Færslur júnímánaðar 2013
Sól og sumar og bloggfrí
Sólin skín og sumarið er komið og ég nenni æ sjaldnar að kveikja á tölvunni. Svoleiðis að þetta blogg er eiginlega bara tilkynning um að komið sé bloggsumarfrí. Það er skemmtilegra að yrkja garðinn sinn akkúrat núna, tsjilla á pallinum prjónandi, lesandi, sólbaðandi sig … lífið er einkar ljúft þessa dagana. Og nýdoktorinn að kalla á mig í kvöldmatinn í þessum skrifuðum orðum …
Drömun á Netinu
Það hefur fátt markvert borið til tíðinda upp á síðkastið. Kannski er það þess vegna sem netheimar loga dag eftir dag yfir smotteríi. Og orðbragðið í “umræðum netverja” (kommentum Facebook-notenda) er þess lags að alþýðukonu upp á Skaga setur hljóða.
Fyrst kom sú hryllingsfrétt að halda ætti Fegurðarsamkeppni Íslands í haust. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og aðrir vaskir femínistar skráðu sig eins og skot í keppnina, gættu þess að láta netmiðla vita af þessu og sumir femínistar fóru að safna handarkrikahári fyrir haustið. Facebook-kommenterar fóru offari yfir væntanlegri kúgun kvenna. Svona keppni er nefnilega kúgun kvenna og valdstjórnartæki illa innrættra karla því allir vita að ekki er hægt að keppa í fegurð. Það er hins vegar hægt að keppa í stauraburði og fótamennt og ýmsu öðru sem karlar keppa aðallega í. Femínistarnir hafa a.m.k. ekkert við svoleiðis að athuga. Þarf varla að taka fram að Fegurðarsamkeppni Íslands hefur aldrei verið eins rækilega auglýst og núna. Enda sett met í skráningu í hana.
DV gerði þá stórkostlegu uppgötvun að forsetafrúin hefði flutt lögheimili sitt til Englands fyrir hálfu ári. Kommenterar eru flestir á sveif Dorritar enda kemur hún alþýðlega fyrir, segir skemmtilegar vitleysur á íslensku, klæðist stundum lopapeysu og á hund sem hún elskar úr af lífinu. (Til skýringar: Það er sætt þegar útlendingar misþyrma íslenskri tungu. Það er ekki sætt þegar ambaga veltur upp úr Íslendingi, allra síst framsóknarmanni og allra allra síst framsóknarkonu.) Þess vegna fjalla kommentin við fréttina dévaffs og afleiddar fréttir netmiðla aðallega um að lögheimilislög séu hvort sem er svo vitlaus að það verði að breyta þeim svo forsetafrúin geti löglega átt lögheimili á Bretlandi og þurfi ekki að fremja lögbrot eða jafnvel að skilja við forsetann okkar allra. Ráðamenn sem DV hefur náð í hafa þau ein svörin að enginn hafi kært. Næsta holl hliðhollra kommentera bendir á að skattalögin séu hvort sem er svo vitlaus að það sé skiljanlegt að Dorrit hafi þurft að flytja lögheimilið til Englands. Raunar hefur komið fram að hún hefur aldrei greitt auðlegðarskatt hér á landi þótt lögheimilið hafi verið úti á Álftanesi en það skiptir ekki máli, skattalögin eru samt vitlaus. Engum hefur dottið í hug líkleg raunveruleg ástæða sem er að Dorrit vilji komast á svig við lög um gjaldeyrismál, sem sé komast hjá því að skipta pundunum sínum í krónur ef hún skyldi græða að ráði. Skiptir sosum ekki máli því allir vita hvað gjaldeyrislögin eru vitlaus. Niðurstaðan er hin sama: Aumingja forsetafrúin að þurfa að flytja til útlanda af því íslensk lög eru svo vitlaus og hún svo óheppin að vera svo auðug í útlandinu ….
Eftir tveggja daga netstorm um bágt hlutskipti forsetafjölskyldunnar, a.m.k. frúarinnar og Sáms, dró nýja bliku á loft og fljótlega var skollið á ofsaveður í netvatnsglasinu: Í ljós kom að aðstoðarmaður ráðherra hafði sent fundarboð á rangt netfang! Við tók drama sem í gærmorgun var farið að líkjast Dreyfusmálinu franska.
Kjarninn í málinu var að ráðherra vildi ræða við tvo forsvarsmenn undirskriftarsöfnunar. Mér finnst líklegast að aðstoðarmaður ráðherra hafi einfaldlega farið línuvillt í netfangalista tölvuþjónustu háskólans og sent boðið á netfangið aj, sem er netfang deildarstjórans yfir öðrum manninum (sem rekur velþekkt blogg undir skammstöfuninni AK).
Þessi mistök reyndust afdrifarík. Lögmaður mannanna taldi að í þeim fælust hótun um atvinnumissi og fór mikinn. Lögmaður þessi ratar reglulega í fréttir DV, síðast vegna þess að hún var yfir sig hneyksluð á að vera rukkuð fyrir styrktarsímtöl sonar síns. Í netheimum er Helga Vala góður lögfræðingur, samfylkingarkona m.m., enda eldar hún reglulega grátt silfur við Brynjar Níelsson, sem alþýða netheima veit að er vondur lögfræðingur því hann er sjálfstæðismaður m.m. Maðurinn sem ekki fékk allan tölvupóstinn skrifaði tvær bloggfærslur um dramatíkina í lífi sínu, í hinni seinni kom fram að dagurinn hafi verið lýjandi og nóttin erfið og hann þarfnaðist sárt að fá hvíld og ró. Skiljanlegt í ljósi þeirra skelfilega örlaga sem biðu hans ef marka mátti Fb.kommentera og uppslætti dévaffsins.
Þegar ekki lá fyrir annað en að sparka þessum aðstoðarmanni ráðherra fyrir að hafa sent fundarboð á rangt netfang og helst ráðherranum með brast á blæjalogn. Maðurinn sem átti yfir höfði sér atvinnumissi (og kannski ríkisborgaramissi og guð-má-vita-hvar-etta-hefði-endað) birti bloggfærslu um að allt hefði þetta verið eðlilegt! Aðstoðarmaðurinn hafði víst líka hringt í hann og sent honum SMS, auk þess að senda tölvupóst á netföng sem hún taldi að tilheyrðu manninum: Fundarboðið hafði verið sent honum á einkanetfang en afrit á netfang yfirmannsins á vinnustaðnum. Aðstoðarmaðurinn hafði margbeðist afsökunar og gefið skýringar sem “fórnarlambinu” fundust fullkomlega trúverðugar. Ef marka má þessa bloggfærslu var Dreyfusarmálið nýja aldrei neitt mál nema í vatnsglasi Facebook-sítengdra. (Ég tek fram að mér þykir ólíklegt að obbinn af þeim drekki latte.)
Nú er spurningin: Hvað næst? Mun einhver framsóknarráðherrann sjást með lausan hund? Mun Vigdís missa út úr sér málvillu? Mun Brynjar Níelsson tjá sig um Fegurðarsamkeppni Íslands eða handarkrikahár? Hverfur Lúkas á ný? Hvaða flog fá Facebook-kommentarar næst?
Fitjunarfræði, tækniorðaforði og tossar
Svo ég tengi fyrirsögnina: Ég er tossi þegar kemur að því að skilja skýringarmyndir! Hef fyrir löngu sjálfgreint mig með átakanlegan skort á rýmisgreind (sem fyrir daga greiningarfræðanna miklu hét rúmskynjun). Ekki skrítið í því ljósi að mér veittist nám í evklíðskri rúmfræði erfitt og fannst það hundleiðinlegt, álíka leiðinlegt og hin rúmfræðin sem átti að læra fyrr, dæmi á borð við: Ef keila dettur ofan í píramída fullan af vatni … o.s.fr. Því miður var ekki búið að starta frelsisbaráttu tossanna á þeim tíma svo ég neyddist til að leggja ómælda vinnu í að læra þetta helvíti til að ná prófum. Passaði að gleyma því strax eftir próf.
Nú er ég að setja mig inn í fitjunarfræði, merk vísindi sem ekki voru kennd í skólum í gamla daga nema mjög takmarkað. Þökk sé nýrri tækni, einkum YouTube og öðru vídjódóti á vefnum: Mér hefur loksins tekist að skilja silfurfit, ekki hvað síst eftir að ég fattaði að það myndi vera hið sama og heitir “twisted German cast-on” í flestum kennslumyndböndum (nema á Garnstudio þar sem aðferðin heitir “Gammel Norsk rett“, “Gömul norsk aðferð” í íslensku útgáfu síðunnar). Til að flækja málin er húsgangsfitin á Garnstudio kölluð silfurfit í íslenskri útgáfu síðunnar. Hin raunverulega og rétta silfurfit er víst stundum kölluð tvöföld fit.
Mér þótti fyrirfram augljóst að sú fit sem er kennd í skólum væri skólafit. En málið er ekki svo einfalt, það er nefnilega húsgangsfit sem er kennd í skólum, skólafit er aftur á móti prjónuð fit. Á hinn bóginn er til flóknara afbrigði af skólafit á Garnstudio sem er kallað keðjuaðferð en sagt vera “einnig kölluð prjónað uppfit.” (Mér þætti gaman að vita hver þýðir eiginlega textann á Garnstudio á íslensku, sá virðist halda að uppfit sé hvorukynsorð …). “Prjónaða uppfitið”, þ.e. “keðjuaðferðin” er hið sama og heitir kaðaluppfit í þeim prjónafræðum íslenskum sem ég er að lesa þessa stundina.
Eftir miklar spekúlasjónir um hvað væri eiginlega gullfit (engar nýtilegar upplýsingar að finna á Vefnum um hana nema að orðið er gamalt) datt mér í hug að skoða Íslenska orðabók, munandi að Elsa E. Guðjónsson skrifaði hannyrðaorðskýringarnar í þeirri bók. Elsa klikkaði ekki: Gullfit mun vera sama og hundafit. Og skólafit heitir líka breiðafit. Þegar ég sá að Elsa telur húsgangsfit og silfurfit það sama runnu á mig tvær grímur og ég hætti að treysta henni …
Eftir stendur: Hver fjandinn er Halldórufit? Ég veit að hún er kennd við Halldóru Bjarnadóttur, eins og Halldóruhællinn frægi (sem ég hef hugsað mér að vara fólk við því nýuppfundinn Tómatahæll virðist mun árennilegri) og ég veit að hún þótti léleg fit en mér hefur ekki tekist að komast að því hvernig Halldórufit er.
Affellingafræði verða að bíða um sinn en þau eru sko ekki einfaldari en uppfitjunarfræðin! Næst liggur fyrir að kenna sjálfri mér að prjóna rétta brugðna lykkju. Ég prjóna nefnilega snúna brugðna lykkju, sem kemur yfirleitt ekki að sök því ef ég prjóna fram og til baka prjóna ég snúnar sléttar lykkjur á réttunni og tvöfaldur snúningur gerir ósnúið, alveg eins og tveir mínusar breyttust í plús í stærðfræðinni. Skv. Elsu E. Guðjónsson var svona snúið prjón (stundum kallað austrænt snúið prjón) algengasta prjónaaðferð á Íslandi frá því Íslendingar lærðu að prjóna. Á vorum rétttrúnaðartímum þykir þetta hins vegar ekki fínt, nú eiga allir að prjóna vestrænt og ósnúið. Svo ég verð að læra að prjóna ósnúna brugðna lykkju (kann ósnúna slétta lykkju). Til að flækja málin var brugðin lykkja kölluð snúin lykkja þar sem ég ólst upp svo raunar prjóna ég snúna snúna lykkju, skv. orðfæri bernsku minnar …
Svo er það tækniorðaforðinn sem ég á alveg eftir að tileinka mér. Fór í tvöfalda afmælisveislu áðan og notaði tækifærið til að stökkva á handavinnukennara í grunnskóla sem þar var gestkomandi og þýfga um prjónakennslu. Varð margs vísari nema fékk ekkert gott íslenskt orð yfir Entrelac. Kaðlaprjón, hélt handavinnukennarinn að þetta væri kallað. Það getur eiginlega ekki verið því kaðlaprjón hlýtur að vera að prjóna hefðbundna kaðla og fléttur … entrelac á lítið skylt við það. Einhver sem veit þetta?
—-
Svona smá innlegg í tossafræðin: Ég sakna þess að leikfimi, nútildags stundum kölluð íþróttir, sé ekki dregin inn í tossa-brottfalls-útaf-stöðnuðu-skólakerfi-s-umræðuna. Leikfimi er það aleiðinlegasta sem ég man eftir úr minni skólagöngu. Öll heimsins stærðfræði kemst ekki í hálfkvisti við leikfimi! Nú er ég stúdent í leikfimi en ég held að þetta sé eina fagið sem aldrei hefur komið að nokkrum einustu notum í mínu lífi. Ég tek fram að sum stærðfræði nýtist prýðilega í prjóni, t.d. margföldun tomma með sentimetrum eða sú ómissandi undirstöðuregla þríliða (sem mér skilst raunar að sé ekki lengur kennd í skólum). En ég hef aldrei þurft að fara í kollhnís, hvorki áfram né aftur á bak, aldrei þurft að (reyna að) standa á höfði né höndum og aldrei þurft að brúka megrandi og styrkjandi gólfæfingar fyrir kviðvöðva og læri, hvað þá að ganga í takt. Leikfimi var gersamlega handónýtt nám, sem eytt var óratíma í árum saman. Leikfimi og sund voru einu fögin sem ég var raunverulegur tossi í … svo það er kannski ágætt að þau reyndust gagnslaus þegar upp er staðið
—
Að lokum eru tvær vísur úr ágætu kvæði, Gripið í prjóna, sem birtist í Speglinum í janúar 1966. Í kvæðinu er fjallað um nýja tækni, hvernig skólakerfið klikkar nútildags og hvernig mætti bæta vinnulag á Alþingi: Allt eru þetta málefni sem eru mjög til umræðu akkúrat núna.
Þessi iðn nú þekkist valla
þrátt fyrir tækni-væðing alla,
langskólun og lærdómsstrit.
Fráleitt mundi finnast drengur
sem fær er um að þekkja lengur
húsgangs- eða hunda-fit.
Þetta er heilnæm handavinna
sem hollt þeim einkum væri að sinna,
er semja lög og sitja þing.
Vinnutímann vel skal nota,
þá væri ráð að sitja og pota
í duggarasokk og sjóvettling.
Spinalonga og morð
Svo ég vendi kvæði mínu strax í kross frá fyrirsögninni þá fór ég á bókasafnið áðan til að vita hvort þangað hefði borist bókin Hælið eftir Hermann Stefánsson. Enginn hafði heyrt á hana minnst og bókaverðir fengu upp það sama og ég í Gegni, nefnilega að ekkert bókasafn á þessa bók. (Og heldur ekki þessa eftir okkar nýja ágæta bæjarlistamann sem er með í 1005 hollinu, a.m.k. minnir mig að þetta sé talan 1005 sem heiti tímarits hefst á …) Af prinsippástæðum kaupi ég bókina ekki sem rafbók, ég kaupi nefnilega ekki íslenska rafbók á höfundaréttarvörðu epub-formi fyrir 2.500 kr. til þess að þurfa svo að brjóta hana upp og konvertera til að geta lesið hana á mínum Kindli …
En prinsipp eru náttúrlega til að brjóta þau svo ég upplýsi að ég var í þessu að fjárfesta í Polis eftir Nesbø, á sænsku reyndar. Hún var að vísu ólæst en auðvitað epub-skrá. Ég þarf nefnilega að vita hvort Harry Hole hjarir enn eftir að hafa verið skotinn í tætlur og rotta byrjuð að gæða sé á honum (líkinu) í lok síðustu bókar … það þarf væntanlega sterk bein til að vakna aftur til lífsins eftir svoleiðis trakteringar.
Er nýbúin að lesa nýjustu bók Kristinar Ohlsson, Davidsstjärnor. Hún er helv. góð eins og hinar bækurnar hennar. Yfirleitt er ég svona tveimur þremur bókum á undan íslensku þýðingunum á skandinavískum reyfurum … get upplýst að Marco effekten hans Jussi Adler-Olsen er fantagóð en hef gefist upp á Mons Kallentoft, alkóhólískir órar hinnar skyggnu lögreglukonu eru orðnir of fyrirferðarmiklir.
Svo potast ég hægt og bítandi gegnum The Island eftir Victoriu Hislop. Þetta var metsölubók fyrir nokkrum árum, hefur verið þýdd á Norðurlandamálin nema íslensku. Eiginlega nenni ég alls ekki að klára hana en af því ég hef ákveðið að heimsækja Spinalonga (gríska nafnið er Kalydon), pínupons-eyju fast við Krít, í sumar verð ég náttúrlega að klára söguna frægu sem gerist akkúrat þarna. Á Spinalonga voru holdsveikir geymdir fram til 1957 en eyjan er nú óbyggð.
Til mótvægis við morðin og holdsveikrarómantíkina hef ég Ritið og TMM og Skírni og Sögu. Er búin að lesa nýjustu heftin af þeim þremur síðasttöldu og langt komin með að lesa um ýmsar tegundir af minni í Ritinu. Og svo les ég prjónauppskriftir lon og don af stakri ánægju. Verst að ég er of fljót að lesa, annars gæti ég lesið prjónandi. (Þarf að fletta svo hratt að það er ekki vinnandi vegur að prjóna á meðan.) Er á útkikki eftir prjónastykkjum sem eru einföld, helst fljótleg og ekki ljót. Þetta fer ekki vel saman svo það þarf að leita vel. Veðrið er mér einkar hliðhollt í þessu bardúsi.
Náttúrlega skanna ég helstu vefmiðla og blogg daglega en yfirleitt ristir þetta svo grunnt að tíu mínútur með morgunkaffinu duga prýðilega í svoleiðis lestur. Ég hef samt gaman af því að sjá hvernig fólk getur trompast yfir fegurðarsamkeppni einn daginn, lögheimilisflutningi Dorritar næsta dag … og fylgist grannt með rómantíseríngu tossanna, mikil ósköp
Hvílíkur munur
Fyrir rúmum fjórtán mánuðum ákvað ég að hætta á lyfjum. Þetta potast svona hægt og bítandi, enn er et ég síðasta lyfið á listanum, Míron, en er komin ofan í rétt rúmlega fjórðung af dagskammti. Miðað við áætlun (sem byggist á mínus 3,75 mg á sex vikna fresti) klára ég að trappa Míronið niður einhvern tíma í september. Ég finn fyrir hverri tröppu þótt lág sé, fyrst í erfiðleikum að sofna og tveimur-þremur vikum eftir að trappa er tekin fæ ég hitasteypur og kölduhroll öðru hvoru í svona viku. Svo er það búið og ég sigli lygnan sjó næstu þrjár vikurnar, þá er næsta trappa. Þrátt fyrir áhuga geðlækna á breytingaskeiði kvenna hef ég aldrei fundið nokkurn skapaðan hlut fyrir sama breytingaskeiði en fæ þessi „dýrmætu“ kynni af hitasteypum af Míron-tröppun alltaf öðru hvoru
Verandi orðin svona skínandi „clean and sober“ af lyfjum hugsa ég til þess með hryllingi þegar ég var látin trappa þrefaldan dagskammt af Míron út á tveimur vikum … sumir geðlæknar halda nefnilega (ranglega) að það sé ekkert mál að hætta á þunglyndislyfjum, líklega hafa þeir lesið það í greinum eftir aðra geðlækna.
Kjálkaverkur vinstra megin gerir mér enn lífið leitt, einkum á kvöldin. Stundum er erfitt að sofna af því mig verkjar svo í andlitið. Þessi verkur upphófst þegar ég byrjaði að trappa niður Rivotril og seinna Imovane. Röngtenmyndir hjá tannlækni og af öllum mínum skútum og kinnholum leiða ekkert misjafnt í ljós. Eftir hringferð um heilbrigðiskerfið hef ég fengið ýmsar skýringar á verknum og eru þessar helstar: Slit í hálsliðum (sjúkraþjálfarinn); skútabólga (heimilislæknir); sinaskeiðabólga í sin inni í munninum (sérfræðingur í kjálkaverkjum); bólgur í sina-og vöðvafestingum í hnakkagróf (kínverski læknirinn). Mesta gagnið hefur verið að nuddaranum sem hefur enga sérstaka skýringu á verknum en segist hafa haft kynni af fleirum með svipaða kvilla. Núna er ég komin í kuklið, gef höfuðbeina-og spjaldhryggsjöfnun, með dashi af iljanuddi, séns.
Munurinn á því að vera á lyfjum og að vera að mestu lyfjalaus er ótrúlegur! Lamandi þreytan er að mestu horfin og mér finnst ég hafa breyst aftur í mig sjálfa, er sem sagt orðin ég en ekki þunglyndissjúklingur. Vissulega finn ég alltaf fyrir þunglyndinu en það er allt annað að díla við það með sæmilegri orku og hausinn í lagi. Kvíðinn, jafnt „almenn kvíðaröskun“ sem ofsakvíðaköst, hvarf gersamlega þegar ég hætti á kvíðastillandi lyfinu.
Ég er útskrifuð frá VIRK og sálfræðingnum. Þessir aðilar voru frábærir og veittu mér mikla aðstoð þegar á þurfti að halda. Það er undarlegt að mér skuli aldrei hafa verið bent á VIRK, hafandi verið dyggur kúnni geðsviðs Landspítala árum saman. Ætli menn hafi ekki frétt af VIRK þar á bæ? Fyrir tilviljun (af því að hlusta á útvarpsviðtal) komst ég að því að þetta batterí er til, starfar í mínum heimabæ og hefur á að skipa góðu og skynsömu fólki.
Næsti vetur lofar góðu. Ég held áfram í 25% starfi á haustönninni og er að fara að kenna nýjan áfanga, PRJÓN 103. Nú æfi ég mig að prjóna, sá að það gengur ekki annað en að kunna a.m.k. þrjár uppfitjunaðaðferðir og fjölbreytt prjónatækniatriði úr því ég ætla að kenna öðrum listina að prjóna. Og les uppskriftir … og ræði við reyndar prjónakonur og hannyrðakennara í grunnskóla. Það er raunar mun skemmtilegra að búa til kennsluefni í svona áfanga en búa til kennsluefni fyrir íslenskuáfanga, þótt það taki mun lengri tíma að prjóna sýnishorn en að hræra í gagnvirk krossapróf eða búa til hefðbundin verkefni. Svo krossa ég fingur upp á að kennslan gangi þokkalega, þetta verður a.m.k. spennandi tilraun. Á vorönninni næstu stefni ég á að kenna verklegan nýsköpunaráfanga með öðrum kennara, það þarf ýmislegt að ganga upp svo það verði að veruleika en ég reikna með að þetta gangi allt saman.
Svoleiðis að ég er aftur komin í þá stöðu að gera eitthvað nýtt, búa til áfanga og kennsluefni, sem ég gerði mikið af áður en ég veiktist illa eða öllu heldur lenti í lækningunum . Þetta er ótrúlega gaman! Markmiðið er að ná nógu góðri heilsu til að starfa í 50% kennslu. Það kann að vera fjarlægt í bili en ég mun ná því.
Þetta rúma ár hefur verið einkar lærdómsríkt. Að finna eigin styrkleika en vera um leið á varðbergi fyrir skekktri lífssýn og öðrum þunglyndiseinkennum, að sætta sig við þunglyndið en sætta sig ekki við að vera þunglyndissjúklingur, virðist vera lausnin, a.m.k. skilar þetta miklu betri árangri en meðhöndlun þess geðlæknis sem ég hef lengstum skipt við. Ég er líka önnum kafin við að æfa mig í að losna við reiði og biturð út af eigin lækningasögu. Að vera bitur er eins og að drekka fullt glas af eitri og vonast til að einhver annar drepist, las ég í vetur. Svoleiðis að ég reyni að nota þær ágætu aðferðir sem ég hef lært annars staðar en í geðlækningabatteríinu til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt. Mér finnst það ganga prýðilega. Ég gæti trúað að mínum nánustu, sem urðu ódeyfðir vitni að áhrifum „lækninganna“ árum saman, gangi kannski ekki alveg eins vel að losna við óþægilegar tilfinningar en hef sosum ekki rætt þetta sérstaklega við þá.
Sá um daginn einhverjar meldingar hjá einum netverjanum um að ég hataðist við geðlækna eftir að hafa verið dömpað af einum slíkum. Það er auðvitað algert rugl. Ég kann prýðilega við geðlækninn sem ég hitti reglulega núna. Ef það að skrifa gagnrýnið um sögu geðlækninga, virkni, eða öllu heldur skort á virkni, þunglyndislyfja o.þ.h. telst vera hatur á geðlæknum má með sömu rökum segja að allir bókmenntafræðingar hati skáld Það eina gagnrýniverða við bloggið mitt undanfarið er að ég hef vanrækt sögu handprjónaðra silkijakka á 17. og 18 öld algerlega svakalega …
Það hefur gert mér gott að blogga jafnóðum um það sem ég hef kynnt mér varðandi geðlyf, einkum þunglyndislyf, og geðlækningar. Minni mitt er talsvert skemmt eftir geðlækningaðferðir í rúman áratug og ég man betur ef ég skrifa. Svo fletti ég talsvert upp í eigin bloggi - raunar er mitt eigið blogg ómetanleg heimild um árin sem þurrkuðust út. Eina leiðin til að botna í því af hverju pundað er meiri og meiri lyfjum í þunglyndissjúkling eins og mig, þótt augljóst mætti vera hverjum manni að ég varð veikari og veikari af lyfjunum, er að nálgast hugmyndafræði geðlækninga gegnum sögu þessara lækninga. Eina leiðin til að botna í því af hverju lyfin skiluðu aldrei árangri til bóta er að skoða hvað klínískar rannsóknir á virkni þunglyndislyfja hafa leitt í ljós, hvernig þeim niðurstöðum hefur verið haganlega hagrætt í vísindatímaritum og hvernig geðlæknar hagræða þeim enn meir í samtölum við sína sjúklinga. Svo ekki sé minnst á vinnuna við að skilja vitleysisganginn sem einkennir fjöllyfjagjöf við þunglyndi. Í mínu tilviki var eina leiðin til að ná raunverulegri bót á þunglyndinu sú að setja mig inn í geðlækningar og geðlyfjafræði. Ég held að það sé einsdæmi að sjúklingur skuli þurfa að afla sér svona þekkingar til að eygja von um bata en af reynslunni mæli ég með því að þunglyndissjúklingar geri það.
Lífið er ljúft þessa dagana. Nú hef ég orku til að gera hitt og þetta og heilbrigða skynsemi til að meta hvað ég get gert og hvað ekki.
Geðveikar myndir II
(Sjá einnig Geðveikar myndir, sem eru af öðrum toga en þessar.)
![]() |
![]() |
![]() Thorazine er sama lyf og Largactil (klórprómazín). |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() Remeron er sama lyf og Míron (þunglyndislyf). |
![]() |
![]() Mellaril var upphaflega markaðssett við geðklofa. |
![]() Loxapac var upphaflega ætlað við geðklofa og sturlun. |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() Þetta þunglyndislyf er á markaði hérlendis undir |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() Það var hætt að blanda litium í 7 up árið 1950. |
![]() Sama bensólyf og Sobril. |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
|
![]() Þetta er ekki auglýsing - en ketamin er bjartasta vonin í |
Ég held ég skilji geðlækna
7 janúar 2011 var ég dregin með valdi frá vinnu minni, sett í lögreglubíl og keyrð á geðdeild. Þar var ég látin dvelja inni í herbergi án nokkura útskýringa hvers vegna. Það var föstudagur og ég fekk engin svör fyrr en á mánudegi eftir að hafa legið fyrir alla helgina með þunga hugun og bugað stolt. Næstu 3 mánuðir eru í móðu – en ég man þó að hurðar deildarinnar voru læstar og ef ég varð hrædd þá fékk ég sprautur og var látin sofa úr mér hræðsluna. Ég fékk ekki að vita hvaða lyf var verið að dæla í líkamann minn né hversvegna – sterkir menn sáu um að halda mér þegar ég barðist fyrir lífi mínu.Læknirinn minn talaði vart við mig og sagði mig sjúka – að ég væri í geðrofsástandi og að það yrði að dæla í mig lyfjum til þess að ná mér góðri. Andlegt ástand mitt var engu verra en fyrri mánuði og ár - geðrofsástand var ekki til staðar. Ég er einhverf og átti því erfitt með að umgangast fólk og horfa í augu þess – vegna vanþekkingar þá þótti ég geðrofsleg.
16 mars 2011 fékk ég sprautu – mjög sterka blöndu ætluð veikustu geðklofasjúklingunum – ég reyndi að kalla á hjálp á meðan 6 stæðir karlmenn héldu mér niðri og girtu niður nærbuxurnar mínar til þess að hjúkrunarfræðingurinn gæti sprautað efninu í rasskinn mína.
Ég var svo hrædd að ég upplifði mig fara út úr líkamanum og horfa á ástandið, andliti mínu var þrýst ofaní koddann svo ég gat ekki andað. Ég upplifði sjálfa mig sem misnotað dýr – því ég var ekki meira í hugum þessa manna en óþekkt dýr sem var ekki kjurrt á meðan það var verið að misþyrma því.
Dögum síðar óskaði ég svara um það hvað sprauturnar höfðu að geyma – mér var sagt að hver sprauta væri inni í líkamanum í 6 vikur – en að endurtaka þyrfti lyfjagjöf á 2 vikna fresti - það var gert í eitt skipti eftir þetta.
2 vikum síðar lá ég nær meðvitundarlaus í fósturstellingu uppi í rúmi hágrátandi – og óskandi eftir mömmu minni við rúmstokkinn. Brjóstin mín voru full af mjólk vegna aukaverkanna lyfjanna svo ég varð að mjólka mig eins og eftir barnsburð. Ég lá fyrir hágrátandi í rúmlega 3 mánuði – aukaverkanir lyfja drápu mig næstum því. Ég var svo kvalin að ég get ekki lýst með orðum hversu veik ég var – mamma mín fór grátandi frá mér og grátbað læknanna að hætta að pynta mig.
Til þess að niðurlægja mig enn frekar var ég látin pissa í glas til þess að athuga hvort ég væri ólétt - læknarnir trúðu ekki að allar þessar breytingar á líkama mínum væru vegna þeirra mistaka - þrátt fyrir að ég hafi sagt þeim að ég ætti engan mann og hefði ekki sofið hjá lengi þá sögðu þeir mig of geðveika til þess að muna eftir því hefði það gerst.
Í 6 mánuði var mér haldið inni á læstri deild, þegar ég reyndi að segja læknunum að ég væri ekki haldin geðrofsjúkdóm þá hristu þeir hausinn og sögðu mig í afneitun. Það var ekki fyrr en ég var send frá deild 33c til kleppspítala að læknar sáu berlega að ég var engin geðrofssjúklingur. Lyfjagjöf var því stöðvuð og fóru næstu 3 mánuðir í það að draga mig fram úr rúmi og halda mér lifandi. Áhrif lyfja vörðu í líkama mínum í 12- 15 vikur og var ég ílla kvalinn í þann tíma – svo ílla kvalin að ég get varla hugsað til þess ástands sem ég var í. Ég bað mömmu mína eitt skiptið að drepa mig - ég gat ekki farið fram úr rúminu, baðað mig eða klætt.
(Úr færslunni Tunglið Tunglið taktu mig og berðu mig upp til skýja!, 10. desember 2012, á larakristin.com, krækt er í afrit á Vefsafninu.)
Þessi lýsing er ekki frá dögum hrossalækninganna miklu, geðlækninga fram yfir miðja síðustu öld, heldur greinir í textanum frá atburðum sem gerðust í hittifyrra. Í færslunni kemur og fram að geðlæknirinn hefur ekki beðið sjúklinginn afsökunar á meðferðinni, þótt Landspítalinn hafi beðið hann formlega afsökunar (þetta var ekki í fyrsta sinn sem sjúklingurinn var lagður inn á geðdeild, haldið í einangrun og gefin sterk geðklofalyf). Sjúklingurinn var síðar greindur einhverfur og hefur aldrei þjáðst af geðklofa, geðrofi eða neinum þeim sjúkdómi sem yfirlæknir geðdeildarinnar greindi hann með og sveifst einskis til að lækna. Forræði yfir barni var dæmt af sjúklingnum vegna þess að hann átti sögu um innlagnir á geðdeild Landspítala - þrátt fyrir að yfirmaður geðsviðs hafi útskýrt fyrir dómstólum að sjúkdómsgreiningin hafi verið röng og að meðferðin sem yfirlæknir geðdeildar stjórnaði hefði valdið geðklofa/geðrofseinkennunum.
Þegar þetta mál komst í hámæli í fjölmiðlum bjóst ég við að einhver geðlæknir myndi tjá sig eitthvað í sambandi við það … má t.d. ætla að sjúkdómsgreining sé alla jafna jafnmikið lottó og í þessu tilviki? Væri ekki rétt að upplýsa almenning um á hvaða vísindum geðlæknar byggja í sjúkdómsgreiningu? Þótti íslenskum geðlæknum þetta dæmi vera það saklaust að enginn sá tilefni til að segja skoðun sína á því? Eða er samtrygging geðlækna á Íslandi svo mikil, þörf þeirra fyrir að snúa bökum saman og slá um sjálfa sig skjaldborg, að enginn þeirra þorir að tjá sig?
Eftir að hafa lesið tvær bækur um sögu geðlækninga í Danmörku (Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983 og Psykiatriens Historie i Danmark), ásamt auðvitað A History of Psychiatry from the Era of the Asylum to the Age of Prozac eftir Edward Shorter og talsvert af greinum um efnið, er mér ljóst að:
A) Geðlækningar byggjast ekki og hafa aldrei byggst á vísindalegum grunni. Hér er átt við að orsakir geðsjúkdóma eru jafn huldar og fyrrum, lækningaaðferðir eru sjaldnast studdar vísindalegum forsendum (t.d. veit enginn hvernig raflost virka á heila, forsendur þunglyndislyfja, boðefnaruglið, er getgáta sem núorðið er talin heldur ósennileg, virkni þunglyndislyfja umfram lyfleysu er ekki mælanlega læknisfræðilega (klínískt) marktæk. Um þetta hef ég bloggað margar færslur og vísa í þær helstu, þar sem jafnan er getið heimilda: Nýju lyfin keisarans, Virka þunglyndislyf eða er verkunin aðallega lyfleysuáhrif? og Virka þunglyndislyf?)
Af því að geðlækningar lúta svipuðum lögmálum og kukl, þ.e.a.s. þær eru byggðar á ósönnuðum tilgátum og vísindalegum tilraunum sem ekki hafa sýnt þær niðurstöður sem geðlækningar vilja hafa fyrir satt, er skiljanlegt að yfirlækni á íslenskri geðdeild finnist sjálfsagt að sprauta sjúkling með sterkum geðlyfjum eftir greiningu sem byggð er á tilgátu út í bláinn eins og lýst var í dæminu hér að ofan. Klínísk reynsla þessa læknis er væntanlega að margir sjúklingar með uppástöndugheit verði mun rólegri þegar búið er að sprauta þá duglega með þessum lyfjum og mætti kalla það að sjúklingunum batni við læknisaðgerðina. Þetta er ekki ósvipað og álit geðlækna á síðustu öld var á gagnsemi sjóðheitra baða, brennisteinsolíusprautunar í vöðva, lóbótómíu og daglegra insúlínlosta við geðveiki af ýmsum toga.
B) Geðlæknum var og er mjög í mun að teljast vísindamenn meðal annarra lækna og meðal almennings. Í sögu geðlækninga úir og grúir af vísindalega þenkjandi geðlæknum/taugalæknum sem bjuggu til vísindalegar skýringar á aðferðum sínum eftir á (alveg eins og þunglyndislyfjaframleiðendur nútímans stunda með góðum árangri), t.d. upphafsmaður raflostmeðferðar, Cerletti, sem setti fram þá tilgátu að raflost létu heilann framleiða örvandi efni sem hann kallaði „agro-agonime“ eftir að geðlæknar fóru í stórum stíl að stuða heila sjúklinga sinna. Eða Þórður Sveinsson sem ályktaði um samband truflunar í svitakirtlum og geðveiki eftir að hafa áratugum saman sett sjúklinga sína í heit böð.
Ágætt dæmi úr nútímanum, um hvernig reynt er að skjóta vísindalegum stoðum undir þunglyndislyfjagjöf (sem hvílir á brauðfótum), er yfirlýsing Evrópsku geðlæknasamtakanna um þunglyndislyf, en álit þeirra reynist, þegar öllu er á botninn hvolft, hvíla á klínískri reynslu sem er ómælanleg með öllu. (Um þessa yfirlýsingu er fjallað í færslunni Afstaða evrópskra geðlækna til þunglyndislyfja og krækt í hana þaðan.)
Saga geðlækninga er lituð af þrá geðlækna til að teljast læknar með læknum og er gott að skoða raflost sérstaklega í því sambandi:
Helgi Tómasson sagði um raflost árið 1955:
Þótt trú fólks á lyf sé mikil, mun sönnu næst, að mun meiri sé trú þess á alls konar „tæki“, og á það ekki síður við um læknana sjálfa. Hér fengu geðlæknar upp í hendurnar tæki, sem lét gerast eitthvað, sem þeir og fólk sáu, tæki, sem var auðvelt í meðförum og fljótt álitið virtist ekki gera skaða, eða a.m.k. ekki mikinn skaða. Það var því freistandi að nota það, stundum meira en minna. Samvizkuna mátti friða með því, að eitthvað hefði verið gert og e.t.v. hefði sjúklingnum reitt verr af, ef það hefði ekki verið gert.
(Sjá færsluna Raflost við geðveiki hérlendis, þaðan sem vísað er í heimildir og vitnað í mismunandi sjónarmið íslenskra geðlækna á sjötta áratug síðustu aldar.)
Í bókinni Unhinged, sem kom út árið 2010, segir geðlæknirinn David Carlat um raflost (í kaflanum The Seductions of Technology, s. 167-68):
The major problem with ECT is identical to the problem with psychiatric medications. While ECT works, we have no idea how or why. […] I wonder why psychiatrists need to be present at all. My role was the pusher of buttons, the turner of dials, and the observer of brain waves. [- - -] If something went wrong, and the patient had a cardiatric arrhythmia or a drop in blood pressure, I moved out of the way, and let the specialists sweep in to administer emergency treatment. [- - -]
But if we left ECT to techs, we would lose the only technical procedure that we can call our own. This would be another insult to our sense of being part of the community of physicians.
Saga geðlækninga frá því á 19. öld hefur einnig á stundum markast af baráttu geðlækna gegn almenningi, þ.e.a.s. hve mikilvægt þeim hefur þótt að afneita því að almenningur, t.d. sjúklingar, hefði minnsta vit á geðsjúkdómum og meðferð þeirra. Deilur Knuds Pontoppidan við Amalie Skram o.fl. (sjá færsluna Danskar geðlækningar 1850-1920) snérust að hluta til um þetta, grein Guðfinnu Eydal um kaffæringar og illa meðferð á sjúklingum á Kleppi í tíð Þórðar Sveinssonar og svar Þórðar við gagnrýninni eru líka gott dæmi um vörn geðlæknis gegn áliti sjúklings byggðu á heilbrigðri skynsemi. (Sjá færsluna Upphaf geðlækninga á Íslandi.)
Í tilviki sjúklingsins sem ég vitnaði í efst í þessari færslu var eftir atvikin sem hún lýsir sett sem skilyrði fyrir þjónustu geðsviðs að sjúklingurinn tjáði sig ekki í fjölmiðlum (sjá færsluna Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi?). Ef illmögulegt er að verja „læknismeðferð“ fyrir heilbrigðri skynsemi almennings er kannski best að ekkert vitnist. Til eru dæmi þess að sjúklingurinn sjálfur sé ekki upplýstur um sjúkdómsgreininguna sem bendir til að geðlæknar telji almenning ekki botna mikið í þeirra miklu fræðum og því óþarft að nefna þetta. (Sjá fréttina Siðanefnd læknafélagsins fær á baukinn, í DV 9. feb. 2012.) Sjálf hef ég reynslu af því að vera „sagt upp sem sjúklingi“ af því geðlækninum mínum fyrrverandi hugnaðist ekki að ég fjallaði um geðlækningar á bloggi, eigin sjúkrasögu þar með talda (sjá færsluna Geðlæknir dömpar sjúklingi vegna bloggs).
Af þessum dæmum dreg ég þá ályktun að allt frá í árdaga geðlækninga og til dagsins í dag hafi geðlæknum líkað einkar illa að ótíndur pöpullinn byggði á eigin skynsemi um geðlækningar eða læsi sér til um geðlækningar, svo ekki sé talað um að hann tjái sig um reynslu af geðlækningum. Landsaðgangur að vísindatímaritum um geðlæknisfræði hlýtur að fara í taugarnar á þeim einhverjum …
C) Til að styrkja stöðu sína standa geðlæknar saman, forðast gagnrýni, forðast jafnvel gagnrýna hugsun, og gæta að orðspori stéttarinnar. Edward Shorter hefur bent á að geðlæknar séu „líklegri til að stjórnast af hjarðhegðun en læknar í öðrum greinum læknisfræðinnar, þar sem raunveruleg þekking á orsökum sjúkdóma auðveldar mönnum að halda meðferðartískubólum í skefjum“ (bls. 5 í Before Prozac: The troubled history of mood disorders in psychiatry, útg. 2009, tilvitnun tekin úr Steindór J. Erlingsson. Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni. Tímarit félagsráðgjafa, 5(1): 5-14, 2011.) Geðlæknar tjá sig ekki um geðlækningar starfsbræðra sinna (af báðum kynjum), þeir halda hjörðinni saman og gæta þess að enginn rási útundan sér. Eina undantekningin frá þessu sem ég hef rekist á er Helgi Tómasson, sem ekki lét rekast í hóp íslenskra geðlækna á sínum tíma.
Geðlæknar spyrja sig ekki óþægilegra spurninga heldur taka orð hver annars fyrir sönn og hlúa þannig að nútímagoðsögum. Dæmi um þetta er sú „staðreynd“ sem þeir halda gjarna á lofti að þunglyndi sé miklu algengara meðal kvenna en karla. (Sjá um þetta t.d. erindi Arnþrúðar Ingólfsdóttur og Gloriu Wekker, „Staðreyndir lífsins“ Orðræða geðlækna um tvöfalt tíðara þunglyndi kvenna og færsluna Þjóðsagnir um þunglyndi og konur.)
Geðlæknum er sumum illa við að sjúklingar þeirra leiti álits annarra (ein ávirðingin sem fyrrum geðlæknir minn ber mér á brýn er að ég hafi talað við sálfræðing án þess að biðja hann leyfis fyrst) og vilja halda á lofti sinni sjúkdómsgreiningu á sínum sjúklingum fram í rauðan dauðann (eins og saga Matthildar Kristmannsdóttur er gott dæmi um, sjá bloggfærslu hennar Heilbrigðiskerfið brást og viðtalið Kvaldist í þrjú ár vegna læknamistaka í Fréttatímanum 31. jan. 2013).
Geðlæknar gæta þess síðan í hvívetna þegar þeir fjalla um geðlækningar (t.d. í fjölmiðlum og sögulegum skrifum) að ekki falli blettur á stéttina, þar er enga gagnrýni að finna heldur minnir umfjöllun yfirleitt á aðlaðandi trúboð.
Ég held sem sagt að ég sé langt komin með að skilja geðlækna, að skilja af hverju geðsjúkdómurinn (greindur með réttu eða röngu) skiptir í þeirra huga meginmáli, sem og (óvísindalegar) læknisaðgerðir við sjúkdómnum, en sjúklingurinn sjálfur skiptir litlu máli. A, B og C liðirnir í færslunni, og færslurnar á undan þessari, skýra hirðuleysi geðlækna um aukaverkanir, upp í stórskaðlegar aukaverkanir, af læknisaðferðum þeirra. Umfjöllunin svarar líka spurningu sjúklingsins sem ég vitnaði í fremst í færslunni:
Lífið mitt er markað af mistökum eins læknis - afhverju fær hann að sofa vel á hverju kvöldi en ég þjáist vegna mistaka hans ?