Færslur frá 11. nóvember 2013

11. nóvember 2013

Dr. Svanur og hinir vantrúarfélagarnir

Ég horfði á Svan Sigurbjörnsson lækni í sjónvarpsfréttum um daginn, mér til ánægju því þetta er mesti myndarmaður, og skoðaði svo glærurnar hans (krækt er í þær neðst í þessum stutta pistli hér, á skodun.is) sem fylgdu fyrirlestrinum hans á Fræðadögum heilsugæslunnar. Vennmyndirnar á glærunum eru flottar. Þótt ég sé afar ósammála málflutningi Svans nennti ég ekki að mótmæla honum … ekki fyrr en núna þegar ég sá að félagar hans í Vantrú hnykkja á málflutningnum (sjá pistilinn Kuklfrelsi á vef Vantrúar). Það er langt síðan ég hef bloggast á við vantrúarfélaga og mér finnst soldið ljótt að afrækja þá því það er eiginlega enginn sem nennir að svara þeim núorðið. Ég bæti úr þessu núna.

Í málflutningi Svans gegn kukli eru nokkrar auðsjáanlegar gloppur. Helstar eru þessar:

* Hann virðist gera ráð fyrir að fólk sé almennt fífl/óvitar sem verði að hafa vit fyrir svo það fari sér ekki að voða. Mín reynsla af fólki er að flest er það skynsamt. Ég held að það sé hið besta mál að gera fólki betur kleift að nálgast upplýsingar um óhefðbundnar lækningar (kukl og hjálækningar, sem Svanur kýs að kalla þær), þá eru meiri líkur á að menn geti tekið upplýsta ákvörðun um mögulega gagnsemi slíkra lækninga við sínum kvillum. Forsendan fyrir frjálsum vilja er þekking og ég er viss um að við Svanur erum hjartanlega sammála um að frjáls vilji er eftirsóknarverður. (Við erum hins vegar líklega ekki sammála um hvenær hann eigi við, t.d. er ég ekki sammála því að leik- og grunnskólahald á aðventunni eigi algerlega að lúta vilja þeirra örfáu sem er í nöp við jólaundirbúning kristinna manna og Svanur virðist ekki sammála því að veikt fólk fái að velja sér lækningaraðferðir.)

* Svanur (og hinir vantrúarfélagarnir) ganga út frá því að skörp skil séu milli vísinda og ekki-vísinda, þar sem læknisfræði séu vísindi. Ritstjórn Vantrúarvefjarins segist gera þá einu kröfu að vísindaleg vinnubrögð ráði för þegar komi að heilsu fólks. Nú er margt í lækningum sem ómögulega er hægt að kalla vísindi í þeim skilningi að þar hafi vísindalegar aðferðir getað greint orsakir og eðli krankleika eða að læknismeðferð byggi á einhverju sem er vísindalega sannað.

Svo ég taki dæmi af þeirri læknisfræði sem ég hef helst einhverja innsýn í, þunglyndislækningum (sem eru hluti geðlækninga) þá hefur ekki verið sýnt fram á orsakir þunglyndis (þótt settar hafi verið fram ýmsar ólíkar tilgátur út í bláinn öldum saman - tuttugasta- og tuttugastaogfyrstaöldin þar ekki undanskildar), vísindaleg rök fyrir samsetningu þunglyndislyfja eru engin (þótt settar hafi verið fram tilgátur en síðan bakkað með þær) og virkni þunglyndislyfja umfram virkni lyfleysu mælist ekki svo marktækt sé nema í örfámennum hópi allra veikustu sjúklinganna.  Rökin fyrir lyfjagjöf (oft mismunandi blönduðum lyfjakokteilum) handa þunglyndissjúklingum eru klínísk reynsla viðkomandi læknis (mögulega stéttarinnar í heild ef menn eru duglegir að bakka hver annan upp). Aðalrök þeirra sem stunda óhefðbundnar lækningar eru einmitt að reynslan sýni að þær virki. Þá vaknar auðvitað spurningin, í ljósi málflutnings Svans og félaga, hvort reynsla geðlækna hafi miklu meira vægi en reynsla annarra þeirra sem brúka aðferðir sem ekki geta kallast vísindalegar.

Næsti kostur sem geðlæknar bjóða þunglyndum upp á þegar ljóst er að lyfin virka ekki hætis hót eru endurtekin raflost. Það er nákvæmlega ekkert vitað hvað endurtekin raflost gera við heilann; aðferðin var fundin upp við allt öðrum geðsjúkdómi (geðklofa) en þykir virka illa á hann; af reynslu veit ég að sjúklingum er ekki gefinn kostur á upplýstu samþykki fyrir þessari aðferð heldur einungis samþykki á grundvelli afar takmarkaðra og fegraðra upplýsinga. Skelfilegum afleiðingum sem þessi hrossalækning (til að gæta sannmælis tek ég fram að hún var samt upphaflega prófuð á svínum en ekki hrossum) getur haft er ekki haldið á lofti í heilbrigðiskerfinu.

* Svanur virðist gera ráð fyrir að sú þekking sem er viðurkennd í læknisfræði í dag sé hin eina rétta vísindalega þekking á lækningum. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því að hluti vísindalegra þekkingar í læknisfræði nútímans gæti þess vegna verið álitin bölvaðar bábiljur í framtíðinni. Annað eins hefur nú gerst í sögu læknisfræðinngar. Ég minni t.d. á þá tvo sem hafa fengið Nóbelsverðlaun fyrir merkilegar uppgötvanir í geðlæknisfræðum:

Walter-Jauregg fékk sín verðlaun 1927 fyrir þá merkilegu uppgötvun að það að smita sýfilisgeðveika með malaríu og láta þá fá duglega hitatoppa í nokkurn tíma gæti lagað geðveikina tímabundið (að því tilskildu auðvitað að sjúklingurinn dræpist ekki úr malaríunni). Á Íslandi brúkuðu menn varíant af þessu, brennisteinsolíu sem var sprautað í vöðva í sama skyni, þ.e. til að láta sjúklinginn frá háan hita, og á sjötta áratugnum (þegar sýfilisgeðveiki hafði verið útrýmt með pensillíni) voru leiðinlega geðveikir sjúklingar á Kleppi enn sprautaðir með eigin blóði í vöðva til að framkalla sótthita … í lækningarskyni. Heimildir um lækningamátt aðferðanna eru hins vegar sjaldgæfar.

Hinn sem fékk Nóbelsverðlaun, árið 1949, fyrir ómetanlegt framlag sitt til geðlækninga var Egan Moniz, sem fann upp á því að hræra tilviljanakennt í hvelatengslum í heilum geðveikra og staðhæfði að þeim batnaði við það. Sú aðferð, lóbótómían, fór sigurför um heiminn og hér á Íslandi urðu harðvítugar blaðadeilur um miðja síðustu öld milli vísindalega þenkjandi lækna og yfirlæknisins á Kleppi sem ekki vildi hræra í heilum sinna sjúklinga og var þ.a.l. ásakaður (af kollegunum) um að fylgjast ekki með og vilja ekki nota vísindalegar aðferðir. Í ljósi sögunnar finnast mér því yfirlýsingar Svans um vísindi nútíma læknisfræði vera helsti hrokafullar.

* Svanur tekur öfgafullt dæmi til að sanna að kukl geti verið lífshættulegt, nefnilega ákvörðun Steve Jobs um að leita sér óhefðbundinna lækninga við sínu krabbameini. Að taka sérvitringinn Steve Jobs sem dæmi um hættu kuklisins er svona álíka og að taka Thalidomide sem dæmi um þær skelfilegur hættur sem kunna að stafa af lyflækningum almennt … Og ég vona að Svani sé kunnugt um þá staðreynd að fólk deyr stundum þrátt fyrir að það skipti við lækna, jafnvel inniliggjandi á spítölum.

Nú er ég ekki sérlega höll undir kukl, til þess er ég of vantrúuð á að margt af því virki. En ég er heldur ekki höll undir allar (meintar) vísindalegar lækningar af því ég veit að sumar eru ekki endilega til bóta og geta verið til mikils skaða. Samt veit ég um mörg dæmi þess að óhefðbundnar lækningar hafi hjálpað sjúklingum og einnig um mörg dæmi þess að hefðbundnar lækningar hafi hjálpað sjúklingum. Ég fagna samtökum á borð við Heilsufrelsi, ekki af því ég sé sammála öllu í þeirra málflutningi heldur vegna þess að ég geri þá kröfu að fólk geti nálgast upplýsingar, aflað sér þekkingar og haft frelsi til að taka ákvarðanir sem snerta þess heilsu. Síst af öllu vil ég að strangtrúarmenn á borð við Svan taki að sér skömmtun á upplýsingum um heilsutengd málefni.

Ummæli (19) | Óflokkað, Daglegt líf