Færslur frá 2. september 2013

2. september 2013

Netumræðan um mál Jóns Baldvins

Ég hef lengi haft áhuga á að skoða hvernig netumræða raunverulega er og gafst gott tækifæri til þess núna. Mig langaði að vita hve margir taka þátt í netupphlaupi á borð við umræðuna um væntanleg störf Jóns Baldvins Hannibalssonar sem gestafyrirlesara í stjórnmálafræðiskor HÍ, hve margir þeirra tjáðu sig á fleiri en einum vettvangi, hvernig þátttaka í netumræðu skiptist eftir kynjum og hvaða afstöðu menn tækju í umræðunni.  Er líklegt að einhvers konar þjóðarsál endurspeglist í netumræðu?

Til þess að komast að þessu skoðaði ég umræðuna við 4 fréttir og 2 blogg eins og hún leit út kl. 16 í gær, sunnudaginn 1. september. Fréttirnar og bloggin voru:

Það fyrsta sem kemur í ljós þegar svona umræðuhalar eru skoðaðir nánar er að umræðan er ekki nærri eins umfangsmikil/innihaldsrík og hún virðist við fyrstu sýn. Við fréttina/bloggin birtast nefnilega tölur um fjölda ummæla en ekki fjölda ritenda, t.d. eru skráð 143 ummæli við Ætla ekki að taka ráðningu Jóns Baldvins þegjandi en höfundar ummælanna eru ekki nema 78 talsins. Í þeim umræðuhala telst t.d. slóð á bloggfærslu á Knúz.is vera 15 ummæli því sama manneskjan sendir slóðina 15 sinnum inn á umræðuvettvanginn. Svo verkið, að skoða umæðuna, var ekki eins óyfirstíganlegt og fljótt á litið mætti ætla.

Helstu niðurstöður eru þessar:

Alls skrifuðu 221 manns athugasemdir við fréttirnar og bloggin sem ég taldi upp hér að ofan. Þetta voru 148 karlar og 73 konur. Það kom mér talsvert á óvart að karlarnir skyldu vera um tvöfalt fleiri í þessum hópi.

Rétt rúmlega 9,5% þeirra sem tóku þátt í umræðunni (21 manns) tjáðu sig á fleirum en einum vettvangi. Tveir umræðumanna tjáðu sig á öllum þeim sex umræðuþráðum sem ég skoðaði.

Rúmlega 15% þeirra sem tóku þátt í umræðunni (35 manns) eru á Facebook-vinalista Hildar Lilliendahl Viggósdóttur. Ég athugaði þetta sérstaklega af því allar fréttirnar nema sú fyrsta á listanum eru sprottnar af bloggfærslu Hildar og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur, Háskóli Íslands - griðastaður dónakarla?, knuz.is 28. ágúst 2013.

Ég flokkaði athugasemdir þessara 221 þáttakenda í þrjá flokka: Þá sem taka undir með málflutningi Hildar Lilliendahl Viggósdóttur og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur, þá sem lýsa sig andsnúna sama málflutningi og þá sem lýsa sig hlutlausa eða fjalla um annað í sínum athugasemdum. Hlutföllin eru þessi:

  • Sammála Hildi og Helgu Þóreyju um að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekki að fá að vera gestafyrirlesari í HÍ eru rúmlega 18,5% (41 af þeim sem leggja orð í belg);
  • Ósammála Hildi og Helgu Þóreyju um að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekki að fá að vera gestafyrirlesari í HÍ eru tæplega 39% (86 af þeim sem leggja orð í belg);
  • Hlutlausir eða með annars konar athugasemdir eru 42,5%  (94 af þeim sem leggja orð í belg).

Ég tek fram að hluti skýringarinnar á hve margir falla í flokk hlutlausra er að bloggfærsla Egils Helgasonar, Heiftin á netinu, snérist ekki sérstaklega um mál Jóns Baldvins og því tjáðu margir sig um eitthvað annað en akkúrat ráðningu Jóns Baldvins. Önnur skýring er að þeir sem nota Facebook átta sig ekki allir á að þeir eru að svara opinberlega þegar þeir skrifa athugasemd við eitthvað sem einhver Facebook vinur þeirra hefur skrifað við frétt eða blogg og því eru athugasemdir undir öðrum athugasemdum oft ómarkvissar. Þriðja skýringin er að hluti þeirra sem tjáir sig í þessari umræðu snýr sínum athugasemdum upp á eitthvað sem tengist málinu lítið, fjallar t.d. um skoðun Jóns Baldvins á Evrópusambandinu eða prófessorsstöðu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við HÍ.

Ummæli (9) | Óflokkað, Daglegt líf