Færslur októbermánaðar 2013

27. október 2013

Prjónakonur hvetja til voðaverka

Þótt prjón sé einkar friðsamleg iðja má tengja það við stríð og átök. Hér á eftir er stiklað á stóru yfir þátt prjónakvenna í blóðugum átökum frönsku byltingarinnar. Í næstu færslum verður fjallað áfram um hlutdeild prjónakvenna í ófriði.

Les tricotuesesLes Tricoteuses (Prjónakonurnar) létu eftirminnilega til sín taka í frönsku byltingunni. Sagt er að fjöldi kvenna, e.t.v. þeirra sömu hungruðu og þjáðu markaðskvenna og stóðu fyrir Brauðgöngunni/Kvenngöngunni til Versala árið 1789, hafi vanið komur sínar að fallöxinni og stutt frönsku ógnarstjórnina dyggilega. Frá þeim glumdu ýmist hvetjandi reiðiöskur og fagnaðaróp yfir hverjum hausnum sem féll eða þær sátu þöglar og prjónuðu meðan þær fylgdust með böðlinum undirbúa næsta fórnarlamb.

Les Tricoteuses urðu tákngerving þeirrar óskaplegu reiði og haturs sem knúði frönsku byltinguna. Enski rithöfundurinn Charles Dickens gerir einni Prjónakonunni, heldur óyndislegri persónu, góð skil í skáldsögunni A Tale of Two Cities. Madame Defarge, kona vínkaupmannsins, liggur á hleri í vínbúðinni og prjónar nöfn óvina og njósnara með einhvers konar dulmáli í munstrið á sínu prjónlesi. Svo styðst hún við það þegar hún upplýsir um óvini byltingarinnar. Tifandi prjónarnir Madame Defarge koma mönnum á fallöxina. Hún vekur hvarvetna ugg, meira að segja meðal samherja sinna:

He always remembered with fear and trembling, that that terrible woman had knitted when he talked with her, and had looked ominously at him as her fingers moved. He had since seen her, in the Section of Saint Antoine, over and over again produce her knitted registers, and denounce people whose lives the guillotine then surely swallowed up. He knew, as every one employed as he was did, that he was never safe; that flight was impossible; that he was tied fast under the shadow of the axe …

Segja má að Madame Defarge skapi mönnum aldurtila með prjóni. Hún og vinkonur hennar eru svo dyggir áhorfendur að aftökunum með fallöxinni.

Les tricoteuses
Þessi mynd er líklega eftir franska listamanninn Jean-Baptiste Lesueur (gæti þó verið eftir bróður hans) og heitir Tricoteuses. Hún er talin gerð 1789 og vatnslitamynd sem sýnir sama mótíf er talin vera frá 1799. Á myndinni sjást Prjónakonurnar og þær eru væntanlega að horfa á aftökur í fallöxinni frægu. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.
Les Tricoteuses � kvikmynd
Les Tricoteuses � kvikmynd
Ég veit ekki úr hvaða kvikmynd þessar tvær myndir eru en líklega er það ein myndanna sem gerðar hafa verið eftir A Tale of Two Cities. Þær sýna Prjónakonurnar tvö augnablik og er auðvelt að giska á hvað muni vera á seyði á þessum augnablikum. Smelltu á hvora mynd ef þú vilt sjá stærri útgáfur.
A Tale of Two Cities eftir Dickens
Þessi myndskreyting eftir John McLenan birtist í Harper’s Weekly 3. des. 1859. Saga Dickens var framhaldssaga í tímaritinu. Þarna líkjast Prjónakonurnar þremur refsinornum (fúríum).  E.t.v. er það Madame Defarge sem stendur þarna í miðjunni.
Úr A Tale of Two Cities:

Darkness closed around, and then came the ringing of church bells and the distant beating of the military drums in the Palace Courtyard, as the women sat knitting, knitting. Darkness encompassed them. Another darkness was closing in as surely, when the church bells, then ringing pleasantly in many an airy steeple over France, should be melted into thundering cannon; when the military drums should be beating to drown a wretched voice, that night all potent as the voice of Power and Plenty, Freedom and Life. So much was closing in about the women who sat knitting, knitting, that they their very selves were closing in around a structure yet unbuilt, where they were to sit knitting, knitting, counting dropping heads. (XVI. kafli, Still Knitting, í öðru bindi, The Golden Thread.)

The ministers of Sainte Guillotine are robed and ready. Crash!—A head is held up, and the knitting-women who scarcely lifted their eyes to look at it a moment ago when it could think and speak, count One.

The second tumbril empties and moves on; the third comes up. Crash!—And the knitting-women, never faltering or pausing in their Work, count Two. (XV. kafli, The Footsteps Die Out For Ever, í þriðja bindi, The Track of a Storm.).

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga prjóns

22. október 2013

Treyjan Karls I

Karl I BretakonungurÞann 30. janúar árið 1649 var Karl I Englandskonungur gerður höfðinu styttri. Hann hafði átt í útistöðum við ýmsa sína landsmenn, t.d. út af sinni meintu pápísku trú sem ekki féll í kramið, og lent í átökum við breska þingið sem taldi hann stefna að einveldi. Á málverkinu hér til hliðar sést Karl eftir aftökuna. (Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.)

Sagnir herma að Karl hafi ekki viljað sjá á sér nein hræðslumerki og til að koma örugglega í veg fyrir skjálfta á þessum kalda janúardegi klæddist hann tveimur skyrtum eða treyjum innanundir fínu fötunum. Önnur treyjan er til umfjöllunar hér.

William Sanderson sem skrifaði æviminningu Karls I (útg. 1658) segir að biskupinn af London, William Juxon, hafi liðsinnt Karli við síðustu handtökin: “Biskupinn setti á hann nátthúfuna og afklæddi hann að himinbláu satín-vestinu.” Himinbláa (öllu heldur ljósbláa) treyjan komst svo í eigu dr. Hobbs, læknisins hans Karls, þegar líkið var afklætt og flíkunum skipt milli fólks sem viðstatt var aftökuna. Hún er nú geymd í Museum of London.

Það sem gerir treyjuna sérlega spennandi eru blettirnir í henni sem mögulega eru blóðblettir. Þessir blettir voru rannsakaðir árið 1959 og aftur árið 1989 en niðurstöðurnar voru ekki ótvíræðar; ekki komst á hreint hvað blettaði treyjuna. Eins og blóðblettir gera ljóma þessir fagurlega í útfjólubláu ljósi en það gera því miður einnig svitablettir og ælublettir. Fyrir þremur árum rataði sú frétt í breska fjölmiðla að gera ætti DNA-rannsókn á þessum blettum til að ganga úr skugga um hvort þetta væri í alvörunni blóð Karls. Fallið var frá DNA-rannsókninni því svo oft er búið að handleika þessa treyju í tímans rás að ómögulegt þótti að nokkuð greindist sem mark væri á takandi.

Það þykir dálítið grunsamlegt að enga blóðbletti er að finna kringum hálsmálið, eins og ætla mætti að væri raunin hefði einhver verið hálshöggvinn í þessari treyju. Vegna ónógrar þekkingar á hálshöggi get ég því miður ekki dæmt um hversu mikið blóð spýtist úr strjúpa og hvert það leitar. Hefur og heyrst sú skoðun að einhver ótíndur áhorfandi hafi klæðst skyrtunni og staðið fullnálægt þegar konungurinn var hálshöggvinn. Líklega er samt best að hafa það fyrir satt að þetta sé treyjan sem Karl I klæddist síðustu mínúturnar í sinni jarðvist og að innri skyrtan (sem var úr líni) hafi drukkið í sig blóðdropana sem láku með hálsinum …

Skyrtan (sem er oft kölluð jakki, jacket, eða vesti, waistcoat, á enskum síðum) er prjónuð úr fíngerðu ljósbláu silkigarni. Prjónafestan er 8 1/2 lykkja á sentimetra. Skyrtan er prjónuð í hring, að neðan og upp. Hún er saumuð saman á öxlum og sömuleiðis eru ermarnar saumaðar í. Þær eru einnig prjónaðar í hring.

Karl I var enginn beljaki. Treyjan er 80 cm löng og yfirvíddin er 44 cm, neðst er treyjan 70 cm víð. Ermasídd er 52,5 cm.

Munstrið er svokallað “damaskmunstur” (brocade pattern kalla enskumælendur þetta), þ.e.a.s. upphleypt einlitt munstur, myndað af brugðnum lykkjum á sléttum grunni. Svipuð ljósblá treyja frá sama tíma er varðveitt í Drummond kastala í Skotlandi og önnur svipuð en rauð að lit í danska Þjóðminjasafninu. Ekkert er vitað um uppruna þessara treyja, þær gætu verið prjónaðar hvar sem er í Evrópu.

Svona damaskmunstur urðu seinna mjög vinsæl á dönskum “náttreyjum” úr ull, sem eru enn hluti af mörgum svæðisbundnum þjóðbúningum í Danmörku.

Hér eru myndir af silkiskyrtunni hans Karls og henni tengdar. Smelltu á litlu myndirnar ef þú vilt sjá stærri útgáfur.

Skyrta Karls I � Museum of London
Treyja Karls I í Museum of London.
(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.)
Skyrta Karls I � útfjólubláu ljósi
Treyjan í útfjólubláu ljósi, sem sýnir (blóð)blettina vel.
Hálsmál á skyrtu Karls I
Hálsmálið á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.)
Nærmynd af ermi á skyrtu Karls I
Nærmynd af ermi á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.)
Aðalmunstur á treyju Karls I
Aðalmunstrið á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að opna pdf-skjal
með munstrinu.)
Munstur á berustykki á treyju Karls I
Munstrið á berustykkinu á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að opna pdf-skjal
með munstrinu.)

 

Heimildir:

Hoffmann, Marta. Of knitted “nightshirts” and detachable sleeves in Norway in the seventeenth century. Opera Textilium Variorum Temporum To honour Agnes Gejer on her nintieth birthday 26th October 1988. Statens Historiska Museum, Svíþjóð.

Rutt, Richard. 1989. A History of Hand Knitting. Interweave Press, Bandaríkjunum. Upphaflega gefin út 1987.

Thomas, Mary. 1972. Mary Thomas’s Book of Knitting Patterns. Dover Publications, Bandaríkjunum. Önnur útgáfa, upphaflega gefin út 1943 á Englandi.<<<<<<<<<

Was this the waistcoat that Charles I was wearing when he was beheaded? 19. feb. 2010. Daily Mail.

Lengri útgáfa af sömu grein á Canadian Content, 18. feb. 2010.

Undershirt. Museum of London.

Damask Knitting – A Danish tradition. NORDIC UNVENTIONS.

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga prjóns

17. október 2013

Prjónaði silkijakkinn hans Ottheinrich

Upplýsingar um silkijakka þýska greifans/hertogans og kjörfurstans Ottheinrich liggja hreint ekki á lausu, hvorki á vefnum né í prjónasögubókum. Samt er þetta ótrúlega merkilegur jakki/treyja því um er að ræða elstu prjónuðu flík sem varðveist hefur í Evrópu, að frátöldum sokkum og hönskum. Og auðvitað elsta prjónaða silkijakkann sem varðveist hefur. Þessi silkijakki er ólíkt hversdagslegri en síðar tíðkaðist, sjá færsluna Útprjónaðir silkijakkar frá sautjándu öld.

Hver var Ottheinrich?

OttheinrichOttheinrich, sem hét fyrst bara Otto Heinrich, fæddist árið 1502 og dó 1559. Afi hans var hertogi af Bæheimi og Ottheinrich fékk, í félagi við bróður sinn, yfirráð yfir nýju hertogadæmi, Herzogtum Pfalz-Neuburg, þegar hann hafði aldur til. Höfuðborg þess var Neuburg an der Donau.

Ottheinrich var hálfgerður útrásarvíkingur síns tíma. Hann barst mjög á, byggði t.d. kastala og safnaði listmunum, tók þátt í ýmsu valdabrölti og hélt sér á floti með nýjum og nýjum lántökum þótt hann væri löngu orðinn gjaldþrota. Að lokum hrökklaðist hann frá völdum en endurheimti þau seinna, var hækkaður í tign og gerður að kjörfursta yfir Pfalz Neuburg. Í síðari valdatíð sinni hlúði Ottheinrich mjög að listum og vísindum, átti frábært bókasafn, lét útbúa eitt glæsilegasta biblíuhandrit allra tíma, sem við hann er kennt, og margt fleira vann hann sér til ágætis.

Kannski er líka rétt að taka fram að þótt Ottheinrich hafi verið ljómandi myndarlegur maður á yngri árum, ef marka má málverk af honum, þá fitnaði hann mjög eftir því sem árin færðust yfir hann. Talið er að hann hafi verið hátt í 200 kg þungur síðustu árin sem hann lifði.

Silkijakkinn

Silkijakki OttheinrichJakkinn ber offitu Ottheinrich vitni því yfirvíddin er 2,20 metrar! Hann er prjónaður úr ólituðu silki og munstrið er ákaflega einfalt, s.s. sjá má sé smellt á litlu myndina af jakkanum sjálfum. Nánar tiltekið er munstrið úr lóðréttum röðum af samtengdum þríhyrningum sem eru prjónaðir brugðið á sléttum grunni. Hver munsturröð er 2,5-3 cm breið og hæðin á þríhyrningunum er 1 cm. Talning á umferðum og lykkjum á myndum bendir til þess að hann sé prjónaður úr grófara garni en síðari tíma útprjónuðu silkijakkarni, þ.e.a.s. prjónafestan virðist um 5 lykkjur á sentimetra. Sé smellt á myndina af jakkanum kemur upp stærri mynd af munstrinu.

Ottheinrich hefur líklega eignast þennan jakka í kringum 1540 því hans er getið í gögnum sem varðveist hafa. Af þeirri lýsingu að dæma hefur prjónaefnið verið keypt frá Ítalíu og jakkinn síðan sérsaumaður á karlinn.
Núna er þessi merkilegi jakki varðveittur á Heimatmuseum í Neuburg an der Donau í Bæjarlandi. Hér að neðan er mynd af nútímaeftirgerð jakkans, sem, eins og sjá má, rúmar léttilega fimm krakka.

Eftirl�king af silkijakka Ottheinrich

Aðalheimild:
Feyerlein, Heinrich. 1976. Eine Strickweste des Pfalzgrafen Ottheinrich. Neuburger Kollektaneenblatt. Jahrbuch 129/1976. Heimatverein - Historischer verein. Neuburg a.d. Donau. (Myndir af jakkanum og munstrinu eru skannaðar af ljósriti þessarar greinar.)

Lokað fyrir ummæli | Óflokkað, Saga prjóns

13. október 2013

Melankólía gáfaðra karla og hvunndagsleg geðlægð kvenna

Ég hef undanfarið verið að lesa bók eftir Karin Johannisson, Melankoliska rum. Om ångest, leda och sårbarhet i förfluten tid och nutid, sem kom út árið 2009. Er ekki nema rétt hálfnuð með bókina en finnst margt í henni athyglisvert. Karin þessi er sagnfræðingur með hugmyndasögu sem sérsvið (idéhistoriker). Hún hefur skrifað margar bækur um sjúkdóma og hugmyndasögu og hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir.

Í upphafi bókarinnar er gerð góð grein fyrir hvernig lýsingar á tilfinningum breytast í tímans rás og hve erfitt, eða jafnvel ómögulegt, getur verið að túlka lýsingar fyrri tíma með hugtökum og orðum nútímans. Eftir að sá varnagli hefur verið sleginn fer Karin að velta fyrir sér melankólíu og hvernig henni hefur verið lýst um aldir, í læknisfræði, bókmenntum, sjúkraskrám o.fl.

Hún telur að hugtakið melankólía hafi a.m.k. þrjár víddir sem snerta tilfinningar, geðslag og sjúkdóm. Gömul orð yfir melankólíu sem tilfinningu er fjölmörg og í þeim felst mismunandi mikill þungi. Karin telur upp sænsk orð yfir þetta en á íslensku eru eftirfarandi orð sögð samheiti við melankólíu: Geðveiki, samviskuveiki, þunglyndi, sturlun, fálæti, fáleiki, hjartveiki, hrelling, hugtregi og hugarvíl (Sveinn Pálsson. 1788.)

En þessi orð tengjast ekki sjúkdómi, segir Karin, heldur felst í þeim ákveðið þema: Einhvers konar missir, stol eða -leysi. Melankólía getur verið missir tilgangs (tilgangsleysi) en einnig bókstaflega missir tungmáls (væntanlega hæfileikans til að tjá sig), missir atorku eða missir orku til að koma sér fram úr rúminu.
Þótt melankólíu fylgi erfiðar tilfinningar hefur henni, sögulega séð, verið eignuð uppbót sem er glöggskyggni og sköpunarkraftur. Á koparstungu Dürer, Melencolia I, frá 1514, sést þetta vel: Þungbúinn engill situr (svo sannarlega) í þungum þönkum; Andlitið er dökkt og augun dauf en í kringum hann liggja tákn vísindanna. Á sextándu öld var þessi tegund af melankólíu kölluð melancholia generosa, hin gjafmilda melankólía.

[Hér mætti og skjóta inn dæmi um rómantíska sýn á melankólíu, þ.e. eftirfarandi tilvitnun í Drauminn eftir Byron (1788-1824), í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar:

Því þunglyndisins skarpa og skyggna sjón
Er geigvæn gáfa þeim, sem hana hlaut.
Hvað er hún nema sannleiks sjónarauki,
Sem fjarlægð sviptir töfrum tálarmynda,
Sem nálgast lætur líf í tómri nekt
Og harðan sannleik helzt til sannan gjörir.]

Hugtakið depression er miklu þrengra. Það er búið til með hliðsjón af deprimere= að sökkva eða þrýsta niður. Myndhverfingin í því orði vísar til þess að einstaklingurinn
er niðurdreginn/þrúgaður niður. (Í íslenskun geðgreiningarlykla nútímans hefur verið búið til orðskrípið geðlægð til að þýða depression. Almenningur kallar depression þunglyndi, sem er eitt gömlu orðanna yfir melankólíu.)

Í melankólíu geta falist sterkar tilfinningar og sköpunarkraftur en í depression-hugtakinu felst aðallega hindrun. Karin vísar til Jennifer Radden, sem hefur farið kerfisbundið gegnum greiningarkerfi nútímageðlækninga og sýnt fram á að það sem seint á 19. öld var skilgreint sem tilfinningar hafi síðan þá þróast yfir í skilgreiningar á hátterni (s.s. svefn-, matar- og einbeitingartruflanir, hreyfhömlun og þreyta).

Melankólía karla breytist í geðlægð kvenna

Það sem mér þótti þó athyglisverðast við þessa melankólíuumfjöllun Karin Johannisson var umfjöllun um hvernig melankólía karla varð að depression kvenna. Þar víkur nefnilega sögunni að mínu uppáhaldi þessa dagana: Staðalmyndum (stereotýpum).

Karin staðhæfir að söguleg staðaltýpa melankólíunnar sé hinn útvaldi karlmaður. En staðaltýpa nútímans af þunglyndi sé nafnlausa konan.

Melankólía var tengd við gáfur og sköpunarkraft … en bara þessa eiginleika karla. Væri minnst á melankólíu í sambandi við konur var hún gjarna tengd kynferðismálum, eins og í sjúkdómsgreiningunni erotomani. “Hoon vaar … så spaak, som ett litet deggie-lam, och gick i kärlig melancholij”, skrifar sænski 17. aldar læknirinn Urban Hjärne. Sú þögn sem ríkir um melankólískar konur, í sögunni, er tæplega vegna þess að þær hafi ekki verið til heldur sýnir þögnin frekar hve lágan status melankólía kvenna hefur haft í karllægri hefðinni: Þegar melankólíu er hampað eru konur ekki taldar með. Karin vitnar í Juliana Schiesari sem heldur því fram að melankólía kvenna hafi verið umrituð, annað hvort í eitthvað þýðingarminna og hversdagslegra eða í eitthvað hættulegra, t.d. hýsteríu og brjálæði. Og Karin tekur dæmið: Af hverju má bara kalla svartsýni yðar en ekki mína svartsýni melankólíu? spurði óánægð skáldkona í bréfi til sænska ljóðskáldsins P.D.A. Attenbom (1790-1885). Hann svaraði: Af því að til þess er ætlast að konan sé glaðleg og saklaus.

Kyn melankólíunnar er sem sagt skilgreint karllægt. Þótti hinn melankólíski karl sé viðkvæmur og brothættur tapar hann ekki karlmennsku sinni. Melankólíuhugtakið leyfir þvert á móti karlkyns gáfumönnum að innlima hið kvenlega inn í hið karlmannlega. Á sama hátt hefur hystería karlmanna verið tengd við sérstaklega skapandi viðkvæmni, í menningarsögunni, ólíkt hysteríu kvenna.

Nútildags eru konur greindar í geðlægð (depressívar) í tvöfalt meiri mæli en karlar. Staðalmynd geðlægðar/nútíma þunglyndis rennur saman við staðalmynd hins kvenlega: óvirkni, lágan róm, lélega sjálfsmynd, segir Karin Johannisson. Hún tekur síðan ýmis dæmi úr ævisögulegum skrifum frægra þunglyndra kvenna til að sýna hvernig þær upplifa þunglyndið sem “ekki-tilveru”, óvirkni, lamandi ástand o.þ.h.

Sú kona sem ekki er meðfærileg, ekki glöð og saklaus o.s.fr., heldur niðurdregin, óánægð og jafnvel galin, á í hættu að vera dæmd, ekki bara af karlmönnum og vísindaheiminum heldur einnig af sér sjálfri. Þannig kona er jú skilgreind, og skilgreinir sjálfa sig, sem sjúka. Vandinn felst í þessu ómeðvitaða vali kvenna, segir Karin, að dempa sitt sjálf (ego) en ekki að upphefja það, að leita innávið en ekki útávið, að bregðast við í vörn en ekki í sókn. Svo víkur hún talinu að kenningum Juliu Kristevu og fleiri sálkönnuða en þá hætti ég að lesa …

Skiptir þetta einhverju máli?

Þótt ég sé ekki sammála öllu í umfjöllun Karin Johannisson og hafi rekið mig á slælega umgengni hennar við heimildir í þessari bók finnst mér margt áhugavert í því sem hún segir. Mér finnst t.a.m. spennandi að velta því fyrir mér hvaða máli það skiptir að melankólía var karlanna, í menningarsögunni, en geðlægð er kvennanna, í nútímageðlæknisfræði. Hvaða máli skiptir svoleiðis fyrir status og staðalmyndir, þ.e.a.s. þá þætti sem einkum skipta máli í fordómum og brennimerkingu/stimplun?

Og passar þetta við Ísland?
Á hinn bóginn er ég ekki viss um að hve miklu leyti megi heimfæra umfjöllun hennar upp á íslenska menningu í tímans rás. Sveinn Pálsson segir í lýsingu á melankólíu árið 1788 : “Þat sýnisz og at fleiri séu konur enn karlar veikindum þessum undirorpnir.” Í annarri lýsingu sem birtist árið 1794 segir Sveinn að byrjunareinkenni melankólíu geti verið ofurlítið misjöfn eftir kynjum en virðist svo gera ráð fyrir að sjúkdómurinn lýsi sér eins hjá konum og körlum þegar hann elnar:

Géð- eðr Sinniveiki (Melancholia, Tungsindighed), er svo almennur sjúkleikr hér at ekke veitti af heille bók um hann, kynni þar með einhverium at verða hiálpar, byrjar hann optar með miltisveike eða vaniflasótt (Hypochondria, Miltsyge), hjá karlmønnumm, eðr móðursyke hiá kvennfólki, sem eru nærstumsømu veikleikar, og hvarum høndlat skal í [grein] 58, ríðr þá miøg svo á strax í fyrstu at bera sig að koma í veg fyrer hið verra; géðveikt fólk misser fyrst matarlyst, regluligan svefn og náttúrligar hægðir; elskar einsetur og veit þó ei giorla hvar fyrir; þeinkia jafnann um hið sama, fá jafnvel hatr á øllum mønnum og sér siálfum með; eru ofr sorgfullir eðr og þeigiandi og hræðast stundum alla hluti, með mørgu fleiru sem bagt er upp að reikna, um síðer vex þúnglyndit æ meir og meir, þar til siúklingr annað hvert fyrirfer sér siálfr þegar minst varer, elleger missir vitit og nefniz þá vitfirring […]

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa, Bækur

8. október 2013

Reiði og alhæfingar

Bloggfærsla Ástu Svavarsdóttur, Haltu kjafti, vertu sæt og éttu skít., hefur vakið nokkra athygli og umræðu á Facebook enda mikill reiðilestur. Málflutningi hennar hefur verið svarað á öðrum bloggum en þessu, t.d. á bloggi Eiríks Arnar Norðdahl (sjá færsluna Trigger warning: Klám, klám og klám) og verður sjálfsagt svarað meir. Í þessari færslu ætla ég einungis að beina sjónum að því sem Ásta segir um námsefni í íslensku í framhaldsskólum.

Hún segir:

Í framhaldsskólum eru kenndar nokkrar sömu skáldsögurnar. M.a.  Brennu Njáls sagaSalka Valka og smásagnasafnið Uppspuna.
Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.
Njála býr yfir þekktustu kvenpersónu Íslendingasagna, sjálfri Hallgerði langbrók sem hefur verið hötuð og fyrirlitin síðastliðin átta hundruð ár.
Salka Valka býr yfir kvenfrelsishetjunni Sölku sem vill ekki vera kona! Salka Valka er mín uppáhaldssaga og sýnir hversu mikill snillingur Kiljan var að geta skrifað svona um konu 1930.
Uppspuni er nýjust, gefin út 2003 og flokkast því undir samtímabókmenntir og lumar á ýmsu.
Nú ætla ég að leyfa mér að tengja saman það sem er kennt í framhaldsskólum landsins og þann veruleika sem ungmennin okkar búa við. Gætu verið tengsl þarna á milli? Erum við fullorðna fólkið að skapa þennan veruleika?

Síðan túlkar Ásta valin atriði úr þessum bókum og tengir við klámvæðingu, bága stöðu kvenna, karllægt val o.s.fr. Ég geri túlkun hennar ekki að umræðuefni hér en hnaut um staðhæfinguna: Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.

Hallgerður langbrókMér er auðvitað ljóst að Njála er víða lesin í fornsagnaáfanga í framhaldsskólum en kannaðist satt best að segja ekki við að hinar tvær bækurnar væru algengar. Svo ég athugaði málið: Fletti upp bókalistum í 25 framhaldsskólum (en alls eru taldir vera 32 framhaldsskólar á Íslandi ef ég man rétt) og kíkti á kennsluáætlanir ef upplýsingar á bókalistum voru ekki fullnægjandi. (Raunar kíkti ég á síður fleiri framhaldsskóla en hjá sumum þeirra liggja þessar upplýsingar hreint ekki á lausu, t.d. hjá Kvennó og ML. Og sumstaðar eru upplýsingarnar af mjög af skornum skammti, t.d. hjá MTR og MH, sem er auðvitað afskaplega lélegt!)

Eftir að hafa skoðað upplýsingar á síðum: FVA, MA, VMA, FSH, MTR, VA, ME, FAS, FL, FNV, MH, MR, FB, FÁ, MS, BHS, FG, FSU, FSS, FSN, MÍ, MB, FMOS, TÍ og Verzló) er niðurstaðan þessi (með þeim fyrirvara að þessar bækur hefðu getað verið kenndar á fyrri önnum en haustönn 2013):

Einu framhaldsskólarnir sem kenna allar þessar þrjár bækur sem Ásta nefnir eru Framhaldsskólinn á Húsavík (skólinn í hennar heimasveit) og Framhaldsskólinn á Höfn.

Eini skólinn sem kennir Sölku Völku fyrir utan þá tvo ofantöldu er Menntaskólinn á Ísafirði. Flestir skólar sem kenna langa sögu eftir Laxness velja Sjálfstætt fólk, stöku skóli kennir Íslandsklukkuna.

Smásagnasafnið Uppspuni er kennt við eftirtalda skóla: FSH, FAS, VA, Verzló, FÁ, FMOS, MB, TÍ og MS.

Brennu Njáls saga er kennd í sumum skólanna, Egils saga, Grettis saga eða Laxdæla í sumum, sums staðar er skipt um sögu aðra hvora önn. Ég taldi ekki hlutföllin milli þessara Íslendingasagna.

Þegar öllu er á botninn hvolft stenst fullyrðing Ástu um að það sé farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins engan veginn nema menn kjósi að túlka orðið flestallir sem afar teygjanlegt orð en teygjanleg orð ku í tísku um þessar mundir ;)

Myndin er af Hallgerði Höskuldsdóttur langbrók.

Ummæli (0) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf