góðir starfshættir lækna (s. 9):

Að slíta sambandi læknis við sjúkling

24. Í undantekningartilfellum kunna að koma upp þær aðstæður, til dæmis ef sjúklingur hefur beitt lækni eða samstarfsfólk ofbeldi eða ítrekað hegðað sér af tillitsleysi eða ósanngirni, að trúnaðartraust milli læknis og sjúklings rofnar og læknirinn telur nauðsynlegt að slíta sambandi við sjúkling sinn. Við þannig aðstæður verður læknir að tryggja að ákvörðun hans sé sanngjörn og brjóti ekki í bága við ákvæði 5. greinar í þessum leiðbeiningum. Læknirinn verður að vera reiðubúinn til að réttlæta ákvörðunina, verði eftir því leitað. Læknir ætti ekki að slíta sambandi við sjúkling sinn af þeirri ástæðu einni að sjúklingurinn hafi kvartað undan honum eða samstarfsfólki hans nema að læknirinn meti það svo að trúnaður milli hans og sjúklingsins sé rofinn með öllu og læknirinn treysti sér ekki til að veita sjúklingi óvilhalla þjónustu.

25. Lækni ber að tilkynna sjúklingi munnlega eða skriflega um ástæður þess að hann hefur ákveðið að slíta sambandinu við sjúklinginn. Einnig ber honum að gera ráðstafanir til þess að tryggja að sjúklingurinn fái fljótlega áframhaldandi meðferð og afhenda sjúkraskýrslur hans nýjum lækni eins fljótt og auðið er.

Engilbert Sigurðsson telur að ég hafi rofið trúnaðarsamband læknis og sjúklings með því að hafa talað einu sinni við sálfræðing án hans vitundar. Það er auðvitað gráthlægilegt í þessu samhengi að lesa lofgrein um gagnsemi sálfræðimeðferðar við þunglyndi sem hann er meðhöfundur að. Nú er þessi sálfræðingur prýðilega menntaður, betur menntaður en Engilbert, og starfar m.a. á geðsviði Landspítala svo það er ekki eins og ég hafi verið að leita á náðir þeirra illu kuklara sem læknum er uppsigað við. Formaður Geðlæknafélagsins hefur líkt sálfræðingum við sjúkraþjálfara. Ætli það sé algengt að gigtarlæknar, skurðlæknar eða aðrir sérfræðilæknar telji það sjúklingum sínum til vansa að leita til sjúkraþjálfara án leyfis frá þeim? Eða er viðhorf geðlækna til sálfræðinga allt annað en viðhorf annarra sérfræðinga til sjúkraþjálfara og sálfræðinga?

Þótt Embætti landlæknis kjósi að telja sálfræðing jafngildan geðlækni í sínum úrskurði er alls ekki svo í raunveruleikanum. Ég þarf reglulega að skila vottorðum um krankleik minn til ýmissa lífeyrissjóða. Sálfræðingar geta ekki gefið út vottorð. Þótt Embætti landlæknis kjósi að kalla það að leita til sálfræðings „meðferð hjá öðrum heilbrigðisstarfsmanni“ eru sálfræðingar ekki innan heilbrigðiskerfisins að því leyti að þjónusta þeirra sé greidd af sjúkratryggingum. Þeir hafa í rauninni ósköp svipaða stöðu innan heilbrigðiskerfisins og nuddarar eða aðrir græðarar.

Nú velti ég því fyrir mér hvort ég eigi að nenna að kæra málsmeðferð Embættis landlæknis til Velferðarráðuneytisins. Ef landlæknir telur það meginhlutverk sitt að verja lækna sé ég ekki ástæðu til að ætla að Velferðarráðuneytið sé ekki sama sinnis. Ég hef þrjá mánuði til að íhuga þetta. Í rauninni skiptir ákvörðun Engilberts Sigurðssonar um að dömpa mér sem sjúklingi af því hann var móðgaður yfir því hvernig ég blogga um sjúkrasögu mína mig engu máli. Í langri og ruglingslegri greinargerð Engilberts til Embættis landlæknis gat hann ekki sýnt fram á neitt sem benti til þess að ég bæri ekki traust til hans lengur en eins og í bréfi hans til mín var þar mikið um staðreyndavillur, sem ég sá ekki ástæðu til að leiðrétta því kvörtun mín beindist ekki að læknismeðferð Engilberts undanfarin tólf árin. Það virðist duga landlækni að það sé „hans [Engilberts] mat að traust ríkti ekki lengur milli hans og sjúklings“ og það án þess að Engilbert hafi getað rökstutt það mat sitt með gildum rökum. Ég á ekki von á að aðrir geðlæknar séu jafn hörundsárir og hann og hef raunar ekki gert tiltekinn geðlækni að sérstöku umfjöllunarefni á mínu bloggi nema Engilbert Sigurðsson eftir hið dramatíska uppsagnarbréf frá honum.

Meginástæða þess að ég fylgdi þessu máli eftir og fjalla um það opinberlega er að ég hef haft nokkrar spurnir af einmitt þessu háttalagi einstakra geðlækna; að ef sjúklingur tjái sig opinberlega um sjúkrasögu sína og læknismeðferð tilkynni geðlæknir að hann sé hættur að vera læknir sjúklingsins. Í einu tilviki hafði þetta geigvænlegar afleiðingar fyrir sjúkling. Svoleiðis að ég vildi fá álit Embættis landlæknis á akkúrat þessu háttalagi. Virðist að af áliti embættis Landlæknis megi skilja að hvaða læknir sem er geti losað sig við hvaða sjúkling sem er að því tilskildu að læknirinn hafi áður stungið upp á að sjúklingurinn leitaði til annarra lækna og að sjúklingurinn hafi leitað sér hjálpar án leyfis læknisins, þess vegna hjá aðila utan ríkisrekins heilbrigðiskerfis.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa