Færslur frá 8. apríl 2013

8. apríl 2013

Er íslenski skautbúningurinn frá Normandí?

Prjónasaga getur leitt mann út um ótrúlegustu trissur. Í dag hef ég annars vegar lesið heilmikið um aftöku Karls I. Englandsskonungs og svo hins vegar reynt að glöggva mig á því af hverju íslenski skautbúningurinn virðist sniðinn eftir skautbúningum í Normandí. Ég vissi fyrir að fæst í íslenskum þjóðbúningum er sér-íslenskt; Ekki upphluturinn, ekki víravirkið, ekki baldýringin, ekki blómstursaumurinn/mislöngu sporin, ekki pilsið, ekki stakkurinn sem tilheyrir 19. aldar faldbúningi og líklega ekki peysan í peysufötunum heldur … kannski helst að skotthúfan sé séríslenskt fyrirbæri, þróuð úr norður-evrópskum karlmannshúfum fyrri tíma og endaði í skelfilega ópraktísku höfuðfati. Og ég vissi auðvitað að vinsæl útsaumsmunstur á 20. aldar faldbúningi og skautbúningi eru ekki íslensk, eitt það vinsælasta skreytir t.d. flest grísk hótelhandlæði. En ég hélt í alvörunni að Siggi séní hefði hannað faldinn upp úr sér og mætti þá kalla hann íslenskan.

Ástæðan fyrir því að ég fór að athuga þetta var að í ferðabók sem ég var að glugga í lýsir ensk ferðakona búningi íslenskrar stúlku um 1890 svona:
 
 

The dress consisted of a thickly-pleated black silk skirt, very full and somewhat short, embroidered round the bottom with a deep band of gold thread; a black bodice, also similarly embroidered with gold down the front and round the collar; a handsome necklet and girdle of silver gilt, and a high head-dress of white muslin, in appearance resembling a Normandy cap. This, she told us, she always wore on Sundays and great occasions, dressing like an Englishwoman on week days.
(Tweedy, Alec. A Girl’s Ride in Iceland. Önnur útgáfa 1894, aðgengileg á Gutenberg.org.)

Bóndakona � Normand�Svo ég fór að skoða þetta mál, þ.e.a.s. pæla í því af hverju þessi hái höfuðbúnaður minnti ensku konuna á húfur í Normandí. Komst svo að því að faldur og skaut minna ekki bara á höfuðbúnað í Normandí heldur er þetta hreint og beint kóperað frá Normandí. (Ljósmyndin er af bóndakonu í Normandí, sú ber fald og blæju. Ég veit ekki hvenær hún er tekin.)

Snúum okkur nú að upphafsmanninum: Sigurði málara.
 

Sigurður Guðmundsson (f. 1833, d. 1874) hannaði sem fyrr sagði íslenska skautbúninginn sem fegurðardrottningar landsins skarta ávallt á 17. júní, okkur alþýðunni til yndis og ánægjuauka.

Sigurður gerði grein fyrir hugmyndum sínum um nýjan íslenskan kvenbúning í greininni Um kvennbúninga á Íslandi að fornu og nýju, sem birtist í Nýjum félagsritum árið 1857. Þetta er kostuleg og skemmtileg grein sem ég hvet alla til að lesa. Sigurði gekk ætlunarverk sitt feikilega vel, þ.e. að fá að ráða því hverju íslenskar konur klæddust. Elsa E. Guðjónsson segir í bæklingnum Íslenskir þjóðbúningar kvenna nú á dögum, árs. 1999 og aðgengilegur á vef:

Féllu breytingartillögur þessar í góðan jarðveg; lét Sigurður enda ekki sitja við orðin tóm heldur hjálpaði konum um myndir, snið og munstur og sagði fyrir um hvernig búningurinn ætti að vera í öllum smáatriðum. Var fyrsti skautbúningurinn kominn í notkun í Reykjavík þegar síðla árs 1859, og hefur haldist síðan svo til óbreyttur.

Hafi menn áhuga á konunum sem gerðu drauma og fantasíur Sigurðar málara að veruleika bendi ég á síðuna Hagleiksfólk og hugsuðir, á vef Byggðasafns Skagfirðinga, en þar segir frá Sigurlaugu Gunnarsdóttur í Ási, mikilli hannyrðakonu, sem var ein af þeim konum.   

Í greininni í Nýjum félagsritum fer Sigurður um víðan völl yfir íslenskar fornsögur og fornkvæði og er ekki feiminn að draga víðtækar ályktanir um klæðaburð til forna af lýsingum í þeim. Svo kemur kafli þar sem hann hneykslast mjög á klæðnaði íslenskra kvenna einmitt nú (þ.e. árið 1856-57), segir m.a. um höfuðbúnað þeirra sem klæða sig upp á:
 

Fyrir hinn þjóðlega fald, sem Freyja sjálf bar, eptir því sem hin gömlu kvæði vor kenna oss, höfum vér fengið hatta, sem í sniði varla líkjast neinu, sem konur hafa borið fyr eða síðar; þeir líkjast mest hellisskúta, svo að konur, sem bera þá, líkjast mest steinuglum, eða kattuglum, sem hnipra sig inn í skúta til að forðast dagsljósið. (s. 37)

Svo víkur Sigurður að öðrum þjóðum og segir: „… hvergi veit eg að bændafólk sé að sækjast eptir útlendum búníngum, jafnmikið og víðast á Íslandi … Í flestum löndum lætr bændafólk sér nægja að bera sinn eigin þjóðbúníng.“ (s. 39)

Þegar hann snýr sér að því að ræða æskilegan fald við æskilegan nýjan búning kemur þetta:
 

Í Norðmandí, sem að mörgu er álitið kjarninn úr Frakklandi, sér maðr faldinn enn í dag, og hefir hann haldizt við síðan á dögum Göngu-Hrólfs; þessvegna mun það vera, að Frökkum, sem koma til Íslands, verður svo starsýnt á faldinn, því hann er einn hluti þeirra gamla þjóðbúníngs. (s. 41)

Faldur frá Normand�Eftir að hafa stungið upp á að núverandi faldi (gamla spaðafaldinum) verði breytt, því „þessi þunni leggr lítr ekki vel út frá hlið að sjá, og er líkastr öngli“, sagt að ekki ættu konur að hylja hárið með faldinum (enda hefðu þær Guðrún Ósvífursdóttir og Helga hin fagra ekki gert það) og lagt til að „gamli“ höfuðdúkurinn væri settur yfir faldinn, ítrekar hann tenginguna við Normandí: „Ég hef áðr sýnt yðr, að konur í Norðmandí láta sér þykja sóma að bera fald enn í dag, en þær þykja fríðastar og dugmestar af frakkneskum konum.“ (s. 52) Myndin er af normönnskum faldi, án blæju, á Listasafninu í Boston. Hún krækir í síðu safnsins með stærri mynd og upplýsingum um faldinn.

Íslenskar konur hlýddu því strax að klæðast sams konar faldi og þær fríðustu og dugmestu meðal franskra kvenna, konurnar í Normandí á Frakklandi. Hefur sjálfsagt ekki spillt ef þær íslensku hafa trúað því að þessi faldur væri frá dögum þess hrausta danska víkings Göngu-Hrólfs. Og þær hafa örugglega viljað allt til vinna svo þær líktust ekki lengur steinuglum og kattuglum …

Íslenski faldurinn og skautið er svona:

Íslenskur faldur undir skautiFaldurinn sjálfur, sem einnig er nefndur faldhúfa, er króklaga og fremur lágur. Hann er saumaður úr hvítu lérefti, en tilsniðin lengja úr pappa eða eirþynnu (faldpappi, faldeir) höfð innan í honum ofanverðum. Þá er hann troðinn út með ull eða öðru viðeigandi tróði og fóðraður utan með hvítu smálérefti eða atlasksilki (satíni). Yfir faldinum er blæja, faldblæja, úr hvítu netefni, stundum með hvítum ídregnum saumi og/eða brydd samlitri blúndu, en utan um faldinn neðanverðan er gyllt koffur úr silfri, hlekkjað saman úr stokkum með mismunandi skrautverki, eða gyllt spöng, oftast nær slétt, úr silfri eða látuni. Faldhnútur, breitt hvítt hnýti (slaufa) úr silkiborða er undir blæjunni að aftan til þess að hylja samskeytin á blæjunni og koffrinu eða spönginni.
(Elsa E. Guðjónsson. 1999. Íslenskir þjóðbúningar kvenna nú á dögum. Myndin sýnir þegar verið er að festa faldinn á höfuð stúlku.)

Í svari Æsu Sigurjónsdóttur við spurningunni Hver er uppruni íslenska spaðafaldsins eða skauts í íslenska faldbúningnum? á Vísindavefnum 19. des. 2012 telur hún ekki ólíklegt að Sigurður málari hafi haft frelsishúfuna frönsku (bonnet de la Liberté) að fyrirmynd faldsins í skautbúningnum. Þessi húfa var upphaflega hvít en síðar rauð, í frönsku stjórnarbyltingunni. Hún var raunar vinsæl í ýmsum stjórnarbyltingum, t.d. hömpuðu Ameríkanar svona húfum í sínu frelsisstríði og kölluðu Liberty Caps. Frelsishúfurnar eru líklega þekktast nútildags á Strumpunum. Rök Æsu eru að amerísk kvenréttindakona sem sá íslenska skautbúninginn á kvennaþingi í Búdapest árið 1913 sagði í blaðagrein: „The head dress is a small white satin “liberty cap” in a golden coronet … surrounded by a sort of bridal veil. Freedom, modesty and beauty, courage and intellect – there was a warm welcome to Iceland.“

Sjálfri sýnist mér einsýnt að Sigurður málari Guðmundsson hafi einfaldlega gert höfuðbúnað kvenna í Normandí á 19. öld að sínum og þar með að aðalstássinu í flottasta íslenska búningnum, hátíðabúningnum: Skautbúningnum! Það er því hlálegt að hugsa til alls þess regluverks sem íslenskar konur hafa sett í kringum þennan búning síðan Sigurði datt þetta í hug.
 

Hvað ætli konum í þjóðbúningaráðinu í Normandí finnist um íslenska skautbúninginn?

Íslenskur skautbúningur og skautbúningur � Normand�
 
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf